Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Hvað geturðu haldið andanum lengi?

Ég hef fundið aðferð til að hægja á klukkunni.

Hún byggist á því að maður hafi góðan tíma - sem er kannski hennar eini galli...... en hafði tekið eftir því að ef maður starir á sekúnduvísirinn þá þokast klukkan áfram eins og snigill? Ég prófaði líka að halda niðri í mér andanum á meðan - það hægði helling á henni í viðbót. Ráðlegg ykkur að prófa óhikað Happy Einkum og sér í lagi ef þið hafið áhyggjur af tímaskorti......

Ég fór í sundlaugina í Hveragerði í gær í tilefni af sumarkomunni. Lá þar í heita pottinum og sleikti sólskinið - takið eftir SÓLSKINIÐ - vegna þess að ef maður sleikir sólina getur maður hæglega brennt sig illilega á tungunni. Þess á milli fór ég í gufuna sem mér er sagt af fróðum konum að sé sú besta á landinu og þótt víðar væri leitað. Skrapp síðan í Blómaborg og keypti mér appelsínugulan ástareld sem stendur nú hróðugur í eldhúsglugganum mínum og gleður mig á meðan ég elda matinn Joyful

Einhversstaðar verður ástin að vera og eldhúsglugginn minn er ekki verri staður en hver annar....

Ég hef komist að því að litli grái vargurinn sem ég tók að mér frá Einholti sver sig í fósturfjölskylduna. Ég var - einhverra hluta vegna - að lesa fundargerð bæjarstjórnar þar sem kom fram að kattarhald væri jafnbannað og hundahald í Árborg og kettir ættu skilyrðislaust að vera bundnir úti í garði - og þá líklega sínum eigin garði.... en sumsé þegar ég kom svo heim og opnaði hurðina smaug litli grái vargurinn út, yfir þjóðveginn og út á sýslumannstúnið þar sem hann reyndi að veiða tjald í erg og gríð. Undir glugga sýslumannsins...

Ég verð að viðurkenna að ég flissaði, svona með sjálfri mér. En vitaskuld viðurkenni ég það ekki opinberlega.

Gleðilegt sumar InLove

 


Ég var svo heppin..

..að vera boðið með upp á Fimmvörðuháls í gær!

Við lögðum af stað á þrjátíuogfimm tommunum um fimmleytið í gær og keyrðum sem leið lá uppá Sólheimajökul eftir að hafa fullvissað lögregluna um að við vissum hvað værum að gera.... eins gott að þeir sáu ekki þegar við festum okkur í fyrstu bekkunni - sem var þó varla annað en halli.... áfram héldum við yfir Mýrdalsjökul í endalausri snjóbreiðunni. Útsýnið var ægifagurt og kuldinn óskaplegur. Ég get sagt ykkur það það, svona í óspurðum fréttum, að það tekur um það bil 30 mínútur að þiðna aftur ef maður tekur af sér vettlingana til að taka myndir. 

Eftir rúmlega tveggja tíma akstur eftir jöklum og úrhleypingar úr dekkjum, ásamt alls kyns öðrum trixum sem ég kann ekki að nefna, var sólin að setjast og ekki minnkaði kuldinn við það......

Það var ógleymanleg sjón þegar eldgosið á Fimmvörðuhálsi blasti við í sólarlaginu. Algjörlega ólýsanlegt!

Eldtungurnar teygðu sig til himins í átt að sólalaginu, hraunið rann glóandi eftir bláleitum snjónum og ekki varð sjónin minna falleg þegar dimmdi. Krafturinn...... drunurnar..........

Á heimleiðinni leiftruðu norðurljósin á himninum í kapp við sindrandi stjörnuskin.

Ógleymanleg ferð InLove

 


Föstudagurinn langi...

...er ekki nógu langur fyrir mig!

Ég fór út að ganga með Ljónshjartað í glampandi sól og blíðu um hádegisbil. Sveiaði smástund á meðan ég sá eftir því að hafa ekki tekið sólgleraugun með mér en ákvað svo að loka augunum og leyfa birtunni að síast inn. 

Kom heim allt önnur kona Tounge

Páskar eru dásamlegt fyrirbæri. Ég fæ tækifæri til að syngja fallega texta í frábærum útsetningum. Kem heim endurbætt eftir hverja stund InLove

Þetta hlýtur að enda með því að ég breytist í saltstólpa W00t

Ég er að velta því fyrir mér hvort ég eigi ekki að nota tækifærið úr því sjoppan er opin og fara og kaupa mér ís................... 

....manstu þegar sjoppur voru lokaðar á föstudaginn langa?


Fyrsti apríl!

Í dag ætla ég að........

1. Standa lengi undir heitri sturtu.

2. Syngja mikið.

3. Brosa.

4. Fara í þyrlu að skoða gos.

5. Vera góð við Ljónshjartað, Ósómann og Dúskinn - í þessari röð Halo

.....því ég er komin í páskafrí!

Þið megið svo bara velja aprílgabbið af ofangreindu Tounge

Njótið ykkar - það ætla ég að gera Joyful


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband