10.3.2010
Íslenskt mál...
...er hreint ekki eins flókið og fólk vill vera láta.
Við eigum helling af orðum sem hægt er að rekja allt til þess tíma er Shakespeare ráfaði um myrkviði sinna eigin hugarheima, orð sem eru opin og gegnsæ, nánast eins og íslenska hagkerfið í heild sinni
Tökum dæmi: Konur giftast en menn kvænast! Að giftast er dregið af enska orðinu gift sem þýðir gjöf - liggur alveg í augum úti - ekki satt? Það er hinsvegar alls ekki dregið af danska orðinu gift sem þýðir allt annað og miklu verra. Enda voru forfeður okkar ekkert að koma frá Danmörku og ég alls ekki svo illa þenkjandi....
Trúlofun er annað dæmi um gagnsæi - nefnilega dregið úr ensku af true love..... og þarf ég að útskýra fyrir ykkur þegar talað er um að stúlkur séu orðnar mannbærar?
Þetta - gott fólk - er ástæðan fyrir því að ég horfi ekki á Kiljuna hans Egils Helga. Ég get ekki umborði allar þær slettur sem þar eru borðnar á borð fyrir mig undir merkjum fagmennsku og bókvits.... Ég botna bara ekkert í því hvers vegna þarf að nota öll þessi erlendu orð þegar hægt er nota íslensk orð sem bæði er oft miklu meira lýsandi fyrir það sem verið er að tala um og hljóma betur í því sem á að heita íslenskur menningarþáttur í íslensku sjónvarpi allra landsmanna.
Þessi pistill var í boði lingólöggunnar eins og hún héti hjá Agli og co.
Lifið heil!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.2.2010
Sparnaðarráð!
Ég á lítinn bláan kisustrák og eins og allir vita þykir kisum fuglar frekar spennandi.
Í stað þess að kaupa endalaust fugla- og músaleikföng dýrum dómi í gæludýraverslunum kaupi ég fuglafóður af viðurkenndum stórkaupmönnum og gef fuglunum hér út á skafl.
Góðar stundir
23.2.2010
Ég hitti...
.....manninn sem ég ætla að giftast á ekki svo förnum vegi í dag.
Hann var í aaaaagalega fallegri peysu og perrinn í mér náði yfirhöndinni og ég strauk honum blítt og brosti meira að segja líka - enda maðurinn í aðlögun - um leið og ég sagði: aaaagalega er þetta falleg peysa......
Þar náði perrinn í mér yfirhöndinni ;) En það er margsannað að ég er ekkert verri þótt ég sé perri og svo náði ég líka góðri snertingu
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.2.2010
Í neyð....
Ég var að koma úr vatnaþreki! Var vitaskuld í útiklefanum eins og sönnum Íslending sæmir.
Þar sem ég stóð undir sturtunni sá ég hvar búið var að koma fyrir stórum rauðum neyðarhnapp á veggnum. Nánast á því augnabliki fór mig að klæja í fingurnar að slá á hnappinn.... Ég meina hann er stór rauður og beinlínis hrópar á vink!
Hvenær er maður í neyð í útiklefanum? Þegar sjampóið gleymist heima? Þegar strákar koma inn í klefann? Eða lesbíur? Þegar kuldinn er svo mikill að maður frýs við gólfið, sem þó á að heita upphitað, þegar maður vippar sér undan sturtunni?
Ég gekk fram hjá hnappinum í þetta sinn án þess að slá í hann, lét duga að horfa, en hugsanlega slæ ég í hann næst.... Ég get þá lagt þessar spurningar fyrir þann sem kemur æðandi og ætlar að bjarga mér með munn við munn aðferðinni sem bæ þe vei ég er með afar strangar reglur um. Það fær ekki hver sem er að blása í mig lífi. Ég er alltaf með A3 blað samanbrotið eins og harmonikku um hálsinn þar sem þeir sem fá ekki að blása eru taldir upp
Blaðið er geymt í vatnsheldum staut sem á stendur: Í neyð - brjótið glerið
18.2.2010
Fimmtudagar....
....eru sjálfshátíðardagar hjá mér.
Þeir hefjast á morgungöngu og stjörnuskoðun með hund og kött upp úr hálfsex og enda á kóræfingu. Ég sver það ég er alltaf að verða betri og betri í kórnum. Ég að ég kunni alveg heil þrjú lög núorðið.......
Ekki versnuðu fimmtudagarnir við það að eftir hádegi er ég með peyja í starfsnámi og hann keppist við að segja mér hvað ég sé frábær! Mætti hreinlega halda að hann vissi að fimmtudagar væru sjálfshátíðardagar ;) Síðasta fimmtudag sagði hann mér að ég væri "afskaplega viðkunnanleg" ....já ég veit... ég hef ekki heyrt það síðan elstu skátar á Eyrarbakka voru ylfingar og í dag sagði hann mér, eftir að hafa spurt hvaða ár ég væri fædd, að ég liti út fyrir vera svona cirka þrítug. Ég tek það fram að ég þvingaði hann ekki á neinn hátt
Ég var að horfa á kiljuna hjá Agli í gær. Þetta er annar þátturinn í röð sem ég reyni að þrauka út heilan þátt og ég uppgötvaði í gær hvað það er sem truflar mig svona svakalega í þættinum. Veit einhver meilinn hjá Agli svo ég geti sagt honum mína skoðun umbúðalaust?
Farin að sofa! Á morgun er árshátíð og þá þarf kona að koma vel fyrir. Það er ekkert sem reddar því betur en átta tímarnir.
Lifið í lukku
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.2.2010
Viðskipti eins og venjulega.....
Ég vaknaði snemma - fór út með hund og kött. Sótti mér Fréttablað dagsins í ferðinni.
Las svo frétt um að Clinton, fyrrum bandaríkjaforseti, væri að jafna sig eftir hjartaþræðingu - um leið og ég borðaði rúnstykki með rækjusalati..... Við verðum bara að vona að ég jafni mig líka
Tók svo persónuleikapróf sem heitir: "Ertu siðblindur?" á meðan ég borðaði rjómabollu. Kom út með fullt hús stiga enda tók ég prófið sem fyrrum vinnufélagi. Úffffff sá á við vandamál að stríða. Ég er heppin að þurfa ekki að umgangast hann
Ég sendi líka sögur í verkefni sem heitir: Lesið í lauginni. Þannig að ef þið eigið leið á Selfoss um páskana þá getið lesið stórbrotin ritverk eftir undirritaða á meðan þið syndið...... nema ef ske kynni að mínum sögum yrði plantað á botn djúpu laugarinnar. Ef, hinsvegar, þið eigið enga leið hingað þá getið þið bara haldið ykkur við að lesa bloggið mitt!
Nú ætla ég að hjóla í rigningunni til uppáhaldsömmunnar minnar.
Lifið í friði
10.2.2010
Dularfulla kattarhvarfið!
Englaskottið - eins og ég kýs að kalla kattarósómann - hvarf í morgungöngu gærdagsins!
Ég var svosem ekkert að panika yfir því, hann hefur áður farið einhverjar ótroðnar slóðir og skilað sér heim um svipað leyti og við hin ;)
....en í gær hvað við annan tón. Ég fór í hádeginu og skimaði svæðið og kallaði blíðlega til að byrja með.... á Hrekkjusvínið. Englaskottið svarar því kalli alltaf. Heldur enda staðfastlega að hann sé hrekkjusvínið í dýragarðinum. En enginn grár köttur gaf sig fram. Ég skildi eftir opið þegar ég fór í vinnu númer dos og lagði Dúskinum lífsreglurnar með að vera vakandi yfir heimkomu kattarins.
Það er skemst frá því að segja að þegar ég skellti í lás í gærkvöldi var hvergi sjáanlegur grár köttur og var mér nú nánast hætt að standa á sama, þrátt fyrir uppörvunarorð Dúsksins sem sagði orðrétt: "Hann er einhversstaðar úti að slást og kemur svo...." og: "Ég sagði þér að hann væri ekki útiköttur. Nú geturðu kennt þér um....." Alltaf svo hlýlegur. Hefur það sko frá pabba sínum
Ég vaknaði tvisvar í nótt við það sem ég var sannfærð um að væri mjálm á glugga - sem er náttúrulega fáránlegt - búandi á annarri hæð ;) Tók öryggishring í bæði skiptin ef litla skinnið vildi komast inn.
Það var síðan þegar við Ljónshjartað komum heim úr morgungöngunni í morgun að lítill grár köttur sat á tröppunum, ólarlaus, svangur, þyrstur og hás. Það urðu vitaskuld miklir fagnaðarfundir enda Ósóminn búinn að vera í burtu í 25 tíma - eins og hver annar leigubílstjóri.
Ég gaf honum að borða, rjóma og rækjur, og hann svaf síðan við hlið mér á meðan ég vann hér við tölvuna og varð ekki haggað. Ósómanum sko - ég er afar hreyfanleg.
Hann situr núna og hristir hausinn hneykslaður þegar ég býð honum út.
Mömmusinnardúlludúskur er ákveðinn í að honum hafi verið stolið og við jafnvel sloppið naumlega við að greiða lausnargjald en ég held, þó ég fari lágt með það að bæði sé það að fólk sé almennt hætt að stela köttum og það að ólina vanti bendi til einhvers annars.......
Ég er hinsvegar að íhuga það núna að leyfa honum bara að vera ólarlausum. Þær eru greinilega hættulegri en maður heldur þessar ólar, svona líka mjóar og sakleysislegar.
Skítt með það þó hann hafi þá enga bjöllu. Það er nóg til af fuglum!
5.2.2010
Lífið er lag....
Góður vaskdagur að baki........ - góð vika að baki, ef út í það er farið.
Átti kannski ekki svo ýkja góða kóræfingu í gær, þar sem Ave verum corpus var sungið í tveimur mismunandi útsetningum og ég búin að æfa þá þriðju stíft...... Á þannig stundum er gott að vera gleyminn og geta bara látið sig hlakka til næstu æfingar - eins og ekkert hafi í skorist ;)
Það styttist í árshátíð kórsins og ég hlakka svo til!!
Hafiði spáð í það að síðan ég joinaði kórinn hefur líf mitt tekið alveg nýja stefnu? Frá því að vera í 50% vinnu og potential þunglyndissjúklingur í að vera svo önnum kafin í ríflega 100% vinnu að ég sé ekki á milli augnanna á mér og elstu skátar á Eyrarbakka muna ekki eftir að félagslíf mitt hafi verið svona fjörugt
Ekki? Nú... ég hélt að ég væri aðalviðfangsefni ykkar........... Hvað er það þá sem þið eruð að spá?
Ég fór í bókasafnið í dag og tók mér bækur - eina nýja eftir Vikas Swarup sem heitir Sex grunaðir og aðra ekki svo nýja eftir Lisu Marklund. Ég er alveg að ná upp fyrri lestrarhraða eftir augnaðgerð..... en þorði samt ekki að taka nema eina nýja bók þar sem á þeim eru tímahöft og ég kann illa við að lesa undir pressu - kann raunar illa við allt undir pressu. Tjah.... nema kannski eitt.....
Tók líka tvær videospólur þar sem ekki verður horfandi á sjónvarp eftir Útsvar.
Er að bíða eftir að brauðið hefist svo ég geti bakað það og borðað svona líka splunkunýtt með grænmetisfiskisúpunni. Það er að segja.... ég eldað grænmetissúpu í gær og fann svo lúðu í frystinum í dag þannig að í kvöld verður grænmetisfiskisúpa! Namm
Mömmusinnardúlludúskur er úti á sjó og ég sagði honum að hann fengi ekki að koma heim nema með nýjar birgðir af lúðu.
Þakka þeim sem hlýddu
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
3.2.2010
Leið fjögur - Hlemmur - Fell.
Ég þurfti að skjótast í höfuðstaðinn í dag. Eða skjótast og skjótast.... maður skýst náttúrulega ekki nokkurn skapaðan hlut í borg óttans. Þar taka hlutirnir alltaf regintíma.
Ég þurfti að fara alla leið út á Granda - og ég er alltaf jafn hissa á að enginn skuli þurfa að vinna í Reykjavík. Þar eru allir úti að keyra og yfirleitt á sömu leið og ég.... - en málið er að ég hef ekki komið út á Granda síðan systir mín var að vinna hjá Kristjáni Skagfjörð, þannig að ég ákvað að taka smá rúnt um Örfirisey og olíutankana.
Þegar ég var alveg að komast út á heimsenda sá ég skilti sem á stóð: Rauði herinn ;) eða eitthvað slíkt og undurveikar bjöllur fóru að óma í hausnum á mér. Ég stoppaði smá stund undir skilti af hundi með ól - þeir eiga greinilega ekkert að vera að spóka sig lausir þarna við sjóinn.... og hugsaði stíft. Snéri við og keyrði aftur, löturhægt, framhjá húsinu og sá þá annað skilti sem á stóð Dagssetur.... og þá mundi ég hvern ég þekki sem vinnur þar og hjá Rauðu kmerunum, lagði bílnum og fór inn og knúsaði Birnu Dís smá stund. Keypti meira að segja hjá henni blúndu undirpils - enda hef ég alltaf sagt það. Undirpils og kjólar eru stórlega vanmetnar flíkur
Það var frábært að hitta Birnu og spjalla smástund við hana - jafnvel þótt vinnan hennar hafi stanslaust slitið í sundur hjá okkur........
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.2.2010
Söknuður....
Stundum heyri ég lag sem minnir mig á mann með falleg augu og hlýjan faðm. Þetta er eitt af þeim.....
Stundum sakna ég pabba míns alveg fáránlega. Þá sit ég og skæli - en það breytir engu um það að ég kem ekki til með að fá að knúsa hann oftar.
Ég hef svosem ekki yfir neinu að kvarta. Ég fékk þó að hafa hann í öll þessi ár og hann var besti pabbi sem sögur fara af.
Ég á systkini sem eru alltaf boðin og búin að eiga með mér stund og aðstoða mig á allan hátt. Hvort sem það er að hjúkra mér eða drekka með mér kaffi og hlusta á sorgir mínar og sigra eða mótmæla með mér á Austurvelli.
Ég á mömmu - sem lánar mér bílinn sinn svo ég þurfi ekki að hjóla hálfa leið til Reykjavíkur í vinnuna í myrkri og kulda, eins og hún orðar það
Það breytir hins vegar engu um það að ég sakna pabba míns stundum svo mikið að ég græt eins og krakki.
Ég treysti því að sjálfsögðu að þið farið ekki með þetta lengra - maður hefur jú orðspors að gæta sem nagli...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)