Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Fordómar með öfugum formerkjum?

Undanfarna mánuði hef ég veitt eftirtekt lítilli fjölskyldu sem gengur alltaf á laugardagsmorgnum framhjá eldhúsglugganum mínum á leið sinni í Bónus. Fjölskyldan er af erlendu bergi brotin. Mér dettur í hug........Pólland.

Þessi fjölskylda samanstendur af mömmu, pabba og barni. Drengurinn gengur alltaf á milli þeirra og þau leiða hann bæði. Þau eru alltaf brosmild og ánægð og tala mikið saman á máli sem hefur næstum enga sérhljóða. Mér dettur í hug...... pólska. Ég hef, svona með sjálfri mér, búið til sögu um þessa fjölskyldu......

Þau flúðu hingað úr sárri fátækt og atvinnuleysi. Hann fékk vinnu við byggingar, hún er heima með drenginn, hefur matinn tilbúinn þegar hann kemur þreyttur heim og saman eiga þau kvöldin og helgarnar. Búa hér í sátt og samlyndi, eiga til hnífs og skeiðar og horfa á sjónvarpsútsendingar frá Póllandi og Discovery channel á kvöldin í gegnum gervihnött.

Undanfarna tvo laugardaga hefur mamman gengið ein með drenginn fram hjá eldhúsglugganum mínum á leið sinni í Bónus. Hún leiðir hann ennþá en brosir minna. Talar minna.

Ætli pabbinn sé orðinn of mikill Íslendingur? Farinn að vinna á laugardögum líka?

Er ég haldin fordómum með öfugum formerkjum? Gagnvart Íslendingum? Ef svo er verð ég þá rekin úr landi? Get ég treyst því? Tounge

Mér er spurn.......


Draugar, skokk og ungir drengir

Búin að fara út að hlaupa alla vikuna - nema í dag. Í dag kom ég heim eftir vinnu lagðist upp í rúm og sofnaði.......

Hef hlaupið eins og skrattinn sé á hælunum á mér - það skal tekið fram að ég er ekki mjög hrædd við hann..... Tounge í gegnum skógræktina upp að helli. Rúma fjóra kílómetra. Ég gæti verið komin á Hellu núna.....allavega að Þjórsárbrú LoL

Alla dagana hefur Magga komið með nema í gær, þegar hún sveikst undan merkjum - les. þurfti að vinna!

Sagan segir að í hellinum sé reimt, þar hafi ungur drengur í ástarsorg hengt sig í bláum trefli og sjáist síðan vafra um skóginn í nágrenni hellisins.

Í gær hitti ég þar fjóra unga drengi á hjólum. Spurði þá hvort þeir hefðu séð strákinn með bláa trefilinn. Þeir veltu því fyrir sér smástund hvort ég væri skrýtin, ákváðu svo að taka enga sénsa og kváðu nei við. Spurðu mig síðan hvort hann hefði virkilega hengt sig í hellinum - eins og þeir héldu bókstaflega að ég myndi eftir því......

Ég sagði: já, já, hann gerði það og að ég hefði líka komið þarna í gær að leita að honum og hann hefði heldur ekki verið þar þá..... Þeir brostu voða sætt til mín og einn spurði: En hvernig gat hann hengt sig inni í hellinum? Í hvað gat hann fest trefilinn?

Efahyggjumenn.............

Hef að sjálfsögðu tekið stubbaling með mér alla dagana. Hann er nú ekki par hrifinn af bílnum hennar Möggu! Þykist ekki sjá hann né heyra í mér þegar ég segi honum að koma. Svolítill Lúkas í honum LoL

Knús Heart

 

 


Ein lauflétt....

....vitiði hvað sá maður er kallaður sem heitir Laugardagur og Sunnudagur?

 


Góður maður og göngukort

lodumundarfjordur vor Heyrði í manni í síma í gær sem er skrifstofustjóri í Fjarðarbyggð. Agalega almennilegur maður. Símtalið hófst á faglegum nótum og þróaðist síðan yfir í spjall um gönguleiðir á Austurlandi. Ég trúði honum fyrir því að ég væri alltaf á leiðinni austur í gönguferð. Stefnan væri sett á Loðmundarfjörð. Hann var búinn að fara margar ferðir þangað og vissi allt um svæðið.

Benti mér á við hverja ég ætti að tala ef ég vildi fara í skipulagðar ferðir með leiðsögn - sem er náttúrulega alltaf skemmtilegra. Alltaf gaman að láta segja sér sögur af fyrirbrigðum í náttúrunni. Svo klikkti hann út með því að segja mér að hann ætti í geymslu þarna á bak við sig fullt af kortum yfir gönguleiðir á Austurlandi og hann skyldi senda mér þau með því skilyrði að ég kæmi austur og notaði þau.

Geri það örugglega! hugsið ykkur - enginn sími - engin tölva - ekkert áreiti..............                     bara ég, hundurinn, fjöllin og þögnin

Vúnderbar!!

 


Afmælisbarnið!!!!

 Linda og Auður Erla Linda Dröfn á afmæli í dag!

Linda er elst af frænku og frændahópnum. Þ.e. elsta dóttir, elstu systur minnar..... og nýtur þar af leiðandi svolítillar sérstöðu og mamma hennar bjó þar að auki heima hjá mér þegar hún fæddist. Ég man hvað mér fannst Linda falleg þegar hún var lítil og ég fékk að svæfa hana í vöggunni, söng fyrir hana öll þau lög sem mér þóttu fallegust og fékk endalaust að dúllast með hana.

Mér finnst hún ennþá bera af. Heart

Linda er gáfuð, skemmtileg, fyndin OG falleg - svolítið lík frænku sinni LoL

Linda býr í Danmörku með litlu fjölskyldunni sinni og þegar ég verð stór ætla ég að verða aupair hjá þeim.

Innilega til hamingju með daginn elsku Linda mín.

lovjútúpíses Heart


Letidagur......

Fór með stubbaling upp með á. Þéttur úði og lyktin yndisleg. Gæti ímyndað mér að hann hafi fundið ýmisskonar lykt þegar hann "las" jarðveginn. Moldin angaði meira að segja eins og bara mold getur ilmað eftir svona langvarandi þurrka.

Haldiði að það hafi ekki einhver verið búinn að planta hjólhýsinu sínu þarna? Gvöð við vorum svo hneyksluð........ Veit fólk ekki að þetta er okkar staður? Les fólk ekki bloggið okkar eða hvað? Tounge

Á meðan við vorum úti breyttist úðinn í alvöru rigningu og við komum þokkalega blaut inn. Þetta er góður dagur fyrir letidag.

Eigið góðan......

knús Heart


Snúinn ökkli og heitur pottur

02Magga hringdi í mig í gær! Spurði hvort við ættum að stofna hlaupahóp.... Ég fylltist tortryggni - enda tortryggin að eðlisfari og spurði hvort hún væri búin að ákveða nafn - Systurnar! Sagði Magga. Ég benti henni á að þó ástarlíf mitt væri ekki upp á marga fiska þessa dagana væri ég ekki alveg tilbúin að ganga í klaustur og stakk þess í stað upp á sister slut Tounge Hún var ekki aaaaalveg til í það......

Fórum svo og hlupum í fjörtíu mínútur seinni partinn í gær og allt gekk svona glimrandi vel, alveg01 þar til Magga sparkaði í mig og ég missteig mig hrikalega. Og þegar ég segi hrikalega er það ekki vegna þess að ég sé að fara fram á samúð eða vegna þess að ég sé einhver væluskjóða, heldur vegna þess að það var HRIKALEGT! LoL Og VÍST sparkaðirðu - bara vegna þess að ég var á undan! Ég á sko eftir að segja mömmu.......

Mamma hringdi svo í mig í gærkveldi þegar ég var í miðjum klíðum að hlúa að mínum særða ökkla og bauð mér í heita pottinn. Ég spratt á fætur og hjólaði í einum spreng suð´rúr - Ég meina ég vissi að hún átti líka rauðvín Smile Við sátum svo í heita pottinum og sötruðum rauðvín - að sjálfsögðu, maður þekkir nú sitt heimafólk, og spjölluðum. - Alveg hreint frábær dagur. Ég segi það enn og aftur - ég er ótrúlega heppin með ættingja

Magga hringdi svo hikandi í mig í dag, sjálfsagt minnug ópanna sem endurómuðu um skóginn í gær, svo hátt að stúfurinn faldi sig bak við Birkikvist, og spurði hvort ég treysti mér aftur í dag......

....að sjálfsögðu gerði ég það - við erum í hlaupahóp!

Fórum svo aftur og hlupum enn lengra ef eitthvað er - stubbalingur fékk að koma með aftur, hann er að vísu ekki einlægur aðdáandi þess að sitja í aftasta sætinu og gerði heiðarlega tilraun til þess að þykjast ekki sjá bílinn í dag. En hvað lætur hundur sig ekki hafa til að fá að koma með? Hver veit nema hann rekist á mús......

Knús Heart


Ókunnug kona frá framandi landi

Á blogginu í dag verður mörgum tíðrætt um fordóma.

 elizab                                                  Af því tilefni rifaðist upp fyrir mér þegar ég hitti núverandi mágkonu     mína í fyrsta sinn án þess að það hafi nokkuð sérstakt að gera með fordóma annað en það að hún verður stundum fyrir þeim.

Elizabeth og Eyfi hittust í Frakklandi þegar þau voru þar bæði í námi. Eyfi kom heim um sumarið og vann við að  leiðasaga Frakka um landið. Var í viku til 10 daga ferðum í senn. Elizabeth kom í heimsókn seinni part sumars. Hún bjó hjá pabba og mömmu en þau voru bæði í vinnu og Eyfi var nýlagður af stað í hringferð með Frakka. 

Það vildi þannig til að ég var í sumarfríi og tók að mér að hafa ofan af fyrir henni. Ég var með smá kvíðahnút í maganum. Vissi ekki alveg hvernig ég átti að fara að því að hafa samskipti við þessa stúlku sem ég hafði aldrei séð áður. Ég talaði ekkert sérstaklega góða ensku á þeim tíma og hún ekki heldur. Ég talaði enga spænsku á þeim tíma en hún er hins vegar talsvert sleip í henni Tounge Ég safnaði kjarki og fór á Engjaveginn eftir hádegi daginn eftir að hún kom á Selfoss. Gekk inn í eldhúsið og þar sat hún, svo gullfalleg og geislandi. Henni hefur ábyggilega kviðið jafnmikið fyrir að hitta mig.......... viktor og elizabeth

Ég bað hana að koma með mér heim með fransk/ísl - ísl/franska orðabók að vopni og saman stautuðum við okkur í gegnum daginn og næstu daga...... Við vorum ekkert rosalega fljótar að klára setningarnar og þær voru kannski ekkert svakalega innihaldsríkar - en við töluðum, við drukkum kaffi og við hlógum hvor að annarri og hvor við annarri.

Síðan höfum við verið beztu vinkonur og mikið lifandi skelfing væri lífið miklu litlausara ef ég þekki ekki Elizabeth og hennar framandi og frábæru menningu og matargerð. Vini henna hitti ég líka reglulega og mér er alveg sama þó þau tali spænsku þegar ég er viðstödd. Mér er líka alveg sama þó ég skilji ekki allt sem þau segja. Ég skil tóninn og heyri hrynjandann og næ inntakinu og svo tek ég þátt í samtalinu á íslensku. Stundum geri ég mig að fíbbli þegar ég reyni að tala við þau á spænsku en það er allt í lagi þá hlæja þau bara góðlátlega, klappa mér á bakið og leiðrétta mig. Alveg eins og ég geri fyrir þau.

Ég er afar þakklát fyrir að Elizabeth birtist í lífi mínu. Hún er falleg kona með fallega sál.

Heart

 


Veisluhöld í borg óttans

Fór með mömmu og pabba í aldeilis frábæra afmælisveislu hjá Viktori Má.Viktor Már

 

elizabeth Mamma hans og Pabbi Eyjólfur Már sem er litli bróðir minn, eru snillingar í að halda veislur. Eru með veðrið á hreinu hvað þá annað. Veislan var haldin í garðinum heima hjá þeim í brakandi þurrki og blíðu.

Stólar, teppi og borð, allt borið út og þau hristu 30 manna veislu fram úr erminni eins og ekkert væri.

Að sjálfsögðu rottaði fólk sig saman eftir ættum og þjóðerni, en Elizabeth, mamma Viktors er frá Colombiu og því liggur í hlutarins eðli að margir eru spænskumælandi í veislum hjá þeim. Ég lagðist á teppið sem var breitt út í miðjum garðinum hjá konunum sem spjölluðu saman á spænsku og á meðan þær þögnuðu andartak til að velta því fyrir sér hvort þær ættu að svissa yfir á íslenzku, sagði ég þeim endilega að halda áfram að tala spænsku. Ég gæti þá ímyndað mér að ég lægi á sólarströnd.......

Yndislegur dagur, frábært fólk.

Skelli hér inn til gamans mynd af lille bror þegar hann var lítill.........  Eyjólfuró já - einu sinni vorum við öll ung.............

Ég sé það allltaf betur og betur hvað ég er heppin með alla mína ættingja og vini

Knús til ykkar Heart og takk fyrir mig

PS bæti við mynd af Elizabeth á morgun, veit að ég á mynd af henni í tölvunni í vinnunni!


Allt önnur nálgun....

01 Stubbalingur hitti ketti kjallarabúans í garðinum og ákvað að "hömpast" aðeins á öðrum þeirra.

Hann var svo óheppinn að kjallarakonan var úti í dyrum og setti hann hið snarasta í nálgunarbann.....

....nú mega kettirnir ekki lengur fara út.....

Ég verð nú að segja að mér finnst þessir kettir agalega óvandaðir - hef enda alltaf haldið því fram að pabbi stubbalings sé köttur. Finnst þetta renna stoðum undir þá sannfæringu mína. Ég meina ekki er hann perri!! Ekki hundurinn MINN Whistling


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband