Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Einu sinni var þetta uppáhaldslagið mitt....

Þetta var áður en ég lærði að lesa, Eygló systir átti þessa plötu og það var búið að merkja "X" á þeirri hlið sem lagið var á..... svo ég gæti sett hana sjálf á fóninn Tounge Þetta var nú þjónustan í gamla daga, með þrjú eldri systkyni innan handar!

Fann svo fyrir algjöra "tilviljun" söguna á bak við textann......

"His mistress that he (in the song) had been secretly dating would put out an empty milk bottle on the front porch as a sign that she was free and wanted to see him again. The bottle stands for love. Passerbys would see it as just more empty milk bottles waiting for the Milkman to pick up and be no wiser. No Milk Today means that there are no empty milk bottles sitting out and to our singer it means sorry Charlie, don't come around..."

Hvar ætli mjólkurflöskur lífs míns séu í dag? LoL
 


Amen

Ég þurfti að tala við prest í síðustu viku. Ekki út af giftingunni - nei, nei - ekki strax! Það var í raun bara tilviljun að maðurinn er prestur, þannig séð..... Hefði allt eins getað verið smiður........ þess vegna kom svolítið á mig, þegar hann endaði símtalið á því að segja: "Guð blessi þig!!" Það passaði einhvern veginn ekkert inn í dæmið. Stakk mig þá og stingur mig svolítið enn........ Fór að velta fyrir mér hvort svona menn hrópa "Hallelúja" þegar þeir fá það......... Virkar svolítið fóní..... Pinch

Hitti pabba hérna úti áðan - sagði honum að "við" ættum að mæta til læknis á fimmtudaginn. Pabbi hélt nú ekki, var bara frekar hortugur Tounge þegar hann sagði mér að hann hefði talað við lækninn í síðustu viku og hann hefði sagt að þeir þyrftu ekkert að hittast fyrr en í maí! Svo sá hann hvað ég var vantrúuð á þessa sögu hjá honum og bauð mér með heim að skoða endurkomuskírteinin sín..... Ég þáði það, endaði með því að ég hringdi upp á Lansa og áður en við var litið var ég komin með doktorinn sjálfan í eyrað, mér brá nú hálf þegar HANN var allt í einu kominn í símann. En þetta er indæliskall - þessi læknir - staðfesti sögu föður míns um að allt væri í lagi og að þeir ætluðu ekkert að hittast fyrr en í maí - þegar pabbi kæmi að utan! Ég held enn að þeir séu eitthvað að plotta strákarnir. Ætla örugglega bara að hafa  konulausan dag, hittast og fá sér öllara saman Joyful 

Ég er EKKI frek - ég er ákveðin.....

....svo hefði mamma líka orðið brjáluð ef við hefðum ekki verið með þetta á hreinu InLove


Esta, esta.....

Ég er með hálsbólgu.....og það er ekki gaman! Alltaf þegar ég fæ hálsbólgu, verð ég eins og úlfurinn í ævintýrinu um kiðlingana sjö sem borðaði krít og blekkti kiðlingana til að halda að hann væri Geitamamma......... Ég fæ þessa líka  ofurblíðu rödd! Bíð eftir að verða boðin vinna sem "sögustúlka" á 900 línunum!! Gæti leikið góðu konuna...... Tounge Svona getur maður nú villt á sér heimildir án þess að borða krít - enda örugglega ferlega vont að kyngja henni Pinch Drekk Sítrónute Indíanahöfðingjans í massavís - sem minnir mig á það ég verð að fara og kaupa meira hunang......

Einu sinni var ég í Spánarferð. Ég fór með krakkana og vinkonu minni. Við vorum ekki búin að vera lengi úti þegar sá fyrsti veiktist - af því sem síðan hefur verið kallað "Spænska veikin" í minni sveit, síðan veiktust ferðafélagarnir koll af kolli með tilheyrandi hósta, hita og slappleika. Ég var á þönum  eina nóttina að búa til Sítrónute Indiánahöfðingjans handa dóttur minni og eitthvað hefur vinkonan rumskað. Næsta dag var þungt í henni og hún sagði að hún hefði hrópað og kallað - "Esta, esta......" - á Spáni tölum við spænsku, sjáiði til, sérstaklega þegar við liggjum þungt haldin af veikindum Tounge - og viljað fá te líka - en ég hefði bara lokað hurðinni inn til hennar......... W00t 

Mórall sögunnar? Farið aldrei með veika vini í sumarfrí. Þeir fá óráð!

Við erum ennþá vinkonur InLove


Vúhú...

Það var skvísuskóveður í dag!

Loksins fékk ég tækifæri til að spígspora í nýju stígvélunum mínum. Sem eru náttúrulega alls ekki ný lengur - en fremur lítið notuð......Tounge Þau hafa allavega fengið nægan tíma til að kynnast hinum skónum í hillunni. Sem er kostur! Ég fór á þeim út á Sýsluskrifstofu og í bankann. Jaðraði við að vera ofuskutla Wink

Ég hef aðeins verið að rannsaka nöfn á bílum. Hér er mikið af einyrkjum og tvíyrkjum sem merkja bílana sína í bak og fyrir! Yfirleitt merkja menn bílana með nafninu sínu og setja svo iðnina aftan við.... Eikasmíði - Nonnapíp..... og fleira í þeim dúr Tounge Ég fór að velta þessu fyrir mér vegna þess að um helgina sinnti ég léttu viðhaldi á mínu heimili. Negldi nokkra nagla - skrúfaði nokkrar skrúfur og fór í framhaldinu að velta því fyrir mér hvað ég myndi láta standa á mínum bíl - ef ég fengi mér einn! Ég komst að þeirri niðurstöðu að Dúlla dyttari mundi líklega komast næst því að lýsa því sem ég geri!

Var að kíkja á Jónasarvefinn og fann þetta:

Og vofan við stýrið segir

við hina við hlið sér „Veistu

mér finnst við alls ekki einar

síðan við fórum hjá Stapa!“  

InLove


Allt önnur jöfnun!

Picture 309Stúfur Stubbalings datt í lukkupottinn um daginn - og hefur ekkert komið upp úr honum síðan. Það byrjaði með því að kona, sem vinnur í næsta húsi, kom færandi gjafir, bein, bolta og kaðal - sem í hans huga jafnast á við gull, reykelsi og mirru Tounge Í morgun var hann svo stálheppinn að finna kjötbita sem einhver hefur ætlað Krumma....... Hann lagði mikið á sig að grafa bitann upp úr djúpum skafli og bar hann svo alla leið heim, frekar hróðugur og passaði að ég næði ekki bitanum af honum! Ég hafði ekki brjóst í mér til þess eftir alla þessa fyrirhöfn. Hann faldi hann svo þegar við komum heim og á meðan ég fór í leikfimi, hámaði hann í sig kjötbitann og hló allan tímann. Ég er alveg viss um að á morgun reynir hann að stela öðrum bita............

Ég tók þess vegna virkan þátt í leiknum og þóttist ekkert vita hvar hann hefði sett kjötbitann - og arkaði síðan í leikfimi. Beta er í fantaformi þessa dagana og lætur okkur heldur betur taka á. Hrikalega góð leikfimi hjá henni - og þeim stelpunum. Enginn tími eins og allir góðir!! Í dag var áherzlan á rass, læri og maga. Sem er gott með tilliti til þess að páskarnir nálgast óðfluga og þá get ég borðað páskaegg með góðri samvizku. Ég verð nefnilega búin að kaloríujafna og kem til með að eiga inni nokkrar kaloríur um páskana....... Tounge

Ég stræka á alla árans ekkisen kolefnisjöfnun - ég kaloríujafna!!

Toppiði það Smile

 


Krummi svaf í klettagjá

Ég gaf Krumma brauð í morgun! Bananabrauð sem ég bakaði um daginn og engum fannst gott........Pinch Mér finnst nefnilega bananar hrikalega vondir sem bragðefni í kökum og greinilega brauði líka...... Mömmusinnardúlludúskur, sem annars borðar allt - nema plokkfisk og bjúgu - deilir þessu greinilega með mér - því hann sagði ósköp pent "það er eitthvað bragð að brauðinu sem passar ekki......." Allavega þá fór ég út með brauðið í morgun og gaf Krumma. Ég sleit það niður í stóra búta og fleygði því í skaflinn sem búið er að moka upp við girðinguna hjá mér. Krummi var hvergi sjáanlegur á meðan að á þessu stóð en Lokharði Ljónshjarta þótti óþarfi að vera að gefa svona eitthvað frá okkur og vildi ólmur sækja brauðið aftur.........Tounge Enda nískur með eindæmum.

Ég fór svo inn aftur eftir gjafaferðina og var varla sest niður þegar ég sá að Krummi spígsporaði um skaflinn, lagði heimspekilega undir flatt og tíndi bitana, sem ég hafði hent í snjóinn, vísindalega upp á þak á Bónus. Svo sat hann þar og krunkaði smástund á milli þess sem hann kroppaði í brauðið. Kannski var hann að segja mér að það væri eitthvað bragð að brauðinu sem passaði ekki..........! Joyful

Í kvöld er síðasti þátturinn af Forbrydelsen - nú verður loksins ljóstrað upp hver framdi morðið! Ég hef nú mínar grunsemdir um það hver morðinginn er og ég get sagt ykkur það að ég hef enga trú á því að það sé Vagn. Hann er gerður alltof grunsamlegur til þess....... og þó veit maður aldrei. Danir eru snillingar og þá er ég ekki bara að tala um sjónvarpsþáttagerð. Ég er á því að Íslendingar hefðu aldrei átt að brjótast undan stjórn dana. Hvað með það þó þeir hafi gefið okkur maðkað mjöl? Það hefur ábyggilega bara verið okkur sjálfum að kenna. Við höfum ekki tímt að kaupa mjölið nógu hratt......

Hvað ég svo geri næstu sunnudaga veit ég hinsvegar ekki. Sarah Lund er orðin eins og góð frænka sem kemur í heimsókn einu sinni í viku svo augnhrein og hjartahlý og ég hlakka alltaf jafn mikið til......... Tounge

Blíðar heilsanir InLove


Fröken fíólín

á afmæli í dag Wizard Í um það bil þessum orðum fyrir nítján árum fæddist hún. 18 merkur og 53 sentimetrar! Næstum eins og bolti. InLove 

Hún var nú ekkert sérstaklega ginkeypt fyrir því að koma í heiminn og lét hafa aðeins fyrir sér. Hún vildi heldur ekki vera skilin eftir hjá hinum börnunum, því konurnar "frammi" komu aftur og aftur með hana inn til mín, sögðu að hún gréti stanslaust. Þá vildi hún vitaskuld bara komast í mömmusinnarhlýjaból. Wink Hún hefur löngum vitað hvað hún vill!

Hún á sama afmælisdag og amma mín. Sem sagði við eitthvaert tækifæri að hún hefði verið fallegasta afmælisgjöfin sem hún hefði nokkurn tíma fengið.  InLove

Til hamingju með daginn ástin mín.Heart

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband