Færsluflokkur: Dægurmál

Alltaf að græða!

Já - góðan daginn, sagði ég með röddinni - þið vitið - þessari sem maður notar þegar maður er alveg tilbúin í að nöldra yfir einhverju en vill hafa vaðið fyrir neðan sig ef ske kynni að maður hefði ekki rétt fyrir sér. Svona nett blanda af kurteisi og pirringi. Sumir kalla hana ákveðna, aðrir segja að hún sé frekjuleg, það er alveg undir hælinn lagt hvernig fólk heyrir hana....

Þannig er að ég fæ endurgreiddan hluta lyfjakostnaðar - og ekki veitir nú af Tounge og hluta af íþróttaiðkunarkostnaði hjá Verslunarmannafélagi Suðurlands, sem er mitt stéttarfélag. Um daginn var ég svo að afla mér einhverrra allt annarra upplýsinga á síðunni þeirra og rak þá augun í að heilsurækt yrði styrkt um 50% til 1. maí nk. og það var sumsé það sem ég ætlaði að hefja baráttu fyrir. 

Ég var búin að semja ræðu þar sem ég tiltók meðal annars að mér finndist þetta ekki rétti tímapunkturinn að hætta að styrkja fólk til heilsuræktar og ég myndi íhuga það alvarlega að stöðva greiðslur mínar til stéttarfélagins ef þau drægju þetta ekki til baka - nú, þegar, strax! Jú gett ðe pitsjör.

Sannleikurinn kom svo í ljós þegar ég vakti máls á þessu. Það var nefnilega samþykkt á síðasta ári að hækka endurgreiðslur úr þrjátíu prósentum í fimmtíu prósent til 1. maí nk. og hún fullvissaði mig um að því yrði ábyggilega framlengt um allavega eitt ár.

Sjúkkett að það mátti alveg eins misskilja tóninn sem yfirmáta kurteisan. Ég er nefnilega aldrei hranaleg. Bara stundum hrannarleg Tounge

Svo hitti ég líka krúttlegasta frænda minn í stiganum og gat knúsað hann í kaupbæti InLove


Þá er síðasti dagur

þessa árs runninn upp.

Í mínum huga er gamlársdagur ekkert sérstakur dagur og ég hef síðustu árin tekið honum af miklu jafnaðargeði. Ég elda góðan mat og fer snemma að sofa. Vakna síðan á nýju ári fersk og falleg - eins og alltaf reyndar Tounge

Nú er svo komið fyrir mér að ég gýt hýru auga á annálana bæði innlenda og erlenda. Hugsanlega er það merki um aukinn þroska....... en ég man þá tíð þegar annálarnir voru þurrir og leiðinlegir og töfðu fyrir sirkus Geira Smart.

Ég ætla svo sannarlega ekki að lista upp fyrir ykkur allt sem skeði á árinu enda getið þið bara lesið bloggið mitt ef þið hafið áhuga á því en einu ætla ég þó að deila með ykkur. 

 - Ég splæsti í nýjan sundbol. Það er nefnilega með sundboli eins og nýtt ár - maður veit ekki fyrr en þeir eru búnir hvort þeir reynast vel eða illa. Þessi sundbolur sem ég keypti mér í haust reyndist ekki vel. Hann tærist mjög hratt og er að verða leiðinlega grár á köflum. Fyrir utan að það voru ekki til nema svartir - hvað er málið með svarta sundboli? Mig langar í túrkisbláan eða appelsínugulan sundbol. Má gjarna vera svart í honum - svart fer vel með öllu bara ef það er ekki of mikið af því.

Ljónshjartað, Hrekkjusvínið og Hryðjuverkakötturinn sem heldur að hann heiti Hlín, æsa sig ekki ýkja mikið yfir sprengingum í ár. Enda hef ég verið dugleg að segja þeim söguna af hundinum í Kosovo en hún byggir á sannsögulegum atburðum úr lífi hunds í Kosovo og fjallar aðallega um að þau gætu haft það verra........

Ég ætla að taka nýju ári fagnandi, kannski með smá tortryggni þó til að byrja með enda óþarfi að flaðra upp um allt nýtt þó ég stefni að því á nýju ári að verða ögn lauslátari Tounge

Óska ykkur árs og friðar InLove

 

 


Ég var að hugsa

þar sem ég gekk út með á með Ljónshjartað og Kisuling hvort það væri nokkuð líf að vera fugl.

Spáið í það. Alltaf á varðbergi flögrandi um, sendandi út aðvörunartíst! Ekki nóg með að þú þurfir að vara þig á mannfólki heldur líka fjórfættum óvinum. Köttum, hundum, bílum.

Aldrei róleg stund. 

Ég er allavega ferlega fegin að vera ekki þröstur Sideways


Ást og friður

Það snjóar úti, mér er sagt að veðrið á fjallinu sé afleitt og jólaboðinu sem ég var á leiðinni í er aflýst. Þetta eru sko jólin! Muniði í gamla daga þegar maður sá ekki á milli augnanna á sér fyrir blindhríðarbyl og komst ekki í jólaboðin?

Í þá daga var maður líka hár og grannur eða langaði allavega að vera það. Hvur veit nema það verði aftur með þessu áframhaldi. Ég á nefnilega ekkert að borða. Hafði algjörlega reiknað með þessu jólaboði Tounge

Ég var að koma frá því að syngja við helgistund á Ljósheimum í dag ásamt einum eða tveim öðrum Tounge Þar var kona sem þakkaði okkur við hvert lag fyrir dásamlegan söng. Ég stakk upp á því við gjaldkera sóknarnefndar - sem var líka að syngja - að við flyttum þessa konu inn í messur. Þetta var svo gefandi. 

Ég er búin að kveikja á kertum í öllum gluggum og valið stendur á milli þess að lesa bókina sem ég fékk í jólagjöf eða ráða myndagátu Dagskrárinnar. Ætli myndagátan verði ekki fyrir valinu. Formaður sóknarnefndar - annað hvort neimdroppar maður eða ekki Tounge - er búin að ráða gátuna og ég get ekki verið þekkt fyrir annað en klára hana líka!

Lífið er ekki það versta man ha´og snart er kaffet klar InLove


Frost er úti....

Hitakerfið í mínu húsi er eins og eigandinn, afar flókið. Inntakið er, eins og öll góð inntök, staðsett í kjallaranum og ég þarf afar sjaldan að hringla í því.

Nema þegar frostið fer yfir öll velsæmismörk eins og núna. Þá væri gott að nenna niður og setja smá trukk í kerfið en ég nenni því náttúrulega alls ekki frekar en öðru fyrir jólin Tounge Enda er svo skrýtið að þegar verður svona mikið kalt þá er eins og þrýstingurinn detti niður á heita vatninu í sveitinni.

Ef ég vissi ekki betur þá mundi ég halda að sveitarfélagið réði bara alls ekki við að þjónusta svona stórt hverfi - en vitaskuld er það ekki málið.........

.....ég trúi því nefnilega staðfastlega að þetta sé allt Eyrarbakka og Stokkseyri að kenna. Ég er enda ekki frá því að þetta hafi allt hafist með því að þeir tengdust kaldavatnslögninni minni Cool

Það er allt eins þetta lið þarna niðri á strönd það má ekki rétta þeim kaldavatnskrana án þess að þeir rjúki til og steli heita vatninu líka! Þetta segi ég án alls kala til þeirra því vitaskuld eru sumir af mínu bestu Strandabúum vinir.

Og svona af því að ég nenni alls ekki út í þennan kulda og gegnum hlerann fer ég ekki síðan ég stytti mér leið þar niður í kjallara í vor, sællar minningar, þá ætla ég að fara í lopapeysuna mína og leyfa ykkur að heyra jólalag míns jólaþema í ár.....

Hlýjar stundir Sideways


Ég ákvað í haust...

...einhverntímann að ég ætlaði að verða voða góð fyrir jólin. Prjónaði handstungur í gríð og erg í hverri messu og hverri jarðarför, sem ég ætlaði svo að gefa einhverjum hjálparsamtökum - nema hugsanlega fjölskylduhjálpinni........ - algjörlega á pari við Bergþór Pálsson sem prjónar jólagjafir baksviðs í dauða tímanum!

Ég fór meira að segja í föndurbúð í Kópavoginum - Kópavoginum takið eftir - til að kaupa silfurlitt garn sem ég ætlaði að hekla blúndur úr framan á handstungurnar.

Enívei.... tíminn leið - ég er búin með einhver fjögur pör og langt komin með fimmta. En það eru bara fjórir dagar til jóla - EF ég tel þennan með Tounge Þannig að ég tel útséð með gæzku mína fyrir þessi jól.

Dízes - ég vona að það verði líka kreppa um næstu jól Cool


Ég er búin að öllu fyrir jólin....

...nema; kaupa jólagjafir, baka, taka til, skreyta og kaupa í matinn.

Ekki af því að ég hafi ekki tíma til þess - heldur vegna þess að mig skortir nennu. Ég hef hins vegar varið aðventunni í kökuboðum hjá ættingjum, tónleikum og almennu slugsi og er ekki frá því að þeim tíma hafi verið vel varið. Allavega eru það rökin sem ég nota til að sannfæra sjálfa mig um áframhaldandi jólaleti þegar jólakvíðahnúturinn gerir vart við sig einhversstaðar á milli nára og nafla Cool en kannski er það líka bara eftirvænting eftir jólasveinum sem læðast um bæinn á meðan ég og hin góðu börnin sofa....... 

Ég hef samt smá fóbíu gagnvart þeim - jólasveinunum alltsvo - síðan þeir komu tveir heim þegar mömmusinnardúlludúskur og fröken fíólín voru lítil og annar þeirra sagði við þau, og hló í gegnum skeggið, að hann yrði nú bara að kyssa mömmu þeirra líka - það væri svo langt síðan hann hefði kysst hana......

Ég var öll þau jól að reyna að átta mig á því hvar hann var þessi jólasveinn og hvar og hvenær við hefðum átt náið samneyti Tounge Endaði á því að telja sjálfri mér trú um að hann hefði verið að meina að hann hefði ekki kysst mig síðan ég var lítil.......

Enda er ég meira gerð fyrir happy ending - ég meina vitaskuld man ég eftir öllum strákum slash jólasveinum sem ég hef kysst í gegnum tíðina - en ekki hvað Sideways

En aftur að aðventunni í ár...... Ég fór á tvenna tónleika í gær. Byrjaði í Hvítasunnunni þar sem Ragnheiður Blöndal brilleraði Heart Stakk svo af þaðan yfir í Tryggvaskála að hlusta á jóladjass hjá Kristjönu Stefáns. Það er orðinn árviss atburður hjá mér að hlusta á jóladjass hjá Kristjönu og co. Local selfysskir brandarar þyrlast um salinn í bland við tónaflóð og englasöng. Í gær voru gestasöngvarar hjá Kristjönu þær Guðlaug Elísabet og Soffía Stefáns sem er þó ekki systir Kristjönu Stefáns - en það er Ragnheiður Blöndal hinsvegar Tounge Flókið? Lestu þá aftur - bara hægar.

Í dag ætla ég svo að trítla yfir í jólagarðinn og hlusta á Selmu, litlu frænku mína, syngja ásamt Sniglabandinu. Hver veit nema ég hnjóti um eins og eina jólagjöf........

Láttu þér líða vel InLove


Gigg í göngutúr

Ég fór út með vitleysingana þrjá snemma í gærmorgun. Fílaði mig pínu pons eins og ég væri á hundasleða með kött í eftirdragi þangað til ég komst af malbikinu og út á malarveginn meðfram ánni.

Það var fantafrost, fullt tungl og stjörnurnar tindruðu á himninum, máninn merlaði á yfirborði árinnar einna líkast því að stjörnurnar hefðu ákveðið að tylla sér þar eitt augnablik. Mér leið eins og ég væri stödd í jólakorti.

...og þá fór ég að hugsa um jólaskreytingar. Fólk skreytir á ýmsan hátt. Sumir láta duga að setja upp eina og eina seríu og jólastjörnu eða aðventuljós út í glugga. Aðrir eiga kynstrin öll af jólasveinum sem þeir stilla upp úti í garði, eða í stiga á leiðinni upp á þak. Einn og einn á jafnvel Rúdólf með rauða nefið og hreindýrasleðann.

Enn aðrir setja upp helgileik í garðinum hjá sér með ðí happí familí - Jósef, Maríu og Jesúbarninu í jötunni og allt svosem gott um það að segja.........

....en það sem ég hef aldrei skilið er þegar fólk plantar jólasveinum, snjókörlum, Rúdólf, hreindýrasleðanum og fyrrnefndri fjölskyldu ásamt vitringunum þremur í garðinn sinn.

Mér líður alltaf eins og ég sé stödd í ruglingslegu ævintýri þegar þannig skreytingar rekur á fjörur mínar!

En hundarnir voru ánægðir með sín ævintýri í göngutúrnum í frostköldu myrkrinu og litli Vargurinn líka - enda ábyggilega yfrið nóg af músum á kreiki í móanum.

Góðar stundir Kissing

 

 

 

 

 

 

 

 

.....rétt´upp hend sem er ekki farinn að söngla síríus konsum lagið Tounge

 


....og tækninni fleygir fram.

Hver notar eiginlega fax? .....var ég spurð í vinnunni í dag. En spáiði í snilldina! Maður rennir blaði í gegnum maskínu úti á landi og það kemur út úr annarri maskínu í Reykjavík!

Hvað dettur þeim í hug næst?!?

Ég er allavega upprifin yfir þessari uppfinningu og get alls ekki hætt að nota hana við hvert tækifæri þannig að svarið við spurningunni er líklega: 'Miðaldra kona úti á landi.' Hins vegar er ég fullviss um að internetið sé bara bóla sem hjaðnar og verður að engu fyrr en varir.

Ég er stundum að spá í hvar öll sms-in lendi sem skila sér ekki á rétta staði. Eru þau bara sveimandi um? Gæti maður hugsanlega lesið annarra manna sms - sem eru á ferðinni fram og aftur í einhverri óendanlegri vídd  í umhverfinu - ef maður kæmi sér upp réttum græjum? Kannski einhverskonar gsm  texta gleraugum? Spennandi.......

Hugsanlega eru þó þessi sms verulega óspennandi: "Kem ekki í mat" Eða: "Er á leiðinni" Jafnvel: "Ertu búin að virkja Atlantsolíu lykilinn þinn?"

Þá væri nú kannski meira spennandi að vita af hverju viðkomandi ætlar ekki að vera í mat. Er framhjáhald í gangi? Á að borða með einhverjum öðrum eða er maturinn bara verulega vondur heima?

Ég sá í Fréttablaðinu í dag að konum þykir deitmenning á Íslandi ekki á háu stigi. Ég gæti ekki veirð meira sammála. Af hverju hringir aldrei fallegur karlmaður og býður mér út að borða eða gefur mér rósir? Eða bæði? Annars er ég á leið í Dömuboð í kvöld og hlakka mikið til.

Og þá yfir í allt annað. Áttiði ykkur á dagsetningunni? 121110! Góður dagur til að gifta sig 

Lifið heil Joyful 

 


Gaurinn niðri...

... er ágætis náungi.

Hann flutti inn, ásamt fjölskyldunni,  síðla sumars og síðan hefur hann staðið í stanslausum breytingum. Hann er búin að brjóta niður alla milliveggi og er að frá morgni til kvölds með heavy duty verkfæri. Við erum að tala um allskyns borvélar, steinsagir, brothamra og fleira og fleira sem ég hreinlega kann ekki að nefna, gott ef það leynast ekki steinsmugur þarna inni á milli....... Brotahaugurinn í garðinum stækkar jafnt og þétt í réttu samræmi við hvað veggjunum fækkar W00t

Einu mínar áhyggjur eru þær að hann sé búinn að breyta svo rækilega þarna niðri að hann endi í loftvarnarbyrgi og ég á jarðhæðinni - en það er bara hans vandamál....

Ég meina hvursu miklu er hægt að breyta í ríflega sextíufermetra íbúð? En ég er staðráðin í að halda áfram að brosa til hans og heilsa honum fallega vegna þess að klukkan fimm á hverjum degi dettur allt í dúnalogn þarna niðri og heyrist ekki meir fyrr en dagur rís á ný. Svo spillir ekki fyrir honum að hann á krúttlegan fimm ára son sem kemur stundum að heimsækja mig Tounge

Annars er ég ennþá með stjörnur í skónum og ekki laust við að ég öfundi sjálfa mig að hafa komist á sjóvið hans Palla á föstudaginn var InLove

Lifið í lukku Kissing


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband