Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Que sera sera ;)

Síðasti dagur ársins!

Ætlaði að skrifa langa færslu sem hefði komið tárunum fram á ykkur, um hvað allt væri erfitt og ómögulegt. Áttaði mig svo á því að það er ekki minn stíll að græta fólk W00t

Gangið varlega um gleðinnar dyr InLove

 


Outfit

Mig langar að syngja í kór!

Ég hef velt þessu vandlega fyrir mér vegna þess að hér í sveitinni er ekki flanað að hlutunum með flumbrugangi.........

Í "gamla daga" söng ég í barnaskólakórnum og síðar í Stúlknakór Gagnfræðaskólans sem breyttist svo í Unglingakór Gagnfræðaskólans þegar Gunni Palli kokkur bættist í hópinn, ásamt öðrum sem mig minnir að heiti Helgi og hafi sungið sópran ;) 

Það er bara eitt sem heldur aftur af mér varðandi kórsöng og það eru kjólarnir sem konurnar eru alltaf í.... rauðir, bláir - eða það sem er allra verst -  fjólubláir forljótir flónnelkjólar, algjörlega sniðlausir!! Hvað er eiginlega málið með outfittið á konum í kórum? Hvar eru stuttu pilsin og blúndurnar?

Ætli ég verði að fara í karlakórinn? Tounge


Kæru lesendur til sjávar og sveita

Þorláksmessa á sér sérstakan stað í huga mínum.

Þennan dag, fyrir tíu árum, tók ég ákvörðun um að standa með sjálfri mér og losa mig við óþarfa..... mér líður betur með hverjum deginum! Þetta var ekki einföld ákvörðun en þó hlutfallslega einfaldara að hrinda henni í framkvæmd. Það var eins og það að taka ákvörðunina væri erfiðasti hlutinn! 

Í dag óska ég sjálfri mér til hamingju InLove

Sendi ykkur ósk um frið og fögnuð og megi jólin færa ykkur gleði.


Jólin - jólin....

Búin að kaupa allar jólagjafir!

Ákvað að úr því að hvorki mamma né mömmusinnardúlludúskur vilja segja mér hvað þau vilja fá í jólagjöf, þá fær mamma mjukan pakka - kettling sem ég sá auglýstan í Dagskránni að væri tilbúinn fyrir nýtt heimili W00t og mömmusinnardúlludúskur fær ryksugu!

Ójá - þeim hefnist fyrir að vera ekki nógu hugmyndarík! Eru ekki jólin tíminn sem maður nær sér niðr´á fólki? Tounge


Hundur í óskilum!

Ég var að lesa héraðsfréttablöðin.

Þar er mynd af 3ja til fjögurra mánaða gamalli ómerktri tík sem fannst í óskilum í fjörunni milli Eyrarbakka og Þorlákshafnar.

Ferlega verð ég reið þegar ég les svona fréttir!!

Hvernig dettur fólki í hug að vera að fá sér gæludýr og þegar það nennir svo ekki að hugsa um þau að  fara bara með þau eitthvert út í bláinn og "týna" þeim þegar kemur í ljós að það er ekki bara leikur og lukka að eiga gæludýr. Lágmark að láta svæfa þessi grey. Það er ómannúðlegt að skilja þau eftir allslaus á víðavangi!!! Pinch Þetta eru nú einu sinni lifandi dýr!

Og reynið ekki að segja mér einhverja hugljúfa sögu af börnum í Biafra sem hafa þurft að þola stríð  hörmungar og hungur og byrjar á: "En litlu börnin í Afríku sem hafa ekki........." Mér þykir nefnilega ekkert vænt um börn! 


Ég ætlaði að kaupa jólagjafir...

... en Kaupfélagið var fullt af fólki og ég gat ekki hugsað. Fremur en vera með einhvern yfirgang og láta rýma svæðið fór ég á nytjamarkaðinn  - hitti Svönu sem gaf mér brjóstsykur Happy sá og keypti nýtt "öryggisvesti" fyrir Stúf Stubbalings. Hlín hrekkjusvín er nefnilega búin að tæta hitt niður í frumeindir. Nú liggur nýja öryggisvestið á gólfinu og hann lítur ekki við því - og hún ekki heldur.... W00t Ég sem hélt það mundi verða algjört hit! Hugsanlega þarf hann þó bara aðeins að kynnast því - svona svipað og þegar ég kaupi mér ný föt og þau þurfa að vera inni í skáp og kynnast gömlu fötunum áður en ég get tekið þau í notkun..........Tounge

Ég keypti mér líka sófa - minn er nefnilega alveg að syngja sitt síðasta. Ég spurði Svönu hvort strákarnir myndu ekki skutla honum til mín. Hún var ekkert bjartsýn á það en sossum ekkert svartsýn heldur Tounge Ég bað hana þá að skila því til hans litla frænda míns að ef hann skutlaði ekki sófanum til mín þá yrðu jólaboðin í ár fremur þumbaraleg......... allavega hvað hann varðaði. Engin pressa samt!! Jebb - ég veit þetta heitir kúgun á fáguðu máli en ég var nú líka búin að segja ykkur að glæpagenið er allsráðandi í mér..... þannig að á mínu heimili kallast þetta bara nettur þrýstingur Joyful

Það eru sumsé fimm dagar til jóla! Ég er búin að kaupa eina jólagjöf og skrifa jólakortin og senda þau í póst. Ég hef ekki bakað eina einustu smákökusort - enda finnst mér þær ekkert spes góðar....  Ég gæti frekar notað eggin í að kasta þeim í Jón Ásgeir ef hann ætti leið hjá.... - er samt ekkert viss um að ég myndi tima því! Egg eru dýr.

Ég er að velta því fyrir mér hvort ég eigi ekki bara að slá þessu upp í kæruleysi, opna einn bjór og redda jólunum seinna?


Úlpa!

Fór á mótmælin - segir maður svona? Ég ætla að byrja upp á nýtt......

Picture 027Fór og mótmælti fyrir utan Landsbankann, ásamt þó nokkrum slatta fólks, eggjalaus og molotovkokkteilalaus en Stúfur Stubbalings fékk að koma með. Hann sló í gegn - gelti hástöfum á hárréttum stöðum - og steinþagði þess á milli Tounge Spurning hvort ég leigi hann ekki út í næstu mótmæli....

Góðar ræður - sérstaklega hjá konu sem ég vissi ekki hver var fyrr en Bjarni - perla - Harðar kom og kyssti mig á kinnina og gerði hinar stelpurnar grænar af öfund þannig að hann þurfti líka að kyssa þær Happy Hugsanlega hugsar Bjarni þetta þó á hinn veginn að hann græði kossa frá öllum hinum stelpunum líka..... FootinMouth Allavega upplýsti hann okkur um það á milli kossa að konan héti Sigríður Jónsdóttir og væri frá Arnarholti.

Á leiðinni til baka hitti ég svo leynilögreglumanninn á vaktinni. Hann viðurkenndi það fúslega að hafa verið að taka myndir og hripa niður nöfn og kennitölur fólks - sagðist vera að öppdeita fælinn frá því ég kveikti í brúnni á þrettándanum hér um árið. Það hefði vantað tilfinnanlega nýjar myndir! Á mig færðist umsvifalaust heimskulegur sælusvipur þegar ég í nostalgíukasti rifjaði upp þau bernskubrek Joyful Okkur kom saman um það að það væri gott að það styttist í þrettándann. Hann spurði mig svo áður en við kvöddumst hvers vegna ég væri ekki með húfu úr því að ég hóstaði svona. Eða hans óbreyttu orð: "Hvers vegna ertu ekki með húfu bjáninn þinn ef þú ert veik?" Ég benti honum á að hann væri opinber starfsmaður og ætti ekkert með að tala svona við óbreytta borgara og hann skyldi bara passa sig á því að ég notaði ekki á hann leynivopnið mitt og kyssti hann að skilnaði Cool


Þannig var það nú..

Ég er eins og gengur og gerist með fjarskipti mín við ákveðið fyrirtæki. Lengst af hafa þessi samskipti um fjarskipti gengið slysalaust fyrir sig - þar til fyrir cirka einhverjum vikum að netið datt endalaust út og ég þurfti að endurræsa um það bil 10 sinnum á dag - og þá erum við að tala um góða daga!

Ég byrjaði á því að hringja, afskaplega kurteis auðvitað, og athuga hvort eitthvað væri að þeirra megin - því ég hafði ekki breytt neinu í mínum fjarskiptum! Þau fullvissuðu mig um að allt væri með eðlilegum hætti í höfuðborginni!

Áfram gekk fremur brösuglega að halda netsambandi þannig að ég hringdi aftur, ívið ákveðnari í þetta sinn. Þá var mér sagt að kannski væri bara ekki nægur hraði á netinu hjá mér - það gæti sko alveg orsakað allt sem að væri..... Ég spurði þá hvursu mikill hraði væri á nettengingunni og svarið var að "líklega" væri hún 1 Mb. Ég spurði þá stúlkuna náttúrulega hinnar lógísku spurningar hvernig gæti staðið á því þar sem ég borgaði fyrir 4 Mb! 

Svarið var að "það væri bara oft þannig að tengingar úti á landi leyfðu ekki þann hraða.."!! W00t Ég þakkaði fyrir og lagði á! Snéri síðan viðskiptum mínum til Tals og er með þennan líka ógnarhraða á tengingunni! Ég er varla búin að forma það sem ég hugsa þegar það birtist á netinu!  Enda ég meina kommon - það er ekki eins og ég búi í Djúpa Dal Tounge

Að vísu fylgdi sá böggull skammrifi að heimasíminn minn hringir sleitulaust. Ég náttúrulega hringdi í þjónustuverið og spurði manninn á hinum endanum hvernig gæti staðið á því! Hann spurði mig á móti hvort það væri örugglega enginn í símanum! Ég sagði honum að ég ætti einfaldlega ekki svona marga vini...... Tounge og hann lofaði að láta mann í málið umsvifalaust! 

Allt annað líf mar Tounge

 


Mér skrikaði...

..fótur í hálku áðan og húrraði niður tröppurnar hér úti. Virkaði svipað og rennibraut - og þó ekki... Pinch

Nú er ég að drepast í fæti, baki, hendi og puttum, sem ég mátti svosem alveg við - mér hefur aldrei áður verið svona illt í fingrum.....W00t

Mæli ekki með þessari aðferð við neinn - nema hann sé að flýta sér - þá er það í lagi Sideways

Húrraði? Er það dregið af frummálinu - hurry up? Nema í þessu tilfelli  - down Tounge


Réttarstaða aðkomutíkur!!

Var að koma af jólahlaðborði í Hótelinu!

Frábært kvöld. Góður matur, góður félagsskapur - smiðirnir "mínir" taka sko ekki hamarinn með sér á ball. Ég dansaði gjörsamlega af mér fæturnar. Hljómsveitin var undarlega góð miðað við að hún kemur úr Hveragerði........ Tounge En eins og ég hef margoft tekið fram þá hef ég alls enga fordóma í garð Hvergerðinga. Sumir af mínum beztu Hvergerðingum eru vinir. Ójá þessi setning á við ansi víða - allavega í mínu tilfelli - sem er svo önnum kafin að bera af mér fordóma Tounge Ég er búin að hlæja svo mikið í kvöld að mig verkjar í kinnarnar - enda kona alls ekki vön svona fíflagangi.........

Er að velta því fyrir mér hvort það taki því nokkuð að fara að sofa úr því sem komið er FootinMouth 

Ég vakti verðskuldaða athygli í morgun, þegar ég var nöppuð af lögreglunni í óræktinni niður við á með þrjá hunda, dansandi í kringum mig....... Þeir skelltu á mig kastaranum og ég hreinlega heyrði þá hugsa hvað þeim þótti við vera grunsamleg þarna í myrkrinu. Sjálf er ég handviss um að það var aðkomutíkin sem var grunsamlegust. Ég meina hún var með blikkandi jólaljósaól!

Hvursu grunsamlegt er það?? W00t

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband