Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Vefmyndavélar

Var að kíkja á vefmyndavél sem beint er að Kötlu....

http://www.ruv.is/katla/

....bara svona til að athuga hvort ég sæi einhver bjarma.

Allt í einu brá fyrir jarðvísindamanni í myndavélinni! Neeeee bara að hita upp fyrir 1. apríl ;)

En tryllingslega mundi manni bregða ef einhver gretti sig allt í einu í vélinni langt uppi á fjöllum í klikkuðu veðri W00t


Ættaróðalið....

Þannig er að ég á ættir að rekja undir Fjöllin!

Fjöllunum þar sem gýs núna......Frændi minn einn býr þar á ættaróðalinu sem hefur verið rýmt vegna gossins. Ég sá mér náttúrulega leik á borði og hóf að safna liði. Ég hef nefnilega verið að undirbúa fjandsamlega yfirtöku síðan jarðhræringar hófust á svæðinu. Ég vissi að þetta væri bara tímaspursmál. Það setti að vísu smá strik í reikninginn að löggan lokaði veginum austur - nema fólk ætti brýnt erindi.... en ég meina, skilgreindu brýnt erindi!

Ég var hinsvegar búin að undirbúa plan B eins og allir góðir stríðsmenn og ætlaði niður Gaulverjabæ og yfir Þjórsá á ferju! Það gæti þá í leiðinni reynt á ferjulögin sem - mér vitanlega - hafa aldrei verið afnumin!

Dagurinn hefur sumsé farið í að taka myndir niður af veggjum. Myndir, sem ég ætla síðan að hengja upp á óðalinu yfirtökunni til sönnunar!

Já krakkar mínir. Það er löngu kominn tími á réttlætisjöfnun í þessum heimi! Ég meina...... ef amma mín hefði verið afi minn þá væri ég núna ríkur, skeggjaður bóndi undir Fjöllunum.

Stay tuned - hver veit nema næsta færsla komi af órólega svæðinu W00t


Ég um mig frá mér til þín

Ég velti því fyrir mér að segja upp varanlegu sambandi mínu við facebook. Þetta samband er mjög undarlegt og í raun alveg rannsóknarverkefni út af fyrir sig.....

......Þarna gefur að líta yfirlýsingar eftir yfirlýsingar um að Lísa á Lóni moki út úr hesthúsinu í dag og í gær og jafnvel á morgun líka? Eða að Sigga á Síðu er búin að baka og taka til og svo koma "vinirnir" í bunum og segja viðkomandi hvað hann sé yfirmáta duglegur...... Þetta er eins og ein stór sjálfshátíðarfullnæging. Svo er ekki eins og hasarinn leiftri hægri vinstri.... Nema hugsanlega hjá mér.... og þeim sem eru í raðdramaköstum yfir kreppunni og aðgerðum ríkisstjórnarinnar - eða aðgerðarleysi hennar. Hvernig svo sem fólk vill líta það mál. Sem bæ þe vei fer algjörlega eftir því hvar í flokki fólk stendur! Fólk sem jafnvel hrópar hæst um að leggja þurfi fjórflokkana niður - ekki seinna en nú, þegar, strax!

Já ég er á því að bloggið henti mér miklu betur - hér get ég endalaust verið fyndin í löngu máli á kostnað náungans og flissað svo hátt og í hljóði yfir margslungnum og stórkostlegum húmor mínum. Sem er að vísu ekki allra - en það er nú ekki mitt vandamál Tounge

Og þá yfir í allt annað! Það styttist í páska. Voruð þið búin að átta ykkur á því? Margir dagar framundan þar sem ég get hlúð að uppáhalds áhugamáli mínu: Að gera sem minnst - á sem lengstum tíma......

Þakka þeim sem hlýddu Joyful


Íslenskt mál...

...er hreint ekki eins flókið og fólk vill vera láta.

Við eigum helling af orðum sem hægt er að rekja allt til þess tíma er Shakespeare ráfaði um myrkviði sinna eigin hugarheima, orð sem eru opin og gegnsæ, nánast eins og íslenska hagkerfið í heild sinni W00t

Tökum dæmi: Konur giftast en menn kvænast! Að giftast er dregið af enska orðinu gift sem þýðir gjöf - liggur alveg í augum úti - ekki satt? Það er hinsvegar alls ekki dregið af danska orðinu gift sem þýðir allt annað og miklu verra. Enda voru forfeður okkar ekkert að koma frá Danmörku og ég alls ekki svo illa þenkjandi.... Tounge

Trúlofun er annað dæmi um gagnsæi - nefnilega dregið úr ensku af true love..... og þarf ég að útskýra fyrir ykkur þegar talað er um að stúlkur séu orðnar mannbærar?

Þetta - gott fólk - er ástæðan fyrir því að ég horfi ekki á Kiljuna hans Egils Helga. Ég get ekki umborði allar þær slettur sem þar eru borðnar á borð fyrir mig undir merkjum fagmennsku og bókvits.... Ég botna bara ekkert í því hvers vegna þarf að nota öll þessi erlendu orð þegar hægt er nota íslensk orð sem bæði er oft miklu meira lýsandi fyrir það sem verið er að tala um og hljóma betur í því sem á að heita íslenskur menningarþáttur í íslensku sjónvarpi allra landsmanna.

Þessi pistill var í boði lingólöggunnar eins og hún héti hjá Agli og co.

Lifið heil!