Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007
31.7.2007
Ástarsaga úr daglega lífinu.....
Til mín, í vinnuna í dag, kom eldri maður, gráhærður með grá leiftrandi augu, sem bjuggu yfir hyldjúpri reynslu en höfðu ákveðið að lifa hana af...... Minntu mig svolítið á augun hennar Ásthildar, augun hans.......
Hann spurði mig um gróðurhús, verð og stærðir. Þegar við höfðum komist að samkomulagi um verð og afslátt - ég skal viðurkenna að ég gaf honum smá aukastaðgreiðsluafslátt, vegna þess að hann bauð af sér svo góðan þokka - og ég var að ganga frá reikningnum sagði hann mér að hann hefði nú oft komið á Selfoss starfs síns vegna, hérna í denn, þegar Selfyssingar og Laugvetningar misstu sig í hasar. Hann nafngreindi menn sem ég kannast við og ég gerðist svolítið forvitin. Ég spurði hann hvort hann væri gefinn fyrir hasar..... og brosti til að milda það..... Þá sagði hann mér að hann hefði verið í Kópavogslögreglunni "í gamla daga" og oft verið kallaður hingað á þrettándanum, þegar Selfosslöggan þurfti liðsauka!
Ég sagði honum að ef ég hefði vitað þetta fyrr hefði ég aldrei gefið honum aukaafsláttinn!! Hann hefði örugglega keyrt mig einhvern tíma heim kolbrjálaða á þessum tíma..... Þá hló hann og sagði mér að það hefðu nú oft verið skemmtilegustu krakkarnir........
Hann kyssti mig á vangann þegar hann kvaddi..........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
30.7.2007
Iðnaðarmennirnir......
Var að flísaleggja bílskúrinn hjá mömmu og pabba í gær! Eyfi "litli bróðir" mætti á svæðið og lék verkstjórann í leikritinu viðvaningarnir
Hér er Eyjólfur með sýnikennslu um hvernig "á" að gera þetta!!
Þvílíkt púl! Mesta púlið var þó, að mínu mati, að ná að gera öllum til hæfis..... svona er að búa einn Er agalega fegin í dag að vera svona settleg dama á skrifstofu...... Verkjar í bakið og hendurnar. Það var einhvern veginn alveg sama í hvaða stellingu ég var. Hún endaði alltaf í verkjum....Svakalega er ég fegin að vera hvorki gleðikona né flísalagningarmaður Annars var þetta bara fjör - alltaf gaman að eiga tíma með Eyfa. Studeruðum barnabókmenntir, rasisma og sexisma í þeim og krufum Bob Dylan - Hver skilur um hvað textinn í "Hey mister tamborineman......" fjallar? Það voru tvær, og aðeins tvær, reglur í gangi..... Önnur var að það væri bannað að syngja Eurovision lög á meðan ég setti límið á flísarnar, það þótti of hommalegt fyrir svona macho verk!!
"Verkstjórinn" nærir sig........ mmmmmmm súpan var svo góð - þegar "óbreyttir" komust loks að matarborðinu.....
Meistarakokkurinn mamma og sá sem réði "for resten"
"verkstjórinn" með sýnikennslu um þrif......
Góður dagur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.7.2007
Skápasaga.....
Nú haldið þið náttúrulega að þið fáið svæsna samkynhneigða sögu í anda Ellýjar.....
....en það er nú öðru nær!
Í stofunni "heima" stóð alltaf skápur sem pabbi hafði á sínum tíma lagt til í búið. Í skápnum var geymdur kristallinn, silfurborðbúnaðurinn og jólastellið. Í einni skúffunni geymdi mamma svo alla skartgripina sína. Stundum, þegar Eygló kom í heimsókn, skoðuðum við allt sem var í skúffunni og suðuðum í mömmu hvort við mættum eiga þetta eða hitt..... Innan í eina hurðina hefur pabbi skrifað niður símanúmer bróður síns í hvert sinn sem hann flutti, allt fimm stafa tölur! Stundum hugsa ég hvort andar hins liðna muni svara ef ég hringi.....
Mér fannst þessi skápur alltaf fallegur og hafði vit á að hafa öðru hverju orð á því.
Fyrir nokkrum árum skiptu mamma og pabbi um húsnæði. Þau "minnkuðu við sig" fluttu úr húsinu sem þau höfðu búið í síðan 1960 og pabbi byggði.
Eins og gefur að skilja var ekki pláss fyrir allt sem þau áttu í nýja húsnæðinu. Pabbi spurði mig þá hvort ég vildi ekki taka skápinn. Ég var himinlifandi og snögg að þiggja hann.
Nokkru seinna spurði ég pabba hvar hann hefði keypt skápinn. Þá kom í ljós að maðurinn sem byggði og bjó í húsinu sem ég á núna, var húsgagnasmiður og hafði smíðað þennan skáp.
Það má því segja að skápurinn sé kominn heim.........
Nú stendur hann í stofunni "heima" og geymir m.a. kristalinn minn sem ég keypti í verksmiðju Iittala á ferð minni um Finnland sl. sumar.
Mér finnst þessi skápur alltaf fallegur - ekki síst fyrir allar minningarnar sem hann geymir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
28.7.2007
Ein spurning......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.7.2007
Laugardagur til lukku
Sofnaði í gær um sex leytið, rétt vaknaði seinna um kvöldið til að fara út með stubbaling og setja inn nokkrar stillimyndir á bloggið og fór svo strax aftur að sofa....
Stúfurinn vakti mig svo af værum svefni um sex í morgun og sagði mér að hann vildi fara út. Ég lét það að sjálfsögðu eftir honum - hvað gerir maður ekki fyrir svona dúllu?
Kom svo heim aftur klukkutíma síðar, eftir góðan göngutúr og sofnaði!!!
Hvað haldið þið? Síþreyta? Of mikið að gera í vinnunni? Almenn leti?
Bezt að taka inn járn í nokkra daga og sjá hvort ég jafni mig ekki....
Fór út í bakarí í "morgun" þegar ég loksins komst til meðvitundar! Þar var staddur ferðamaður sem talaði mikið í símann við konu sína sem hann hafði greinilega skilið eftir í útilegu einhversstaðar - vonandi nálægt - Hann var á undan mér í röðinni og keypti ýmislegt. Svo fór hann að tala um hvort ekki væru til stór umslög???!!! Konan sem afgreiddi hann sagði honum að hún væri bara með svona..... og benti á "umslögin" sem hún bakar. Þá brast hann í sögu um að á Akureyri fengjust stór umslög með súkkulaði inní......
Afgreiðslukonan, þolinmæðin uppmáluð hlustaði á söguna hans og brosti á réttum stöðum. Svo spurði hann hvort ekki væru til karamellusnúðar. Konan sagði honum að hún ætti súkkulaðisnúða og snúða með glassúr...... Um það bil sem ferðamaðurinn var að bresta í aðra sögu um karamellusnúðana á Akureyri, sagði maðurinn sem var í röðinni fyrir aftan mig að hann hefði þurft að vera fyrir klukkan níu á ferðinni ef hann ætlaði að fá þannig snúða. Afgreiðslukonan, enn þolinmæðin uppmáluð, hló kurteislega. Þá sagði ég úrill, svöng og yfirsofin: "Svo er líka alltaf hægt að vera bara heima hjá sér ef maður vill engar breytingar........."
Ójá - en það liggur nú betur á mér núna. Er að spá í að taka til sneggvast.
Svona leit Hekla út í morgunsárið. Tignarleg í fjarzka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.7.2007
Hreyfimyndir og svefn
Allir að setja inn hreyfimyndir.
Ég er hinsvegar farin að sofa. Er gjörsamlega búin á því en mun fylgjast með ykkur....
Geriði ekkert sem ég mundi ekki gera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.7.2007
Dagrenning við ána
Gekk upp með á í morgunsárið með Ljónshjartað. Stafalogn og sólin reyndi að brjótast fram úr skýjunum. Engin á ferli - bara ég og hundurinn. Frábærir svona morgnar......
Fór svo í vinnuna og þar var sama geðveikin og venjulega. Lét sem ekkert væri og tók fullan þátt í hasarnum. Aðal vertíðin er núna og við erum tíu í vinnu - átta í sumarfríi. Ég byrja klukkan 08:05 að svara reiðum mönnum og hætti því klukkan fimm......
....segi svona, þeir eru nú ekki allir reiðir. Sumir eru meira að segja skemmtilegir og aðrir eru alveg uppáhalds.........
Þegar svo klukkan slær fimm og ég kemst út aftur, óma símhringingar í eyrunum á mér í ca. klukkutíma eða svo. Þá er gott að fara út að hlaupa með stubbaling sem týnist í grasinum meðfram ánni
Hérna hittum við tík í gær - lyktin af henni er greinilega hér enn.....hún synti út í allsendis óhrædd eftir trjágrein og Ljónshjartað var frekar hneykslaður á að enginn hefði sagt henni að áin væri hættuleg..... stal svo af henni greininni þegar hún kom í land.
Bezt að stilla sér upp úr því hún ætlar ekkert að hætta að taka myndir.........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
..... og einu sinni var ég stödd í Kaupmannahöfn. Við vorum sex saman, ég og vinkonur mínar tvær með samtals börnin okkar þrjú. Árið var 2000. Ég var nýskilin, svona til þess að gera - og þetta var í fyrsta skipti sem ég hélt upp á það.......
Það var nýbúið að opna brúna yfir Eyrarsund. Brúarhlaupið yfir Eyrarsund var haldið, eins og gefur að skilja, í fyrsta sinn. EM í fótbolta var í fullum sving. Við horfðum á nokkra leiki á Ráðhústorginu í gríðarlegri stemmningu. Man eftir að við sáum bl. a. Danmörk - Holland á risaskjá. Torgið var yfirfullt af fólki og veðrið var frábært!
Við vorum búin að fara í Zoologiske haven, skoða Vaxmyndasafnið, Heimsmetabók Guinnes safnið, ferðast með lestum og skoða Hovedbanegården, Strikið og sjá varðmennina hafa vaktaskipti við höllina þegar við ákváðum að fara sightseeing túr með strætó. Þetta var svona týpískur ferðamannaböss með opnu efra rými og heyrnartækjum við hvert sæti þar sem hægt var að hlusta á túrinn á ensku, ítölsku og þýzku ef ég man rétt. Það var hægt að hoppa í og úr á flestum stoppistöðvum. Vagninn var naumlega fullur.
Með í för var ítali og kona hans fremur lúpuleg, við nánari íhugun minnti hún dálítið á Dorit okkar allra en það er nú önnur saga...... en aftur að ítalanum. Heyrnartækin við hans sæti virkuðu ekki og gerðist nú ítalinn fremur ófriðlegur. Það var eins og það væru samantekin ráð annarra farþega að hunsa hann og bílstjórinn lét sem hann heyrði ekki. Svo þegar fólk fór úr vagninum sætti sá ítalski lagi og skipti um sæti. Var hann nú til friðs nokkrar stoppistöðvar.
Þá komum við að Litlu Hafmeyjunni - hápunkti ferðarinnar. Tilkynnt var að þarna yrði stoppað í 15 mínútur og allir fóru úr vagninum. Margar myndir voru teknar m.a. af ítalanum.....
Þegar snúið var aftur til vagns vildi ekki betur til en svo að í sæti þess ítalska var sestur rússi. Eina lausa plássið var sætið sem Ítalía hafði flúið úr fyrr í ferðinni. Ítalinn átti fyrst ekki orð yfir ósvífni rússneska heimsveldisins en lét svo orðaflauminn dynja á veslings rússanum sem var nýr inn í vagninn á Hafmeyjustoppistöðinni.
Upphófust nú miklar milliríkjadeilur. Rússinn skildi greinilega ekki orð af því sem ítalinn sagði og tautaði öðru hverju eitthvað á rússnesku...
Á þessu gekk vel og lengi þegar rússinn sagði allt í einu sagði hátt og snjallt á afar rússneskuskotinni ensku: Votttt is jorr proooobblem?
Enn í dag get ég tuldrað þessi orð í barminn og flissað með sjálfri mér.
Enn í dag vekur þessi minning fögnuð í brjósti mínu
pís
Bloggar | Breytt 24.7.2007 kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
23.7.2007
Árás skordýranna
Í allt sumar hef ég leyft kóngurló að spinna vef sinn í einu horninu í útidyragættinni hjá mér. Ég hef beygt mig framhjá honum, á ferðum mínum út og inn, til að eyðilegga hann ekki. Ég hef dáðst að honum í rigningu þegar hann glitrar allur og tindrar og á móti hefur hún lofað að halda flugunum í skefjum í mínu húsi.....
Í hádeginu kom ég heim til að heilsa upp á litla kút, (les. hleypa honum út að pissa og kjassa hann aðeins í leiðinni) opnaði hurðina og BAMM kóngurlóin gerði árás!!! Hún var þá komin inn, einhverra hluta vegna, og hafði legið í leyni í loftinu og beðið átekta..... Ég sá hana útundan mér þar sem hún sveif á mig og spýtti um leið vef - ætlaði örugglega að binda mig og ná yfirráðum í húsinu.
Ég beygði mig snarlega og öskraði snöfurmannlega um leið og ég greip kústinn og sópaði henni út fyrir. Í hefndarskyni eyðilagði ég vefinn hennar!! Þegar ég var búin að jafna mig fór ég út í garð með labbakút og sá þá hvar flokkur býflugna hvarf í skipulagðri röð undir tröppurnar. Þá var mér nú allri lokið.....
Ákvað svo, á meðan hundurinn valdi sér stað af kostgæfni til að míga, að taka bara Pollýönnu á þetta og vera ánægð með að þetta voru ekki geitungar Hunsaði kóngurlóna algjörlega á leið minni inn aftur þar sem hún lá á tröppunum, þóttist vera dauð og beið færis.
Þegar ég kom svo heim áðan sá ég að hún var búin að færa sig...
...úr gættinni hjá mér yfir á dyrapallinn.....
Ég gaf henni ekki hýrt auga á leið minni inn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.7.2007
Mótorhjól og rósir
Í gærkveldi þegar ég var að læsa fyrir svefninn sá ég að einhver hafði skilið eftir hálft dúsin af rauðum rósum fyrir utan hjá mér.... Ég stökk til og bjargaði þeim í hús þó mér finndist nú hálfnízkulegt af þessum óþekkta aðdáanda mínum að tíma ekki að hafa þær tólf.....
Nú standa þær stoltar á eldhúsborðinu mínu og gefa eldhúsinu lit og líf.
Var að horfa á motor GP í morgun allt í einu datt það í mig hvað þetta hlyti að vera skemmtilegt. Hanga svona í beygjunum á ógnarhraðar með hnéð út í loftið og reyna að láta dekkin duga hring eftir hring. Fannst hann góður þessi sem lenti í öðru sætinu og snýtti sér á gagnrýni um að hann væri orðinn of gamall 36 ára..... Maður er aldrei of gamall til að hafa gaman af því sem maður gerir. Og þá kem ég aftur að því. Ætti ég ekki bara að kaupa mér racer og byrja að keppa? Verða fræg að endemum?
Þá getið þið sagt með andakt á innsoginu.... jáhhhh ég þekki hana.....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)