Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Fallegur dagur.

Ég vaknaði snemma - það gerist oft þegar maður sofnar snemma. Ekki heldur sjónvarpið fyrir mér vöku svo mikið er víst! Fór í góðan göngutúr með Ljónshjartað. Sólin sindraði á snjónum og áin rann hljóðlega í átt til sjávar, skreytt glitrandi klakahröngli.

Í dag er liðið ár frá því að pabbi dó og við ætlum að hittast systkynin heima hjá mömmu. Hún ætlar að elda súpu og ég er að undirbúa brauðið.

Ég er svo þakklát fyrir allar góðu minningarnar sem ég á um pabba minn. Það er ekki öllum gefið. Það er svo undarlegt að eftir því sem tíminn líður þeim mun sterkari verða minningarnar og þær poppa upp við ólíklegustu aðstæður.

Hann er ljóslifandi í huga mínum. Heart

 


2007 eða 2005?

Ég var að ljúka við lestur á bók eftir Stieg Larsson. Bókin heitir Karlar sem hata konur og ég er í stuttu máli sagt úrvinda eftir lesturinn............

Bókin gæti verið um þá sem eitt sinn voru kallaðir Íslandsbjörtustuvonir. Mynstrið er nákvæmlega það sama.  Hvílíkt makk, pukur, hringamyndanir og ofbeldi. Ég varð hreinlega stundum að leggja bókina frá mér og melta það sem ég hafði lesið áður en ég gat haldið áfram. Eini munurinn er að tók það sænska ríkið ekki sex mánuði að taka við sér!

Ég kíkti svo á ártalið á bókinn og hún er skrifuð árið 2005! Það hafa greinilega einhverjir verið farnir að efast strax þá....

Snilldarbók sem skilur mann eftir algjörlega tæmdan. Ég hef ekki lesið bók sem hafði svona mikil áhrif á mig síðan ég las Á ég að gæta systur minnar?

Ég held að ég verði að fara í langan göngutúr með Ljónshjartað og reyna að safna orku á ný.


Stefán..

...heitir maður sem ég þekki ekki svo mikið. Ég vona hins vegar að systir mín þekki hann betur því hún sefur hjá honum Tounge Þá sjaldan ég rekst á hann segir hann mér samt að ég eigi að nota kúmen í súpur.... og ég sýni honum þá virðingu að hlusta á hann því betri kokk hef ég ekki enn rekist á!

....En þá við að efninu. Ég eldaði hrikalega góða súpu í kvöld. Gunn-uppskriftin var frá Himneskri hollustu og er grænmetissúpa - en vegna þess að ég þarf alltaf aðeins að experímenta við eldavélina þá breyttist hún aaaaaðeins í meðförum mínum og heitir núna Kjúklingabauna - nautakjöts - grænmetissúpa. Vitaskuld bakaði ég brauð með. 

En Stefán!! Ekkert kúmen í þessari súpu. Ég notaði Cumin - sem er allt allt annað krydd og ekki einu sinni skylt!

Umm ég sleiki enn út um er ég hugsa um hvað hún er góð þessi súpa.....


Fyrir algjöra tilviljun..

..leit ég í spegil um daginn Tounge og var bara nokkuð ánægð með það sem ég sá! Ég var í rauðum kjól sem ég keypti mér á Spáni - muniði þegar maður gat skroppið til Spánar?? Sideways - rauðum gammósíum og blúndumillipilsi........

Nokkrum tímum síðar sá ég eitthvað auglýsingaskot frá stöð2 þar sem Jón Ársæll var ábyggilega að auglýsa þáttinn sinn Sjálfstætt fólk. Þar hjólaði Snjólaug Braga um götur Reykjavíkur með eldrautt hár í grænum buxum og ég hugsaði ÓMÆDOG!! Svona sér fólk mig W00t

....en við Snjólaug eigum líka annað sameiginlegt. Við erum fjári skemmtilegar Tounge

Já - nú þarf ég að játa mannanafnamsiminni mitt líka ofan á allt annað! Ég var vitaskuld ekki að meina Snjólaugu Braga heldur Auði Haralds.....

Þetta áttuð þið nú að vita!! Þekkið þið mig ekki neitt eða hvað? Joyful


Jóhanna....

....svarar kalli!

Hvaða kalli?


Æfingaþerapía

Ég er að hlusta á rás eitt - ég er svo þroskuð Tounge Ég er að bíða eftir morgunleikfiminni. Ég hef áttað mig á því að æfing hefur ómælt gildi, einkum og sér í lagi í morgunleikfiminni. Ég kem til með að vinna ykkur öll á elliheimilinu þegar við stöndum á einari og sveiflum okkur á tá og hæl og  höndum í takt við tónlistina. Þá - krakkar mínir - mun sá tími sem ég hef stundað æfingarnar verða jafn ómetanlegur og það að vera skuldlaus við eurocard og visa....

...það verður heldur ekkert ungmennafélagskjaftæði þar! Það skiptir máli að vinna - ekki að taka þátt!!

En það sem ég ætlaði að segja ykkur var að það rann upp fyrir mér ljós í vatnsfiminni í morgun, þar sem ég barðist við það, blá í framan, að halda bæði floti og takti með naflann austur við hrygg, að endurnýjun skammstafana hefur litið dagsins ljós... 

Voruð þið búin að átta ykkur á því að f.k. sem hefur hingað til staðið fyrir skammstöfunina fyrir Krist getur núna staðið fyrir - fyrir kreppu? Og á frummálinu bc - before crisis? 

Var ekki löngu tímabært að endurskrifa biblíuna?


Góð aðferð til að léttast mar.......

Ég sé að einn þeirra bláu hefur stolið mínu slogani í kosningabaráttunni! Hann skrifar undir auglýsingar með: Mundu mig - Ég man þig W00t

Í dag er  prófkjör sjálfstæðismanna - allavega á Suðurlandi.

Ég sá mér leik á borði og skundaði upp til þeirra. Eyþór Arnalds kom upprifinn á móti mér og vildi sýna mér hvernig ég ætti að kjósa! Það sljákkaði aðeins í honum þegar ég tilkynnti að ég væri eingöngu komin til að segja mig úr þessum flokki!!

Ég er ekki frá því að ég hafi lést um ca. þrjú kíló..... mæli með þessu Tounge

Lifðu í lukku Heart


Ég er forkur duglegur!

Ég tók niður jólaljósin í gær....

.....og ekki nærri komnir páskar!


Lýsandi dæmi...

....fyrir óvönduð vinnubrögð!

Ég skráði mig í sjálfstæðisflokkinn fyrir einhverjum árum síðan til að reyna að hafa áhrif á að Árni Johnsen næði ekki kjöri inn á þing. Það fór nú eins og það fór og tímar liðu....

Í kvöld, mjög seint.... skv. mínu tímatali, fékk ég afar undarlegt símtal! Af tillitssemi við hlutaðeigandi verður nöfnum í þessar frásögn breytt og ef þið teljið ykkur þekkja einhvern skv. lýsingu þá skal það tekið fram að það er ekki mjög líklegt að það sé rétt!

Sumsé - síminn hringir seint um kvöld, ég er hálfdottandi yfir sjónvarpinu og í raun aðeins hársbreidd frá því að vera sofandi undir rúmi. Í símanum er maður sem kynnir sig sem.... köllum hann bara Ólaf og segist vera að hringja vegna yfirvofandi prófkjörs bláu handarinnar. Hann hringi fyrir ónefndan sveitarstjóra í Rangárþingi...... ehemmm svara ég ennþá hálfsofandi..... "Ólafur spyr mig hvort ég sé búin að gera upp hug minn varðandi þátttöku í væntanlegu prófkjöri og ég vakna aðeins betur. Svara því játandi. "Ólafur" spyr mig þá hvort ég sé tilbúin að kjósa ónefndan sveitarstjóra í Rangárþingi og ég, á þessum tímapunkti glaðvöknuð, svara NEI, alls ekki! Bara hreint ekki.

"Ólafur" spyr þá hvort ég viti hvað hug "Sigurjón" beri til yfirvofandi prófkjörs og sveitarstjóra í Rangárþingi....... 

Það var þá sem ég missti kúlið! "Sigurjón"! Endurtók ég og virkaði bara virkilega heimskuleg, þó ég segi sjálf frá...... 

Já - hann er skráður til heimilis þarna hjá þér... sagði "Ólafur"

Hægt og sígandi kveikti ég á perunni og svaraði fremur Hrannarleg.... Já - nei "Sigurjón" leigði í kjallaranum endur fyrir löngu og ég hef ekki hugmynd um hvaða hug hann ber til prófkjörs bláu handarinnar og sveitarstjóra Rangárþings!!Ætli þú verðir ekki bara að hringja í hann og komast að því!

Mitt fyrsta verk í fyrramálið verður að skrá mig úr þessum flokki. Ég græði á daginn og grilla á kvöldin algjörlega á mínum eigin forsendum.

Spáið í vinnubrögðin á þessu heimili! Að skrá mig ekki úr bévítans flokknum um leið og Árni -sjálfvirkur sleppibúnaður- Johnsen komst á þing!

Make love not war Tounge


Björn Bjarnason

Ég er atvinnulaus hálfan daginn.... Hinn helminginn af deginum vinn ég hjá einhverjum af bestu byggingaverktökum Suðurlands. Ég sagði meira að segja, um daginn þegar hringt var að rukka einhvern fjárann, að þeir væru bara svo indælir að það ætti ekki að rukka þá! Það virkaði Tounge

Það eina sem dregur mig niður eru öll þessi nei sem ég fæ við atvinnuumsóknum. Við síðasta nei varð ég til dæmis svo þreytt að ég svaf allan daginn. En það hlýtur að komast upp í vana - að fá nei alltsvo. Annars hætti ég bara að sækja um vinnu og einbeiti mér að því að framfærsluvísitalan verði reiknuð út svo hægt sé að lifa af þessum bótum! Cool

Það er ekki alslæmt að vera atvinnulaus - allavega ekki hálfan daginn! Eftir hádegi get ég til dæmis gert marga hluti sem ég var alltaf að rumpa af í "góðærinu" vegna þess að þá var ég alltaf að flýta mér. Nú hef ég tíma til að njóta samvistanna við sjálfa mig og Ljónshjartað. Ég fer í langa göngutúra eða rix......um hábjartan dag, ég baka, ég fer á nytjamarkaðinn eða í bókasafnið og hef bara pretty góðan tima. Ég hef líka farið í súpu í hádeginu í næsta hús þar sem opnuð hefur verið þjónustu og nýsköpunarsmiðja fyrri atvinnulausa.  Á morgnana og eftir hádegi eru fyrirlestrar og námskeið af ýmsu tagi. Þarna er upplagt tækifæri fyrir atvinnulausa að hittast og forðast félagsfælni. Í dag var ég til dæmis á námskeiði um græna garðyrkju og hvernig ég gæti úbúið moltukassa í garðinum hjá mér.

Það sem undrar mig hinsvegar er að ég var sú eina sem mætti! Ekki að það hafi verið neitt slæmt - ég réði algjörlega umræðuefninu og fór náttúrulega inn á alla þá þætti í garðyrkju sem ég hef áhuga á og lét hina bara eiga sig. Ég var virkilega margs fróðari eftir daginn.

Hvar eru þessir ríflega þúsund manns sem eru á atvinnuleysisskrá hér? 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.