Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Impingment og bursur

Ég fór í sónar og myndatöku um daginn.

Allir rólegir - ég er ekki ólétt Tounge

Ég nefnilega stytti mér leið á milli hæða fyrir tæpu ári og hef ekki náð öxlinni góðri síðan. Ég brosti mínu blíðasta á röntgenmyndinni og læknirinn sem tók mig í sónar sagði að ég liti mjög illa út. Ég hef ekki brosað síðan. Enda verið upptekin við að drepast í öxlinni W00t

Í gær sendi ég svo uppáhaldslækninum mínum bréf - eins og ég kýs að kalla þau samskipti okkar sem fara fram í gegnum ímeil - og spurði hann hvort niðurstöður hefðu borist.

Hann svaraði mér um hæl og sagði að það væri þroti í bursunni og mikið impingment við abduction. Ég flissaði daðurslega og skrifaði honum að ég væri sérlega ánægð - bæði með hann og þessa setningu.

Nú get ég - þegar fólk spyr mig hvernig ég sé í öxlinni - í stað þess að svara eins og geðvont gamalmenni að því komi það ekki við, sett mig í stellingar og sagt. Það er þroti í bursunni og mikið impingment við abduction.

Og það bezta er að fólk er engu nær Tounge

 

Þið getið sko aldrei gizkað..

..hvað ég ætla að skrifa um núna!

æskoffí Icesave var það heillin! 

Ég fór vitaskuld og kaus á laugardaginn - ég ætla svo sem ekkert að fjölyrða um það hvað ég kaus - en ég get sagt ykkur að ég var í vinningsliðinu Tounge

Fyrstu viðbrögð breta segja mér að ég hafi kosið rétt. Það er enginn að tala um að Íslendingar ætli ekki að borga þessa skuld. Allavega ekki ég. En fjandinn fjarri mér að ég fari að skrifa undir einhverja ábyrgð á einhverjum upphæðum sem enginn veit hverjar eru. Þeir geta fengið þrotabú Landsbankans og ef það dugir ekki mega þeir laumast í vasa björgólfs thors eftir afganginum. 

Eftir að ég kaus fór ég í bíó og sá einhverja leiðinlegustu mynd síðari tíma. "Kurteist fólk" Ég sver það ef ég væri ekki svona vel upp alin hefði ég gengið út í hléi. ´Það vildi bara þannig til að ég var ekki handhafi bíllyklanna í þessari ferð og sat því áfram en kræst - hvílík leiðindi.

Eftir bíó var mér svo rænt - eins og hverri annarri Soffíu frænku og þá kom sér nú vel að vera eins og hún á fleiri sviðum - enda var mér skilað fljótlega. Fékk samt glimrandi góðan mat og nú er ég að vappast um á höttunum eftir uppskriftinni.

Upplýsi ykkur hugsanlega um hana - ef þið hagið ykkur skikkanlega.

Ég sá á feisbúkk í dag að nokkrar vinkonur mínar voru að díla og víla við þí universe. Ég sá mér því leik á borði úr því að þær væru hvort eð er í samningaumleitunum og lagði inn pöntun um einnar hæðar hús með stóru, rúmgóðu eldhúsi, sólríkri stofu og svona eins og þremur svefnherbergjum. Garðurinn umhverfis húsið má liggja að vatni - sú krafa er þó umsemjanleg. Ó... og svo langar mig í böns af monningum og skemmtilegan mann Tounge

Nú bíð ég bara spennt.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband