Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Það er alltaf von!

Ég gerði eldri mann hamingjusaman í dag. Bara með því að skrifa fyrir hann disk. Hann sagði, þegar hann kvaddi mig, að hann yrði að fá að kyssa mig á kinnina og vonaði innilega að hann sæi mig aftur.

Þarna liggur minn markhópur - ég veit. Eldri en sextugir og yngri en sex ára. Þetta eru gaurarnir sem elska mig.

....enda hlakka ég ekkert smá til þegar ég verð sjötug og næ mér í einn ungan og sprækan um sextugt Sideways

Annars segi ég eins og lítill frændi minn, sem elskar einmitt pepsi, hundinn minn, köttinn minn og mig - í akkúrat þessari röð..........

.....ég elska báðar mínar vinnur í akkúrat þeirri röð!


Pýþagórasarglundroðakenning.

Ég var að velta því fyrir mér af hverju götunúmer meika allt í einu engan sens fyrir mér. Stórmerkilegt mál, ég veit.... 

...þess vegna ákvað ég líka að deila því með ykkur ;)

Hver getur útskýrt fyrir að mér að götur sem mætast við hringtorg og liggja í austur og vestur, heita sitthvoru nafninu - ok - það þarf ekki að útskýra það fyrir mér. En hvernig í ósköpunum stendur á því að vestan hringtorgs eru oddatölur sunnan megin en austan hringtorgs eru sléttar tölur sunnan megin. Ég lagði í þetta miklar pælingar og útkoman varð akkúrat engin! Nú reynir á að sýna hug og dug í verki. Ég meina jólin nálgast og málið verður að leysast......

Plíííís ekki senda mig í sveit.....Annað sem ég var að velta fyrir mér er bygging sem stendur, tjah.... ekki svo langt upp í sveit og þá er ég ekki að tala um neitt meðal bóndabýli. Tvær hæðir, austur- og suðurálma og kjallari undir öllu saman.

Þessi bygging er hægt en örugglega að grotna niður. Einu ábúendur eru Krummi... og "draugur" sem hangir niður úr þakskegginu á vesturveggnum.

Ótrúleg bygging. Á annarri hæð eru göt í gólfinu niður á fyrstu hæð, hugsanlega ætlað fyrir þá sem væru að flýta sér ;)

En útsýnið var flott þarna uppi!


Þú ert svo glaðleg...

....sagði maðurinn við mig og brosti blítt. Ég horfði smástund tortryggin á hann en mundi fljótlega að ég hafði fengið uppeldi - kemur sér að vera snöggur að hugsa - og þakkaði honum fyrir um leið og ég brosti til baka.

Ég var á fjölmiðlafundi fyrir nýjustu vinnuna mína ;) Áður en þið vitið af verð ég kominn með minn eigin þátt í fjölmiðli. Hann mun heita Ónauðsynlegar upplýsingar - eða Useless information á frummálinu - og fjalla um akkúrat það. Því eins og þið vitið er ég snillingur í að koma algjörlega ónauðsynlegum upplýsingum á framfæri Tounge

Sem minnir mig á það... ég ætlaði að segja ykkur söguna af því þegar ég fór í Fornbókabúð Braga. Heitir hún það ekki? Búðin sem Egill Helga fer alltaf í að hitta skrýtna manninn sem heldur því fram að það eina sem hann hafi tekið eftir þegar hann hitti Marilyn Monroe í lyftu fyrir einhverjum árum, hafi verið nefið. Ég var alveg ákveðin í því að spyrja hann hvort hann væri ákveðinn í að halda sér við þessa sögu, en hann var ekki við.

Ég stóð hins vegar bergnumin í búðinni og horfði á allar bækurnar. Því næst beindi ég sjónum mínum að fólkinu í búðinni og flissaði með sjálfri mér um leið og ég hugsaði að þarna væri hægt að halda árshátíð skrýtna liðsins..... 

Áður en við varð litið var ég búin að týna systur minni, sem þó er eldri og á að hafa verið innrætt frá barnæsku að hafa gætur á mér, og var komin á kaf í bækurnar. Horfnar voru allar hugsanir um undarlegt fólk í búðinni og mér leið eins og ég væri heima hjá mér....

Soldið sorgleg saga finnst ykkur ekki? Endaði með því að ég hóaði þar til ég fannst og sagði að annað hvort færi ég strax út úr þessari búð eða ekki fyrr en Egill Helga birtist næst.......

En eins og alþjóð veit er ég einlægur ekki aðdáandi hans.

En af manninum á fjölmiðlafundinum er það að segja að það var þegar hann sagði mér í annað sinn að honum finndist ég svo glaðleg að ég áttaði mig á því að hann var að tala um outfittið.......

...ég verð að segja að mér létti heldur, enda hef ég ímynd að verja Joyful

 


Bleikur október.

Ég fór í dag og keypti mér gullfallega bleika brjóstnælu. Hún kostar skid og ingenting og ég hvet ykkur öll til að fara og kaupa eina.

Ég sá líka í gærkvöldi að Landsbankinn var baðaður bleikum bjarma - en ég saknaði þessa bleika lits á Ráðhúsinu. Er svo mikill niðurskurður í gangi að ekki sé hægt að smella bleikum perum í kastarana? Ég meina ef það er málið þá er ekkert mál að hræra hvíta málningu út í rauða litinn og sletta aðeins......W00t

Ef ég man rétt þá var kirkjan líka böðuð bleikum bjarma í október 2008 og ég legg til að brúin verði líka bleik í ár.............. Það veitir ekkert af að minna konur á að fara í krabbameinsskoðun. Segir konan sem var dregin í skoðun af mömmu sinni í vor vegna þess að það var svo langt síðan hún þorði síðast..... Ég segi það enn og aftur - mömmur eru þarfaþing Kissing Mín dregur mig líka í flensusprautur, þrátt fyrir að ég þrjózkist við af öllum mætti. Síðast þegar ég fékk almennilega flensu skrifaði ég bók í óráði og þýddi hana yfir á ensku og dönsku.... Stieg Larson hvað..... Að vísu gekk það svo langt að Mömmusinnardúlludúskur kom heim úr vinnu á tveggja tíma fresti til að gefa mér hitastillandi og vatn! Mömmu er hinsvegar slétt sama þótt ég færi rök fyrir því að menningarleg verðmæti glatist með hverri flensusprautu og sýnir einbeittan brotavilja á hverju ári. 

En ég elska hana samt InLove


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband