Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Sex, drugs and cocoa puffs.......

Ég var að lesa gömul blöð!

Mér var nefnilega sagt að þegar maður eldist þá fari maður að lesa gömul blöð.... en það var nú ekki það sem ég ætlaði að segja ykkur frá heldur hitt að öll þessi blöð eru uppfull af líkamsræktartilboðum fyrir konur. Fyrir nú utan að það er jafn augljóst merki haustsins og réttir að blöðin fyllist af tilboðum frá líkamsræktarstöðum og maður eigi að hætta að slæpast í sólbaði í heita pottinum W00t þá er meira að segja sérstaklega tekið fram að tímarnir séu eingöngu fyrir konur og - takið eftir - engir speglar í salnum.

Ég verð að segja að mér finnst þetta fremur sorglegt. Ég meina, þetta voru gömul blöð en ekki síðan 1956! Ég hef aldrei rekist á auglýsingu frá líkamsræktarstöð þar sem karlmenn eru hvattir til að fjölmenna vegna þess að engir speglar séu til staðar.......

Stelpur! Hvar er sjálfsálitið? Hvar er neistinn?

...en svona þegar ég hugsa málið betur... þá er kannski ekki alvitlaust að hafa enga spegla..... til hvers að sjá sig eins og maður er í ungmennafélagslitnum og andaslitrunum af áreynslu þegar hægt er að hafa svo miklu tígulegri mynd af sér í huganum?

Ást og biti Joyful


Samsæri........

Ég vaknaði í nótt við það að það var nartað í tærnar á mér ekki svo blíðlega......

... það var ekki í framhaldi af rómantísku tónleikunum sem ég fór á um daginn í Stokkseyrarkirkju - þar sem Kristjana Stefáns og Svavar Knútur sungu eins og verur með vængi og þá er ég ekki endilega að tala um flugur........ heldur var það lítill grár kettlingur í banastuði, í þess orðs fyllstu merkingu. Ég brást heldur hrannarlega við og sparkaði honum fram úr um leið og ég lét nokkur orð falla, sem hvorki flokkast undir að vera kristileg né kærleiksrík. Hann lét sér fátt um finnast og stökk beina leið aftur á tærnar á mér.

Ég greip litla Ósómann, lokaði hann frammi í ytri gangi og hugsaði um leið til Fanneyjar sem sagði við mig um leið og hún skaust út um dyrnar þegar hún afhenti mér litla sæta kettlinginn í sumar, að pabbi hans væri skelfilega ljótur villiköttur... að þarna segði faðernið líklega til sín. Mjása litla sko... ekki Fanneyjar.....Enda hef ég ekkert nema gott um pabba hennar að segja Tounge

Ég stökk aftur upp í rúm og sofnaði værum blundi - enda hafði ég verið að taka upp kartöflur fram undir kvöldmat - og uppskeran! Maður lifandi! Ég þarf allavega ekki að líkjast bændum úr Þykkvabænum sem eru allir frekar skældir í framan þegar þeir tala um að uppskeran í ár dugi vart fram að áramótum. Sem aftur leiðir hugann að því.... ætli þeir reikni þá með öllum þeim herskara sem setti niður sínar eigin kartöflur í ár?

Þegar ég svo vaknaði í morgun fullkomlega óhult fyrir villidýraflórunni í dýragarðinum, lágu þeir mjög svo friðsamlega við hliðina á mér báðir, steinsofandi, bræðurnir Beztu skinn.

Ég gizka á að Ljónshjartað hafi opnað fyrir Ósómanum, sem í dag hefur gengið undir dulnefninu Bin Laden Sideways


Örmerktur, ormahreinsaður

Mjásmundur Muggan....og alveg í rusli

Hvað er númerið hjá Páli Magnússyni Danmerkur?

Sem heitir líklega Mogens og býr á Sjálandi.........Ég er nefnilega að horfa á Matador þættina á kvöldin - þeir eru svo miklu betri en þessi dagsskrá sem Páll Magnússon hinn íslenski býður upp á.

Ég fór að spá - nú, þegar ég er búin að horfa á sirka 10 þætti og er komin vel inn í allar persónurnar og allt þeirra líf.... hvað varð um fólkið í Korsbæk eftir Matador? Hvað varð um Agnesi og Lauritz? Ulrik og Regitze? Daniel og Ellen? Af hverju eru ekki gerðir framhaldsþættir um það fólk?

Eina sem ég veit er að Ingeborg Skjern varð yfirmaður lögreglunnar í Kaupmannahöfn W00t

Annars er ég alveg sannfærð um að ég fæddist í vitlausu landi! Beygði aðeins of snemma einhversstaðar... líklega verið að flýta mér! Ég átti að fæðast í Danmörku, heita Lone og spóka mig í sumarkjólum í Aarhus eða Odense.

Mömmusinnardúlludúskur kom heim úr sínum fyrsta túr til sjós í gær. Hann tilkynnti mér að sjaldan hafi honum fundist svona gaman í vinnunni um leið og hann stakk stórri og feitri lúðu í frystirinn. Svo stórri að ég gæti boðið vinum mínum í mat - ef ég ætti einhverja Tounge


In your face

sany0512.jpgÉg skutlaði mér í réttir á laugardaginn.

Þar var margt um manninn og mátti ábyggilega finna - ef vel var að gáð - mútuþægna sveitarstjórnarmenn, þingmenn sem kunna ekki að senda tölvupósta ásamt örfáum öðrum heiðarlegum einstaklingum sem oftast væru þá bændur.... en hver er að spá í það í réttum? Ekki ég enda einstaklega óvönd að virðingu minni og flissa að öllum jafnt Tounge

Ég ætla til dæmis ekki að reyna að lýsa því fyrir ykkur hvað mér fannst fyndið um daginn, þegar hér fyrir utan gluggann stöðvaði stór bíll með miklum búnaði, merktur einhverju hreinsifyrirtæki og stakk stórri slöngu niður í niðurfallið. Leið svo og beið og ekkert skeði og menn fóru að gerast órólegir - örkuðu að næsta niðurfalli og kíktu ofan í það um leið og bunan stóð upp úr því............. Það heitir ef mér skjöplast ekki mjög mikið, að fá það óþvegið.........

sany0506_909873.jpgÉg dekra við gæludýrin og fór með Ljónshjartað og Hrekkjusvínið í extra langan göngutúr í gær. Var svo stálheppin að rekast á Lóló frænku þegar ég var rétt ókomin heim og hún bauð mér í sunnudagskaffi a la amma þannig að ég þurfti ekki að óttast um grömmin mín þann daginn.

Hér liggja bræðurnir Beztu skinn og Hrekkjusvínið er ekki langt undan. Mjásmundur er að verða eitt helsta ljónið í hverfinu - enda með gott bakland! Þau tuska hann til Ljónshjartað og Hrekkjusvínið en þau líða engum öðrum að gera það. Ég stend alltaf með öndina í hálsinum og held að hans seinasta stund sé runnin upp þegar þau eru að "leika" sér. Dúskurinn er hinsvegar alveg slakur og vill meina að þetta heiti leikur í dýraheimum en ég hef þá bent honum á að svona leiki dýrin sér ekki heima hjá Walt Disney.......

Þannig að ef einhver spyr í hvaða ævintýri ég sé - þá er svarið að öllum líkindum Disney Sideways


Fimmtudagar....

....eru að þróast upp í að verða skemmtilegasti dagur vikunnar.

Að vísu erilsamur.... ég vaknaði klukkan sex og fór út með hundana - hefði vaknað hálftíma fyrr ef ég hefði treyst mér í vatnsfimi en sökum þungra veikinda af völdum svínaflensu, sem ég bæ þe vei kenni eingöngu og alfarið systur minni um, þrátt fyrir að hún hlæi léttlyndislega þegar ég reyni að koma inn hjá henni samviskubiti, enda - eins og ég sagði henni í dag - tel ég hana hafa selt sálu sína þeim svarta sjálfum.... en það er nú önnur saga. Ég ítreka hinsvegar enn og aftur og legg áherzlu á að ég er tökubarn..... Halo en ég var sumsé stödd þar að ég stóð úti í skógi - þó ekki í tunglsljósi heldur í dagrenningu og fussaði yfir öllu því fólki sem komið er á fætur svona snemma dags! Veit þetta fólk ekki að það er nótt? Það á að sofa svo við, ég og hundarnir, getum hlaup laus og óbeisluð eins og hverjar aðrar hindir um skóginn. Það er ansi hart, finnst mér, ef maður þarf að axlarbrjóta sig til að fá sitt tilfinningalega svigrúm.........

Talandi um hindir! Hvernig stigbreytist hindarhlaup? Hér er hindarhlaup um hindarhlaup frá hindarhlaupi til hindberjahlaups?

En ég lúskraðist síðan heim aftur með gæludýrin og leyfði þeim að liggja úti og kasta mæðinni á meðan Mjásmundur Muggan kannaði nánasta umhverfi - með áherzlu á nánasta - með allri þeirri fyrirlitningu sem köttum einum er lagið og rúmast í nánasta umhverfi......

Ég hóaði síðan dýragarðinum inn og hóf störf hjá ljúfustu byggingaverktökum hérna megin heiða, skutlaði mér síðan yfir í næstu vinnu og tíminn leið þar eins og örskot.... Áður en ég vissi af var klukkan orðin fimm og ég átti eftir að verzla og baka brauð áður en ég mætti á kóræfingu. Söng síðan eins og heilsan leyfði - og ég get sagt ykkur svona í trúnaði, að það var ekki eins og engill - í tvo tíma og nú er klukkan langt gengin í næsta dag og mér finnst ég nývöknuð!

Læf is gúd after eight Sideways


Dagur daganna...

Ég hélt mig væri að dreyma þegar ég heyrði að drepið var á dyr hjá mér í morgun. Fyrir utan stóðu gamlir sjarmörar frá eldri systur minni í röðum. Það fyrsta sem ég hugsaði var, vitaskuld, að þeir læsu bloggið mitt, væru búnir að yfirgefa sínar ektakvinnur og mættir með hringana. Í dag var nefnilega planaður stóri dagurinn með stóru essi og allt..... Ég sá á mbl.is að Íslendingar eru ekki ginkeyptir fyrir að gifta sig á þessum degi - líklega vegna þess að hann ber upp á miðvikudag. Ég hef hinsvegar sjaldan fylgt fjöldanum - keyri ekki einu sinni Toyota - og er þess vegna slétt sama þótt ég gifti mig á fimmtudegi 101010 Cool

Þessa ræðu, ásamt annarri til vara, hafði ég tilbúna í handraðanum þegar ég hraðaði mér - ómáluð og ógreidd til dyra enda undirlögð af svínaflensu.......

...ég ætla hinsvegar að vera orðin góð á morgun því þá er næsta kóræfing og ég get ekki verið þekkt fyrir að mæta ekki - enda engin ástæða til að leyfa ekki fleirum að njóta þessa afbrigðis flensu á haustdögum. Þeir verða kannski ekki svo glaðir núna en koma til með að hugsa til mín með þakklæti þegar svínaflensan blossar upp að hætti spænsku veikinnar - rétt fyrir jól og kirkjugarðarnir fyllast af ómissandi fólki Tounge

Mömmusinnardúlludúskur er á leið út á sjó! Ég samþykkti það með því skilyrði að hann sendi mér mynd á hverju kvöldi af sér íklæddan björgunarvesti og björgunarhring að koma sér í svefn í björgunarbátnum! Hann benti mér að einu vandkvæðin sem því gætu fylgt væru þau að það væri ekki alltaf gemsasamband úti á sjó W00t

 


Brjálað að gera í sveitinni!

Nei! Ert þú hér? Spurði Bjarni Harðar þegar hann kom upp stigann á nýja vinnustaðnum mínum og ljómaði eins og sól í heiði um leið og hann kyssti mig á kinn. Hann er svo mikið krútt hann Bjarni. Ég flissaði eins og skólastelpa á óræðum aldri þegar hann hélt áfram og sagði að það væri ekki amalegt að eiga kærustu í hverju herbergi í þessu húsi....... enda stórt hús Tounge

Ég var á fyrstu kóræfingu vetrarins í gærkvöldi - frábært að standa í tvo tíma og syngja. Ég uppgötvaði að ég hef virkilega saknað þess - jafnvel þótt dóttir mín hafi strítt mér miskunnarlaust alla leið heim á því að kórstjórinn sagði við mig eftir æfingu að það gæti verið mjög erfitt fyrir aldraða að ná tökum á söngnum í byrjun....... Kemur sér að það er ekki langt á milli staða í sveitinni!

Ég ætla sossum ekkert að þylja upp allt sem henni datt í hug en ég man hún nefndi að það væri svo gott að ég væri í kór - það væri svo mikilvægt fyrir félagslíf aldraðra að hafa þó þetta.

Ég fór líka á opnun sýningar hjá Zordisi í Þorlákshöfn city í gær. Bauð mömmu með mér - sem var mjög hentugt því hún hefur umráð yfir bíl Happy Mamma fann felumynd í einni myndinn hjá Zordisi og nú þurfa allir að fara í Hárnýjung Þorlákscity fá sér klippingu og athuga hvort þeir finni myndina í myndinni. 

Svo eru réttir framundan! Ég stefni á að fara í amk einar. Alltaf gaman að heyra litlu lömbin jarma sáran og sjá þau stökkva í angist um allan almenning í leit að móður sinni - allsendis ómeðvituð um það að þau koma til með að enda sem léttir réttir í nánustu framtíð.........krydduð með salti og pipar hjá sauðsvörtum almúganum.

Svona er lífið á Suðurlandi......


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband