Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Haustfílingur

Fór í göngu með stúf í morgun. Haustlitirnir skarta sínu fegursta. Hvert sem ég leit voru rauðir, gulir og gullnir litir og ég sem var að hafa áhyggjur af að allt laufið yrði fokið á haf út þegar þessi tími rynni upp. Haustið finnst mér indælasti tími ársins! Ljónshjarta var svo stálheppinn að við hittum tvær tíkur á leiðinni þannig að samtals vorum við orðnar þrjár.......Cool

Á meðan ég teygaði í mig litina gengum við fram hjá manni sem stóð á tröppunum sínum með sitt íþróttablys og naut haustsins allavega jafn mikið og ég, ef ekki meira - eða kannski var það blysið sem hann naut svo vel Tounge

Í dag ætla ég að baka eplapæjuna hennar Mörtu - hrikalega góð og fljótleg - bæði að búa pæið til og borða það. Allavega stoppar það aldrei lengur en daginn á borðinu hjá mér og einkasonurinn verður alltaf svo glaður þegar hann sér að ég er að baka. Ekki þarf nú mikið til að gleðja ungs manns hjarta. InLove

Er að spá í að kaupa mér garn og prjóna peysu. Bezt ég hafi hana í haustlitunum.......

Ást og biti InLove


Nú eru allir dagar sunnudagar - framhald..

Í gær rann upp merkilegur dagur í lífi mínu. Eftir hádegi, að staðartíma, var ég stödd inni á skrifstofu yfirmanns míns, þegar hann bað mig að staldra við og loka hurðinni.......... sem ég og gerði. Hann tilkynnti mér þá að í boði væru tveir kostir fyrir mig. Annað hvort segði ég upp frá og með næstu mánaðarmótum, eða hann segði mér upp!!

Þegar ég innti hann eftir ástæðum voru þær fjölmargar og mismunandi, m.a. sú að ég væri stirð í samskiptum, sinnti ekki starfi mínu, væri útbrunnin í starfi, hefði sterkar skoðanir á málum og bloggið mitt!!

Ég sagði honum sem var, að ég væri afar ósátt við þetta og reyndi að útskýra mína hlið á málinu. Fann þó fljótlega að það skipti engu máli hvað ég segði, þetta var eitthvað sem var búið að ákveða og spurning líka hvort maður grenjar í yfirmanni til að FÁ að vinna fyrir hann? Veit ekki - ekki minn stíll allavega. Ég meina ef fólk er ekki metið að verðleikum eftir hverju er það þá metið?

Ákvað hinsvegar fyrir mörgum mánuðum, þegar ég fann í hvað stefndi, að ég mundi sinna minni vinnu af kostgæfni, hvað sem í skærist og ef það dygði ekki til þá yrði ég bara rekin. Nú er sumsé sá dagur runninn upp!! Ég tilkynnti honum að ég mundi tala við mitt stéttarfélag og leita réttar míns og þá sagði hann mér að hann væri tilbúinn að gefa mér meðmæli ef ég afhenti uppsagnarbréfið!

Ég flissaði eiginlega alla leið heim að kjánaganginum! Þar sannaðist það sem sagt var við mig fyrir mörgum árum að ekki eru allir góðir menn yfirmenn og yfirmenn eru ekki allir góðir menn.....Veit að í framtíðinni mun hann, og fleiri, beita því fyrir sig að ég hafi ekki valdið mínu starfi. Það mun hinsvegar hitta hann sjálfan, og fleiri, fyrir því ég VEIT að ég get borið höfuðið hátt og þarf ekki að skammast mín eitt augnablik fyrir mín störf í gegnum tíðina.

Ég er stolt af sjálfri mér!! 

 


Nú eru allir dagar sunnudagar......

Ójá...........

......og ég ætla að njóta þess!


Tunglið, tunglið taktu mig.....

Ég var staðráðin í að fara á fyrirlestur með Þorvaldi Þorsteins í kvöld, um: "Sköpun - hæfileiki eða eiginleiki" held bara svei mér þá að ég nenni ekki meira út í dag. Þvílíkt úrhelli í allan dag, golfvöllurinn í Hveragerði á floti og allt, uppgötvaði núna af hverju brýrnar eru teknar af læknum inn í Reykjadal á veturna, það er náttúrulega til að fyrirbyggja skemmdir undir þessum kringumstæðum.

Ætli Þorvaldur sakni mín nokkuð? Hefði samt komið sterkt inn í leshringinn á sunnudaginn að geta sagt t.d. "Já Þorvaldur sagði mér..........." Tounge

Af hverju er ekki siesta á Íslandi? Hugsið ykkur ef maður gæti lagt sig á milli eitt og tvö á daginn, án þess þó að þurfa að vinna lengur, hvað maður væri miklu hressari seinnipartinn og á kvöldin. Gæti skokkað út á fyrirlestra, kaffihús og aðra menningarviðburði á kvöldin í stað þess að bíða eftir því klukkan níu, að klukkan verði tíu svo ég geti farið að sofa..... Hvar breytir maður þessu?

Tunglið er ótrúlega flott í kvöld, næstum fullt og liggur svo lágt, næstum eins og ég geti teygt mig upp í það. Minnti mig á söguna um litla Láka og stóra Láka, eða ég held þeir hafi heitið það...... Muniði eftir þeim? Annar borðaði alltaf (hafra?)grautinn sinn og varð stór og sterkur á meðan hinn vildi hann ekki og var lítill og mjór.... Hvor haldiði að mundi fitta betur inn í dag?

Talaði við skemmtilegan mann í gær og aftur í dag, hann sagðist ætla að koma og heimsækja mig og drekka með mér kaffi þegar lömbin þögnuðu. Hann er nefnilega að keyra lömb til slátrunar þessa dagana og er svo í landgræðslu þess á milli. Ég sagðist náttúrulega bara hlakka til að sjá hann! Hvað annað? ToungeW00t

Skjár einn er úti hjá mér! Það þýðir no dr. House.... er þetta hægt? Kona spyr sig!!!!

Kannski ég meili þennan pistil á Þorvald sæta og spyrji hann hvort hann telji þetta sköpun eða bull!!

Farðu vel með þig InLove

 


Harðsperrur og annars konar sperringur!

Það var svakalega erfiður tími í sundleikfiminni sl. þriðjudag. Beta, kennarinn, missti sig gjörsamlega í framspörkum og vildi fá að sjá tær fyrir ofan vatnsyfirboð!! Trúðu mér, það ER erfitt þegar maður er með ökklalóð og stendur á mörkum djúpu laugarinnar......

Finn að það eru að hellast í mig harðsperrur núna og samt fékk ég mér banana strax eftir síðasta tíma.

Það rignir eins og hellt sé úr fötu, stórri fötu, annað en í morgun þegar við stubbalingur gengum upp með á, komumst þurrum fótum yfir mýrina, svolítið eins og Jesú.....

Náði ekki að vinka Fanney morgun, þar sem ég er með afbrigðum óglögg á bíla. Hugsaði þó um leið og ég sá á eftir móðguðum afturendanum á henni - eða sko bílnum hennar..... að líklega hefði þetta verið hún. Fanney! Bannað að vera alltaf að skipta um bíl. Trúi því samt að hún hafi ekki tekið þetta óstinnt upp og komi til með að tala við mig í framtíðinni. Jafnvel þótt það verði bara um hluti sem skipta engu máli Tounge

Í fyrramálið er aftur sundleikfimi þannig að það er líklega bezt að fara að halla sér núna og vona að ég geti hreyft mig á morgun.

Góða nótt InLove


Dramadrottning

Það var með kuldaherkjum að ég heilsaði Fanney og Bóndanum þegar þau flautuðu lauslætislega á mig þegar ég var nærri dauða en lífi að reyna að krafla mig heim aftur úr morgungöngunni með Stúf. Var samt í öllum fötunum mínum. Nei Fanney!! Ég er EKKI svona feit Tounge Var nú svolítið sár að þau buðu mér ekki far þessa 7 metra sem ég átti ófarna. Ég hélt að þeim - allavega Fanney - þætti vænt um mig........

Hjólaði síðan í vinnuna á móti vindi í austnorðaustan stórsjó, þótt næsta strönd sé einhverja 26 km. í suðvesturátt. Svínaði þrjá bílstjóra þegar ég skellti mér yfir á vitlausa akrein, þar af var einn sæti skólabílstjórinn minn, sá alveg fyrir mér í anda þegar ég tæki síðustu andvörpin í fangi hans og hann sæi líf sitt án mín í hnotskurn og tárin rynnu jafn hjá gestum sem gangandi á meðan hjólið lægi beyglað í kantinum. Bíð nú eftir kæru frá Þvagleggnum.

Flissaði lítillega með Dúa wonder á msn. Það var gaman. Takk fyrir spjallið Dúa og gangi þér vel á morgun Wizard

Frétti seint og um síðir þegar vinnudeginum var að ljúka að einn vinnufélagi minn er að breiða út sögu um mig! Mér fannst það fyndið fyrst en ekki svo mjög lengur..... Er að spá í að mæta á morgun með alls kyns mótlyf, s.s. sólokóf, svitakóf, andemon og hvað þetta nú allt saman heitir, stilla þeim á borðbrúnina mína með þungum andvörpum og laumast öðru hvoru til að strjúka tár......

Læt mér þó kannski nægja að hita grænt te - óvíst þó að hann fatti samhengið LoL


Kærleiksbollur og laun heimsins.......

Fór extra langan hring með ljónshjartað, svona af því að hann er extra óþekkur InLove Fórum alla leið upp á Golfvöll og stóran hring þar. Komum ekki til baka fyrr en eftir tæpa tvo tíma. Hann óþekktaðist alla leið. Ójá - laun heimsins...... Mér stóð nú ekki á sama þegar hann fór að eltast við hrossin og þau snéru vörn í sókn. Flissaði samt. Það var mátulegt á hann......

Hann er nú krútt samt.

Hitti góða konu á leiðinni og átti við hana gott og upplýsandi spjall. Maður verður margs vísari snemma morguns. Ætli máltakið "Morgunstund gefur gull í mund" sé hugsanlega af því dregið? Mikið má sá hafa verið spakur sem sá þetta fyrir Tounge

Hrærði svo í Kærleiksbollur þegar ég kom heim og er að spá í að leggja mig á meðan þær verða tilbúnar.

Hlakka svo til að vakna aftur baka Kærleiksbollur og hella mér upp á kaffi og glugga í blaðið.

Elska Sunnudaga InLove

 


Stefnir í verklok og stormur í aðsigi.

Komst yfir að klára það sem ég ætlaði mér í dag, þrátt fyrir að hafa skriðið aftur upp í rúm eftir morgungönguna með stubbaling, og steinsofnað, vaknaði ekki fyrr en klukkan var að verða eitt. Skal nú viðurkenna að mér brá aðeins.

Nú get ég, og er reyndar byrjuð að bera dót inn í nýmálaða herbergið, bókastofuna eins og ég kýs að kalla það, eða á viðhafnardögum, koníaksstofuna LoL Ef einhver á gamlan standlampa sem hann langar að losna við, þá hef ég not fyrir hann!

Vindurinn hvín og blæs eins og í ævintýri eftir Thorbjorn Egner og það rignir af austan! Það skeður nú ekki oft skal ég segja ykkur, en jafngott samt að fá rúðurnar þvegnar þeim megin.....

Skráði mig á námskeið í næsta mánuði í endurmenntunarstofnun HÍ. Hagnýt danska heitir það og mér er lofað að þegar því lýkur tali ég dönsku með hreim.... Samt ekkert sagt um hvaða hreim!! Halo

Stubbalingur steinsefur, dauðþreyttur eftir átök dagsins, ég er búin að kveikja á kertum og sit og sötra rauðvín. Ég á það skilið! Ætlaði að hafa það notalegt og horfa á sjónvarpið, en það er þá bara ekkert í því. Ekki fyrr en seint og um síðir. Ætli ég verði ekki sofnuð þá? Mætti segja mér það. Það viðrar vel til svefns. Ætli það endi ekki með því að ég slökkvi á kertum, nýti mér tæknina og stilli á upptöku og skríði undir sæng. Er að lesa hörkugóða bók sem heitir "Sumarljós og svo kemur nóttin", eftir Jón Kalman Stefánsson mér var lánuð þessi bók og sagt að ég yrði að lesa hana og ég náttúrulega geri allt sem mér er sagt......

InLove


Ónýtir skór og myndarlegir kvöldgöngumenn

Jæja! Þá er ég búin að taka til í mínum húsum. Tók þá afdrífaríku ákvörðun að henda gömlum ónýtum skóm.

Nú eru bollurnar að hefast og maturinn bíður þess að verða eldaður. Helgin framundan með öllum sínum töfrum. Ég ætla að sílíkonast aðeins um helgina. Klára herbergið og bílskúrinn - vonandi......

Við Ljúflingur ljónshjarta - sem er að vísu með óþekkari hundum þessa dagana, ábyggilega á gelgjunni...... Tounge - hittum agalega sætan mann í gærkvöldi þegar við tókum kvöldsprænið. Ljónshjartað vildi endilega heilsa aðeins upp á hann og þegar ég gerði mér grein fyrir því hvað maðurinn var myndarlegur, leyfði ég honum það. LoL Alltaf að nýta öll tækifæri til að daðra við sæta stráka! Það er bara svoleiðis........ Hver veit, kannski hittum við hann aftur í kvöld?

Talandi um sæta stráka þá ætlar Þorvaldur Þorsteinsson að halda erindi á viku símenntunar í næstu viku. Þar ætla ég að vera. Kem kannski ekki til að heyra orð af því sem hann segir. En það er líka aukaatriði.......

Vona að þið eigið góða helgi


Stirður dagur

Það var smá óhugur í mér þegar ég gekk með ljónshjartað upp með á í morgun. Ég setti símann í vasann, djöst in ceis. Hræðilegt þetta slys í ánni. Hér hafa flugvélar sveimað yfir ánni í allan dag og björgunarsveitir unnið mikið og óeigingjarnt starf. Ég vona svo sannarlega að maðurinn finnist.

Er búin að vera frekar stirð í allan dag, bæði á líkama og sál. Takk Magga fyrir að hringja og hringja svo aftur. InLove Það er alltaf svo gott að ryðja sig. Það er alveg einstakt að geta talað við einhvern sem þekkir mann svona vel. Ég held að systur og bræður séu með því dýrmætasta sem við eigum og án þess að ég vilji neitt gera lítið úr ykkar systkinum þá tel ég að ég eigi miklu betri systkini en þið...... Tounge

Annars er allt klárt í Húsvitjun hjá mér. Kann svo miklu betur við dr. House með staf, hann gerir svo mikið fyrir hann.

Hey kannski ég ætti að athuga hvort hann getur liðkað mig aðeins upp.........

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband