Færsluflokkur: Dægurmál
27.6.2011
Sjúkraþjálfun og önnur þjálfun
Ég varaði sjúkraþjálfarann minn við því að ef hann meiddi mig yrði ég að ráða fólk til að meiða hann.... Ekki vegna þess að ég megi ekkert aumt sjá heldur vegna þess að ég get það ekki Ég fór sumsé í sjúkraþjálfun í dag í fyrsta skipti eftir aðgerð. Hann var samt ósköp ánægður með mig og ástandið í impingmentinu við abduction..... já, já, ég hef engu gleymt
Ég er líka voða dugleg að taka verkjatöflurnar mínar og leggja mig...... Hann var líka ánægður með það - ég er svo aftur ánægð með val mitt á sjúkraþjálfara
Á morgun á svo að taka saumana. Þá get ég hætt að hafa áhyggjur af því að flækja öxlina í öllu mögulegu. Í höfði mínu er spiluð hryllingsmynd með öllu því helsta sem ég gæti hugsanlega flækt saumana í... og þá skiptir engu máli að vitaskuld eru umbúðir yfir herlegheitunum.
Hér voru bíladagar í bland við fornbílaklúbbsviðburð einhvern um helgina - ég fór ekki, á Eyrarbakka var Jónsmessunæturbrenna í fjörunni - ég fór ekki, í Hveragerði voru svo blóm í bæ og þangað fór ég. Mjög fín blómin þeirra í bænum
Þetta voru helstu fréttir af Suðurlandsundirlendinu - þakka þeim sem hlýddu
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.6.2011
Hátíðarútgáfan
Ég á afmæli í dag.
Það er alveg spes tilfinning að eiga afmæli. Mér finnst í raun sjálfsagt mál og óþarfi að ræða það eitthvað frekar að þegar maður á afmæli þá á maður að eiga frí frá vinnu og ekki að standa í biðröðum í bónus. Afmælisbörn eiga nefnilega alltaf forgang. Þau eiga ekki að bíða á rauðu ljósi og geta brunað um götur bæjarins án þess að þurfa að taka tilliti til annarra. Hinir eiga að bíða
Hugsanlega gæti þetta þó skapað einhver vandræði ef margir eiga sama afmælisdag. Til hamingju með daginn Dagga
Vitaskuld ætla ég að borða af sparistellinu mínu og nota silfurhnífapörin. Ég vænti þess að fólk sópist hingað með gjafir og glimmer handa mér. Ég er nefnilega hátíðarútgáfan af sjálfri mér í dag
Ást og friður
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.5.2011
Ísland í dag
Ég gekk fram hjá Húsasmiðjunni á laugardaginn - daginn sem einhver nöttkeis spáði heimsenda, muniði..... og út úr verzluninni kom maður og hélt á gildu reipi. Ég íhugaði að spyrja hann hvort hann ætlaði heim að hengja sig en hætti við. Sumt segir maður ekki Ég þagði bara og skundaði áfram með Ljónshjartað.
Mér varð hins vegar hugsað til þessa manns í gær þegar ég var að slá heimatúnið og allt í einu dimmdi yfir öllu. Askan var mætt á svæðið!
Ég meina - hér er ríkjandi atvinnuleysi, þeir fáu sem hafa vinnu bera það ekki við að biðja um launahækkun, allir bíta bara á jaxlinn þ.e. ef þeir hafa einhverja ennþá - ekki hefur fólk efni á tannlæknum - og halda áfram að berjast í bökkum með sömu krónutölu upp úr launaumslaginu á meðan matvara og benzín hækka upp úr öllu valdi. Fólk reynir að klóra í bakkann með því að takmarka notkun bíla og hjóla og ganga allra sinna ferða og þá fer næsta eldfjall að gjósa þannig að ekki er líft úti við!!
Þó maður vildi gefast upp og flýja af landi brott þá er ekki flogið frá landinu.
En þetta var nú bara svona smá bjartsýnishjal.........
Píz on örþ. Eða ætti ég að segja pez?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.4.2011
Impingment og bursur
Ég fór í sónar og myndatöku um daginn.
Allir rólegir - ég er ekki ólétt
Ég nefnilega stytti mér leið á milli hæða fyrir tæpu ári og hef ekki náð öxlinni góðri síðan. Ég brosti mínu blíðasta á röntgenmyndinni og læknirinn sem tók mig í sónar sagði að ég liti mjög illa út. Ég hef ekki brosað síðan. Enda verið upptekin við að drepast í öxlinni
Í gær sendi ég svo uppáhaldslækninum mínum bréf - eins og ég kýs að kalla þau samskipti okkar sem fara fram í gegnum ímeil - og spurði hann hvort niðurstöður hefðu borist.
Hann svaraði mér um hæl og sagði að það væri þroti í bursunni og mikið impingment við abduction. Ég flissaði daðurslega og skrifaði honum að ég væri sérlega ánægð - bæði með hann og þessa setningu.
Nú get ég - þegar fólk spyr mig hvernig ég sé í öxlinni - í stað þess að svara eins og geðvont gamalmenni að því komi það ekki við, sett mig í stellingar og sagt. Það er þroti í bursunni og mikið impingment við abduction.
Og það bezta er að fólk er engu nær
11.4.2011
Þið getið sko aldrei gizkað..
..hvað ég ætla að skrifa um núna!
Ég fór vitaskuld og kaus á laugardaginn - ég ætla svo sem ekkert að fjölyrða um það hvað ég kaus - en ég get sagt ykkur að ég var í vinningsliðinu
Fyrstu viðbrögð breta segja mér að ég hafi kosið rétt. Það er enginn að tala um að Íslendingar ætli ekki að borga þessa skuld. Allavega ekki ég. En fjandinn fjarri mér að ég fari að skrifa undir einhverja ábyrgð á einhverjum upphæðum sem enginn veit hverjar eru. Þeir geta fengið þrotabú Landsbankans og ef það dugir ekki mega þeir laumast í vasa björgólfs thors eftir afganginum.
Eftir að ég kaus fór ég í bíó og sá einhverja leiðinlegustu mynd síðari tíma. "Kurteist fólk" Ég sver það ef ég væri ekki svona vel upp alin hefði ég gengið út í hléi. ´Það vildi bara þannig til að ég var ekki handhafi bíllyklanna í þessari ferð og sat því áfram en kræst - hvílík leiðindi.
Eftir bíó var mér svo rænt - eins og hverri annarri Soffíu frænku og þá kom sér nú vel að vera eins og hún á fleiri sviðum - enda var mér skilað fljótlega. Fékk samt glimrandi góðan mat og nú er ég að vappast um á höttunum eftir uppskriftinni.
Upplýsi ykkur hugsanlega um hana - ef þið hagið ykkur skikkanlega.
Ég sá á feisbúkk í dag að nokkrar vinkonur mínar voru að díla og víla við þí universe. Ég sá mér því leik á borði úr því að þær væru hvort eð er í samningaumleitunum og lagði inn pöntun um einnar hæðar hús með stóru, rúmgóðu eldhúsi, sólríkri stofu og svona eins og þremur svefnherbergjum. Garðurinn umhverfis húsið má liggja að vatni - sú krafa er þó umsemjanleg. Ó... og svo langar mig í böns af monningum og skemmtilegan mann
Nú bíð ég bara spennt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.3.2011
tuttuguogsjöár
..og tuttuguogsjödagar.
Hann poppaði allt í einu upp í huga minn, fyrir nokkrum dögum, ungi maðurinn sem lést fyrir rúmum tuttuguogsjö árum síðan.
Hann var tuttuguogsex ára, ég var tuttuguogeins.
Hann var maður drauma minna, hávaxinn, dökkhærður með stríðnislegt bros og falleg augu. Ég var yfir mig ástfangin.
Framtíðin var björt og brosandi.
Svo - eins og hendi væri veifað - var hann horfinn.
Ég hélt ég væri löngu búin að jafna mig og skil ekki hvers vegna hann er mér svona ofarlega í huga þessa dagana - en það er svo sem allt í lagi - allar mínar minningar um hann eru ljúfar.
Ég held ég hafi ekki hugsað svona mikið um hann í tuttugu ár og ég er döpur því hugsanlega finn ég aldrei annan slíkan
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.3.2011
Spekingar spjalla
Sagt er að sá sem sefur með hundum - vakni með flóm.
En hvað fær þá sá sem sefur með flónum?
Mér er spurn
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.2.2011
Coming soon...
Það datt í mig í júlí sl. að setja saman matvinnslumaskínuna sem ég fékk í brúðkaupsgjöf hér um árið og nota hana til að rífa niður gulrætur í gulrótasalat.
Til að gera stutta sögu langa - þá kom ég vélinni alls ekki saman enda nokkur ár síðan ég gifti mig síðast og vélin ekki verið notuð síðan sirka þá :) Henti henni því aftur niður í kjallara og játaði mig nánast sigraða. En vegna þess að þrjózkan ætlar mig stundum lifandi að drepa þá fór ég aftur niður í dag og prófaði að setja fjárans vélina saman. Í þetta skipti tókst það og nú malar hún eins og ljúfur tígur í hvert sinn sem ég lít á hana og ísskápurinn hjá mér er sneisafullur af alls kyns chutney.
Þvílíkt og annað eins galdratæki þessar matvinnsluvélar. Á einu augabragði skera þær niður í frumeindir hvað sem vill!
Þetta sparar tíma, fé og fyrirhöfn. Ég veit að vísu ekki alveg hvar féð kemur inn í jöfnuna - það hljómaði bara svo vel.
En tímanum veitir mér ekki af. Ég er núna að æfa skemmtiatriði fyrir árshátíð kirkjukórsins, sem nálgast óðfluga, ásamt stöllum mínum úr alt.
Við komum til með að slá í gegn - enda gerum við nánst allt fyrir frægðina - nema kannski að koma fram naktar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.2.2011
Það er dekurdagur hjá minni
í dag.
Ég smurði ösku úr Eyjafjallajökli á andlitið á mér, tók mynd og skipti um profile á facebook. Það er nefnilega um að gera að líta nógu ógurlega út þar. Svo þegar fólk hittir mann í raunheimum verður það svo rasandi hissa á hvað maður lítur vel út.....
Ég er soldið hissa á hvað fólk flaskar á þessu. Allir alltaf að velja beztu myndirnar af sér
Svo fór ég í sturtu, skóf af mér hælana a la Öskubuska og smurði svo kremi á þá á eftir. Á morgun verða þeir lungamjúkir eins og á ungabarni. Restaði svo á að setja fastan lit á augabrúnirnar.
Nú bíð ég bara eftir riddaranum á hvíta hestinum að taka mig með sér á þorrablót að borða skemmdan mat.
Á meðan ætla ég að kíkja í bók, vefja utan um mig sjalinu sem ég keypti mér í Hósiló í morgun og hugsanlega taka smá bjútíblund í leiðinni.
Á morgun ætla ég hins vegar að mæta með sjalið i kirkju að syngja jesúslagara og ljúga að öllum að ég hafi heklað það sjálf - það er kosturinn við að mæta í messur og syngja fyrir jesú. Ég á svo mikið inni hjá þeim félögum og má bæði plata og hræða börn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.1.2011
Talnaspeki.
Ég vaknaði í nótt um hálftvöleytið og ætlaði aldrei að geta sofnað aftur. Ráfaði fram og aftur - fékk mér kaldara vatn að drekka, heldur en í boði var á náttborðinu mínu, fór svo og pissaði öllu þessu kalda vatni - jú, jú þetta eru talsvert nauðsynlegar upplýsingar.
Lá svo og taldi bílana sem keyrðu fram hjá og velti því fyrir mér hvort ég ætti bara að kveikja ljós og fara að lesa.... en bókin sem ég er að lesa er ekki nógu spennandi til að rífa sig upp fyrir hana. Í síðasta skipti sem ég fór fram leit ég á klukkuna á náttborðinu og sá að hún var 333, ég ráfaði fram í eldhús og þar var klukkan líka 333 þannig að ég rölti mér inn í stofu og viti menn; klukkan þar var líka 333.
Ég var sannfærð um að þetta væri góður tími til að sofna á og skaut mér aftur undir sæng og fór að reikna.
3+3+3 eru níu sem eingöngu talan þrír gengur upp í og ef maður deilir þremur í 333 fær maður töluna 111 sem er akkúrat talan sem allir fá ef þeir taka seinni tölurnar af fæðingarári sínu og leggja við aldur sinn á þessu ári
Segiði svo að tölur séu þurrar og leiðinlegar.... ég meina hver þarf Hermund Rósinkrans þegar hann getur kíkt til mín á þrjú og fjögur á nóttinni
Hver sko.... ekki Hermundur....
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)