Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Feng shui

Ég hef pínu verið að stúdera Feng shui og komist að ýmsu. Margt í þessum fræðum er tiltölulega einfalt -  eins og til dæmis að binda fjólubláan klút í vinstra fjarhorn stofunnar til að auka peningastreymi. Öðru hef ég glott hæðnislega að og talið eingöngu til þess fundið að fá konur - því það eru jú oftast konur sem skoða svona fræði - til að þrífa betur í kringum sig......

Tvö meginöfl Feng shui fræðanna er eins og nafnið gefur til kynna Tounge vatn og vindur og ég hef lengi verið svolítið veik fyrir gosbrunnunum sem tengjast fræðunum, enda hafmeyja innst í hjarta mínu. Hef samt aldrei tímt að kaupa mér slíkan gosbrunn enda kosta þeir marga, marga peninga.

Ég fór á námskeið í bænum í vikunni sem leið og á leiðinni heim kom ég við í Glæsibæ og keypti mér krókódílatár - en þar fást þau á tilboðsverði. Nokkuð sem mætti lauma að þeim sem væla mest yfir handtökum útrásarvíkinga þessa dagana........... en það er nú önnur saga. Á leiðinni út aftur gekk ég hjá búð sem heitir Perlukafarinn eða eitthvað slíkt og kíkti inní hana. Stóðst ekki mátið og keypti mér  grjóthnullung sem glitraði þar og skein. Ég er sannfærð um að þetta er óskasteinn Happy

Í morgun stóð ég svo úti á tröppum í sólinni og vökvaði blómin mín og kryddjurtirnar þegar maðurinn sem vinnur á nytjamarkaðnum handan þjóðvegarins kom til mín og bað mig um vatn í könnu. Það var svo sem auðsótt mál enda nóg til af vatninu í mínum krana. Á meðan ég lét vatnið renna smástund til kælingar sagði hann mér að hann hefði fengið inn á markaðinn lítinn gosbrunn með vatnsdælu sem hann langaði að setja af stað. Hann sagðist hafa hugsað til mín þegar hann sá gosbrunninn - hvers vegna veit ég samt ekki - því ég hef aldrei sagt neinum frá því að mig langi í svona græju. Ég skottaðist síðan yfir götuna nokkru síðar og keypti vitaskuld gosbrunninn fyrir ekki svo marga peninga.

Nú er ég stoltur eigandi gosbrunns þar sem óskasteinninn lætur eins og hann sé kominn heim í sína einka steinaskál..... og ekki spillir fyrir að gosbrunnurinn er skreyttur englum InLove


Upp er runninn...

...tími skemmtilega fólksins. Ég var að hugsa um að segja fallega fólksins, því vitaskuld eru tvíburar bæði skemmtilegir og fallegir, ég vildi bara ekki móðga ykkur Tounge

Alveg glettilegt hvað ég þekki marga í tvíburamerkinu! Hver ykkar er tvíburi?

Hvítasunnuhelgin að bresta á og fólk er að missa sig í Bónus. Það er eins og það opni aldrei aftur búð! Jón Ásgeir ætti að eiga fyrir nokkrum afborgunum af húsnæðisláninu sínu eftir þessa helgi W00t

Ég ætla að gera það sem ég geri bezt alla helgina- sem minnst á sem lengstum tíma.....

 


Kyssa mömmu sína bless...

...sagði ég þegar ég skutlaði Mömmusinnardúlludúski um borð í kvöld. Hann sagði - um leið og hann kyssti mig - "en það eru allir sjóararnir að hooooorfa" Ég fullvissaði hann um að þeir kysstu alltaf allir mömmu sína bless Tounge Dúskurinn er kokkur á kútter frá Sandi - eða svona næstum því - og það er ekki laust við að ég glotti við tönn þegar hann er heima og skolar af disknum sínum og setur hann í uppþvottavélina...... Eitthvað sem ég hef beðið hann um í þessi þrjú eða fjögur ár frá því að ég keypti mér það þarfaþing sem uppþvottavél er!! Loksins, loksins skilur hann gildi þess að ganga frá eftir sig.

Sjúkkett að þú ert byrjaður að elda - sagði ég við hann í dag - ég er nefnilega hætt því! Ég byrjaði í nýrri vinnu á mánudaginn og þar kemur eigandinn með mat í hádeginu sem hún eldar sjálf þannig að ég ákvað að hætta að elda nema hafragraut á morgnana Tounge Spurning hvort ég taki að mér helgarvinnu líka..........?

Ég er svo glöð að hafa fengið þessa vinnu - þetta er akkúrat vinna fyrir mig InLove  .....en ég hugsa að ég verði ekki há og grönn þarna, þó veit maður aldrei.... Ég meina Sigurður Einarsson er kominn á lista Interpol. Hver hefði trúað því fyrir nokkrum mánuðum? Og það er ekki svo auðhlaupið af þeim lista! Sjáiði í anda þegar það verður rændur einhversstaðar hraðbanki í framtíðinni og lýsingin á ræningjanum verður: sköllóttur karlmaður, ríflega 114 kíló, ekki svo hár í loftinu og löggan mætir bara heim til Sigga og spyr hvort hann sé enn að ræna banka?

....en svo maður vaði nú í allt annað, þá opnaði ég hurð um daginn og það fyrsta sem ég sá var maðurinn sem ég ætla að giftast - á hnjánum.... ekki þó til að biðja min - sem er kannski ekki svo skrýtið því hann er enn í aðlögun og veit ekki að hann ætlar að kvænast mér Tounge Hitt get ég sagt ykkur að hann leit vel út í þessar stellingu eins og náttúrulega alltaf Halo

Lifið í lukku InLove


Hrönn Sigurðardóttir..

..hefur heyrt því fleygt að jakkaföt séu nú kölluð glæpagallar!


Ég lenti í því um daginn....

.....svona eins og aðrir lenda í framhjáldi á leiðinni heim, að horfa á barnaefni á ruv. Eftir fimm mínútur var ég orðin úttauguð eins og hauslaus hæna á sterum. Þetta var endalaust áreiti, hávaði og gargan!

Muniði í gamla daga þegar "Afi" sagði sögur og spilaði á gítar í barnaefninu, maður gat keypt stöð tvö mánuð og mánuð án þess að velta því fyrir sér hvert væri eignarhald eða hlutur einhverra dólga. Maður gat líka verslað í Bónus ef maður átti leið í bæinn án þess að fyllast samviskubiti. Já krakkar mínir.....those  were the days!!

Með þessu er þó ekki endilega að segja að ég hafi verið hamingjusamari þá en nú, eða að lífið hafi verið eitthvað einfaldara - þvi fer fjarri. Enda hef ég losað mig við ýmsan óþarfa síðan þá Tounge

Ég er annars ótrúlega heppin. Ég mig til og húrraði á milli hæða á laugardaginn - án þess að nota stigann. Endaði þessa för á steyptu kjallaragólfinu - sannfærð um að ég væri annað hvort steindauð eða margbrotin.

Það kom nú reyndar upp úr kafinu í dag að ég er stórbrotin - allavega rifbrotin, ásamt því að vera blá og bólgin á flestum öðrum stöðum..... ;) en ég held að það taki því ekki að væla yfir því. 

Hann var ekkert að fara leynt með vantrú sína læknirinn sem ég hitti í dag þegar hann spurði "Og hvernig fórstu að því að detta á milli hæða?" um leið og hann skoðaði rispur og mar. Enda lít ég út eins og ég sé í afar ofbeldisfullu sambandi. Ég vona samt að mér hafi tekist að sannfæra hann um ég sé eingöngu í ofbeldisfullu sambandi við sjálfa mig Sideways

En ég er ekki frá því að Guð hafi hækkað innistæðu sína hjá mér þennan dag - og ég sem er alltaf að skuldajafna Heart


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband