Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Samsæriskenningar!

Ég var í fríi í dag. Það þýðir að ég hef haft nægan tíma til upphugsa allskyns plott og samsæriskenningarnar dúkkuðu upp í færibandastíl.

Ein af þeim, og persónulega sú sem mér þótti einna bezt, allavega þegar ég klofaði skaflana og lyfti hnjánum svo hátt upp úr snjónum að Beta vatnsfimifrömuður hefði hoppað hæð sína af gleði.... var sú að óvinveittar þjóðir hefðu séð sér leik á borði í hinu svokallaða "efnahagsundri"  Íslendinga sem var jú undanfari þess efnahagsundurs sem við upplifum nú, að sölsa undir sig þau auðævi sem, eins og einhver sagði, lágu dauð! Þá er ég vitaskuld að tala um fiskinn í sjónum, drykkjarvatnið og orkuna í formi heita vatnsins.....

Þessar þjóðir - mér detta í hug.... bretland, Holland og Þýzkaland, sameinuðust um að fella gengi krónunnar og fella gengi íslenskra fyrirtækja allt með það fyrir augum að knýja okkur inn í ESB og svo ætla þau að hirða þetta allt saman og hía á okkur um leið.........

Ég sver það - ég var svo paranojuð þarna langt úti á golfvelli að ég heyrði töluð ókennileg mál á bak við hvern hól og oní hverri holu.... mér datt helst í hug Hollenska sem er, eins og alþjóð veit, gjörsamlega óskiljanleg.....

Sjáiði bara plottið með REI hér um árið. Ég er sannfærð um að það var bara fyrsti áfanginn af mörgum......... Ég gæti haldið svona áfram lengi - en.... ég var að fá emeil þar sem ég er beðin að taka þátt í vísindarannsókn á áhrifum jarðskjálftans sl. vor. Og ef það er eitthvað sem mér þykir skemmtilegra en ljúga að börnum og búa til samsæriskenningar þá er það að svara þessari könnun. Síðast var til dæmis spurt hvort ég hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni síðan í jarðskjálftanum. Því miður var ekki boðið upp á svarmöguleikann: Nei - sorrí tú sei..... W00t

Ég held þetta séu perrar sem búa til þessar spurningar - en það breytir ekki því að ég flissa stanslaust á meðan ég svara!

Túdílú Kissing

 


...og lífið gengur sinn gang?

Ég held það sé alveg efni í mannfræðirannsókn hvernig fólk bregst við kreppu!

Sumir sýna sitt rétta andlit! Það er voða einfalt að vera "góði gæinn" þegar allt gengur í haginn. (takið eftir ríminu Happy) Erfiðara svo þegar halla fer undan fæti. Aðrir vilja láta vorkenna sér út í eitt. Svo eru einhverjir sem sameina þetta tvennt........ Hugsanlega er kominn tími á endurbirtingu færslu minnar: Æ dónt læk sillí pípól! Tounge

Og yfir í allt allt annað. Hótun mín um nafn- og myndbirtingar, í síðustu færslu, svínvirkaði. Ég fékk sendar myndir í löngum bunum.

Anna! Zjékk

Ónefndur æskuvinur! Zjékk Tounge

Annars er ég góð bara. Vann allan daginn í gær og á frí í dag. Fór með hundana í laaaaanga göngutúr. Svo langan að við urðum næstum úti. Ég sá fram á að þurfa að grafa okkur í fönn og bræða snjó til drykkjar - þar til okkar yrði saknað, án þess að ég sé á nokkurn hátt að dramatæsa hlutina. 

Sjúkkett að það er nóg til af snjó Tounge


Björn Bjarnason

Ég er að verða eins og gamla fólkið! Ekki að það sé neitt slæmt sko - sumt af mínu bezta gamla fólki eru vinir.......

Klukkan er rétt að slá í þrjú og i dag hef ég; unnið, farið út með hundana í laaaaangan göngutúr, hvar ég talaði við allt gamalt fólk sem ég hitti, tekið til, farið í búðina og bakað snúða og muffins!

Ég á bara eftir að baka brauð og elda kvöldmat - þá get ég farið að sofa um sexleytið og byrjað all over á morgun! Nema kannski ívið fyrr. Svo endar þetta með því að ég verð farin að vinna á nóttunni, á náttúrulega næturvinnutaxta og stórgræði W00t

Ég hef líka lesið blogg og þar sem ég hef skilið eftir athugasemdir hef ég vandað mig óskaplega að setja greinarskil og kommur á rétta staði......

Svo datt mér þessi stórgóða hugmynd í hug..... Allir þeir sem í gegnum tíðina hafa lofað að gera eitthvað fyrir mig, hvort sem það er að staga í sokka eða senda mér myndir  verða böggaðir þar til þeir hafa skilað sínu W00t 

Smátt og smátt færi ég mig svo í aukana og nafngreini þá sem mér verður náttúrulega farið að mislíka alveg hrikalega við. Ég meina, fólki er ekki stætt á því að standa ekki við það sem það segir...

Hugsanlega þjáist ég líka af fráhvarfseinkennum og þyrfti bara að standa fyrir sýsló með pottlokið og sleifina og berja taktinn...... Vanhæfur sýslumaður - óli út!! 

Svo kæmi óli út og færi með mér heim og borðaði snúðana mína W00t

Lifið í lukku Heart


Bæ bæ gamla Ísland....

......sagði Hallgrímur Helgason á borgarfundinum sem ég fór á í gærkvöldi!

Sem ábyrgur mótmælandi mætti ég snemma til að taka frá sæti fyrir síður ábyrga mótmælendur..... Tounge

Þangað mættu þingmenn kjördæmisins. Bæði þeir sem hafa sagt af sér sem og aðrir. Sjálfstæðismenn opinberuðu sína andlegu eyðimörk. Þeir eiga ekki sök á einu né neinu. Hinsvegar átti Samfylkingin alveg sinn þátt og Björgvin einna stærstan og óx hans hlutur töluvert eftir að hann yfirgaf samkvæmið.  Ég verð að segja, þó það hafi svo sem ekki komið mér á óvart, að það var sorglegt að fylgjast með málflutningi þingmanna sjálfstæðisflokksins á fundinum. Það jaðraði við að ég opinberaði fyrir aðkomumönnunum hvað ég skammaðist mín fyrir þau, en vitaskuld gerir maður það ekki...... ekki opinberlega.......

Ég upplifði fundinn svolítið eins og framboðsfund - sem mér fannst ekki tímabært - en segir mér meira en annað um að nú sem aldrei fyrr er þörf á fólki á þing sem hugsar heildstætt um almannahag og þau vandamál sem blasa við íslenzkum fjölskyldum og fyrirtækjum og ekkert annað! Ég vil líka fá erlenda rannsóknaraðila á staðinn - þeir eru bara one phonecall away eins og einhver sagði.

Ég "saknaði" sýslumannsins á fundinum. Hann mætti ekki - sjálfsagt verið upptekin í æfingum fyrir spurningkeppni eða eitthvað. Fólk þarf nú að forgangsraða.......


Sjálfstæður vilji í pottalandi!

Ég teygði mig eftir steikarpönnunni áðan, neðst í pottaskápinn og hinir pottarnir brustu allir í salsa...

....þeir sungu: Vanhæf ríkisstjórn - Jónas BURT!


Hugleiðingar miðaldra húsmóður....

...utan af landi.

Í ágúst sl. var ég á Spáni í hálfan mánuð. Sleikti sólskinið, drakk cervesa og vino tinto út í eitt og eina markmið dagsins var að gera allt á eins löngum tíma og hægt væri að komast upp með.

Í september var ég komin heim aftur og hversdagsleikinn tók við með öllu sínu amstri. Vinna, borða sofa. Ég fór helst ekki til Reykjavíkur nema erindið væri brýnt. Það var einna helst að ég rölti niður Laugarveginn, tæki út hversu mörg kaffihús væru komin í eyði og kíkti í búðir í góðum félagsskap.

Svo breyttist allt eins og hendi væri veifað.

Mér var sagt upp annarri vinnunni. Hélt þó ró minni sem og 50% starfi og var þess fullviss að ríkisstjórnin kæmi okkur út úr þessu fári, þau myndu leysa þetta farsællega, að ætla annað væri óþarfa upphlaup...... hversu rangt hafði ég fyrir mér þar......? 

Í nóvember fór að renna upp fyrir mér ljós! Ég gerði eins og maðurinn í búðinni hér um árið - fór að hugsa.....

Í þessari viku hef ég farið þrisvar til Reykjavíkur. Fjórum sinnum ef ég tel sl. laugardag með. Ég hef staðið fyrir utan alþingi og stjórnarráðið með pottlok og sleif og látið í mér heyra. Ég hef ekki svo mikið sem gjóað auga á útsölur - enda útsölur ábyggilega fundnar upp af þeim svarta sjálfum - les. kapítalismanum..... til að villa um fyrir fólki og halda því frá því sem máli skiptir, þ.e. mótmælum!

Í dag er staðan þannig að báðir formenn stjórnarflokkanna eru veikir. Svo veikir að þau þurfa að fara utan til að leita sér læknishjálpar. Vitskuld óska ég þeim báðum sem og fjölskyldum þeirra alls hins besta í þeirri baráttu sem framundan er í þeirra einkalífi. En það er akkúrat málið. Þetta er þeirra einkalíf og þar sem ég þekki þau ekki persónulega get ég aðeins haft samúð með þeim upp að vissu marki.

Það er enn bjargföst sannfæring mín að breytinga sé þörf á alþingi. Ég er enn þeirrar skoðunar að það þurfi að taka til í seðlabankanum og fme.

Mitt kalda mat er að ríkisstjórnin hafi jafnvel verið enn vanhæfari en mig nokkurn tíma óraði fyrir. Vitaskuld skunda ég á Austurvöll að mótmæla.


Skiptir það máli?

Afskaplega leiðinlegt að heyra að Geir sé veikur. Ég óska honum alls hins besta á þeim tíma sem framundan er hjá honum.

Mitt mat er að þegar fólk er að berjast fyrir lífi sínu við svo illvígan sjúkdóm þá eigi það að einbeita sér að því að ná heilsu á ný. Það getur ekki verið gott að þurfa að standa í illvígum deilum á vinnustað þar sem heill allrar þjóðarinnar er í húfi.

Það hlýtur að skipta máli að sá sem gegnir þeirri ábyrgðarstöðu sem það er að vera forsætisráðherra, tala nú ekki um á þeim tímum sem nú eru, sé heill heilsu og geti einbeitt sér að fullu að því að bjarga þjóðinni. Það skiptir mig máli. Allt mitt er í húfi.

Ég hef ekki treyst þessari ríkisstjórn í talsverðan tíma til að bjarga einu né neinu. Í ljósi síðustu frétta tel ég ENN brýnna en áður að þessi ríkisstjórn segi af sér strax og rými til fyrir neyðarstjórn.

Ég hef ekki tíma til að bíða. Þetta skiptir máli!


Staðalbúnaður mótmælandans!

Eyrnatappar, skíðagleraugu, pottlok og sleif.......

....ásamt appelsínugulum trefli!

 


Einlæg aðdáun!

Ég hreinlega dáist takmarkalaust að öllu því fólki sem stóð með mér í dag fyrir framan stjórnarráðið og trommaði á pottlok, pönnur og annað!

Ég dáist að fólkinu sem þrammaði með mér niður á Austurvöll í dag og gekk þögult í hringi í kringum alþingishúsið á meðan jarðarför stóð yfir í Dómkirkjunni - spáið í samstöðuna! Spáið í það!! 

Ég er stolt af að vera hluti af þessum hóp! Algjörlega að rifna úr stolti yfir að vera Íslendingur og taka þátt í þessum mótmælum! Ég verð jafnstolt eftir tvo daga, eftir fimm ár, eftir þrjátíu ár þegar ég segi frá því hvar ég var á þessum tíma!

Það er enn engin tilviljun að ég skrifa með litlum staf þessi hús sem einhverjum þykir að eigi að skrifast með stórum staf. Það er liður í mótmælum! 

 


Dagurinn í dag....

SANY0237....verður dagurinn sem ég kem til með að muna eftir þegar ég verð orðin arfarugluð á hjúkrunarheimili fyrir aldraða! Þetta var ótrúlegur dagur. Einstök upplifun!

Hávaðinn, samstaðan, samkenndin! Ólýsanlegt!! Mótmælendur með grímur, mótmælendur án gríma. Mótmælendur í rauðum úlpum, mótmælendur í appelsínugulum bolum....... Ef þetta kemur ríkisstjórninni ekki í skilning um að þaum séu persona non grata í þessu húsi - þá skilja þau líklega ekki neitt!

Nú er klukkan langt gengin í ellefu og enn eru læti þarna fyrir utan. Það kæmi mér ekki á óvart að ég þyrfti að fara aftur í bæinn á morgun og klára sleifina mína - en það er hvort eð er ekki svo mikið eftir af henni.......... SANY0248

Ég ákvað að verða á undan og tók myndir af löggunni - sko áður en þeir tækju myndir af mér! 

Lifi byltingin 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.