Færsluflokkur: Dægurmál
7.6.2012
Framboð og skítkast!
Ég er orðin svo leið á þessu endalausa skítkasti í garð sitjandi forseta að það endar með því að ég kýs hann.
Fólk hrópar; puntudúkka, upprifjun, 2007, útrásarforseti og fleira og fleira. Hvert sem ég lít fylla skjáinn blogg, fjölmiðlafyrirsagnir og facebookstatusar um hvað maðurinn sé ómögulegur.
Þetta með puntudúkkuna breyttist að vísu úr skrautdúkku í meðförum manna - ef ég man rétt. Ég velti því fyrir mér hvar Ólafur Ragnar hefði kallað aðalkeppinaut sinn skraut/puntudúkku. Enginn virtist geta svarað því með sannfærandi hætti þannig að ég fór á stúfana og hlustaði á viðtöl við manninn og las mikið af því sem haft hefur verið eftir honum. Það næsta sem ég komst skrautdúkku var í viðtali sem Björn Ingi tók við hann á pressunni, ég held hann hafi verið á starfmannafundi á Landsspítalanum við það tækifæri. Þar svaraði hann aðspurður hvort hann hefði ekki verið ósanngjarn í gagnrýni sinni á Þóru - nokkurn veginn svona: "....á þetta framboð að vera einhver skrautsýning?" Man það svo sem ekki orðrétt en og nenni ekki að hlusta á þetta viðtal aftur. Endilega leiðréttið mig........... ekki ;) Ég ætla að þá að taka hinn sanna Íslending á það og hlusta ekki rassgat á ykkur. Því ég hlýt að hafa rétt fyrir mér. Ekki satt?
Tölum aðeins um hænuna sem missti eina fjöður!
Varðandi útrásina þá skal ég viðurkenna það að ég var ekki mjög ánægð með hann þá en ég skil svo sem hvað hann var að gera. Hefði fólk ekki fjargviðrast ef hann hefði ekki stutt við vitleysingana sem svertu nafn víkinga - og var nú orðspor víkinga ekki fallegt fyrir!
Ekki ætla ég að ætlast til þess að sitjandi forseti lesi meira og minna feikaða ársreikinga meira og minna gjaldþrota fyrirtækja og banka. Ég var með aðra menn á launum við það. Mér finnst það fólk hinsvegar alls ekki hafa staðið sig en það kemur forsetanum ekkert við. Ekki í mínum huga.
Svo er ég líka svo nísk að ég er ekki viss um að ég tími að borga enn einum forseta laun fyrir að frílista sig í útlöndum, Mosfellssveit eða hvar hann vill sóla sig. Er ekki betra að láta manninn vinna fyrir laununum sínum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.6.2012
Ég hitti...
...bóksalann á förnum vegi í dag. Hann hafði orð á því hvað ég væri orðin brún og innti mig eftir því hvort ég hefði verið erlendis. Ég sagði honum, sem satt var, að þetta væri afrakstur þess að labba úti með hundinn hátt í tvo tíma á dag; vetur, sumar, vor og haust. Fyrst yrði maður veðurbarinn, síðan útitekinn og síðast liti maður út eins og ég í dag
Hann spurði þá hvernig hundurinn liti eiginlega út og ég sagði að hann væri nánast orðinn alveg svartur
Dægurmál | Breytt 6.6.2012 kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hana.... þarna sameinaði ég í einni fyrirsögn nánast allt það leiðinlega sem fólk talar um Nema sko ef ég tala um það.....
En af því að ég er í kirkjukórnum þá jarðsetti ég kryddjurtir í dag, hinir sá bara Ég legg nú ekki meira á ykkur. Síðast þegar ég stóð í þeim stórræðum stytti ég mér leið ofan í kjallara og gekk um í margar vikur með brotin bein og kjallarargólfið stimplað á óæðri endann. Þar áður þegar ég jarðsetti kryddjurtir brast hér á með Suðurlandsskjálfta og ég sat hér úti á tröppum eins og hver önnur kínverzk kjélling svo ég vitni nú í orð mín á þeim tíma. Í dag mundi ég hugsanlega líkja mér meira við Ásdísi Rán.......
