Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Óskalagaæfing Manna og Mána....

Fimmtudagar eru uppáhalds.....

....ég man ekki hvort ég var búin að segja ykkur það, en ég segi það þá bara aftur. Þeir eru langir strangir og skemmtilegir.

Ég bjó til tvö ný slagorð í vinnunni í dag. 'Masað í mýrinni!' Og 'Hringd´í Hrönn!' Þetta endar með því að ég verð leigð út í slagorðasafnið sem opnað verður á næstunni...... Þar getur fólk komið ef það sárvantar slagorð - gott t.d. fyrir þá sem eru að plana byltingu eða þá sem eru í ríkisstjórn og sárri þörf fyrir ímynd ;)

Fimmtudagar enda svo á kóræfingu. Það er eitthvað sem skeður þegar maður syngur í tvo tíma. Eitthvað ólýsanlegt. 

Annars endar þetta kórævintýri mitt náttúrulega með mitti......eins og raddformaður altsins sagði svo snyrtilega. Hún gefur mér nefnilega alltaf olnbogaskot í síðuna ef henni finnst ég fara yfir strikið í fíflagangi - sem er cirka nokkrum sinnum á hverri æfingu.......... 

Við enduðum síðan æfinguna á óskalaginu mínu - sem ég sting þrjózkulega uppá á hverri æfingu..... jafnvel þótt sama raddformanni finnist óþarfi að vera að hlaupa eftir mínum kenjum þá fékkst það í gegn í þetta sinn.....

....enda ég meina - hver getur staðist mig? Ég er yndisleg Sideways


Bjarndýr í burðarliðnum!

Í tilefni af því að bjarndýr sást á hröðum flótta í Þistilfirði, hvar sem hann nú er... ætla ég að endurbirta pistilinn minn um samsæriskenningar, nánast óbreyttan Tounge

Það er verið að grípa miðaldra einstaklinga, bæði fyrir austan og í Keflavík, fyrir innflutning á eiturlyfjum! Þessir einstaklingar eiga það sameiginlegt fyrir utan innflutning á óþverra að koma frá útlöndum og vera kallaðir burðardýr.

Í framhaldinu hef ég smíðað afar ögrandi samsæriskenningu. Kenninguna hef ég kosið að kalla: Bjarndýr í burðarliðnum!

Þau synda á land, Guðeinnveit hvaðan, geðstirð og full af óþverra, móttökusveitin er löggæslan og á hliðarlínunni bíða helspenntir, fjársterkir einstaklingar tilbúnir til björgunar! Já...... - ég sé það í hendi mér að ef ég held áfram á þessari braut, mun ég eiga yfir höfði mér ákæru vegna meiðyrða!! Þ.e. ef einhver les bloggið mitt ;)

Ég geri þess vegna bara eins og Ragnar Reykás og vend kvæði mínu í kross, nú - þegar - strax og spyr: Hvers vegna eru hin burðardýrin ekki bara hnakkaskotin líka? Ég er alveg viss um að þau eru afar geðstirð sitjandi niðri á strönd........... Sideways

Finnst ykkur að ég ætti að skokka aðeins minna? Minnka súrefnisinntökuna....... Tounge

Ég er nánast viss um að þessi vesalings húnn sem er á skokki þarna fyrir norðan hefur frétt af örlögum hinna bjarndýranna sem reyndu yfirráð hér fyrir nokkrum mánuðum. Spurning hvort það ætti ekki að hengja hræin af þeim upp við landganginn bretum og hollendingum til viðvörunar. Svona svipað og maður gerir með dauðar flugur, þið vitið... maður skilur þær alltaf eftir við opinn gluggann svo hinar flugurnar átti sig á að þetta sé hættusvæði Sideways


mbl.is Ísbjörninn ófundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nostalgía....

Ég gekk út snemma í morgun, í hunda og kattarfylgd. Mætti manni en við lifðum ekki hamingjusöm upp frá því.... allavega ekki saman - hugsanlega þó sitt í hvoru lagi.

En það var nú ekki það sem ég ætlaði að segja frá. Það sem ég ætlaði að segja var að það var svolítill haustfílingur í morgninum - sem er náttúrulega fráleitt. Það er janúar og meira að segja alveg að koma febrúar.... - sem minnir mig á það... er ekki nóg að hafa útborgunardag annan hvern mánuð? Ég meina það er kreppa.  Svona mætti spara alveg böns af peningum. Mér finnst ég ekki gera annað en reikna út laun og borga...... - segir konan og lætur eins og hún þurfi að greiða launin úr eigin vasa Tounge ...en nú er ég aftur komin út í allt aðra sögu.

Svo ég reyni nú að halda mig við morguninn þá keyrði fram úr okkur bíll þegar við vorum að nálgast heimaslóðir aftur, ekkert óeðlilegt í sjálfu sér við það, við búum jú við þjóðveginn, en málið var að það fylgdi bílnum svo mikil vindlalykt..... og á einu augabragði var ég orðin fjögurra ára og stödd með mömmu í Geirabúð. Ég man nú ekki lengur hvort hún hét Geirabúð sjálfsagt ekki en eigandinn hét allavega Geiri og var afskaplega skemmtilegur maður fannst mér. Hann reykti vindla - þetta var á þeim árum þegar mátti reykja vindla... meira að segja inni - og seldi fatnað og aðra vefnaðarvöru. Þið vitið..... rennilásar í haugum, garn í bunkum, efni í ströngum og svo peysur, buxur og sokkar.....

Mamma keypti handa mér bláa peysu með rauðu og hvítu mynstri og alla tíð síðan var þessi peysa kölluð vindlapeysan. Það lagði nefnilega af henni vel lengi mikla vindlalykt.

Ég var strax þarna orðin mjög vangæf á föt, sem sýnir okkur náttúrulega bara að snemma beygist krókurinn og allt það...... en þessi peysa var alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér.

Hvar ætli hún sé núna?


Orð eru óþörf....

...þegar einhver syngur svona fallega InLove


Þögull Þorri heyrir....

Fimmtudagar eru uppáhaldsdagar hjá mér. Þeir byrja á vatnsfimi -  assgoti góðir tímar og ekki spillir félgasskapurinn fyrir - ég meira að segja náði að kría mér út matarboð á morgun í tilefni Þorra og ég borða ekki einu sinni Þorramat! Geri aðrir betur.......Tounge Dagurinn endar síðan á kóræfinu. Já.... ekki slæmir dagar fimmtudagar.

Síminn hringdi hjá mér í gær - sem út af fyrir sig er ekkert óvenjulegt ég er jú afar vinsæl..... í símanum var maður sem spurði hvort hann væri sá sem ég ætlaði að giftast. Menn bíða helspenntir út um allan bæ eftir að ég ljóstri því upp hver sá heppni er W00t Ég sver það......

Maðurinn sem ég ætla að giftast hringdi líka í mig í gær - aðeins minna spenntur, enda hef ég hann grunaðan um að lesa ekki bloggið mitt...... og vita þar af leiðandi ekki af því hvað bíður hans Tounge

Ég sá Pál Óskar syngja lagið um lífið í Kastljósinu í gær. Hann fyllir mig hamingju þessi drengur og ég er ferlega montin af að hafa einu sinni búið með honum. Ég ætla bara rétt að vona að Palli sé jafn montinn af því að hafa búið með mér Joyful


Trúnaðarmál

Ég eldaði grænmetissúpu að hætti Zordisar í hádeginu og bauð mömmu í mat. Svakalega góð súpa og ekki spillti félagsskapurinn Heart

Ég hef af því örlitlar áhyggjur að ég sé að verða svolítið skrýtin. Ég nefnilega vakna á nóttunni með svona fullkláraðar setningar í kollinum sem ég nota svo daginn eftir í mínu nánasta umhverfi. Ég man líka ótrúlegustu frasa en sáralítið af einföldum orðum. Það er sagt að maður eigi að deila kvíðanum ekki satt Tounge Segið mér nú endilega að þetta sé alltaf að koma fyrir ykkur svo ég geti haldið áfram að halda að ég sé normal.......

Maðurinn sem ég ætla að giftast hringdi í mig í dag - ekki þó til að biðja mín, enda hefur hann ekki hugmynd um að hann ætli að kvænast mér. Mamma er búin að bjóðast til að gefa mér meðmæli þannig að þetta getur ekki klikkað. Það yrðu þó líklega einu meðmælin sem ég myndi þiggja - því eins og dyggir lesendur mínir muna þá ráðlagði ég þeim sem síðast vildi gefa mér meðmæli að stinga þeim þar sem sólin aldrei skín......   enda hafði hann notað góðan hálftíma í að útlista fyrir mér hvað ég væri ómöguleg á allan hátt..... Ég meina hver getur tekið þannig meðmæli trúanleg? Miklu nær væri náttúrulega að mamma skrifaði þau - hún er allavega nákvæm og veit líka svo miklu betur hvar kostir mínir liggja.... Tounge Ég hef til dæmis afskaplega gaman af að elda mat og ljúga að litlum börnum þó ekki endilega samtímis. Það er líka mjög eftirsóknarvert að fara með mér í ferðalög - ég er nefnilega uppfull af ónauðsynlegum upplýsingum um hin ýmsustu landsvæði  - svo er ég líka mjög góður aftursætisbílstjóri, við skulum heldur ekki vanmeta þann hæfileika að ég verð aldrei bílveik Happy

Ég held, svei mér þá að ég sé konan sem Ríó Tríó orti um hér forðum.... hvað sagði nú aftur í laginu... "á meðan aðrar eru á útsölu, þú ert að versla í ríkinu"?

Þó var ég bara cirka fimm ára þegar þeir sömdu þetta lag Sideways


Ég fór tiltölulega edrú að sofa

...og vaknaði því algerlega óþunn. Mig dreymdi bleikan himinn og það, gott fólk, þýðir bara eitt. Þetta ár verður mér gott! Enda nýja ártalið óendanlega krúttlegt.

Ég klæddi mig í öll mín útiföt og við Ljónshjartað fórum út að ganga í frostinu. Kötturinn lét sig hverfa eitthvað út í morguninn, sjálfsagt búinn að uppgötva að einhversstaðar í nágrenninu er einhver að gefa fuglaskara....... og tunglið glotti til okkar yfir fjallinu. Ég glotti kuldalega á móti og ákvað, úr því að ég væri svona vel klædd á annað borð, að fara lengri leiðina.

Það eru afar fáir á ferli svona snemma á nýársdag eiginlega bara ég og nokkrir krummar........... Þeir  krunkuðu á staurum og buðu mér hæversklega góðan dag og gleðilegt ár. Ljónshjartað lét eins og hann sæi þá ekki - enda búinn að læra að Krummi er stríðinn.

Nú liggur Ljónshjartað og sefur í sófanum og Kisi steinsefur undir jólatrénu eins og hver önnur guðsgjöf Tounge

Mig langar hinsvegar í gott kaffi og feita rjómatertu og svei mér ef ég læt það ekki bara eftir mér Joyful

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.