17.6.2009
Sólarsamba.......
Fór í morgun og skokkaði stóran hálfhring - .......og til baka með Stúf Stubbalings í broddi fylkingar. Enda ekki seinna vænna að fara að æfa sig ef ég ætla að taka þátt í kvennahlaupinu á laugardaginn - skelþunn. Hef þó þann fyrirvara á þátttöku minni í ár að ef ástandið verður ekki uppá marga fiska þá víkur hollustan fyrir glaumi og gleði. En eins og þið vitið þá er hvorlki heilbrigt né skemmtilegt að skokka..........
Ég sá marga sæta stráka og það sem meira var - þeir sáu mig......... Þeir eru núna heima að blogga um það
Gleðilega þjóðhátíð
Ég bý úti á landi og sumir eru svo frægir að þekkja mig. Þannig að ef þið heyrið fólk tala um að það þekki landsbyggðarfólk þá er það sama fólk að tala um mig!
Ég bý við þjóðveg numero uno. Já ég veit það er skrýtið að þjóðvegur númer eitt liggi út á land
Nú erum við sumsé komin að kjarna málsins. Vegna þess að ég bý við þjóðveg númer eitt OG úti á landi, keyra framhjá húsbílar, fellihýsi og annað fólk með allskyns hala. Það er ekki laust við að ég glápi á húsbílana þegar við Ljónshjartað erum að míga úti í garði. Fólk er nefnilega haldið þeirri undarlegu áráttu að nefna farartækin sín. Ég skil þetta með bátana - það eina sem ég skil ekki hvað þá varðar er að þeir skuli ekki allir heita því bjútífúl nafni HRÖNN......... og talandi um kænur - Ég hef komist að því hvað það þýðir orðtækið að fá babb í bátinn - ég segi ykkur það kannski einhvern tíma ef vel liggur á mér.
... en þegar fólk er að nefna húsbílana sína Loveboat eða Suðurlandsskjálfti þá glotti ég í kampinn. Ég ákvað snemma í vor að skrifa jafnóðum niður nöfnin á þessum farartækjum og efna til samkeppni í haust um frumlegasta nafnið og hallærislegasta nafnið.
Sjálf fer ég hins vegar flestra minna ferða á mínu fjallahjóli sem ég kýs að nefna Trekkinn. Ekki vegna þess að það sé af tegundinni Trek heldur vegna þess að ég hjóla svo hratt að það myndast trekkur bara ef ég horfi á það!
Tók daginn snemma - með morgunkaffi í Félagslundi - eða sko.... byrjaði daginn á því að stela vikri úr hringtorginu. Vantaði smá vikur í vermireitinn og eins og samkvæmt pöntun valt vikurflutningabíll í hringtorginu fyrir nokkrum dögum........ Ótrúlega heppilegt - fyrir mig allavega - kannski ekki svo heppilegt fyrir vikurflutningabílstjórann.....
Fór síðan og fékk mér morgunmat í Félagslundi - það er Fjör í Flóa og mikið um að vera. Skrattaðist um allan Flóann með Möggu systir í sól og blíðu. Skoðaði prjónavörur úr lopa - ekkert smá flott, keypti mér líka þæfða lopavettlinga.... já krakkar mínir, það verður ekki alltaf sól þótt þið standið í þeirri trú núna að ykkur verði aldrei aftur kalt.
Skoðaði nýuppgert eldgamalt eldhús og keypti mér concrete sól.... sem kemur til með að reynast mér jafnvel og vettlingarnir á dimmum vetrarkvöldum þegar ég sekk í þunglyndi og verð búin með allt sem heitir gleðipillur hvaða nafni svo sem þær nefnast. Annars þegar ég hugsa nánar út í það þá er mitt þunglyndi líklega meira birtutengt
Sá uglu! UGLU!! Muniðið þegar ég sagðist geta dáið hamingjusöm þegar ég væri búin að sjá uglu? Well - nú á ég bara eftir að sjá örn Það var ótrúleg sjón að sjá ugluna fljúga yfir veginn...... Ég sagði við Möggu sem var búin að keyra mig um allar trissur og skoða allt frá fjöru að fjalli, að þetta hefði verið hápunktur dagins!
En.....
.....hvernig gat ég vitað að fallegasti maður Íslands væri bókstaflega á næstu grösum? Næsta stopp hjá okkur var nefnilega á bæ þar sem kennd er torfhleðsla og fyrsti maður sem við sáum var.........
Þorvaldur Þorsteinsson! Ég legg ekki meira á ykkur..... Magga spjallaði við hann eins og ekkert væri en ég missti hjartað oní maga og magann oní skó. Hafði þó rænu á að draga upp myndavélina og smella af...... Ég veit það núna sem ég hafði þó sterkan grun um að ég hef ekkert að gera á námskeið hjá honum um skapandi skrif - ég héldi engri einbeitingu. Svo er hann með svo fallega rödd.....
Uglan hvarf algjörlega í skuggann og hef ég þó beðið í 10 ár eftir að sjá hana
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
3.6.2009
Samsæri
Ég hugsaði mér sérdeilis gott til glóðarinnar að vera atvinnulaus hálfan daginn nú þegar sólin er hátt á lofti og fuglarnir syngja 24/7. Raunin er sú að ég geng um, þrjózkan uppmáluð, með "after bite" í annarri, sökum heiftarlegs ofnæmis við mýflugnabiti og geitungastungum og sólarvörn númer 30 í hinni vegna sólarexems......
Ég læt það hinsvegar ekkert á mig fá, fer bara í buxur með svo stórum vösum að hvítabjörn á flótta gæti falið sig í þeim.......
Í dag fór ég á listsýninguna 'Ferjustaður' í skóginum.
Sýningin er sett upp þannig að verkin standa vítt og breytt um skóginn, kort eru "afhent við innganginn" og svo leggur maður land undir fót og finnur listina samkvæmt númerum á kortinu. Eins og gengur og gerist var ég mishrifin af því sem fyrir augu bar og sum staðar bjó ég til mína eigin sögu um verkið bara svona til að það meikaði sens............
Að öðrum verkum ólöstuðum fannst mér bezt verk sem kallast Kíkir og er eftir Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur. Sjónaukanum er beint yfir ána að Selfossi en þegar maður kíkir í hann sér maður ekki byggðina heldur allt, allt annað......... Sérdeilis óvænt og skemmtilegt.
Ég öslaði þarna um göngustíga og mýri, stundum göngustíga í mýri...... óð yfir læki og flækti mig í kóngurlóarvefjum í rúma tvo tíma og fann öll verkin nema eitt sem ég veit að er staðsett svo langt úti í mýri að aðeins fuglinn fljúgandi kemst að því. Allavega var ég ekki skóuð í það verkefni í dag og ekki með nesti heldur...... Sum verkin eru svo vel falin að tuttugu börn gætu hlaupið um heilan dag án þess að finna þau.
Mæli með þessu, skemmtilegur ratleikur í gegnum skóginn með listaverk í fundarlaun.
Ég sé það svo núna, þegar ég er að skoða kortið nánar að Björgunarfélag Árborgar fær meðal annarra kærar (fyrirfram)? þakkir og það rennur upp fyrir mér ljós. Plottið var náttúrulega að búa til gildrur í skóginum og fækka fólki á atvinnuleysisskrá og hugsanlega kennurum líka - sem eru jú, eins og alþjóð veit komnir í sumarfrí en láta ófriðlega og vilja launahækkanir.
30.5.2009
Björn Bjarnason
Eins og auðmjúkir aðdáendur mínir vita veit ég ekki muninn á hægri og vinstri og þess vegna er ég að spá í að fá mér bol með stórum stöfum sem segja: EKKI SPYRJA MIG TIL VEGAR! ÉG BULLA BARA!! Gæti haft það á frummálinu líka...........
Þannig er að þegar ég er úti að ganga með Ljónshjartað virðist ég vera svo meinleysisleg að margir velja að spyrja mig til vegar. Nú siðast í morgun stoppaði mig kona í bíl, skrúfaði niður rúðuna hjá sér og spurði hvort ég vissi um einhverja bókabúð á Selfossi. Ég slapp að vísu dulítið billega þar því vitaskuld vísaði ég henni á Bjarna bóksala sem er þannig staðsettur að auðvelt er að vísa fólki þangað. Ég einfaldlega sagði henni að hún finndi fína bókabúð í húsinu á milli pósthússins og Hróa Hattar.... sko hérna megin við veginn..... merkta Sunnlenska bókakaffið. Eina sem hún þyrfti að vara sig á væri að tala ekki um ESB.
Ég veit hins vegar ekki hvað þau hugsuðu fólkið sem stöðvaði mig einu sinni og spurði mig um ákveðna götu hér í bæ. Ég var frekar fullviss um leið og ég leiðbeindi þeim með að keyra til baka niður að ljósunum - það eru sko bara ein umferðarljós í minni sveit.... - beygja þar til hægri, keyra út í enda og beygja aftur til hægri.
Það var ekki fyrr en daginn eftir sem ég áttaði mig á því að ég hafði leiðbeint þeim að keyra í stóran hring með engri viðkomu nálægt þeirri götu sem þau leituðu að......
Ég er aftur á móti með allar áttir á hreinu en get ekki, sóma míns vegna, verið að segja fólki til vegar með því að segja þeim að beygja í vestur og síðan í suður..... eða hvað?
Ég meina það eru ekki allir jafn vel áttaðir.......
29.5.2009
Til hamingju með daginn..
...sagði ég við fyrrum vinnufélaga minn þegar ég hitti hann úti í bakaríi hjá Guðna í okkar venjubundna föstudagskaffi. Við höldum nefnilega þeim ágæta sið að hittast í kaffi og slúðra um menn og málefni ásamt því að flissa góðlátlega að heimsku náungans
Í dag viðrar þó ekki jafnvel til jarðskjálfta og fyrir ári síðan en ég er þó búin að stinga niður kartöflunum - svona just in case......... Kryddjurtirnar lifa sæmdarlífi og bíða helspenntar hvort þær endi villtar í garðinum eins og systur þeirra í fyrra. Tómatplantan sem mér áskotnaðist um daginn er hinsvegar í gjörgæslu í eldhúsglugganum þar sem ég gleymdi henni úti hjá jarðarberjunum sem mér voru líka gefin um daginn. Hún er nú öll að koma til, sýnist mér.....
Maðurinn í næsta húsi hringdi í mig, rétt í þessu, og spurði hvort það væri í lagi að hann sagaði niður greinarnar af grenitrjánum í garðinum hjá mér - sem mig vantaði einmitt að losna við. Ég var búin að plana að setja gróðurhús þar og var svona að veltast með það með sjálfri mér hvernig ég færi að því að saga niður þessar greinar og koma þeim burt.
Mömmusinnardúlludúskur er komin með vinnu hjá sveitarfélaginu - allavega í sumar. Svona hafa nú hlutirnir lag á að leysast
Eina sem mig vantar er góð pikkuplína! Enívonn?
26.5.2009
Ég er andvaka.........
...klukkan er 02:51 og allt er í lagi....... Allavega á yfirborðinu og það er nú það sem skiptir máli ekki satt? Fronturinn? Ég hef verið að spá, svona lauslega, í atferli Íslendinga í kreppunni. Fyrstu dagana hættu allir að versla - allavega á vinnutíma... maður sá varla kjaft á ferðinni nema hann væri fölur og fár á leið í vinnu. Það var talað fjálglega um samstöðu og hvað það væri nauðsynlegt að huga að náunganum. Svo jafnaði fólk sig og nú streymir það á öllum tímum í búðina eins og engin sé kreppan. Það sást varla fólkið sem hvíldi snjósleðana sína, fjórhjólin og torfæruhjólin aftan í stóru jeppunum á leið til fjalla. Nú brunar það hjá eins og ekkert hafi í skorist...... Fólk lætur almennt eins og hér sé allt í himnalagi. Þessi kreppa kemur hvort eð er ekkert við það.... bara einhvern annan... eða hvað? Er það kannski líka bara frontur? Ég veit það ekki - enda hef ég enga lausn á ástandinu og haga mér bara eins og hver annar Íslendingur, sem ég líka er. Eini munurinn á mér og hinum er sá að ég á ekki fjórhjól sem eru þó stórskemmtileg tæki og líkast til ætti ég eitt slíkt ef ég hefði efni á því.....
Ég lit út um gluggann og það litla rökkur sem brast á í kvöld hefur hopað fyrir birtunni......... þó er ekki bjart úti.
Örfáir bílar og einn og einn vöruflutningabíll keyra hjá. Þeir eru annaðhvort á leiðinni heim eða heiman, það liggur alveg í augum úti.
Mávarnir, sem skiptu um vakt við Krumma snemma í vor, una hag sínum vel úti á Bónusplani. Það er líklega matartími hjá þeim núna.
Ég hef ákveðið að nýta tímann, úr því að ég er vakandi hvort eð er, til að hafa áhyggjur. Þetta er ekki verri tími en hver annar til þess.
26.5.2009
Björn Bjarnason.....
Ég viðraði þá hugmynd mína gætilega við dóttur mína í dag, þar sem við gengum með Stúf Stubbalings sem lék við hverja kló, að ég hugsanlega hefði örlitlar áhyggjur af því að hann væri rasisti dýraríkisins. Ég hefði nefnilega tekið eftir því á ferðum okkar innanlands að hann vill hjóla í alla svarta labradora einkum og sér í lagi ef þeir væru ekki hreinræktaðir.....
Hún tók andköf og benti á að hann ætti hugsanlega sjálfur ættir að rekja til svartra labradora verandi af tegundinni Golden Farmer
Hann hagar sér til dæmis afskaplega settlega þegar hann hittir Heklu hennar Fanneyjar..... enda er Hekla heimbókarfærði í HRFÍ sem Golden Retriever af eðalættum.
Þetta þarf samt ekki að koma svo mikið á óvart ég kannast við fólk sem er erkirasistar og býr jafnvel í upprunalandi rasins............
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.5.2009
Vor í Árborg!
Ég sver það ég hef innbyrt svo mikla menningu síðastliðna daga að ég man ekki lengur kennitöluna mína.
Í gær hitti ég Zordísi nýstúdent! Hún kom frá Spáni til að útskrifast og hafði með sér "nokkrar" flísar.... mína meðal annarra fallegra flísa. Ég hafði á orði þegar við vorum að drösla töskunni með öllum flísunum inn í Kaffi Krús að það væri eins gott að löggan bæði okkur ekki um söluleyfi.... eina leyfið sem við hefðum væri ".....to kill....."
Rauk svo heim, eftir góðan kaffihúsahitting með stelpunum, til að undirbúa mig undir sýninguna í Húsinu á Eyrarbakka um Stóra Skjálftann. Á meðan ég var að undirbúa mig fyrir sýninguna (les. skipta um skó og varalita mig....) var ég að velta því fyrir mér hver yrði fengin til að leika mig þegar myndin yrði gerð.... Fann síðan hvergi brotið úr minni sögu á sýningunni og var gráti nær þegar ég gaf mig fram við konuna sem á heiðurinn af að setja upp og safna saman öllum sögunum. Hún sýndi mér hvar mín saga var staðsett og gaf mér kaffi og konfekt Alltaf gott að þekkja góðar konur....
Endaði síðan daginn á að fara á franskt söngvakvöld í Sunnlenska bókakaffinu hjá Bjarna Harðar og Elínu þar sem Hlín Pétursdóttir dillaði mér í ró með frönskum ástar- og harmsöngvum við harmonikkuundirspil Vadíms Federovs.
Í dag fór ég síðan á einhvern verst heppnaða mótmælafund Íslandssögunnar! Hverjum dettur í hug, með fullri virðingu fyrir öllu því lýðræði sem fólk getur í sig látið, að fá Bubba til að spila á mótmælafundi? Hann seldi útgáfuréttinn að lögunum sínum til ónefnds tryggingarfélags, til þess að hann gæti gamblað með hlutafé og orðið ríkari en hann var. Sem mín vegna er allt í lagi, mér finnst bara að hann ætti að hafa vit á að halda sig svolítið til hlés í smátíma núna og vera ekki að láta gamminn geysa um fólk sem hafi selt sálu sína........... Kræst vott a veist off tæm sem þessi mótmælafundur var!!!!
Ég er hinsvegar enn að velta því fyrir mér hver verður fengin til þess að leika mig í myndinni um Stóra Skjálftann? Ég mundi skjóta á Marylin Monroe ef hún væri ekki svona líflaus eitthvað þessa dagana......
20.5.2009
Þank god it´s frídagur!
Ég er að farast úr harðsperrum eftir Esjugöngu! Samt borðaði ég banana og hamaðist í sundleikfimi.... Ég get sagt ykkur það svona í trúnaði, ef þið látið það ekki fara lengra, að ég var svo þreytt í morgun að ég steinsvaf yfir mig.. Það hefur ekki skeð síðan..... tjah..... á síðustu öld? Allavega vegna þess að ég er svona.... hvað á ég að segja..... stirð....? þá einbeitti ég mér að því sem ég þarf bara að hugsa um í dag Það er svo einfalt að hugsa. Ég fór að pæla í Feng Shui! Eru þetta fræði fundin upp af karlmönnum til að fá konur til að þrífa betur eldhús og baðherbergi, eða eru þetta vísindaleg sannindi?
Ég hallast að hinu fyrrnefnda. Ég er með project í gangi. Dávnlódaði gögnum sem ég er að pæla mig í gegnum og allt......... Hugsanlega læt ég ykkur vita að hvaða niðurstöðu ég kemst... hugsanlega rukka ég ykkur fyrir þær upplýsingar
Á morgun er uppstigningardagur. Rauður dagur á almanaki. Það þýðir að ég fæ engar bætur fyrir að vera atvinnulaus þann dag og þar sem ég er algjörlega uppfull af mótþróaþrjózkuröskun allavega gagnvart vinnumálastofnun ákvað ég að vinna frítt fyrir þá ljúflinga sem ég vinn hjá og rukka þá ekki fyrir vikið Vinnumálastofnun tekur mig sko ekki í r.......ð heldur algjörlega omvent!!
Á morgun er líka vor í Árborg með tilheyrandi menningarviðburðum sem verða opnir alla helgina. Í fyrramálið opnar ljósmyndasýning hér handan götunnar sem ég ætla sko ekki að láta mig vanta á - enda menningarviti með afbrigðum... Á föstudaginn er mér síðan boðið á opnun skjálftasýningarinnar í Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka, sem heitir: Hvar varst þú kl. 15:45 þann 29. maí 2008!
Ég sendi inn mína sögu byggða á bloggfærslum þessara daga - þið munið vonandi eftir þeim, nóg gátuð þið flissað að þeim....... - og var í kjölfarið spurð hvort ég hefði einhverjar athugasemdir við að brot af sögu minni yrði birt á sýningunni hún væri krassandi, skemmtileg og smellin.....
Æ am abát tú bí fræg og falleg