Ég vildi bara vara ykkur við.
Annars er ég að mestu leyti góð þessa dagana - nýkomin úr ástandsskoðun og fékk góða dóma þrátt fyrir aldur og fyrri störf. Þið munið það kannski ekki en ég sagði ykkur það fyrir um það bil ári síðan að ég hefi farið til læknis. Hann sagði mér að ég væri bæði lítil og feit - það vantaði bara að hann segði að ég væri ljót líka Fyrir þetta borgaði ég stórfé og hef gengið átta kílómetra nánast daglega síðan í bræði minni. Þessir kílómetrar hafa nú skilað sér í betri heilsu og útliti. Enda sagði hann mér hvorki að ég væri lítil né feit.
Hann spurði mig hinsvegar hvernig í ósköpunum hefði staðið á því að ég hefði dottið út af tékklista hjá honum. Ég stóðst náttúrulega ekki mátið og sagði honum að það væri soldið svona þí story of mæ læf að detta út af listum hjá mönnum - það væri helst skatturinn sem gleymdi mér ekki
7.2.2012
Manstu....
.....hvort ég á gulrætur heima? Spurði ég afgreiðslustúlkuna í Bónus í hádeginu, grafalvarleg. Hún horfði ráðvillt á mig og vissi greinilega ekki alveg hvernig hún átti að tækla þessa klikkuðu kerlingu.
Ég glotti svo og útskýrði fyrir henni hvað þetta gæti verið þægilegur fídus fyrir verslunina. Hugsið ykkur ef kassinn í Bónus væri bara beintengdur við ísskápinn þinn og afgreiðslustúlkan/drengurinn gæti bara sagt - hinkraðu aðeins - ég skal athuga það..... Hún áttaði sig mjög hratt og við vorum komnar með hinar ýmsustu útfærslur á þessu eftirliti.
En - ég meina - spáiði í hvað þetta væri þægilegt! Að því gefnu að eftirlitið væri takmarkað við ísskápinn og hugsanlega búrskápinn
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.2.2012
Skipulag fyrir lengra komna.
Ég vaknaði óvenju snemma í morgun eða rétt rúmlega fjögur.... sumir mundu líklega kalla þetta nótt. Mömmusinnardúlludúskur segði líkast til að hann vissi ekki einu sinni að klukkan YRÐI fjögur um morgun
Þar sem ég bældi mig og reyndi að sofna aftur rann það upp fyrir mér af hverju ég vaknaði á þessum ókristilega tíma. Mér fannst ég nefnilega vera orðin á eftir í öllu og ekki síst lífi mínu! Ég fleygði bókinni, um Gamlingjann sem fór út um gluggann og hvarf, - ágætis bók bæþevei..... umsvifalaust frá mér, setti í vélina, stökk í sturtu, setti skrúbb framan í mig og fastan lit á augabrúnirnar. Reiknaði svo nokkur dæmi - bara svona til öryggis og fór út með hundinn. Ó..... og upphugsaði sjö hnyttna en um leið fræðandi feisbúkkstatusa. Einn fyrir hvern dag vikunnar.
Nú sit ég - klukkan rétt að skríða í hálfníu og er búin að öllu.
Hvílíkur munur
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.1.2012
Ég var að koma af kóræfingu...
...og allt í lagi með það - nema þar sem ég sat þar og söng sálma á fullu gasi datt mér allt í einu í hug strákurinn sem ég var að deita þegar ég var skvísa í Borg óttans. Ég kallaði hann bakardrenginn vegna þess að hann var að læra að verða bakari. Voða sætur strákur með dökkar krullur og fallegt bros. Hann átti barn - man ekki hvort það var strákur eða stelpa, enda málinu alls óviðkomandi.... en sum sé, ég fór að velta því fyrir mér hvort hann væri staddur á Sauðárkróki að baka iðnaðarsaltskökur og brauð Svona er maður nú undarlega innréttaður.
Og talandi um gas - ég var að hlusta á virka morgna á rás2 í morgun, góður þáttur þrátt fyrir að Andri - sem ég er ákveðin í að láta uppáhaldsfrænku mína giftast, vegna þess, eins og ég sagi henni, mér finnst hann svo skemmtilegur og ég verði að geta haft fun í jóla- og allskynsboðum fjölskyldunnar... hún var minna spennt en það kemur málinu ekkert við. Í þættinum í morgun var spurningakeppni stéttarfélaganna eða eitthvað þvíumlíkt og ein spurningin var: "Hvað eiga Hitler og Bretaprins sameiginlegt?" Ég flissaði hástöfum þegar annar keppandinn svaraði í gizkunarlíki: "Háan gasreikning?" Ætli ég þarfnist einhversskonar meðferðar? Ég - sem var gyðingur í fyrra lífi og náðist næstum í Svíþjóð af Stormsveitarforingjanum Heinrich Himmler!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.12.2011
Ég vaknaði í morgun...
...sem betur fer og ákvað að fara í göngu með Ljónshjartað og Hrekkjusvínið áður en sprengjubrjálæðið hæfist fyrir alvöru. Klæddi mig í öll útifötin mín opnaði hurðina - og framan í mig dinglaði sjónvarpsloftnetið sem hafði fleygst fram úr festingum sínum þegar skriðjökullinn á þakinu lagði land undir skafl. Jökullinn sjálfur hafði síðan endað för sína á pallinum hjá mér og í tröppunum. Ég yppti öxlum, svona með sjálfri mér, og hugsaði - den tid, den sorg - og lagði af stað í myrkrinu. Gekk sæmilegan hring með vitleysingana ýmist fyrir framan mig eða aftan. Lét nánast keyra mig niður þegar ég fór yfir götu, aumingja bílstjórinn ætlaði að stoppa fyrir mér en hálkan var svo gríðarleg að hann sveiflaðist bara fram og til baka á meðan hann nálgaðist mig óðfluga þar sem ég stóð nánast á miðri götunni. Ég sá mitt óvænna og skautaði þrjú skref afturábak og bílstjórinn náði að beygja áður en bíllinn stoppaði. Bílstjórinn skrúfaði niður rúðuna og ég hugsaði: oó... nú ætlar hann að skamma mig fyrir að vera nánast endurskinslaus úti á miðri götu í svarta myrkri og fljúgjandi hálku - og setti mig í bardagaham ;) en hann gólaði bara: Góðan daginn og fyrirgefðu ....eins og þetta hefði verið honum að kenna.
Ég komst síðan heim aftur blaut og köld, datt upp tröppurnar... já, já það er hægt.... og uppgötvaði þegar ég var komin inn að ég hafi týnt báðum keðjunum undan skónum. Þá settist ég niður og hló, þrátt fyrir að mig langaði mest til að grenja, en eins og alþjóð veit þá grenja ég bara úr frekju, en ég meina hvernig átti ég að komast í sturtu með hálfmálað baðherbergið, jamm ég nefnilega keypti meiri málningu og byrjaði að mála baðherbergið í gær, svo sá ég fram á að geta ekki horft á skaupið með loftnetið ullandi á mig fyrir framan stofugluggann. Ég grenjaði að vísu seinna í morgun - en það var út af allt öðru og mér dettur ekki í hug að segja ykkur hvers vegna
Já, dagurinn byrjaði brösuglega - en nú er mömmusinnardúlludúskur búinn að moka tröppurnar, mála baðherbergið og er að ná í skrúfur til að festa loftnetið.
Allt horfir nú til betri vegar. Ég komin í sparifötin og er á leið að syngja nokkra jesúslagara og kalkúnninn ætlar að elda sig í ofninum á meðan.
Ég þakka ykkur fyrir árið sem er að líða og óska ykkur friðar og fögnuðar á nýju ári
14.11.2011
Ég fékk mér nýtt gæludýr í kjallarann.
Hún er lítil og brún og nötrar allavega jafnmikið og ég þegar við rekumst hvor á aðra, sem uppfyllir kannski ekki alveg mín skilyrði um gæludýraeign enda veit ég ekki hvað hvort hún er búin að flytja lögheimilið sitt en ég er með nagandi samvizkubit yfir gildrunni sem ég laumaði að henni áðan. Ég setti samt súkkulaði í hana. Ég vona bara að hún deyji snögglega og finnist súkkulaðið gott
Ég efast hins vegar um að ég geti fjarlægt sönnunargögnin, vona bara hálft í hvoru að hún fari frekar út um gluggann.... og hafi súkkulaðið með sér. Hugsanlega kæmi hún þá bara aftur og með vini sína með sér - ekki vil ég það.....
Og þá yfir í allt aðra og miklu skemmtilegri sálma. Ég fór í mjólkurbúðina áðan, þar voru tveir Færeyingjar að spyrja afgreiðsludrenginn um hitt og þetta og af því að mér er svo eðlislægt að skipta mér af þá náttúrulega gerði ég það umsvifalaust. Þeir voru að spyrja um bílaleigu og hvar þeir gætu keypt sænguföt og hitt og þetta. Við svöruðum eftir beztu vitund öllum þeirra spurningum og það restaði á því að ég sagði við þá að ég væri á leið í humátt og þeir mættu sitja í ef þeir vildu. Ég hef sjaldan séð ánægðari Færeyinga enda ekki séð marga svosem - en þegar ég spái í það þá hafa þeir allir verið ánægðir þannig að hugsanlega er þetta landlægur andskoti
Þegar við svo vorum komin út í bíl þá vildu þeir endilega fá að vita eitt að lokum eins og mér þyki ekki vænt um Færeyinga.... enívei þeirra hinsta ósk var að fá að vita hvar fyrirtækið sem framleiðir plastbikarar og flöskur væri staðsett. Ég horfði á þá smástund og sagði svo: "Ég vinn þar"
Þeir gátu ekki á heilum sér tekið - með færeyskum hreim og allt
Yndislegir
12.11.2011
Hugleiðing um karlmenn og feminisma
Undanfarnar vikur og mánuði hef ég uppgötvað að karlmenn, með örfáum undantekningum þó, fara í taugarnar á mér. Það sem veldur er aðallega sá misskilningur þeirra að þeir séu gjöf Guðs til alheimsins.
Þar sem þeir standa og bulla tóma steypu með bumbuna lafandi yfir beltið og halda um leið að þeir færi óhrekjanleg sannindi og líti út eins og grískir guðir, stend ég mig ítrekað að því að ranghvolfa augunum innra með mér. Þar kemur mitt góða uppeldi sterkt inn.
Ég hef áhyggjur af þessu - ég verð að segja það. Og þessar örfáu undantekningar? Annað hvort kvæntir, skyldir mér eða hommar. Jafnvel allt þetta
Ég velti því fyrir mér hvort ég sé öfgafeministi eða hommi. Með fullri virðingu fyrir hommum. Sumir af mínum bestu hommum eru vinir
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.7.2011
Ég var að syngja í jarðarför í dag...
...sem er svosum ekki í frásögur færandi nema fyrir það að það er alltaf svolítið erfitt að syngja í jarðarförum þar sem maður getur samsamað sig með fólki....
... þið vitið! Eins og í dag.. þessi kona var á svipuðum aldri og ég, átti börn á sama aldri og mín börn. Vitaskuld veit ég að það að deyja á fyrir okkur öllum að liggja en það er bara erfiðara að syngja í jarðarförum fólks sem gæti hæglega verið maður sjálfur!
Þá er eitthvað svo óþarflega augljóst að einn góðan veðurdag er ég öll!
...og hvað ætlið þið að gera þá?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)