Landnám á laugardegi

Það var kalt á okkur Stubbaling í morgun þegar við gengum upp með á. Klakahrönglið á ánni gutlaði við bakkann og  úr varð skemmtilega kuldalegt hljóð. Krummi lék listir sínar fyrir okkur í móanum og það var fátt sem minnti á vor - nema helst tvær hvítar rákir hátt á himni eftir flugvélarnar sem fluttu fólk í austurátt í morgunsárið. Áleiðis til vorsins í Danmörku..... InLove

Það er búið að umbylta öllu þarna út með á. Þar eru stórar beltisgröfur að undirbúa jarðvegsskipti - þarna á að fara að byggja. Ekki veit ég hvert við Stúfur förum þá á morgnana. Kannski við útbúum okkur bara plagg um að við komum þarna fyrst? Hvernig var nú aftur rétturinn um landnám? Ef kerling nær að míga í fjórum afmörkuðum hornum með belju í eftirdragi fyrir sólarlag þá er landið hennar? Var það ekki einhvernveginn þannig? Tounge Við erum allavega búin að míga þarna á hverja þúfu - oft.........

Var að íhuga lögguþætti á meðan ég norpaði þetta, ýmist á undan eða eftir Ljónshjartanu. Alltaf skal löggan sem leysir málið vera súperskvísa, mætir alltaf stífmáluð í vinnuna og það vefst aldrei fyrir henni að hlaupa ljótu kallana uppi - þrátt fyrir háa hæla og byssu í buxnastreng og varaliturinn haggast ekki þótt hún stökkvi þak af þaki á eftir þeim. Hún nær þeim alltaf og segir yfirleitt og án þess að blása úr nös: "it´s over mister....." Svo þegar hún kemur með ljóta kallinn, sem er undantekningalítið með blóðhlaupin augu og þriggja daga skegg, í handjárnum á stöðina, bíður hennar grömpí yfirmaður sem húðskammar hana fyrir að hafa ekið á móti einstefnu og segir henni að sektin verið dregin af laununum hennar....... Hvaða tegund af varalit nota þessar konur eiginlega? Tounge

Annað sem ég var að spá í þarna í kuldanum - við tókum frekar langan hring..... var orðatiltækið "Babb í bátinn" Hvað þýðir babb? Ég geri mér grein fyrir því að þetta eru einhversskonar vandræði - en af hverju er orðið babb dregið? Ef ég færi t.d. í Þorlákshöfn á eftir - stykki um borð í einn bátinn og bæði manninn sem stæði þar, líklega svolitið hissa, að sýna mér babbið - eða segir maður babbinn? Hvað ætli hann mundi sýna mér? Getur einhver sýnt mér babb?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dísa Dóra

hahaha eins gott að þú ruglist nú ekki og biðjir manninn að sýna sér bibbann

Dísa Dóra, 15.3.2008 kl. 10:19

2 Smámynd: Ragnheiður

Hehe þú hefur farið of stóran hring. Ég myndi skálma á bæjarskrifstofuna með "kúna" í eftirdragi og krefjast réttar míns sem landnámskona, sísprænandi.

Ef einhver finnur BABB þá vil ég sjá það. Líka ef einhver finnur LURGINN sbr taka í lurginn á einhverjum. Alveg gæti ég trúað að þetta tvennt sé geymt á sama stað.

Labbaði í gærkvöldi með 3 hvutta...Libbadrusla "barnabarn" var í heimsókn og "afi og amma" náðu sér í skrilljón prik með labbinu hjá henni.

Ragnheiður , 15.3.2008 kl. 10:28

3 Smámynd: Ragnheiður

Dísa Dóra, ég er ekki viss um að ég myndi trúa að Hrönn væri að ruglast ef hún heimtaði að sjá Bibbann í bátnum

Ragnheiður , 15.3.2008 kl. 10:29

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hann Greiri Danski sem kallaður er, hann er með svarið við þessu.  Hann var spurður um framgang einhvers sem hann var að basla við og karlinn sagði; jú sko, það komu nefnilega Bubblur í bátinn  Mér finnst það miklu skynsamlegra því bubblur eru jú einskonar loftbólur, eða geta ef til vill verið vatnsbólur líka. 

Skemmtileg færsla eins og alltaf hjá þér Hrönn mín.  Ég myndi krefjast landsins, þar sem þið voruð örugglega á undan gröfunum. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.3.2008 kl. 11:31

5 identicon

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 11:51

6 Smámynd: SigrúnSveitó

babb...bibb...

Og talandi um misskilning og dönsku...sem við erum svo góðar í...

Hneppa og hnappur á íslensku...

Knap og knappe

...ég var alltaf svolítið hrædd um að mismæla mig og segja; "skal jeg kneppe for dig..."!!!!

SigrúnSveitó, 15.3.2008 kl. 11:52

7 Smámynd: www.zordis.com

Er ekkert mál að redda sér heilli kvígu eða getur þú farið með 1 kg af hakki í bandi?

Ég er nú bara aleg mát yfir babbinu ... en ég gæti kanski bent þér á einhvern stýrimann í höfninni

www.zordis.com, 15.3.2008 kl. 12:01

8 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hahahaha, þú drepur mig.  Babbið þitt.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.3.2008 kl. 12:36

9 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Gvöð hvað þið eruð dónalega þenkjandi Dísa Dóra og Ragga....... Aldrei hefði mér dottið þetta í hug....

Já Sigrún! Eða skal jeg bolle dig.......

Stýrimaður væri vel þeginn Þórdís

Jenný, Cesil, Birna og M í hjáverkum

Hrönn Sigurðardóttir, 15.3.2008 kl. 13:42

10 Smámynd: Halla Rut

Skemmtileg færsla og athugasemdirnar ekki síðri.

Halla Rut , 15.3.2008 kl. 16:20

11 Smámynd: Dísa Dóra

Ragga ég held nú reyndar að ég verði að vera sammála þér

Hrönn mín það er eitthvað við skrif þín sem vekur upp þennan dónapúka í mér - annars er ég alltaf svo prúð og stillt

Dísa Dóra, 15.3.2008 kl. 20:53

12 Smámynd: Huld S. Ringsted

Mér líst vel á þessa landnáms hugmynd, er ekki einhver lög sem segja til um frumbyggjaréttinn!! gætir sloppið við þetta beljupisserí.

Huld S. Ringsted, 15.3.2008 kl. 23:15

13 Smámynd: Heiða  Þórðar

Alltaf sól í bænum...komdu í bæinn með Stubbaling

Heiða Þórðar, 15.3.2008 kl. 23:37

14 Smámynd: Unnur R. H.

Unnur R. H., 16.3.2008 kl. 10:15

15 Smámynd: Rebbý

það hefur ekki verið neinn smá göngutúr fyrst allt þetta kom úr honum
vil komast að því líka hvaða varalitur þetta er, ég varla labba út úr húsi nema vera orðin úfin og ekki eins glæsileg og þegar ég var fyrir framan spegilinn (eða kannski er spegillinn minn mér svona hliðhollur að ég líti alltaf vel út í honum)

Rebbý, 16.3.2008 kl. 12:43

16 Smámynd: Guðjón H Finnbogason

Það er ennþá vetur alveg fram á vor.

Guðjón H Finnbogason, 16.3.2008 kl. 19:42

17 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Get ekki sýnt þér babb í allri sinni dýrð en naut þess að lesa færsluna þína eins og venjulega.

Steingerður Steinarsdóttir, 16.3.2008 kl. 20:04

18 Smámynd: Fanney Björg Karlsdóttir

Allveg er það yndislegt að kíkja hérna inn og fá að lesa hugrenningar þínar.... enn þá skemmtilegra þó að sitja með þér yfir góðum kaffisopa og slúðra......nú þegar ég er hætt að blómast og vorið er handan við hornið þá fer ég að kíkja oftar í kaffi og slúður.....tja.... ekki nema það komi babb í bátinn....

Fanney Björg Karlsdóttir, 16.3.2008 kl. 20:56

19 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Bendi þér bloggið hans Bratts, http://www.brattur.blog.is

Hann er með Babbið í bátnum á hreinu.  

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 16.3.2008 kl. 22:10

20 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

http://gisgis.blog.is/blog/brattur/

Hér er rétt slóð, - ég var bara eitthvað að fabúlera áðan.

Endilega kíktu til hans.  

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 16.3.2008 kl. 22:12

21 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Babb er vandræði eða truflun. Lurgur þýðir svo einfaldlega hár eða hárlubbi, þannig að þú hótar að rífa í hárið á viðkomandi. Skemmtilegar svona pælingar.

Helga Magnúsdóttir, 18.3.2008 kl. 19:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband