7.11.2009
Safnahelgi á Suðurlandi.
Nú stendur yfir safnahelgi í blíðunni og blankalogninu á Suðurlandi.
Margt að ske og mikið að gerast..... Ég hefði verið til í að fara í Vasaljósaheimsókn í Húsið á Eyrabakka - þar sem hugsanlega mætti rekast á forna íbúa. Ég hefði líka verið til í að kíkja á nakta norska konu á Laugarvatni sem ætlaði að kenna Íslendingum að þurrka sér.
Þess í stað fór ég á myndakvöld hjá kórnum, drakk bjór og koníak til skiptis fram eftir nóttu og söng af hjartans lyst öll lög sem ég kann. Ég veit.... hljómar hrikalega lame en var aftur á móti ferlega skemmtilegt. Við Fröken Fíólín fórum á kostum - að eigin mati allavega. Vorum með allskyns brandara á kostnað annarra kórfélaga, gerðum okkar besta til að stofna til illinda á milli sóprans og alts og enduðum á að færa okkur yfir í tenórinn Því betri eru tenórar en kynórar...... nema saman fari eins og perralegar konur sem ég þekki bentu á.
Ég fór hinsvegar á markað á Eyrarbakka í dag. Fékk mér kaffi og vöfflu hjá Önnu á Gónhól - ég var búin að útskýra það nafn fyrir ykkur, réttupphendi sem man....?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.10.2009
Það er alltaf von!
Ég gerði eldri mann hamingjusaman í dag. Bara með því að skrifa fyrir hann disk. Hann sagði, þegar hann kvaddi mig, að hann yrði að fá að kyssa mig á kinnina og vonaði innilega að hann sæi mig aftur.
Þarna liggur minn markhópur - ég veit. Eldri en sextugir og yngri en sex ára. Þetta eru gaurarnir sem elska mig.
....enda hlakka ég ekkert smá til þegar ég verð sjötug og næ mér í einn ungan og sprækan um sextugt
Annars segi ég eins og lítill frændi minn, sem elskar einmitt pepsi, hundinn minn, köttinn minn og mig - í akkúrat þessari röð..........
.....ég elska báðar mínar vinnur í akkúrat þeirri röð!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
29.10.2009
Pýþagórasarglundroðakenning.
Ég var að velta því fyrir mér af hverju götunúmer meika allt í einu engan sens fyrir mér. Stórmerkilegt mál, ég veit....
...þess vegna ákvað ég líka að deila því með ykkur ;)
Hver getur útskýrt fyrir að mér að götur sem mætast við hringtorg og liggja í austur og vestur, heita sitthvoru nafninu - ok - það þarf ekki að útskýra það fyrir mér. En hvernig í ósköpunum stendur á því að vestan hringtorgs eru oddatölur sunnan megin en austan hringtorgs eru sléttar tölur sunnan megin. Ég lagði í þetta miklar pælingar og útkoman varð akkúrat engin! Nú reynir á að sýna hug og dug í verki. Ég meina jólin nálgast og málið verður að leysast......
Annað sem ég var að velta fyrir mér er bygging sem stendur, tjah.... ekki svo langt upp í sveit og þá er ég ekki að tala um neitt meðal bóndabýli. Tvær hæðir, austur- og suðurálma og kjallari undir öllu saman.
Þessi bygging er hægt en örugglega að grotna niður. Einu ábúendur eru Krummi... og "draugur" sem hangir niður úr þakskegginu á vesturveggnum.
Ótrúleg bygging. Á annarri hæð eru göt í gólfinu niður á fyrstu hæð, hugsanlega ætlað fyrir þá sem væru að flýta sér ;)
En útsýnið var flott þarna uppi!
14.10.2009
Þú ert svo glaðleg...
....sagði maðurinn við mig og brosti blítt. Ég horfði smástund tortryggin á hann en mundi fljótlega að ég hafði fengið uppeldi - kemur sér að vera snöggur að hugsa - og þakkaði honum fyrir um leið og ég brosti til baka.
Ég var á fjölmiðlafundi fyrir nýjustu vinnuna mína ;) Áður en þið vitið af verð ég kominn með minn eigin þátt í fjölmiðli. Hann mun heita Ónauðsynlegar upplýsingar - eða Useless information á frummálinu - og fjalla um akkúrat það. Því eins og þið vitið er ég snillingur í að koma algjörlega ónauðsynlegum upplýsingum á framfæri
Sem minnir mig á það... ég ætlaði að segja ykkur söguna af því þegar ég fór í Fornbókabúð Braga. Heitir hún það ekki? Búðin sem Egill Helga fer alltaf í að hitta skrýtna manninn sem heldur því fram að það eina sem hann hafi tekið eftir þegar hann hitti Marilyn Monroe í lyftu fyrir einhverjum árum, hafi verið nefið. Ég var alveg ákveðin í því að spyrja hann hvort hann væri ákveðinn í að halda sér við þessa sögu, en hann var ekki við.
Ég stóð hins vegar bergnumin í búðinni og horfði á allar bækurnar. Því næst beindi ég sjónum mínum að fólkinu í búðinni og flissaði með sjálfri mér um leið og ég hugsaði að þarna væri hægt að halda árshátíð skrýtna liðsins.....
Áður en við varð litið var ég búin að týna systur minni, sem þó er eldri og á að hafa verið innrætt frá barnæsku að hafa gætur á mér, og var komin á kaf í bækurnar. Horfnar voru allar hugsanir um undarlegt fólk í búðinni og mér leið eins og ég væri heima hjá mér....
Soldið sorgleg saga finnst ykkur ekki? Endaði með því að ég hóaði þar til ég fannst og sagði að annað hvort færi ég strax út úr þessari búð eða ekki fyrr en Egill Helga birtist næst.......
En eins og alþjóð veit er ég einlægur ekki aðdáandi hans.
En af manninum á fjölmiðlafundinum er það að segja að það var þegar hann sagði mér í annað sinn að honum finndist ég svo glaðleg að ég áttaði mig á því að hann var að tala um outfittið.......
...ég verð að segja að mér létti heldur, enda hef ég ímynd að verja
2.10.2009
Bleikur október.
Ég fór í dag og keypti mér gullfallega bleika brjóstnælu. Hún kostar skid og ingenting og ég hvet ykkur öll til að fara og kaupa eina.
Ég sá líka í gærkvöldi að Landsbankinn var baðaður bleikum bjarma - en ég saknaði þessa bleika lits á Ráðhúsinu. Er svo mikill niðurskurður í gangi að ekki sé hægt að smella bleikum perum í kastarana? Ég meina ef það er málið þá er ekkert mál að hræra hvíta málningu út í rauða litinn og sletta aðeins......
Ef ég man rétt þá var kirkjan líka böðuð bleikum bjarma í október 2008 og ég legg til að brúin verði líka bleik í ár.............. Það veitir ekkert af að minna konur á að fara í krabbameinsskoðun. Segir konan sem var dregin í skoðun af mömmu sinni í vor vegna þess að það var svo langt síðan hún þorði síðast..... Ég segi það enn og aftur - mömmur eru þarfaþing Mín dregur mig líka í flensusprautur, þrátt fyrir að ég þrjózkist við af öllum mætti. Síðast þegar ég fékk almennilega flensu skrifaði ég bók í óráði og þýddi hana yfir á ensku og dönsku.... Stieg Larson hvað..... Að vísu gekk það svo langt að Mömmusinnardúlludúskur kom heim úr vinnu á tveggja tíma fresti til að gefa mér hitastillandi og vatn! Mömmu er hinsvegar slétt sama þótt ég færi rök fyrir því að menningarleg verðmæti glatist með hverri flensusprautu og sýnir einbeittan brotavilja á hverju ári.
En ég elska hana samt
28.9.2009
Sex, drugs and cocoa puffs.......
Ég var að lesa gömul blöð!
Mér var nefnilega sagt að þegar maður eldist þá fari maður að lesa gömul blöð.... en það var nú ekki það sem ég ætlaði að segja ykkur frá heldur hitt að öll þessi blöð eru uppfull af líkamsræktartilboðum fyrir konur. Fyrir nú utan að það er jafn augljóst merki haustsins og réttir að blöðin fyllist af tilboðum frá líkamsræktarstöðum og maður eigi að hætta að slæpast í sólbaði í heita pottinum þá er meira að segja sérstaklega tekið fram að tímarnir séu eingöngu fyrir konur og - takið eftir - engir speglar í salnum.
Ég verð að segja að mér finnst þetta fremur sorglegt. Ég meina, þetta voru gömul blöð en ekki síðan 1956! Ég hef aldrei rekist á auglýsingu frá líkamsræktarstöð þar sem karlmenn eru hvattir til að fjölmenna vegna þess að engir speglar séu til staðar.......
Stelpur! Hvar er sjálfsálitið? Hvar er neistinn?
...en svona þegar ég hugsa málið betur... þá er kannski ekki alvitlaust að hafa enga spegla..... til hvers að sjá sig eins og maður er í ungmennafélagslitnum og andaslitrunum af áreynslu þegar hægt er að hafa svo miklu tígulegri mynd af sér í huganum?
Ást og biti
23.9.2009
Samsæri........
Ég vaknaði í nótt við það að það var nartað í tærnar á mér ekki svo blíðlega......
... það var ekki í framhaldi af rómantísku tónleikunum sem ég fór á um daginn í Stokkseyrarkirkju - þar sem Kristjana Stefáns og Svavar Knútur sungu eins og verur með vængi og þá er ég ekki endilega að tala um flugur........ heldur var það lítill grár kettlingur í banastuði, í þess orðs fyllstu merkingu. Ég brást heldur hrannarlega við og sparkaði honum fram úr um leið og ég lét nokkur orð falla, sem hvorki flokkast undir að vera kristileg né kærleiksrík. Hann lét sér fátt um finnast og stökk beina leið aftur á tærnar á mér.
Ég greip litla Ósómann, lokaði hann frammi í ytri gangi og hugsaði um leið til Fanneyjar sem sagði við mig um leið og hún skaust út um dyrnar þegar hún afhenti mér litla sæta kettlinginn í sumar, að pabbi hans væri skelfilega ljótur villiköttur... að þarna segði faðernið líklega til sín. Mjása litla sko... ekki Fanneyjar.....Enda hef ég ekkert nema gott um pabba hennar að segja
Ég stökk aftur upp í rúm og sofnaði værum blundi - enda hafði ég verið að taka upp kartöflur fram undir kvöldmat - og uppskeran! Maður lifandi! Ég þarf allavega ekki að líkjast bændum úr Þykkvabænum sem eru allir frekar skældir í framan þegar þeir tala um að uppskeran í ár dugi vart fram að áramótum. Sem aftur leiðir hugann að því.... ætli þeir reikni þá með öllum þeim herskara sem setti niður sínar eigin kartöflur í ár?
Þegar ég svo vaknaði í morgun fullkomlega óhult fyrir villidýraflórunni í dýragarðinum, lágu þeir mjög svo friðsamlega við hliðina á mér báðir, steinsofandi, bræðurnir Beztu skinn.
Ég gizka á að Ljónshjartað hafi opnað fyrir Ósómanum, sem í dag hefur gengið undir dulnefninu Bin Laden
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
17.9.2009
Örmerktur, ormahreinsaður
Sem heitir líklega Mogens og býr á Sjálandi.........Ég er nefnilega að horfa á Matador þættina á kvöldin - þeir eru svo miklu betri en þessi dagsskrá sem Páll Magnússon hinn íslenski býður upp á.
Ég fór að spá - nú, þegar ég er búin að horfa á sirka 10 þætti og er komin vel inn í allar persónurnar og allt þeirra líf.... hvað varð um fólkið í Korsbæk eftir Matador? Hvað varð um Agnesi og Lauritz? Ulrik og Regitze? Daniel og Ellen? Af hverju eru ekki gerðir framhaldsþættir um það fólk?
Eina sem ég veit er að Ingeborg Skjern varð yfirmaður lögreglunnar í Kaupmannahöfn
Annars er ég alveg sannfærð um að ég fæddist í vitlausu landi! Beygði aðeins of snemma einhversstaðar... líklega verið að flýta mér! Ég átti að fæðast í Danmörku, heita Lone og spóka mig í sumarkjólum í Aarhus eða Odense.
Mömmusinnardúlludúskur kom heim úr sínum fyrsta túr til sjós í gær. Hann tilkynnti mér að sjaldan hafi honum fundist svona gaman í vinnunni um leið og hann stakk stórri og feitri lúðu í frystirinn. Svo stórri að ég gæti boðið vinum mínum í mat - ef ég ætti einhverja
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.9.2009
In your face
Ég skutlaði mér í réttir á laugardaginn.
Þar var margt um manninn og mátti ábyggilega finna - ef vel var að gáð - mútuþægna sveitarstjórnarmenn, þingmenn sem kunna ekki að senda tölvupósta ásamt örfáum öðrum heiðarlegum einstaklingum sem oftast væru þá bændur.... en hver er að spá í það í réttum? Ekki ég enda einstaklega óvönd að virðingu minni og flissa að öllum jafnt
Ég ætla til dæmis ekki að reyna að lýsa því fyrir ykkur hvað mér fannst fyndið um daginn, þegar hér fyrir utan gluggann stöðvaði stór bíll með miklum búnaði, merktur einhverju hreinsifyrirtæki og stakk stórri slöngu niður í niðurfallið. Leið svo og beið og ekkert skeði og menn fóru að gerast órólegir - örkuðu að næsta niðurfalli og kíktu ofan í það um leið og bunan stóð upp úr því............. Það heitir ef mér skjöplast ekki mjög mikið, að fá það óþvegið.........
Ég dekra við gæludýrin og fór með Ljónshjartað og Hrekkjusvínið í extra langan göngutúr í gær. Var svo stálheppin að rekast á Lóló frænku þegar ég var rétt ókomin heim og hún bauð mér í sunnudagskaffi a la amma þannig að ég þurfti ekki að óttast um grömmin mín þann daginn.
Hér liggja bræðurnir Beztu skinn og Hrekkjusvínið er ekki langt undan. Mjásmundur er að verða eitt helsta ljónið í hverfinu - enda með gott bakland! Þau tuska hann til Ljónshjartað og Hrekkjusvínið en þau líða engum öðrum að gera það. Ég stend alltaf með öndina í hálsinum og held að hans seinasta stund sé runnin upp þegar þau eru að "leika" sér. Dúskurinn er hinsvegar alveg slakur og vill meina að þetta heiti leikur í dýraheimum en ég hef þá bent honum á að svona leiki dýrin sér ekki heima hjá Walt Disney.......
Þannig að ef einhver spyr í hvaða ævintýri ég sé - þá er svarið að öllum líkindum Disney
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)