26.5.2008
Mér finnst rigningin góð...
Svakalega hefur þessi rigning róandi áhrif á mig..... Ég væri til í að skríða undir rúm nú, þegar, strax! Eins og þýzkukennarinn minn sagði hér í denn. Hann hafi lært íslensku úr orðabókum og tók öll samheitin í einni setningu. Síðan hef ég notað þetta til að leggja áherzlu á mál mitt
Ég sló helminginn af heimatúninu í dag. Áttaði mig svo á því að það var farið að rigna helst til mikið fyrir slátt með rafmagnsvél
Sundleikfimin styttist í annan endan hvað á hverju. Bara einn tími eftir og svo er brostið á sumarfrí! Þá fer ég út að hlaupa í staðinn. Eins gott að Eygló frétti það ekki. Hún bannaði mér í gærkvöldi að hlaupa, sagði að ég eyðilegði fæturnar á mér á þessari vitleysu. Eygló er alltaf svo fullviss Enda hefur hún leiðinlega oft rétt fyrir sér. Ætla samt að hlaupa, það er of skemmtilegt til að hætta því, rétt eins og hitt..... þið vitið sem enginn má tala um en allir gera.....
Ég fæ þá bara nýja fætur. Er ekki Össur alltaf að framleiða fætur?
Dornrósinni minni líður vel úti í garði, einkum og sér í lagi í svona úðaregni. Ég sagði Mömmusinnardúlludúski að hann yrði að vera búinn að smíða píramídaskjól fyrir sautjánda júní. Daginn sem öll blóm eyðileggjast................ Hann samþykkti það og gufaði síðan upp í reyk Bezt ég minni hann á það aftur í fyrramálið!!
Ég er eitthvað svo full tilhlökkunar. Hef samt enga hugmynd um af hverju Hafiði lent í þessu? Að hlakka til einhvers og hafa ekki hugmynd um eitt eða neitt? Mér finnst eins og ævintýrin bíði mín handa við hornið......
Ætlaði að baka rabbarbarapæ í dag en tíminn rann frá mér. Segi bara eins og Scarlett O´Hara mæ feivoreit person: Á morgun kemur nýr dagur........
25.5.2008
Sunnudagur
Ég er búin að afkasta miklu yfir helgina! Svo til öllu nema taka til, hef enda ákveðið að gera orð ömmu minnar að mínum, með smábreytingum, og segi: Rykið bíður bara eftir mér.....
Ég gróðursetti rósina eftir miklar pælingar um hvar hún myndi njóta sín bezt Mömmusinnardúlludúskur gróf holu til Kína og til baka og sagði eftir það með innlifun og algjörlega eins og hann meinti það, samkvæmt fyrirfram gefinni forskrift: "Rosalega er þetta falleg rós mamma mín - til hamingju með hana....." Ég velti því fyrir mér á meðan hann hvarf í sólina að skrá hann í leikfélagið á staðnum
Ég sló suðurtúnið með aðstoð Eyglóar, sem vissi nákvæmlega hvernig átti að gera þetta, enda elst í þessum systkinahópi Hún fór síðan og keypti sumarblóm á meðan ég sló seinni slátt líka, þá er það búið, sjáðu til, og þarf ekki að hafa áhyggjur af því meira!
Fórum síðan heim og ég eldaði himneskan mat og bakaði brauð. Neitaði algjörlega að hleypa Eygló heim fyrr en hún væri búin að borða.
Ætla núna að skríða undir rúm með kodda undir hné og njóta þreytunnar og þess að vera eins og glóandi eldhnöttur í framan eftir daginn.
Mér finnast sunnudagar góðir dagar
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.5.2008
Baðtúr og Eurovision
Skaust niðr´í fjöru að fylgjast með hestunum baða sig! Alltaf svo gaman að fylgjast með baðtúrnum og stundum sér maður sæta stráka líka.....
Er orðin stoltur eigandi bæði fuchiu og dornrósar. Skrapp í Garðyrkjustöð Ingibjargar í gær og lét þetta eftir mér. Er búið að langa í mörg ár í rós út í garð. Mér var sagt það í fyrrahaust að dornrósin væri kjörin fyrir byrjendur. Nú þarf ég bara að moka holu og gróðursetja rósina....
Það fór aldrei svo að mér yrði ekki boðið í Eurovision partý. Magga hringdi hefur líklega fundið á sér að ég ætti enga vini.....
Bauð mér í grill og party. Nú þarf ég bara að finna mér land að halda með. Þarna verða líka tvær þýzkar stelpur þannig að ekki held ég með Þýzkalandi....
Hvaða landi ætlið þið að halda með?
Pís
22.5.2008
License to kill....
Ef James Bond væri svartur hver ætti þá að leika hann?
Bókasafnskortið mitt er 005 ætli það gefi mér einhver leyfi?
22.5.2008
Kynþokki!
Í hverju felst kynþokki? Er það útlit? Framkoma? Útgeislun? Allt þetta og meira til....?
Horfði á hávtúlúkkgúddneiked í gærkvöldi - náði þættinum klukkutíma seinna..... Fékk smá áhyggjukast yfir því að ég hefði gleymt honum..... ég meina hvernig á ég ever að ná að lúkka vel nakin ef ég gleymi alltaf að horfa?
Mér finnast þessir þættir algjörlega frábærir. Þarna sýnir hann á innan við klukkutíma öll helstu trixin! Og allt virkar svo einfalt......
Ef þið ættuð að velja kynþokkafyllsta karlmann sem þið þekkið - hvern munduð þið þá velja? Nú eða konu ef Gunni Palli kokkur og Markús slæðast hér inn............
Ein lauflétt að lokum.....
....hvaða ár vann Dana Eurovision?
20.5.2008
Ég er brjáluð...
.... í rabbarbara!!!
Gjörsamlega brjáluð! Ég nota hann í allt og við allt. Ég baka rabbarbarapæ í tíma og ótíma. Ég sýð rabbarbaragraut í öll mál. Hugsanlega er ég ólétt, ég var nú á bekkjarmóti um daginn með öllum mínum gömlu æskuástum....... - gæti líka verið að ég væri tízkufrík! Ég veit ekki hvort hugsunin skelfir mig meira! Ég las í einhverju blaði um daginn að rabbarbarinn væri í tízku núna og síðan hef ég verið úti að slíta upp rabbarbara!
Af allri þessar veru minni úti í garði hef ég komist að raun um að mig langar í moltukassa, rósir og girðingu!
Vitiði um smið með afgangstimbur? Má líka vera afgangssmiður með nýtt timbur
18.5.2008
Heppin.....

Ég fékk fjögur sms í nótt! Þar sem mér var tilkynnt hvað ég væri djöfull ómerkileg, hvort ég héldi að ég væri sloppin! Og að ég skyldi sko ekki leyfa mér að halda að ég ætti séns...!
Heppni mín fólgst í því að ég er náttúrulega alls ekki ómerkileg - ég er afar merkileg, ef út í það væri farið, ég er löngu sloppin og á allan þann séns sem ég kæri mig um - fyrir nú utan það að viðkomandi var að senda í skakkt númer!
Það er grundvallaratriði að senda aldrei sms þegar maður er fullur - ALDREI!
Í gær fór ég á myndlistarsýningu og gallý í Gallerý Gónhól á Eyrarbakka! Gæddi mér á vöfflu með rjóma á meðan ég virti fyrir mér list. Fór svo hringinn frammi. Þarna er margt áhugavert og gaman að skoða. Keypti mér rautt veski fyrir slikk. Ótrúlega flott
Hitti síðan konu sem sagði mér að hún ætti krem fyrir mig unnin úr jurtum sem mundi gagnast mér vel. Því ég væri svo slæm í fótunum!! Galdrakerling? Hugsanlega......
Sá líka rauðar grifflur þarna sem ég gæti farið og keypt mér í dag. Það er nú óþarfi að kaupa allt í einu!
Þegar ég var svo til nýkomin heim aftur, bankaði fyrrum kjallarakrúttið hjá mér - hann er sko fluttur, ennþá krútt og gaf mér bleikan fisk, sem ég slægði og setti inn í allt græna kryddið mitt ásamt dassi af fersku engiferi, appelsínu og sítrónu. Vafði herlegheitin í álpappír og skellti honum í ísskápinn. Ætla að stinga honum í ofninn í kvöld og elda kartöflur með.
Var að hlusta á Valdísi Gunnars, hún frumflutti lag sem mig minnir að hún hafi sagt að væri með Garðari Cortes. Lagið heitir Lady og er ótrúlega flott. Heyrðuð þið það? En veit einhver hvað fossinn á myndinn heitir? Það eru verðlaun í boðinu
17.5.2008
Dularfulla skógarskokkið
Gekk í gegnum skóginn og skokkaði til baka. Stafalogn, regnið hvíslaðist á við aspirnar, endurnar sáu ekkert nema hvor aðra og syntu hinar spökustu um tjörnina - sem var tóm í fyrrasumar. Áin niðaði í átt til sjávar í bakgrunninum og mér leið vel. Líður raunar enn vel...................
Löggan var líka í skóginum. En ekki að skokka - þeir voru að gera eitthvað allt annað Kannski í löggu og bófa? Veit ekki. Veit heldur ekki hvort þeim leið vel. Kunni ekki við að spyrja
Ef þið heyrið af miðaldra konu á harðahlaupum undan löggunni í skógi á Suðurlandi þá var það ég! Þið getið svo sagt ykkur það sjálf að sagan er lygi - ég er ALDREI á harðahlaupum
Ég ætla að birta hér annað erindi úr ljóðinu sem enginn þekkti um daginn - spurningin er enn sú sama! Hver orti?
Vort sandkorn himnahafs, hve ertu stór.
Þín hljóðu straumaköst ná geiminn yfir.
Í þínu dufti drottins myndin lifir.
Þú dropi varðst, svo fylltist ljóssins sjór.
Sá andi, er stillir stjörnuskarans kór,
hann stýrir hverju spori þinna loga;
því hann er sá, sem allt sér í því eina;
því á eitt sjónarkast vort hvolfsins boga;
því speglast blikur blárra, djúpra voga
í blaðsins dögg, í tárum þinna steina
Það skal tekið fram að myndin tengist efnisinnihaldi ekkert. Mér fannst hún bara við hæfi - það er greinilega þarna sem skýin eru búin til
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.5.2008
Afar skrautlegur dagur....
....er að renna skeið sitt á enda!
Það fór um mig hrollur í nístingskuldanum úti á golfvelli í dagrenningu þegar ég beit á jaxlinn og bölvaði - í hljóði, að sjálfsögðu, ég er dama - vegna þess að ég gleymdi á mig vettlingum áður en ég fór út! Sumarið frá í gær var heldur betur stokkið á braut og ég skeiðaði hring á vellinum, kylfulaus og grínlaus og þó var það ekki það skrautlegasta sem ég lenti í í dag.........
Byrjaði svo vinnudaginn á að tala dönsku - var þó varla farin að hugsa á íslensku Allt blessaðist þetta þó og ég fékk þær upplýsingar sem mig vanhagaði um! Enda var það ekki það skrautlegasta sem ég lenti í í dag........
Maðurinn með fallegu röddina hringdi í mig í dag Endilega hringdu bara sem oftast - alltaf gaman að heyra í þér
Tala nú ekki um á svona dögum! Þó var það ekki það skrautlegasta sem henti mig í dag.....
Var að velta því fyrir mér öðru hverju í dag - hvar í ósköpunum ég gæti orðið fyrsta konan í einhverju! Kjeddlingar hafa gert alla skapaða hluti nú orðið!! Fyrsta konan var til dæmis á toppi Everest þennan dag fyrir einhverjum árum síðan. Og ekki nóg með það - heldur var hún líka fyrsta konan sem lenti í snjóflóði á leiðinni upp! Ég gæti til dæmis ekki verið sú fyrsta þar..........
Einhverjum árum síðar varð þessi sama kona fyrst til að ganga á hæstu tinda allra sjö heimsálfa. Þannig að það er farið........
Ég er að segja ykkur - þessar kjéddlingar sko! Þurfa þær að vera út um allt? Geta þær ekki skilið neitt eftir? Hverju á ég að stefna að í framtíðinni? Hver geta mín markmið orðið? Það er búið að öllu........
Ó og svo komst ég líka að því í dag að ég hef zero tolerance gagnvart fullum köllum!! En þó var það ekki það skrautlegasta sem henti mig í dag.....
Bróðir minn - fallegasti málvísindamaður norðan Alpafjalla - á afmæli í dag! Ég heyrði í honum nokkrum sinnum í dag og í hvert sinn gleymdi ég að óska honum til hamingju með daginn! Alveg þar til ég tók mig saman og hringdi í hann áðan Krúttið er ekkert að erfa það við mig - hann er nú búinn að þekkja mig í öll þessi ár.
Þetta skrautlega sem henti mig í dag, var svo skrautlegt að ég verð eiginlega að eiga þetta skraut alveg sjálf, ég er rétt að byrja að flissa. Fólk getur verið svo skrautlegt Skondið orð - skrautlegt!
Veriði spök.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.5.2008
Hakuna matata
Síðan hef ég setið og barið mig með hrís, meinlætafull á svip, á meðan ég hef leitað leiða til að fylgja því sem foringinn mælti fyrir um Um helgina datt ég niður á lausnina. Ég ætla að gerast kartöflubóndi.
Ég hef komið því um kring að ég fái afnot af einu beði í garði hér í grennd - gegn því að hjálpa til við að stinga hann upp. Sem mér þótti ekki mikið leigugjald Sami garðeigandi bauðst til að gefa mér þrjátíu og þrjár kartöflur af gerðinni gullauga - þið sjáið að ég vel jafnvel tegundina af kostgæfni -
sem liggja nú og spíra og bíða helspenntar eftir að verða stungið niður í gróskumikla moldina og aðstoða þjóðina í þrengingum. Í haust mun ég síðan verða stoltur eigandi mikillar uppskeru ef guð og garðálfarnir lofa. Ég er jafnvel að spá í að færa strax út kvíarnar og rækta kál með í beðinu. Hver veit nema ég getið boðið Geir svona eins og eina eða tvær nýjar kartöflur í soðið en ekki meira - það þarf jú að spara.................
Svei mér þá! Þið þurfið engar áhyggjur að hafa af frjálsu falli krónunnar, slæmu gengi hlutabréfa eða hagvexti - ég er búin að redd´essu
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)