Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Verslunarmannahelgarhamingja

Þessi verslunarmannahelgi er með þeim betri sem ég hef upplifað. Fékk frábæra heimsókn í gær og fór í stórgóða heimsókn í dag.

Engar áhyggjur vegna afkvæma á útihátíð! Engin útilega hjá mér! Beit það í mig í ár að ég ætlaði ekki að vinna þessa verslunarmannahelgi. Held svei mér þá að ég hafi verið að vinna þessa helgi sl. sjö ár!!

Picture 214 Í gær var bankað hjá mér, úti stóð Linda með Auði Erlu! Við fórum saman að heimsækja mömmu og pabba. Þangað komu svo Eyfi og Viktor Picture 216

Börnunum var sagt að þau fengju engar vöfflur ef þau týndu ekki saman alla krossa á gólfinu. ÞauPicture 217 voru rosa dugleg - svona til að byrja með......

Við Linda fórum síðan út á róló með börnin á meðan Eyfi málaði - alltaf duglegur Eyjólfur!!! Góður dagur - takk fyrir að sækja mig Linda mín Heart

Við labbakútur fundum þessa ferðalanga í kvöldgöngunni okkar, þeir voru búnir að tjalda undir brúnni, er ekki viss á hvaða útihátíð þeir voru...... Picture 219 

Í morgun vöknuðum við labbakútur snemma, fórum út í skóg að hlaupa og skelltum okkur svo Picture 220austur fyrir Þjórsá í heimsókn til Heklu litlu, sem er algjör dúlla, og "mömmu hennar og pabba" sem eru líka dúllur Smile Labbakútur réði sig í vist hjá Trausta bónda og fékk að leika smalann - fann sig alveg þar...... á meðan ég drakk kaffi og úðaði í mig vöfflum.....

 Picture 221 Þau voru þarna "rétt áðan" 

Þarna ákvað myndavélin að batterýin væru búin og ekki yrðu teknar fleiri myndir í sveitinni. Þau Fanney og Trausti rækta hreint ótrúlega fallegar rósir sem ég steinféll fyrir. Fanney nestaði mig svo upp með hamingjusöm egg úr hamingjusömu hænunum sínum áður en við skunduðum heim á leið.

Nú kraumar gúllassúpan í pottinum og Loki litli steinsefur. Hann hefur varla hreyft sig síðan við komum heim.

Takk Fanney mín fyrir góðan dag. Nú rata ég til ykkar og kem ábyggilega aftur. Var ég búin að segja þér hversu glöð ég er með að þú ákvaðst að heilsa upp á mig í Nóatúni í vor?

Heart

 


Finnland og saunaböð

Sá að það var verið að halda heimsmeistaramót í gufubaðssetu í Finnlandi!

Þá rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var í Finnlandi í fyrsta sinn, fyrir þremur árum síðan. Þetta var í október og við vorum fjögur saman úr vinnunni að heimsækja traktorsverksmiðju. Hljómar ekki spennandi - ég veit - en var virkilega gaman. Kynntist þarna fullt af fólki sem ég hef miklu betra samband við í dag heldur en ella.

Það var kalt á þessum tíma í Finnlandi. Frostið fór niður í 20 gráður á daginn. Algjörar stillur og skógarnir hrímhvítir. Mjög fallegt! Ég man að rafmagnslínurnar slúttu langleiðina niður á jörð.

Allavega.... í Finnlandi gilda mjög strangar reglur um saunaböð, vegna þessa að í sauna fer fólk mjög léttklætt...... Karlar og konur fara ekki saman nema allra nánasta fjölskyldan, sumsé, mamma, pabbi, börn og bíll Smile Annars fara konur fyrst og karlar síðan. Því konurnar þurfa náttúrulega að hafa matinn klárann þegar karlarnir koma svangir úr sauna.....

Okkur var boðið í afar hefðbundið saunabað að finnskum mælikvarða. Þar sem gufan er hituð upp með viði. Í marga daga á eftir, ef mér varð heitt, gaus upp reykjarlykt. Ég er mest hissa á að slökkviliðið skuli ekki hafa verið kallað út Tounge 

Kimmo, maðurinn sem sá um að halda okkur félagsskap fyrir hönd síns fyrirtækis, var í dálitlum vandræðum með saunabaðið. Ég var eina konan í hópnum og hann vissi ekki alveg hvernig hann átti að leysa þetta. Ég sagði honum að þetta væri nú ekki mikið mál. Það kæmi ekki til greina að ég færi einsömul í gufuna, hinsvegar væru tveir í hópnum frændur mínir - já ég veit, en svona er þetta bara í sveitinni...... og þeim væri alveg sama þótt ég kæmi með. Þeim datt ekki einu sinni í hug að mótmæla mér og sá þriðji fór ekki í sauna. Ég sá að Kimmo var létt.

Sátum við svo í góðu yfirlæti í sauna, drukkum finnskan bjór, sem er frekar sterkur, og Kimmo skvetti reglulega á viðarteinana vatni og gaus þá upp þessi líka fína hangikjötslykt LoL Svo stendur Kimmo upp og segist ætla út í vatnið - en öll alvöru saunaböð í Finnlandi eru staðsett við vötn og krefst svosem ekki mikillar útsjónarsemi.....

Ég skoraði á þá frændur mína að fara með honum, þeir gætu ekki látið það spyrjast til Íslands að finninn hefði farið einn út í vatnið og víkingarinir setið eftir í hlýjunni. Þeir tautuðu eitthvað sem ekki skildist en látbragðið sagði mér að þeir ætluðu ekki út! Ég gerði mér þá lítið fyrir, skundaði á eftir Kimmo, í gegnum frosinn snjóinn og paufaðist niður stigann út í vatnið í 20 stiga gaddi!!! Ég er viss um að Kimmo hefur horft á mig aðdáunaraugum, ég var bara gleraugnalaus og sá það ekki..... En það furðulega var að vatnið var bara hreint ekkert kalt. Ég var góða stundu oní, gat allavega ekki farið upp úr á undan finnanum - en um leið og hann sippaði sér upp á bakkann elti ég hann eins og hlýðinn hundur. Við ösluðum svo snjóinn aftur til baka í saunabaðið og fengum okkur einn öl. Ég lét eins og ekkert væri sjálfsagðara en að stökkva svona út í helkalt vatnið - en ég hef stundum látið þá heyra það síðan, frændur mína, að þeir séu kannski ekki komnir af víkingum og séu jafnvel ekkert skyldir mér.......

Frábær ferð í fallegu landi


Ömmusystir

Magga hringdi í mig í gærkvöldi.

Hún er orðin AMMA!! Heart Það þýðir að ég er orðin ÖMMUsystir LoL Frábært! Man hvað mér fannst það mikið sjokk þegar ég varð móðursystir. Er greinilega orðin miklu þroskaðri síðan þá......

Til hamingju enn og aftur Heart


Árás í leið í félagsmiðstöð miðaldra húsmæðra!

Varð fyrir áfalli í dag, þegar ég í þungum þönkum, afar heimspekilegum - að sjálfsögðu Tounge .....var allavega ekki að hugsa um karlmenn Halo varð fyrir árás á leiðinni inn í Bónus! Hjartað tók á sprett og adrenalínið var á yfirflæði þegar Fanney tók um axlir mínar og sagði eitthvað sem ég hvorki heyrði né man.......LoL Við flissuðum saman í kælinum dágóða stund, enda erum við báðar með eindæmum fyndnar!

Ég er að skipuleggja ferð austur fyrir Þjórsá! Alla leið....... Já, já það er ekki flanað að neinu á mínu heimili..... Ætla að heimsækja Fanney og "bóndann" í sveitina. Kíkja á Heklu litlu og kenna henni einhverja ósiði Tounge 

Annars bara hefðbundinn laugardagur hjá mér. Tiltekt og þvottur. Ætla núna að búa til salat og grilla kjúklingabringur. Svei mér ef ég fæ mér ekki bara hvítvín líka.

Vona að þið hafið átt góðan dag Heart

 


Köngulær og sætir strákar.....

Picture 203 Sama mynd, fyrir tvo bloggvini, en algjörlega á sitt hvorri forsendunni LoL

Mætti sætum manni í hurðinni hjá tollstjóranum í dag... var að spá í að hnippa í hann og spyrja hvenær hann ætlaði að drekka með mér kaffi..... eða taka mig - allir rólegir, ég heiti ekki Ellý - með sér á fjöll. Lét mér hinsvegar nægja að brosa daðurslega til hans á móti hans brosi og heilsa.....  Wink 

Var að flísaleggja í kvöld, bílskúrinn alveg að verða klár fyrir fúgur Picture 205

Picture 206 Eyfi að ganga frá eftir dagsverkið

Picture 208 Svona leit himininn út á leiðinn heim......

og svona leit hann út í morgun Picture 193 

Picture 198 labbakútur æfir vizkusvipinn. Hann er að verða ansi góður........

Nú er aftur orðið skuggsýnt að kvöldin, það finnst mér alltaf svo notalegt..... þegar húmið skríður yfir og hægt er að kveikja á kertum.....

Góða nótt Heart


Iðnaðarmennirnir......

Picture 180Var að flísaleggja bílskúrinn hjá mömmu og pabba í gær! Eyfi "litli bróðir" mætti á svæðið og lék verkstjórann í leikritinu viðvaningarnir Tounge

Hér er Eyjólfur með sýnikennslu um hvernig "á" að gera þetta!!

Þvílíkt púl! Mesta púlið var þó, að mínu mati, að ná að gera öllum til hæfis..... svona er að búa einn LoL Er agalega fegin í dag að vera svona settleg dama á skrifstofu...... Verkjar í bakið og hendurnar. Það var einhvern veginn alveg sama í hvaða stellingu ég var. Hún endaði alltaf í verkjum....Svakalega er ég fegin að vera hvorki gleðikona né flísalagningarmaður LoL Annars var þetta bara fjör - alltaf gaman að eiga tíma með Eyfa. Studeruðum barnabókmenntir, rasisma og sexisma í þeim og krufum Bob Dylan - Hver skilur um hvað textinn í "Hey mister tamborineman......" fjallar? Það voru tvær, og aðeins tvær, reglur í gangi..... Önnur var að það væri bannað að syngja Eurovision lög á meðan ég setti límið á flísarnar, það þótti of hommalegt fyrir svona macho verk!!   Picture 182

 

 

 

 

 "Verkstjórinn" nærir sig........ mmmmmmm súpan var svo góð - þegar "óbreyttir" komust loks að matarborðinu.....

Picture 184 Meistarakokkurinn mamma og sá sem réði Picture 183"for resten"

Picture 186 Dagsverki lokið.....

Picture 185 "verkstjórinn" með sýnikennslu um þrif...... 

Góður dagur!


Skápasaga.....

Nú haldið þið náttúrulega að þið fáið svæsna samkynhneigða sögu í anda Ellýjar.....

....en það er nú öðru nær!

Í stofunni "heima" stóð alltaf skápur sem pabbi hafði á sínum tíma lagt til í búið. Í skápnum var geymdur kristallinn, silfurborðbúnaðurinn og jólastellið. Í einni skúffunni geymdi mamma svo alla skartgripina sína. Stundum, þegar Eygló kom í heimsókn, skoðuðum við allt sem var í skúffunni og suðuðum í mömmu hvort við mættum eiga þetta eða hitt..... Innan í eina hurðina hefur pabbi skrifað niður símanúmer bróður síns í hvert sinn sem hann flutti, allt fimm stafa tölur! Stundum hugsa ég hvort andar hins liðna muni svara ef ég hringi.....

Mér fannst þessi skápur alltaf fallegur og hafði vit á að hafa öðru hverju orð á því.

Fyrir nokkrum árum skiptu mamma og pabbi um húsnæði. Þau "minnkuðu við sig" fluttu úr húsinu sem þau höfðu búið í síðan 1960 og pabbi byggði.

Eins og gefur að skilja var ekki pláss fyrir allt sem þau áttu í nýja húsnæðinu. Pabbi spurði mig þá hvort ég vildi ekki taka skápinn. Ég var himinlifandi og snögg að þiggja hann.

Nokkru seinna spurði ég pabba hvar hann hefði keypt skápinn. Þá kom í ljós að maðurinn sem byggði og bjó í húsinu sem ég á núna, var húsgagnasmiður og hafði smíðað þennan skáp.Picture 178

Það má því segja að skápurinn sé kominn heim.........

Nú stendur hann í stofunni "heima" og geymir m.a. kristalinn minn sem ég keypti í verksmiðju Iittala á ferð minni um Finnland sl. sumar. 

Mér finnst þessi skápur alltaf fallegur - ekki síst fyrir allar minningarnar sem hann geymir.


Draugar, skokk og ungir drengir

Búin að fara út að hlaupa alla vikuna - nema í dag. Í dag kom ég heim eftir vinnu lagðist upp í rúm og sofnaði.......

Hef hlaupið eins og skrattinn sé á hælunum á mér - það skal tekið fram að ég er ekki mjög hrædd við hann..... Tounge í gegnum skógræktina upp að helli. Rúma fjóra kílómetra. Ég gæti verið komin á Hellu núna.....allavega að Þjórsárbrú LoL

Alla dagana hefur Magga komið með nema í gær, þegar hún sveikst undan merkjum - les. þurfti að vinna!

Sagan segir að í hellinum sé reimt, þar hafi ungur drengur í ástarsorg hengt sig í bláum trefli og sjáist síðan vafra um skóginn í nágrenni hellisins.

Í gær hitti ég þar fjóra unga drengi á hjólum. Spurði þá hvort þeir hefðu séð strákinn með bláa trefilinn. Þeir veltu því fyrir sér smástund hvort ég væri skrýtin, ákváðu svo að taka enga sénsa og kváðu nei við. Spurðu mig síðan hvort hann hefði virkilega hengt sig í hellinum - eins og þeir héldu bókstaflega að ég myndi eftir því......

Ég sagði: já, já, hann gerði það og að ég hefði líka komið þarna í gær að leita að honum og hann hefði heldur ekki verið þar þá..... Þeir brostu voða sætt til mín og einn spurði: En hvernig gat hann hengt sig inni í hellinum? Í hvað gat hann fest trefilinn?

Efahyggjumenn.............

Hef að sjálfsögðu tekið stubbaling með mér alla dagana. Hann er nú ekki par hrifinn af bílnum hennar Möggu! Þykist ekki sjá hann né heyra í mér þegar ég segi honum að koma. Svolítill Lúkas í honum LoL

Knús Heart

 

 


Afmælisbarnið!!!!

 Linda og Auður Erla Linda Dröfn á afmæli í dag!

Linda er elst af frænku og frændahópnum. Þ.e. elsta dóttir, elstu systur minnar..... og nýtur þar af leiðandi svolítillar sérstöðu og mamma hennar bjó þar að auki heima hjá mér þegar hún fæddist. Ég man hvað mér fannst Linda falleg þegar hún var lítil og ég fékk að svæfa hana í vöggunni, söng fyrir hana öll þau lög sem mér þóttu fallegust og fékk endalaust að dúllast með hana.

Mér finnst hún ennþá bera af. Heart

Linda er gáfuð, skemmtileg, fyndin OG falleg - svolítið lík frænku sinni LoL

Linda býr í Danmörku með litlu fjölskyldunni sinni og þegar ég verð stór ætla ég að verða aupair hjá þeim.

Innilega til hamingju með daginn elsku Linda mín.

lovjútúpíses Heart


Snúinn ökkli og heitur pottur

02Magga hringdi í mig í gær! Spurði hvort við ættum að stofna hlaupahóp.... Ég fylltist tortryggni - enda tortryggin að eðlisfari og spurði hvort hún væri búin að ákveða nafn - Systurnar! Sagði Magga. Ég benti henni á að þó ástarlíf mitt væri ekki upp á marga fiska þessa dagana væri ég ekki alveg tilbúin að ganga í klaustur og stakk þess í stað upp á sister slut Tounge Hún var ekki aaaaalveg til í það......

Fórum svo og hlupum í fjörtíu mínútur seinni partinn í gær og allt gekk svona glimrandi vel, alveg01 þar til Magga sparkaði í mig og ég missteig mig hrikalega. Og þegar ég segi hrikalega er það ekki vegna þess að ég sé að fara fram á samúð eða vegna þess að ég sé einhver væluskjóða, heldur vegna þess að það var HRIKALEGT! LoL Og VÍST sparkaðirðu - bara vegna þess að ég var á undan! Ég á sko eftir að segja mömmu.......

Mamma hringdi svo í mig í gærkveldi þegar ég var í miðjum klíðum að hlúa að mínum særða ökkla og bauð mér í heita pottinn. Ég spratt á fætur og hjólaði í einum spreng suð´rúr - Ég meina ég vissi að hún átti líka rauðvín Smile Við sátum svo í heita pottinum og sötruðum rauðvín - að sjálfsögðu, maður þekkir nú sitt heimafólk, og spjölluðum. - Alveg hreint frábær dagur. Ég segi það enn og aftur - ég er ótrúlega heppin með ættingja

Magga hringdi svo hikandi í mig í dag, sjálfsagt minnug ópanna sem endurómuðu um skóginn í gær, svo hátt að stúfurinn faldi sig bak við Birkikvist, og spurði hvort ég treysti mér aftur í dag......

....að sjálfsögðu gerði ég það - við erum í hlaupahóp!

Fórum svo aftur og hlupum enn lengra ef eitthvað er - stubbalingur fékk að koma með aftur, hann er að vísu ekki einlægur aðdáandi þess að sitja í aftasta sætinu og gerði heiðarlega tilraun til þess að þykjast ekki sjá bílinn í dag. En hvað lætur hundur sig ekki hafa til að fá að koma með? Hver veit nema hann rekist á mús......

Knús Heart


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband