Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Operation hotfield!

Þeir smíðuðu fyrir mig vermireitinn í dag - drengirnir. Þeir vita sem er að þegar ég er búin að biðja þrisvar sinnum um að hlutirnir séu gerðir þá er vissara að fara að haska sér í þá!

sany0295.jpgÍ ausandi rigningu stóðu þeir úti, Mömmusinnardúlludúskur og Fyrrum starfsmaður Húsasmiðjunnar og dunduðu sér við að saga og skrúfa. Á meðan dundaði ég mér inni við við að líma saman gamlan stól sem ég klófesti á nytjamarkaðnum!

Hann kom að mér fyrrum starfsmaður Húsasmiðjunnar þar sem ég mundaði límið og varð að orði að ég skyldi fara varlega með þetta lím - það freyddi nefnilega! Ég horfði ströng á hann á móti og spurði hvort það væru ekki einhverjar spýtur úti í garði merktar honum? Enda hafði ég aldrei heyrt um að lím freyddi. Ég þekki vín sem freyða - en ekki lím. Það er að segja - ekki fyrr en nú......

Ég gaf þeim síðan að borða í staðinn fyrir smíðavinnuna og þeir fóru sáttir út í rigninguna með Hlín Hrekkjusvín í farabroddi.

Við Stúfur Stubbalings fundum okkur hins vegar hjólbörur og skemmtilegan félagsskap og fórum í hesthúsahverfið að rupla hrossaskít. Ég mokaði síðan mold yfir hrossaskítinn í vermireitnum og á morgun stefni ég á að umplanta og sá gulrótarfræjum ásamt því að plokka umframfreyðilím af stólnum sem ég ætla mér að sitja í sumarkvöldin löng og prjóna.... þ.e. ef Hlín Hrekkjusvín verður ekki búin að eigna sér hann! Ef þið eruð heppin og myndin prentast vel má sjá æskumynd af mér í skápnum sem pabbi gaf mér! Ég hef eiginlega ekkert breyst.........

Í sumar stefni ég að bjóða ég svo upp á lífrænt ræktað spínat og gulrætur ásamt blómkáli og brokkolí, hugsanlega kartöflum með sméri líka, í vinnustaðagrillpartýinu og kem til með að slá algjörlega í gegn Tounge Gott ef ég fæ ekki launahækkun út á það.........

Hver vill ekki vera eins og Stjáni Blái?

 


Sjæks!

Ég er búin að vera svo dugleg í dag!

Ég fór út að skokka í rigningunni í morgun - sem var ívið meiri en ég reiknaði með. Kom heim frekar blaut en þó sátt. Eitthvað það besta sem ég veit er að skokka í svona rigningu. Algjörlega einstök tilfinning Happy

Fór svo út í garð og roðfletti flötina þar sem ég ætla að  setja vermireitinn - hringsólaði síðan nokkra hringi í hesthúsahverfinu, bæði til að athuga hvort ég sæi nokkra sæta hestamenn og eins til að reyna að sigta út hvar ég gæti stolið mér hrossaskít Tounge Hvorugt tókst - hugsanlega erum við að tala þarna um mission impossible? Ég ætla samt ekkert að gefast upp......... Því eins og maðurinn sagði: Það hlýtur að hlýna..... Þá hlýt ég að finna annaðhvort.

"Stal" rabbarabaranum frá Hvítasunnusöfnuðinum og túlípönununum þeirra líka og gróðursetti í mínum hluta garðsins - á sunnudegi takið eftir...... Flokkast kannski undir að vera fremur ósvífið?  Sumsé búin að moka mold fram og til baka hálfan daginn enda var ég svo þreytt þegar ég kom inn að ég sofnaði - eins og hvert annað ungabarn! Hún er ekkert að íþyngja mér samviskan Halo

Fór á tónleika með karlakór hreppamanna og Agli Ólafs í gær. Ferlega gaman. Ég flissaði hástöfum þegar einn meðlimur kórsins kynnti næsta lag sem hann sagðist hafa samið textann við  fyrir 25 árum síðan þegar hann hitti konuna sína í fyrsta sinn. Sagan svo sem alveg nógu rómantísk en lagið heitir: Frísað við stall Tounge


Ég var einhvern tíma búin að lofa..

.. að skrifa rófupistil! Þó ekki rassgatarófupistil - enda er ég ekki þannig kona!

Fræ er hægt að kaupa víða. Þau fást til dæmis í flestum blómabúðum. Í Blómavali er fínt úrval af fræjum - eða var allavega þegar ég keypti mín.....

Ég keypti mér líka sáðmold og sáðbakka - vegna þess að á Íslandi er gott að forsá inni þeim plöntum sem það þola - sem eru nánast allar tegundir fyrir utan gulrætur - ég forsáði þeim samt inni líka, allavega hluta af fræjunum, það nær þá ekki lengra ef þær koma ekki upp þegar ég umplanta.

Ég skipti sáðbakkanum í fernt með tómri mjólkurfernu sem ég klippti niður og stráði fræjunum í moldina, setti svo smá mold yfir aftur og klappaði þeim lauslega. Siðan hef ég farið daglega niður í þvottahús - þar sem fræin mín dafna svona líka vel - og vökvað þau og snúið bakkanum því spírurnar leita í sólina.

Í byrjun maí er hægt að sá gulrótar- og gulrófufræjum í beð úti. Best er að gera það eins snemma og kostur er. Það er ágætt að miða við að Birkitrén séu að byrja að laufgast. Ég ætla að smíða mér vermireit og sá matjurtunum þar. Mér var kennt alveg nýtt trix með gulrótarfræin sem ég reikna með að dugi á gulrófufræ líka en það er að hella fræjunum í skál, setja vatn yfir og leyfa þeim að opnast áður en þau eru sett út í beðin. Fræin eru u.þ.b. viku að opnast í vatninu. Mér er sagt að þetta flýti mikið fyrir vexti þeirra. Það er hægt að forsá gulrófufræjum inni - taka svo plönturnar og færa þær út í beðin. Æskilegt bil á milli plantnanna er 40-45 sm. Gott er að setja plast eða gróðurdúk yfir beðin eða vermireitinn - þ.e. ef þið ætlið að smíða ykkur þannig líka ;)

Bezt er náttúrulega að eiga gróðurhús. Þau fást fyrir engan ofsapening í Húsasmiðjunni og ég ætla að reisa eitt slíkt í garðinum - fyrr en síðar.

Í nánast öll skiptin í þessum pistli má skipta orðunum "ég ætla" út fyrir "mömmusinnardúlludúskur ætlar"

Þessi pistill var í boði Húsasmiðjunnar og Blómavals Tounge


Blöðrur í höndum og mold í skóm!

Ég er algjörlega búin á því! Mokaði mold í gær eins og hver annar albinói og plægði kartöfluakur í dag - ekki þó með hugaraflinu heldur Lóló frænku þeirri síflissandi kerlingu InLove fann engan gaffal sko......... Tounge

Nú eru beðin tilbúin fyrir kartöfluútsæðið sem við stefnum á að setja niður áður en ár er liðið frá stóra skjálfta!

Keypti mér líka garn í peysu! Ekki rautt - heldur ekki appelsínugult. Nú verður tekinn upp alveg nýr stíll hér í sveitinni. Viljiði gizka hvaða lit ég valdi?

Ætla að henda mér undir rúm með verkjatöflur í stafrófsröð því í fyrramálið er vatnsfimi hjá Betu og vei þeim sem kemur þreyttur þangað! Ég er líka að glugga þar í bók sem heitir Hnífur Abrahams og lofar bara nokkuð góðu......... Hugsanlega næ ég að lesa fimm blaðsíður áður en ég lognast út af!

Pís Heart


Mótþróaþrjózkuröskun

Ég fékk enn eina höfnunina á atvinnuumsókn í dag. Ég er orðin svo sjóuð í að fá nei við atvinnuumsóknum að það tók mig ekki nema u.þ.b. fimm mínútur að komast yfir það sem eitt sinn tók mig að minnsta kosti heilan dag.

Mér varð hugsað til þess þegar ég, um daginn, stóð í röð í grísabúðinni og leit yfir fyrirsagnir DV. Þar var flennifyrirsögn undir stórri mynd af yfirgrísnum þar sem hann sagði frá því í harmþrungnum stíl að hann hefði svo miklar áhyggjur af syni sínum sem hafði tapað svo miklu í kreppunni.... fyrirgefið - efnahagsþrengingunum! Það hvarflaði að mér eitt augnablik þar sem ég stóð og gat ekki annað, hvort hann væri að gera gys að mér!

Annað augnablik, af þessum fimm mínútum, fór vinnumálastofnun alveg rosalega í taugarnar á mér fyrir að þykjast hafa eitthvað um það að segja hvort ég fari til útlanda eða sitji heima á rassg....u! Ég íhugaði að gefa þeim langt nef - flýja land, hætta að borga af lánum, svara ekki í símann, skilja húsið mitt eftir í eyði....

Þriðja augnablikið gargaði ég huglægt á fíbblin sem ég rakst á um daginn og töluðu um að það ætti að taka fólk af atvinnuleysisbótum eftir þrjá mánuði - bara svona til að kenna þeim.... Kenna þeim hvað? Að vera ekki atvinnulaus af því að synir svínaflensunnar stungu af ásamt vinum sínum og skildu allt eftir á hvínandi hveli? Ætti þá ekki alveg eins að taka öryrkja af örorkubótum eftir þrjá mánuði til að kenna þeim að vera ekki öryrkjar? Pinch

...Þá mundi ég að ég er enn í 50% starfi hjá beztu byggingaverktökum hérna megin Alpafjalla og náði áttum á ný. Ég rifaði upp með sjálfri mér þegar ég var að reikna út launin um daginn og fékk símtal frá þeim þar sem mér var skipað að reikna á sjálfa mig fulla orlofsuppbót, þrátt fyrir að vera í 50% starfi hjá þeim. Hann sagði mér það maðurinn í símanum, sem vildi svo vel til að var annar af eigendum fyrirtækisins Tounge að það væri fyrir liðlegheitin sem ég hefði sýnt þeim í gegnum tíðina.

Kemur sér stundum vel að vera liðugur Happy


Í þá gömlu góðu daga!

Ég kom auga á kött úti í rigningunni í dag og þá rifjaðist upp fyrir mér sá tími þegar ég var skvísa, bjó í Reykjavík og átti kisu. Ójá - þeir komu snemma í ljós, mínir einstöku hæfileikar til að pipra.... Tounge Kisan mín var grá og hvít og gegndi því snilldarnafni Kisa. Hún tók alltaf á móti mér þegar ég kom heim úr vinnu á daginn með því að henda sér á milli dyrakarma á oddaflugi og læsa klónum í karmana. Léttrugluð kisan sú........

Eníveis - ég fór stundum út á kvöldin og hafði þá Kisu að sjálfsögðu með í för. Þá voru ekki til þessi nýmóðins bönd sem fólk hefur á kisunum sínum núna heldur hélt ég einfaldlega á henni á milli húss og bíls og hún lá svo fyrir aftan hausinn á mér, horfði út um gluggann og malaði, á meðan ég ók á milli staða á minni eðalbjöllu. Eitt kvöldið kíktum við Kisa á vinkonu mína sem bjó í blokk í nágrenninu. Ég arkaði inn með Kisu í fanginu og var samferða manni af erlendu bergi brotnu að lyftunni. Þetta var löööööngu fyrir þá tíma að fólk horfðist ekki í augu við þá sem það mætti í stigagöngum. Þarna í fyrndinni var jafnvel bryddað upp á samræðum á meðan beðið var eftir lyftunni og það var akkúrat það sem gerðist í þetta sinn. Maðurinn, dökkur á brún á brá, brosti til mín klappaði Kisu og spurði blíðlega: "Er þetta tík eða læða?"

Ég flissaði alla leið upp með lyftunni - en ég kunni mig heldur ekki á þeim tíma........


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband