10.9.2009
Fimmtudagar....
....eru að þróast upp í að verða skemmtilegasti dagur vikunnar.
Að vísu erilsamur.... ég vaknaði klukkan sex og fór út með hundana - hefði vaknað hálftíma fyrr ef ég hefði treyst mér í vatnsfimi en sökum þungra veikinda af völdum svínaflensu, sem ég bæ þe vei kenni eingöngu og alfarið systur minni um, þrátt fyrir að hún hlæi léttlyndislega þegar ég reyni að koma inn hjá henni samviskubiti, enda - eins og ég sagði henni í dag - tel ég hana hafa selt sálu sína þeim svarta sjálfum.... en það er nú önnur saga. Ég ítreka hinsvegar enn og aftur og legg áherzlu á að ég er tökubarn..... en ég var sumsé stödd þar að ég stóð úti í skógi - þó ekki í tunglsljósi heldur í dagrenningu og fussaði yfir öllu því fólki sem komið er á fætur svona snemma dags! Veit þetta fólk ekki að það er nótt? Það á að sofa svo við, ég og hundarnir, getum hlaup laus og óbeisluð eins og hverjar aðrar hindir um skóginn. Það er ansi hart, finnst mér, ef maður þarf að axlarbrjóta sig til að fá sitt tilfinningalega svigrúm.........
Talandi um hindir! Hvernig stigbreytist hindarhlaup? Hér er hindarhlaup um hindarhlaup frá hindarhlaupi til hindberjahlaups?
En ég lúskraðist síðan heim aftur með gæludýrin og leyfði þeim að liggja úti og kasta mæðinni á meðan Mjásmundur Muggan kannaði nánasta umhverfi - með áherzlu á nánasta - með allri þeirri fyrirlitningu sem köttum einum er lagið og rúmast í nánasta umhverfi......
Ég hóaði síðan dýragarðinum inn og hóf störf hjá ljúfustu byggingaverktökum hérna megin heiða, skutlaði mér síðan yfir í næstu vinnu og tíminn leið þar eins og örskot.... Áður en ég vissi af var klukkan orðin fimm og ég átti eftir að verzla og baka brauð áður en ég mætti á kóræfingu. Söng síðan eins og heilsan leyfði - og ég get sagt ykkur svona í trúnaði, að það var ekki eins og engill - í tvo tíma og nú er klukkan langt gengin í næsta dag og mér finnst ég nývöknuð!
Læf is gúd after eight
9.9.2009
Dagur daganna...
Ég hélt mig væri að dreyma þegar ég heyrði að drepið var á dyr hjá mér í morgun. Fyrir utan stóðu gamlir sjarmörar frá eldri systur minni í röðum. Það fyrsta sem ég hugsaði var, vitaskuld, að þeir læsu bloggið mitt, væru búnir að yfirgefa sínar ektakvinnur og mættir með hringana. Í dag var nefnilega planaður stóri dagurinn með stóru essi og allt..... Ég sá á mbl.is að Íslendingar eru ekki ginkeyptir fyrir að gifta sig á þessum degi - líklega vegna þess að hann ber upp á miðvikudag. Ég hef hinsvegar sjaldan fylgt fjöldanum - keyri ekki einu sinni Toyota - og er þess vegna slétt sama þótt ég gifti mig á fimmtudegi 101010
Þessa ræðu, ásamt annarri til vara, hafði ég tilbúna í handraðanum þegar ég hraðaði mér - ómáluð og ógreidd til dyra enda undirlögð af svínaflensu.......
...ég ætla hinsvegar að vera orðin góð á morgun því þá er næsta kóræfing og ég get ekki verið þekkt fyrir að mæta ekki - enda engin ástæða til að leyfa ekki fleirum að njóta þessa afbrigðis flensu á haustdögum. Þeir verða kannski ekki svo glaðir núna en koma til með að hugsa til mín með þakklæti þegar svínaflensan blossar upp að hætti spænsku veikinnar - rétt fyrir jól og kirkjugarðarnir fyllast af ómissandi fólki
Mömmusinnardúlludúskur er á leið út á sjó! Ég samþykkti það með því skilyrði að hann sendi mér mynd á hverju kvöldi af sér íklæddan björgunarvesti og björgunarhring að koma sér í svefn í björgunarbátnum! Hann benti mér að einu vandkvæðin sem því gætu fylgt væru þau að það væri ekki alltaf gemsasamband úti á sjó
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
4.9.2009
Brjálað að gera í sveitinni!
Nei! Ert þú hér? Spurði Bjarni Harðar þegar hann kom upp stigann á nýja vinnustaðnum mínum og ljómaði eins og sól í heiði um leið og hann kyssti mig á kinn. Hann er svo mikið krútt hann Bjarni. Ég flissaði eins og skólastelpa á óræðum aldri þegar hann hélt áfram og sagði að það væri ekki amalegt að eiga kærustu í hverju herbergi í þessu húsi....... enda stórt hús
Ég var á fyrstu kóræfingu vetrarins í gærkvöldi - frábært að standa í tvo tíma og syngja. Ég uppgötvaði að ég hef virkilega saknað þess - jafnvel þótt dóttir mín hafi strítt mér miskunnarlaust alla leið heim á því að kórstjórinn sagði við mig eftir æfingu að það gæti verið mjög erfitt fyrir aldraða að ná tökum á söngnum í byrjun....... Kemur sér að það er ekki langt á milli staða í sveitinni!
Ég ætla sossum ekkert að þylja upp allt sem henni datt í hug en ég man hún nefndi að það væri svo gott að ég væri í kór - það væri svo mikilvægt fyrir félagslíf aldraðra að hafa þó þetta.
Ég fór líka á opnun sýningar hjá Zordisi í Þorlákshöfn city í gær. Bauð mömmu með mér - sem var mjög hentugt því hún hefur umráð yfir bíl Mamma fann felumynd í einni myndinn hjá Zordisi og nú þurfa allir að fara í Hárnýjung Þorlákscity fá sér klippingu og athuga hvort þeir finni myndina í myndinni.
Svo eru réttir framundan! Ég stefni á að fara í amk einar. Alltaf gaman að heyra litlu lömbin jarma sáran og sjá þau stökkva í angist um allan almenning í leit að móður sinni - allsendis ómeðvituð um það að þau koma til með að enda sem léttir réttir í nánustu framtíð.........krydduð með salti og pipar hjá sauðsvörtum almúganum.
Svona er lífið á Suðurlandi......
27.8.2009
Haustið nálgast.....
... með allri sinni litadýrð. Ég fór út með á með Ljónshjartað og litirnir úti í eyju lofa góðu fyrir komandi morgna.
Vatnsfimin hefst eftir nokkra daga og rútínan tekur við. Það er alltaf gott - jafn gott og á vorin þegar henni sleppir og maður getur varla beðið með að sukka með tímann þessa sumarmánuði sem í boði eru.
Ég fór um daginn með Einari í fossaferð upp í Þjórsárdal. Það var skemmtilegt ferð. Við fundum Grennd - sem var mikill kostur fyrir Einar. Skoðuðum Hjálparfoss - virkjanir.... hvað voru þær margar Einar? Einar þrjár? - Tókuð þið eftir því hvað ég gat laumað Einari oft inn þarna?
Fundum líka Háafoss og Granna - þangað hef ég ekki komið áður - allavega ekki svo ég muni....
Komumst síðan, talsvert síðar en við ætluðum okkur, upp að Sigöldufossi. Hann var flottur og það var Einar líka
Jafnvel þótt ég hafi áttað mig á því komin langleiðina að Sigöldu að ég væri á ferð langt uppi á fjöllum með manni sem ég þekki aðeins í gegnum netið Er ekki alltaf verið að vara konur við þannig mönnum? Hann hefði getað varpað mér í lónið og hvenær hefðuð þið farið að hafa áhyggjur? Hvað hefðu liðið margar vikur? Kannski hefði ég ekki fundist fyrr en ég stíflaði rafmagnið!!
Einar fær samt mín meðmæli sem fossafélagi - nokkuð þægilegur, fremur skemmtilegur, hreinlegur og auðveldur í umgengni
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
25.8.2009
Spennan er gífurleg!
Ég er að horfa á rán í beinni! Löggan. blá ljós, sírenur ...
...ég sé að þeir hafa staðsett sig fyrir framan Lóló frænku! Já - hún leynir á sér sú síflissandi kjéddling...... En mér þykir ekkert minna vænt um hana fyrir vikið ;)
Annað hrikalega spennandi gerðist líka í dag - eiginlega meira spennandi!! Ég fékk vinnu á móti vinnunni fyrir ljúfustu iðnaðarmenn hérna megin Alpafjalla
Og enn annað ferlega spennandi gerðist í lífi mínu um daginn - það er með herkjum að maður höndli alla þessa spennu, ég sver það ég er algjörlega á innsoginu hér..... - ég fékk inngöngu í kór! Ég stefni á að verða betri en Eva Cassidy með tímanum!
Segiði svo að hlutirnir séu ekki að gerast á Selfossi í dag! Ódýrasta benzínið og allt.......
23.8.2009
Ekkert 2007
Ég man þegar ég hljóp mína fyrstu 10 km. í Reykjavíkurmaraþoni. Það var árið 2007 og þegar ég kom heim um kvöldið átti ég í vandræðum með að komast upp tröppurnar hér heima vegna þess hve stirð og þreytt ég var.......
Í gær hljóp ég í 3ja sinn 10 km í Reykjavíkurmaraþoni og fór svo í brúðkaup seinni partinn. Athöfnin fór fram í Laugarneskirkju hjá þeim stórkostlega presti Bjarna Karlsyni. Pálmi Gunnarsson söng við undirleik bróður og vinkonu brúðarinnar. Athöfnin var svo falleg að formaður félags kaldlyndra kvenna - þ.e. ég - missti tár af stað niður aðra kinnina.
Veislan sem í hönd fór var einhver sú skemmtilegasta sem ég hef farið í lengi. Enda slógum við systur í gegn með þaulæfðu skemmtiatriði. Gott ef við verðum ekki beðnar að skemmta í brúðkaupum framtíðarinnar......
Ég fyllist hamingju innra með mér þegar ég hugsa til þess hve ánægð og hamingjusöm brúðhjónin voru með daginn
...en það sem ég ætlaði að koma á framfæri var að í nótt þegar ég staulaðist upp tröppurnar heima hjá mér, 20 tímum eftir að ég fór að heiman, var ég miklu minna stirð heldur en árið sem ég hljóp fyrst.
Mæli með því að þið takið þátt í Reykjavíkurmaraþoni. Það er eins og blár Opal. Bætir - hressir - kætir!
Á morgun ætla ég að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í þriðja skipti. Þið megið alveg óska mér góðs gengis!
Menningarnóttin kemur til með að fara að mestu leyti fram hjá mér fyrir utan hlaupið. Ég veit að Birna Dís ætlar að gefa vöfflur hjá "hernum" og hvet alla til að mæta til hennar og knúsa hana smá.
Ég hugsa einna helst að ég dotti ofan í súpuna hjá brúðhjónskrúttunum en það sem ég hef mestar áhyggjur af er að skemmtiatriðin fari eitthvað forgörðum.....
En... eins og áður þá þætti mér vænt um ef þið hétuð á mig í hlaupinu https://www.marathon.is/pages/aheiteinstaklinga?prm_participant_id=41759&prm_action=2&iw_language=is_IS
Í ár ætla ég að hlaupa fyrir SOS barnaþorp. Ég er ekki viðskiptavinur Íslandsbanka og því styrkir hann mig ekki í hlaupinu en þið getið lagt ykkar af mörkum með því að heita á mig......
Engin skylda en mér þætti vænt um það! Vitaskuld kemur mér til að þykja vænt um ykkur áfram þó þið heitið engu á mig - bara aðeins minna.......
Mig langar líka til að vekja athygli á því að Eydís vinkona mín ætlar að hlaupa 21 km og hún hefur kosið að safna áheitum fyrir fimm börn sem misstu föður sinn í síðasta mánuði. Yngsta barnið er aðeins fimm mánaða gamalt. Eydís segir á facebooksíðunni sinni:
"Á laugardaginn ætla ég að hlaupa 21 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Eins og áður gefst hlaupurum kost á að safna áheitum fyrir góðgerðarfélög. Mig langar að gera slíkt hið sama en hef kosið að safna áheitum fyrir Kjartan, Skarphéðinn, Illuga, Hrafntinnu... og Hallgerði Njálsbörn sem misstu föður sinn þann 24. júli sl. Þeir sem vilja leggja þessu málefni lið geta lagt inn á þennan reikning: 0152 26 3199 kt. 2111627249"
Þar gekk góður maður langt fyrir aldur fram og mig langar að hvetja alla til að leggja inn á reikninginn þeirra og aðstoða Eydísi við að styrkja gott málefni.
Having fun - in the run
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.8.2009
Loforð....
Jenný Anna er nokkuð viss um að hún sé með svínaflensu og komi ekki til með að lifa hana af.... Ég var að vorkenna henni og fékk frekar kaldranalegt svar til baka um að hún mundi minnast mín í erfðaskránni! Sem ég er vitaskuld hæstánægð með - ég er alveg viss um að hún á rósótta súkkulaðikönnu sem hún ánafnar mér....
...það hins vegar minnti mig á, þegar ég var lítil, endur fyrir löngu, og var einu sinni sem oftar í heimsókn hjá frænku minni sem bjó í Reykjavík. Hún átti forláta útvarpstæki - þið vitið... svona eldgamalt, stórt með risavöxnum tökkum sem maður snéri fram og til baka til að skipta um stöð. Ég sat í stofunni og dáðist að útvarpstækinu þegar þessi frænka mín kom inn og ég gerði mér lítið fyrir og spurði: "Má ég eiga þetta útvarp þegar þú deyrð?"
Hún kippti sér ekkert upp við þetta - enda eðalfrænka, hló og sagði mér að vitaskuld gæti ég fengið að eiga tækið.
Mér til varnar get ég upplýst það að ég skammast mín ööörlítið núna um leið og ég velti fyrir mér hvar útvarpið sé nú
4.8.2009
Verzlunarmannahelgin...
Ég hef haft það gott um helgina! Farið út að labba með hundana... glott að uppátækjum kattarins, sem heitir því frumlega nafni Grámann Kaktus - kallaður Mjási... Já, já... það var annaðhvort það eða Kisi...... farið út að skokka með Ljónshjartað og borðað og drukkið þess á milli
Mömmusinnardúlludúskur lagði upp á Akureyri á fimmtudagskvöld en var ekki alveg nógu hress með ABBA fílinginn þar og fór til Eyja ásamt fleirum. Hann hefur dvalið þar í góðu yfirlæti og ég vænti þess að spariskyrtan sé vandlega pökkuð, samanbrotin og straujuð ofan í tösku ásamt öllu hinu dótinu sem maður fer ekki með á útihátíðir - því eins og hann sagði: Ég er að fara á Akureyri downtown.... Þau voru svo stálheppin að fá flug til Reykjavíkur í kvöld - en ég veit ekki aaaalveg hvort þau verða í standi til að mæta í vinnu í fyrramálið... hin sko! Vitaskuld verður Dúskurinn mættur á slaginu... eða ég á ekki von á öðru
Það er samt alltaf gott, finnst mér, þegar þessi helgi er liðin stórtíðindalaust.
Næst er það brúðkaup! Sama dag og Reykjavíkurmarþon og Menningarnótt. Ég hef verið vakin og sofin að pússla saman þessum degi, því vitaskuld er ég ekki tilbúin að sleppa neinu. Kona hefur nú komið sér upp hefð á þessum degi sjáðu til....
Þetta er allt að smella hjá mér - ég á bara eftir að útvega mér skræpóttan glyðrulegan kjól og húsnæði til að baka brúpkaupsbrauð eftir maraþon! Kjólinn þarf ég vitaskuld í brúðkaupið því ég get bakað brauð í hvaða sveitta galla sem er.... Svörtu skóna á ég
Spurning hvort ég þarf að skippa sýningunni í Ráðhúsinu þar sem sem jarðskjálftasagan mín verður birt.....? En ég treysti því að þið farið þá þangað og lesið hana fyrir mig
30.7.2009
Úr koti kerlu..
Þegar ég var lítil leið varla sá dagur að ég bað ekki mömmu og pabba að gefa mér kött, hvolp eða folald..... Ég fékk alltaf sama svarið: "Þegar þú ert orðin stór og flutt í eigið húsnæði, máttu fá þér öll þau dýr sem þig langar í...."
.....í gær lét ég drauminn rætast. Ég tók að mér lítinn kettling úr Einholti. Ég fór nefnilega og heimsótti Fanney um daginn og stóðst engan veginn biðjandi augnaráð Bóndans
Ég er ekki enn búin að velja nafn á hann en ég er að máta nokkur......Kannski að ég láti hann bara heita Sörli?
Mömmusinnardúlludúskur segir að hann eigi að heita Ögri vegna þess að honum er slétt sama þótt Hrekkjusvínið og Ljónshjarta spili fótbolta á meðan hann sjálfur sefur í markinu.... en hvernig er hægt að segja að svona Kelurófa sé ögrandi?
Ég undirbjó komuna vel - hann borðar af gullskreyttum hjartalaga diski og Hrekkjusvínið lepur mjólkina hans úr wonnabe kristalskál
Mömmusinnardúlludúskur var að leggja í hann á Halló Akureyri! Ég sagði honum að það giltu mjög strangar reglur varðandi fararleyfið. Hann fór nefnilega í spariskyrtunni sinni og ég sagði honum að fyrsta reglan og sú sem hefði langmest vægi væri sú að ef einhver ætlaði að berja hann þá myndi hann biðja viðkomandi að doka augnablik á meðan hann færi úr skyrtunni! Það væri lykilatriði að skyrtan kæmi heil heim
Elskiði friðinn