27.7.2009
Velferðarþjóðfélagið
Síðustu sex vikur hafa tveir ungir menn, innan við þrítugt, dáið!
Báðir voru fyrrum fíklar. Báðum hafði tekist að losa sig undan fíkninni og staðið sig vel.
Báðir féllu þeir og reyndu strax að komast í meðferð. Báðum var hafnað sökum plássleysis. Hvorugum var bent á nein önnur úrræði og báðir fundust þeir morguninn eftir.
Þá var allt búið hjá þeim. Hins vegar upphefst mikil angist hjá öllum sem koma að þessum ungu mönnum. Hræðilegur tími sem sér ekki fyrir endann á um ókomna framtíð!!
Maður spyr sig hvernig hægt sé að neita fólki sem leitar eftir aðstoð! Hvernig er hægt að segja nei? Af hverju er ekki búið til pláss?
Er þetta það frábæra heilbrigðiskerfi sem Íslendingar gorta sig af? Er þetta eitthvað til að státa sig af?
Það hefur lítið að segja að tala fjálglega um vandann og gera auglýsingar úr kirkjugörðum landsins ef það á að yppta bara öxlum og segja "því miður" þegar til á að taka.
Hvers virði er mannslíf? Hvers virði er barnið ÞITT?
21.7.2009
Gáta
Í tilefni gærdagsins....
....Hverjir stigu fyrstir fæti á tunglið?
16.7.2009
Það er kreppa....
...þannig að mér datt í hug að allur væri varinn góður. Ég er að æfa fyrir Reykjavíkurmaraþon - vildi bara láta ykkur vita í tima svo þið getið farið að safna fyrir áheitum!!
Í húsinu fyrir aftan mig hefur Hvítasunnusöfnuðurinn opnað kaffihús! Svo sem ekkert nema gott um það að segja og þessa góðviðrisdaga sem verið hafa undanfarið eru borð og stólar settir út á stétt og ég fíla mig soldið svona 801.... eða þannig
Ég vildi að kaffihúsið yrði látið heita kaffi Amen en það var ekkert hlustað á það frekar en annað gáfulegt sem út úr mér dettur. Áðan hringdi svo síminn hjá mér og í símanum var maður sem spurði mig hvort þetta væri á kaffihúsinu. Ég blessaði hann í bak og fyrir og þverþrætti fyrir að reka kaffihús. "Nú" sagði maðurinn, "er þetta ekki Austurvegur bla bla? Jú, jú flissaði ég og sagðist alveg geta hellt uppá kaffi ef hann langaði svona rosalega í það!
Hann hafði engan húmor fyrir því
13.7.2009
Pjotr....
Fór út að lötra, eins og ég kalla skemmtiskokkið mitt, í blíðunni! Komst aðeins lengra en síðast á sama tíma - það er bæting sjáðu til Áður en við verður litið verð ég farin að rífast um verðlaun á landsmóti.....
Ljónshjartað kom með mér og fór síðan beint í fótbolta með Mömmusinnardúlludúski og Hrekkjusvíninu. Tungan á honum lafir út á þjóðveg numero uno núna.
Ég fór í hrikalega skemmtilega frænkuhitting í Heiðmörk í gær. Einn frændi slæddist með í hópnum en það var almennt talað um að hann væri óttaleg kjéddling Eníveis við grilluðum, spjölluðum, hlógum, týndum nokkrum börnum - enda ættin að verða of stór hvort eð er. Ferlega góð stund með skemmtilegum stelpum .......og strák!
Eiginlega aldrei hitt þau fyrr en kynntist þeim í gegnum facebook! Segiði svo að það séu bara perrar á face
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.7.2009
A,B,C,D....
Að skipuleggja sig samkvæmt stafrófsröð er flóknara en þið haldið! Ég nota bókasafnkerfið og flokka undirflokkana líka
Hafiði prófað það?
Ég stóð stolt úti í sólinni í dag og pússaði krossviðsplötu sem ég ætla að nota undir pússluspil - já, já - ég er komin í péin.... Búin að arbejde og baka í þessari röð....og komin að prjóna, pússa, pússla en við vorum komin þar í sögu að ég stóð stolt úti í sólinni - ekki tapa þræðinum!
Þá kom Magga færandi hendi með Soda Stream tæki sem hún hafði rekið augun í í höfuðstað allra landsmanna í dag og mundi um leið eftir að litlu systir langaði svo í þannig græju. Ég sagði henni - alveg í essinu mínu um leið og ég útskýrði fyrir henni reglu vikunnar, að ég væri einmitt alveg að komast að essunum - þegar hún spurði: Eru þá errin næst?
Hún er svo dónaleg hún systir mín!! Ég vil að gefnu tilefni taka það fram að ég er tökubarn - enda hefði mér aldrei dottið þetta í hug
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
6.7.2009
Öryggið á oddinn
Ég fór í frábæra konuferð í höfuðstað allra landsmanna á laugardaginn. Við röltum Laugarveginn, kíktum í búðir og vitaskuld verslaði ég mér smáflík
Þegar ég svo á sunnudaginn ætlaði að nota flíkina sem ég keypti mér uppgötvaði ég að það hafði gleymst að taka þjófavörnina af.... Nú er það bara spurning hvað ég geri? Fer ég í Kaupfélagið og þykist alls ekki hafa stolið þessari vöru og bið um að þjófavörnin sé fjarlægð.... eða - nota ég kjólinn með þjófavörninni á og trikka allar varnir í búðum héðan í frá? Hugsið ykkur bara þegar ég fer í nýju flíkinni að versla í Bónus og þjófavörnin vælir í hvert sinn sem ég horfi á laukinn....? - Sko.. vegna þess að hann er staðsettur mjög nálægt útganginum
Ég hef, undanfarna viku verið að "passa" heimsins undarlegasta kött! Hann er réttnefndur Kötturinn sem fer sínar eigin leiðir.... ég kalla hann Mjása en hann heitir eitthvað allt annað......
Hann kemur og fer eins og hann lystir, stekkur út um gluggann á annarri hæð eins og ekkert sé og situr svo sármóðgaður fyrir utan á morgnana þegar ég vakna. Hann kemur meira að segja með þegar Ljónshjartað og Hrekkjusvínið eru viðruð.... Má þó meira kalla það að hann sé í humátt frekar en samferða......
Ég verð þó að viðurkenna það að köttur í glugga hefur alltaf einhvern óútskýrðan sjarma og einn daginn fæ ég mér kött. Ég er staðráðin í því!
2.7.2009
Einstök tilfinning!
Ég toppaði sjálfa mig hvað varðar snilli við matargerð í kvöld.
Þannig var að dagurinn hófst á því að ég loggaði mig á netið og fíflaðist nokkrar mínútur þar áður en ég fór að vinna. Mundi svo allt í einu eftir því að ég hafði fengið mig fullsadda af vinnubrögðum vinnumálastofnunar og hringdi þangað - bara svona til að deila þeirri lífsreynslu með þeim. Það símtal endaði á því að forstöðukona VMST Suðurlandi skellti á mig Ég var svo hvumsa að ég horfði á símtólið í tvær mínútur áður en ég varð reið! En þá varð ég líka reið!
Ég meina hún gerði mistök og höndlar svo ekki að það sé kvartað yfir því? Það væri nær að ég sæi um þessa skrifstofu...... Svo klikkti hún út með því að tilkynna mér með þjósti að það væru átjánþúsund manns á atvinnuleysisskrá - hvort ég gerði mér grein fyrir því? Ég nottla stóðst ekki mátið og benti henni hæðnislega á að þessir átjánþúsund væru ekki allir á hennar könnu.......... og þá var það sem ég upplifði þessa einstöku tilfinningu að láta skella á mig í miðju simtali.
Hringdi um hæl í aðalskrifstofu VMST og bað um yfirmann - nú þegar og ekki seinna en strax! Það var náttúrulega eins og að biðja um að fá eitt viðtalsbil við guð almáttugan þannig að ég fékk netfangið hjá Gissuri, þið munið þeim sem ég ætlaði að dobbla til að borga mér hærri bætur af því að ég hefði aldrei beðið hann um neitt....... Well það er skemmst frá því að segja að ég fórnaði hærri bótum fyrir það að hann hringdi eitt símtal á Selfoss og segði forstöðukonunni að kurteisi kosti ekkert!! Svona er ég nú alltaf að tilbúin að fórna mér fyrir fjöldann......
Allt þetta tilfinningalega uppnám kostaði það að ég varð að elda góðan mat í kvöld. Ég var svo stálheppin að Mömmusinnardúlludúskur var að hjálpa vini sínum að flytja um daginn og uppskar að launum tvö kíló af humri. Ég eldaði cirka helminginn í kvöld og læt uppskriftina, sem ég fann á vefuppskriftir.com, fljóta hér með.
Þetta er svo góður matur að ég grét við hvern bita sem ég tók, vitandi það að það færði mig nær því að klára............
.....en mitt nýja slogan er: Betra er að grenja yfir matnum en vinnumálastofnun!
Hér kemur uppskriftin og mér er nákvæmlega sama þótt ég svitni hvítlauk fram yfir helgi!
Grillaður humar.
1-2 kiló humar klipptur langsum eftir skelinni
hálfur poki fersk steinselja
4-6 hvítlauksgeirar
1 bolli olífuolía
Ómissandi sósa með humrinum
3-4 hvítlauksgeirar
1/2 líter rjómi - ég notaði matreiðslurjóma
1 teningur kjötkraftur
1 pakki gráðostur (blár)
Afgangurinn af steinseljunni
Salt
Evt. smá sletta af hvítvíni - ég sleppti því, enda meira fyrir að drekka bara mitt hvítvín....
Aðferð
Hvítlaukur og steinselja skorin smátt og sett út í olíuna. Humarinn penslaður í sárið (vel) og látinn liggja í skál í cirka 15-20 mínútur. Á meðan er sósan búin til. Hvítlauksgeirarnir eru skorin smátt og svissaðir í olíu á pönnu. Rjóma, gráðosti og kryddi bætt út í og látið malla smá stund og osturinn látinn bráðna vel. Humarinn er grillaður, mikið atriði er að grilla hann bara á skelinni og ekki snúa sárinu niður. Þegar smá froða myndast á fiskinum er hann tilbúinn. Berið fram með sósunni og ristuðu brauði.
Þessa sósu má nota með hvaða fiski sem er og er t.d. góð með grillaðri lúðu og skötusel.
Bon apetit
1.7.2009
Það blundar í mér bóndi
Ég er að ná svo miklum tengslum við mína innri kvenveru þessa dagana. Hún heitir Have Fun - er örugglega af erlendu bergi brotin - og hana langar svo margt......
Okkur langar að búa í sveit þar sem við getum horft á fallegan fjallahring, eiga hunda og ketti, rækta kartöflur, gulrætur og hænur. Langar að stússast í hrossum með öllu sem því fylgir. Elta þau um mýrar og móa og fara í útreiðartúra á kvöldin með lóuna kvakandi í bakgrunni...... Koma þreyttar inn og sofna í nýja rúminu - sem við bæ þe vei eeeeeelskum ;) Mundi sossum ekki slá hendinni á móti fallegum manni ef hann biði þar. Sérstaklega ekki ef hann væri iðnaðarmaður! Þeir eru nebblega svo handlagnir
Ég ætla að hringja í Gissur hjá Vinnumálastofnun og zékka á því hvort hann er ekki til í að hækka aðeins hjá mér bæturnar svo ég hafi efni á sjálfri mér og okkur báðum. Get ekki ímyndað mér að hann neiti mér um það. Ég meina ég hef aldrei beðið hann um neitt áður........
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.6.2009
Jólin jólin......
Mýflugurnar við Ölfusá hafa komist að því að í æðum mínum rennur afar sjaldgæfur ljúffengur blóðflokkur, kominn af Kóngafólki í Evrópu. Stóra Káið í kóngafólki er EKKI stafsetningarvilla!!
Þær ráðast á mig í flokkum og bíta mig eins og þær haldi hreinlega að ég komi aldrei til með að birtast aftur. Ég ætti kannski að hengja dagsettar myndir af mér á hverja grein til að róa þær? Bara svona svo þær sjái að ég er þarna á hverjum degi.....
Ég ætlaði að fara í kvöld og reita arfann úr kartöflubeðinu okkar Lólar, þeirrar síflissandi kjéddlingar, en svo ákvað ég að slá grasið og nenni ekki fleiri garðyrkjustörfum í dag. Ég meina ég hugsaði líka heilmikið um að reita arfann í allan dag - fólk hefur nú þreyst af öðru eins... ha... Lóló? Ég stefni hinsvegar að því að hugsa minna um það á morgun og hugsanlega næ ég þá að koma því í verk ;)
Ég skaust yfir götuna - eins og ég kýs að kalla þjóðveg númer unó, það virkar meira svona úti á landi - ég er alveg viss um að þið sjáið fyrir ykkur moldargötu þar sem rykið þyrlast upp þegar ég hleyp á ofsahraða yfir...... og fékk mér einn kaffibolla með Svandísi. Græddi í kaupbæti koss frá Bjarna Bóksala sem var staddur þar að meta bókasafn sem Nytjamarkaðurinn hafði fengið. Alltaf að græða........
...ég enda eins og hver annar sjálfstæðismaður; Græði á daginn og grilla á kvöldin! Áður en við verður litið verð ég farin að stela bílastæðinu mínu og sníkja mola a la Árni Johnsen
Jii ég hlakka svo til.......
22.6.2009
Pabbarölt og partýpinnar!
Ég hljóp í kvennahlaupinu á laugardaginn. Kom ekki síðust í mark - en heldur ekki fyrst..... Magga hljóp með mér og blés ekki úr nös enda í toppformi þessi kjéddling.
Eftir kvennahlaupið tók við hamslaus undirbúningur frænkupartýs í Reykjavík með tilheyrandi pöbbarölti eða pabbarölti eins og sumir kusu að kalla það Borðuðum góðan mat, drukkum kokkteila og rifjuðum upp sögur úr æsku en þar sem ég er bundin trúnaði get ég ekki haft þær eftir hér - ég get hinsvegar sagt ykkur ég dansaði svo mikið þessa nótt að ég er með blöðrur á tánum......... Vitaskuld var ég í nýju skónum!
Í bænum voru margir furðufuglar. Á Dubliners sáum við sjóræningja það eina sem hann vantaði var kráka á öxlina. Á Nasa dansaði ég lengi við sterku þöglu týpuna.... engin hætta á að lenda á trúnó þar. Hann dansaði samt ágætlega, hugsanlega var hann úr sveit - allavega utan af landi
Við vorum hrikalega fyndnar alla nóttina og ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að bærinn hafi logað í slagsmálum eftir að við vorum farnar heim að sofa. Enda.... hvað áttu allir strákarnir að gera þegar við vorum hættar að segja þeim sögur? Geir Jón vill fá okkur í bæinn um næstu helgi líka...... Samningaviðræður standa yfir en ég verð illa svikin ef ég fæ ekki fálkaorðuna fyrir óeigingjörn störf í þágu friðar.
Ég var í merkilega góðu standi á sunnudaginn miðað við þann svefn sem ég fékk. Ég hef heldur ekki skemmt mér svona vel alveg síðan síðast.
Pís