Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
27.3.2008
Vaknaði í morgun klár og hress....
......fannst ég fær í flestan sjó og bókstaflega allt gekk upp hjá mér! Frábærir svona morgnar þegar ég vakna og bókstaflega elska sjálfa mig
Fór svo í fantafínan tíma í leikfimi hjá Betu. Hún er að hætta með leikfimina, stelpan, næstu daga, sökum óléttu, og finnst hún hafa óskorað og fullkomið vald til að gjörsamlega ganga frá okkur. Ég er ekki viss um að ég geti lyft neinu næstu daga og er að spá í að láta bara hreinlega ekkert reyna á það Enduðum tímann svo á blaki - þar sem mitt lið skít-tapaði og verður ekki farið nánar út í þá sálma að svo stöddu Eftir tímann skundaði ég heim og gerði tilraun til að opna hitakönnuna Það var borin von. Kaffið er greinilega heitt ennþá........ En hún skautaði silfri í sólinni á eldhússkenkinum þannig að ég fylltist hamingju og fór að vinna
Þurfti svo að skjótast í bæinn seinni partinn og fór þá heldur að síga á ógæfuhliðina á deginum. Á Heiðinni var hálka og skafrenningur, í Reykjavík er fólk bilað - allir standa í þeirri trú að þeir séu góðkunningar mínir og flauta og veifa. Einn var svo ákafur að reyna að ná athygli minni að ég þurfti að sýna honum einn puttann á mér - bara til að slá aðeins á aðdáunina...... Fór svo til Eyglóar systir. Ætlaði bara í stuttan kaffibolla en það er bara svo gaman að tala við Eygló að fyrr en varði var tíminn floginn frá mér og komið langt fram yfir heimferðartíma.
Eygló er elsta systir mín - þess vegna lenti það svolítið á henni að líta eftir okkur systrum sem eru þó þetta yngri en hún Til að auðvelda sér verkin sagði hún okkur sögur........ og ég get sagt ykkur það að ef ykkur finnst að Grims ævintýri ættu að vera bönnuð börnum þá ættuð þið að heyra sögurnar hennar........
Ein var til dæmis af því að sigtið í djúpu lauginni sogaði til sín börn sem stælust út í djúpu. Við ríghéldum okkur í bakkann á grunnu lauginni á meðan hún lék sér í djúpu! Ég á ennþá svolítið erfitt með að hemja mig þegar við gerum æfingar út´í djúpu........ Önnur var af konu sem bjó hér í bæ. Konan var orðin gömul og bogin - hafði verið það í mörg ár, eiginlega alltaf fannst okkur. Eygló sagði okkur að hún væri galdranorn sem mundi breyta okkur í mýs.........
Hún er skemmtilega hugmyndarík hún systir mín - og kann að búa til mergjaðar sögur. Ég t.d. man ekki mikið úr æsku minni - en þetta man ég
Nú er ég að verða heldur framlág og ætla svona hvað á hverju að velta mér undir rúm. Ein spurning, svona í blálokin, ég veit hvað þið hafið gaman af spurningunum mínum...... Veistu hvaða uppgötvun er talin hafa haft mest áhrif á vísindasöguna?
pís
25.3.2008
Bling og bang
Ég keypti mér, um daginn, forláta hitakönnu í Fríðu frænku. Féll algjörlega fyrir því hvernig sólarljósið glitraði á henni. Já, já ég er ekkert nema hégóminn, jú og nízkan tími ekki að hella kaffinu sem verður afgangs....
Hellti svo uppá kaffi áðan og lögunin varð aðeins of stór fyrir minn vinnustað Ég kippti mér ekkert upp við það og hellti umfram kaffinu, sigri hrósandi, í hitakönnuna og hugsaði mér gott til glóðarinnar. Ætlaði svo að fá mér sopann sem eftir varð núna rétt í þessu.
Mér er lífsins ómögulegt að opna könnuna!! Tappinn sogar sig fastan þegar heitu er hellt í könnuna. Ég geri mér enga grein fyrir því hvort kannan heldur kaffinu heitu eður ei - en hún heldur og það glampar á hana á meðan.
Hvað þarf meira? Gleðilegan þriðja í páskum.
23.3.2008
Einkamál á páskum ;)
Hvílíkur letidagur. Það er með herkjum að ég nenni að anda Við Stúfur Stubbalings létum það sem vind um eyrun þjóta þegar kirkjuklukkurnar hringdu inn í messu í morgun. Það var aðeins of snemmt fyrir okkur að innbyrða trúarboðskap fyrir klukkan átta!
Fanney kíkti við hjá mér í gær. Alltaf svo gott að fá Fanney í hús. Við vorum m.a. að spá í dansnámskeið. Mig langar svo að læra dans en vantar einhvern að dansa við, svokallaðan dansherra...... Ég kom með þá snilldarhugmynd að auglýsa eftir honum á Einkamál.is en ég er bara svo hrædd um að þeir vilji gera eitthvað meira en dansa við mig, strákarnir þar Sjálfsagt ætti ég bara að skrá mig á dansnámskeið og láta svo ráðast hvort einhver fæst til að dansa við mig.........
Ég skellti í brauð sem er að hefast hjá mér núna. Ætla að hafa það með kvöldmatnum - réttur dagsins er.... Kjúklingur!! Jamm - ég borða Bamba litla fyrir jólin og litlu dædu kjúklingana á páskum..... Flokkast líklega undir að vera sannheiðin....? Og úr því að þið voruð svona slyng að vita hver voru síðustu orð Krists á krossinum - er þá einhver sem veit hver voru fyrstu orð hans á títtnefndum krossi?
Mamma kíkti á mig í gærkvöldi. Hún gaf litlu snúllunni sinni páskaegg Og konan sem var búin að telja sjálfri sér trú um að hana langaði ekki í páskaegg gat varla beðið eftir að klukkan slæi tólf á miðnætti svo hún mætti opna páskaeggið. Málshátturinn sem ég fékk var: "Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær" Soldið við hæfi Hvaða málshátt fékkst þú?
Nú ætla ég að halda áfram að letingjast, grafa upp prjónana með peysunni sem ég fleygði frá mér í bræði minni þegar Magga skondraðist framúr mér með sína peysu Þórarinn Eldjárn bauðst til að lesa fyrir mig smásögur eftir sig á meðan. Vitaskuld þáði ég það - úti rignir.........
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
21.3.2008
Of stuttur dagur......
Fór með Möggu í dag á listasýningu hjá Zordisi í Kiwanishúsinu í Þorlákshöfn. Það var aldeilis frábært að hitta þig Þórdís - þú hefur ótrúlega góða nánd Við skoðuðum þaksýninguna hennar, drukkum kaffi og borðuðum hrikalega góðar sörur frá Sollu. Góð sýning!
Fórum svo í Bæinn - um Þrengslin - í svo fallegu veðri að jafnvel Jesú hefði ekki verið svikinn af því Sem minnir mig á það! Vitiði hver voru síðustu orð Jesú á krossinum?
Sóttum börnin hennar Möggu, stóðum lengi úti á svölum heima hjá Bergþóru og rannsökuðum nágranna hennar og bjuggum til sögur um þá. Hún á sko ekki dónalega nágranna, fyrsta meðal jafninga ber að telja Fáfnismenn, þeir eru með myndavélar uppi um alla veggi, líklega til að æfa sig fyrir viðtölin þegar þeir verða frægir........... Ákaflega víggirtir, að ekki sé meira sagt, svo eru þeir með klifurgrind í garðinum, svo barnvænir, blessaðir....... Tókum síðan nágrannana koll af kolli. Það er svo gaman að búa til sögur um fólk..... Ég stakk upp á að við færum ekkert austur aftur. Gætum bara farið í ríkið og birgt okkur upp af rauðvíni, grillað og haldið áfram að stúdera mannlífið. Hlaut dræmar undirtektir. Jafnvel þótt ég benti á að það væri hvort sem er ekkert í sjónvarpinu
Spjölluðum svo alla leiðina heim. Eða Bergþóra talaði og við hlustuðum Nei - nei, vitaskuld er ég að grínast....... Samt skondið að uppgötva allt í einu að litla stelpan hennar systur minnar hefur ákveðnar skoðanir á ákveðnum málum og lætur ekkert kveða sig í kútinn! Allt í einu er hún orðin stór og hinir alræmdu bítlaskór koma þar hvergi nærri. Ekki laust við að ég sé stolt af henni
En í allt annað......Píslargangan umhverfis Mývatn! Er hún ekki upplögð fyrir alla þá sem eru illa haldnir af fórnarlambasyndróminu?
20.3.2008
Viltu kaupa páskablóm.......
Muniði eftir stelpunni í auglýsingunni sem söng: "Viltu kaupa páskablóm, viltu kaupa páskablóm, það kostar ekki neitt að kaupa hann! Viltu kaupa páskabjór........."?
Ég var einu sinni að fljúga heim frá Svíþjóð eftir vel heppnaða ferð til Finnlands, hafði siglt um sænska skerjagarðinn tekið land í Tuurku og farið vítt og breitt um Finnland. Þarna var komið að leiðarlokum og mín á leiðinni heim - hafði nælt mér í kvef einhversstaðar í sænska skerjagarðinum og í fluginu heim var ég orðin fárveik. Í sætinu fyrir aftan mig sat lítil, gullfalleg stelpa, í alvöru - hún var og er sjálfsagt enn algjört krútt, henni leiddist dálítið í fluginu og hafði það sér til dægrastyttingar að sparka í bakið á sætinu mínu og syngja þetta lag...........
Síðan minnir þetta lag mig alltaf á þessa skemmtilegu ferð!
Sniðugt hjá Jóhannesi í Bónus að vera með gula poka um páskana..........
19.3.2008
Að hugsa með hjartanu?
Rétt´upp hend sem hugsar með hjartanu.......
Hversvegna er heilinn alltaf settur skörinni lægra en hjartað? Jú, jú okei, þú getur verið heiladauður og samt lifað áfram - ég þekki meira að segja fólk sem gæti flokkast undir að vera heiladautt en öðrum finnst það bara fúnkera ágætlega............ en þetta var nú bara svona aukainnskot vegna þess hve ég á erfitt með mig þegar sillí pípól á í hlut
Allar tilfinningar eru sagðar eiga heima í hjartanu; ástin, hatrið og afbrýðissemin en allar "leiðinlegu" rökhugsanirnar koma þá frá heilanum s.s.; sparsemi, ígrundun, allt sem heitir rétt og rangt....
Hvaðan koma þá dauðasyndirnar sjö? Frá hjartanu eða heilanum? Svari nú hver fyrir sig.......
Vissulega fá sumir verk í hjartað af ástarsorg og fleiri þessháttar skyldum fyrirbærum. Það er heldur ekkert sérstaklega rómantískt að fá verk í heilann - er það? Hver hefur t.d. ort um heilaverk - þegar heilu bálkarnir eru til um hjartaverki.....?
Annars er ég bara góð - páskafrí framundan og ég búin að vera svo dugleg í dag að ég sms-aði á minn nýja yfirmann, sem staddur er í Póllandi þessa dagana, að ég ætti skilið koníak þegar hann ætti leið um næstu fríhöfn Hann samþykkti það umsvifalaust enda hugsaði ég það með heilanum.
Eru fleiri sem hugsa með heilanum? Spurði konan og setti hjartamerki á eftir.....
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
18.3.2008
Rigning
Langur og strangur dagur er að kveldi kominn. Úti rignir, ég er gjörsamlega búin á því og er að spá í að láta það bara eftir mér að fleygja mér undir rúm
Er að lesa hrikalega góða bók eftir Þráin Bertelsson sem heitir "Englar dauðans" spurning hvort ég sting kodda undir hné og dotta yfir henni frameftir kvöldi..........
Muniðið eftir þessu lagi?
"Fyrst þú heyrnartólið tekur
og berð það upp að eyra....
...ef að enginn heyrist sónn,
bilaður er telefónn....."
Allavega ekki hringja í mig en hver söng þetta - einhver sem man það?
16.3.2008
Afrek dagsins ;)
15.3.2008
Landnám á laugardegi
Það var kalt á okkur Stubbaling í morgun þegar við gengum upp með á. Klakahrönglið á ánni gutlaði við bakkann og úr varð skemmtilega kuldalegt hljóð. Krummi lék listir sínar fyrir okkur í móanum og það var fátt sem minnti á vor - nema helst tvær hvítar rákir hátt á himni eftir flugvélarnar sem fluttu fólk í austurátt í morgunsárið. Áleiðis til vorsins í Danmörku.....
Það er búið að umbylta öllu þarna út með á. Þar eru stórar beltisgröfur að undirbúa jarðvegsskipti - þarna á að fara að byggja. Ekki veit ég hvert við Stúfur förum þá á morgnana. Kannski við útbúum okkur bara plagg um að við komum þarna fyrst? Hvernig var nú aftur rétturinn um landnám? Ef kerling nær að míga í fjórum afmörkuðum hornum með belju í eftirdragi fyrir sólarlag þá er landið hennar? Var það ekki einhvernveginn þannig? Við erum allavega búin að míga þarna á hverja þúfu - oft.........
Var að íhuga lögguþætti á meðan ég norpaði þetta, ýmist á undan eða eftir Ljónshjartanu. Alltaf skal löggan sem leysir málið vera súperskvísa, mætir alltaf stífmáluð í vinnuna og það vefst aldrei fyrir henni að hlaupa ljótu kallana uppi - þrátt fyrir háa hæla og byssu í buxnastreng og varaliturinn haggast ekki þótt hún stökkvi þak af þaki á eftir þeim. Hún nær þeim alltaf og segir yfirleitt og án þess að blása úr nös: "it´s over mister....." Svo þegar hún kemur með ljóta kallinn, sem er undantekningalítið með blóðhlaupin augu og þriggja daga skegg, í handjárnum á stöðina, bíður hennar grömpí yfirmaður sem húðskammar hana fyrir að hafa ekið á móti einstefnu og segir henni að sektin verið dregin af laununum hennar....... Hvaða tegund af varalit nota þessar konur eiginlega?
Annað sem ég var að spá í þarna í kuldanum - við tókum frekar langan hring..... var orðatiltækið "Babb í bátinn" Hvað þýðir babb? Ég geri mér grein fyrir því að þetta eru einhversskonar vandræði - en af hverju er orðið babb dregið? Ef ég færi t.d. í Þorlákshöfn á eftir - stykki um borð í einn bátinn og bæði manninn sem stæði þar, líklega svolitið hissa, að sýna mér babbið - eða segir maður babbinn? Hvað ætli hann mundi sýna mér? Getur einhver sýnt mér babb?
14.3.2008
Klukkan var alveg að slá miðnætti!
Ég var um það bil að sofna - fann hvernig syfjan þyngdi augnlokin og þau sigu værðarlega. Veikindi síðastliðinna daga höfðu tekið sinn toll en virtust, þegar þarna var komið, vera að láta undan síga. Allavega hafði ég ekki hóstað mig í svefn........
Allt í einu skar ÆRANDI hávaði miðnæturkyrrðina. Ég lyftist lárétt í rúminu og velti því fyrir mér hvað væri eiginlega um að vera!! Hafði mig dreymt? Hvað var að ske? Ég lenti aftur í rúminu með galopin augun, glaðvöknuð! Tíminn leið - ein mínúta, tvær mínútur..... hávaðinn hlaut að hafa verið eitthvað sem ég ímyndaði mér. Þá var kyrrðin rofin að nýju með sama ÆRANDI hávaðanum!! Ég rauk út í glugga og leit út. Þarna stóð bíll!! Gat þetta verið? Ég trúði ekki mínum eigin augum!!
Ég fór fram sótti símann og hringdi. Síminn var um það bil að hringja út þegar andstutt kona ansaði loksins: "Lögreglan - og nefndi nafnið sitt" Ég velti því smástund fyrir mér frá hverju ég hefði rifið hana en ákvað að leyfa henni að njóta vafans......
Ég sagðist ætla að kvarta undan hávaða af völdum LÖGREGLUBÍLS og ég næði ekki upp í nefið á mér fyrir hneykslan. Klukkan væri að verða tólf á miðnætti og þeir væru að spila tónlist í gegnum hátalakerfi lögreglubílsins!!! Ég ítrekaði að klukkan væri að verða TÓLF Á MIÐNÆTTI og ég ætti ekki til eitt einasta aukatekið orð yfir svona hegðan!!
Hún svaraði mér, stutt í spuna, að hún vissi alveg hvað klukkan væri!! Það var - get ég sagt ykkur EKKI til þess fallið að róa mig niður... Ég sagði henni að hún skyldi þá stöðva þennan hávaða UMSVIFALAUST - annars tæki ég til minna ráða!
Þeir spiluðu ekki meira strákarnir.
Í dag er ég að velta því fyrir mér hvort þeir líti á almenningseigur sem leiktæki sem þeir geta notað að vild. Ég er líka að velta því fyrir mér hvort það þurfi ekki að sýna fram á að hafa öðlast ákveðinn þroska til að verða lögreglumaður! Ég er jafnframt að velta því fyrir mér hvort ég eigi að fara upp á Sýsluskrifstofu og tilsegja þá til þeirra yfirmanns!!
Ég er ennþá svo grjóthneyksluð að ég má vart mæla!