Kyssa mömmu sína bless...

...sagði ég þegar ég skutlaði Mömmusinnardúlludúski um borð í kvöld. Hann sagði - um leið og hann kyssti mig - "en það eru allir sjóararnir að hooooorfa" Ég fullvissaði hann um að þeir kysstu alltaf allir mömmu sína bless Tounge Dúskurinn er kokkur á kútter frá Sandi - eða svona næstum því - og það er ekki laust við að ég glotti við tönn þegar hann er heima og skolar af disknum sínum og setur hann í uppþvottavélina...... Eitthvað sem ég hef beðið hann um í þessi þrjú eða fjögur ár frá því að ég keypti mér það þarfaþing sem uppþvottavél er!! Loksins, loksins skilur hann gildi þess að ganga frá eftir sig.

Sjúkkett að þú ert byrjaður að elda - sagði ég við hann í dag - ég er nefnilega hætt því! Ég byrjaði í nýrri vinnu á mánudaginn og þar kemur eigandinn með mat í hádeginu sem hún eldar sjálf þannig að ég ákvað að hætta að elda nema hafragraut á morgnana Tounge Spurning hvort ég taki að mér helgarvinnu líka..........?

Ég er svo glöð að hafa fengið þessa vinnu - þetta er akkúrat vinna fyrir mig InLove  .....en ég hugsa að ég verði ekki há og grönn þarna, þó veit maður aldrei.... Ég meina Sigurður Einarsson er kominn á lista Interpol. Hver hefði trúað því fyrir nokkrum mánuðum? Og það er ekki svo auðhlaupið af þeim lista! Sjáiði í anda þegar það verður rændur einhversstaðar hraðbanki í framtíðinni og lýsingin á ræningjanum verður: sköllóttur karlmaður, ríflega 114 kíló, ekki svo hár í loftinu og löggan mætir bara heim til Sigga og spyr hvort hann sé enn að ræna banka?

....en svo maður vaði nú í allt annað, þá opnaði ég hurð um daginn og það fyrsta sem ég sá var maðurinn sem ég ætla að giftast - á hnjánum.... ekki þó til að biðja min - sem er kannski ekki svo skrýtið því hann er enn í aðlögun og veit ekki að hann ætlar að kvænast mér Tounge Hitt get ég sagt ykkur að hann leit vel út í þessar stellingu eins og náttúrulega alltaf Halo

Lifið í lukku InLove


Hrönn Sigurðardóttir..

..hefur heyrt því fleygt að jakkaföt séu nú kölluð glæpagallar!


Ég lenti í því um daginn....

.....svona eins og aðrir lenda í framhjáldi á leiðinni heim, að horfa á barnaefni á ruv. Eftir fimm mínútur var ég orðin úttauguð eins og hauslaus hæna á sterum. Þetta var endalaust áreiti, hávaði og gargan!

Muniði í gamla daga þegar "Afi" sagði sögur og spilaði á gítar í barnaefninu, maður gat keypt stöð tvö mánuð og mánuð án þess að velta því fyrir sér hvert væri eignarhald eða hlutur einhverra dólga. Maður gat líka verslað í Bónus ef maður átti leið í bæinn án þess að fyllast samviskubiti. Já krakkar mínir.....those  were the days!!

Með þessu er þó ekki endilega að segja að ég hafi verið hamingjusamari þá en nú, eða að lífið hafi verið eitthvað einfaldara - þvi fer fjarri. Enda hef ég losað mig við ýmsan óþarfa síðan þá Tounge

Ég er annars ótrúlega heppin. Ég mig til og húrraði á milli hæða á laugardaginn - án þess að nota stigann. Endaði þessa för á steyptu kjallaragólfinu - sannfærð um að ég væri annað hvort steindauð eða margbrotin.

Það kom nú reyndar upp úr kafinu í dag að ég er stórbrotin - allavega rifbrotin, ásamt því að vera blá og bólgin á flestum öðrum stöðum..... ;) en ég held að það taki því ekki að væla yfir því. 

Hann var ekkert að fara leynt með vantrú sína læknirinn sem ég hitti í dag þegar hann spurði "Og hvernig fórstu að því að detta á milli hæða?" um leið og hann skoðaði rispur og mar. Enda lít ég út eins og ég sé í afar ofbeldisfullu sambandi. Ég vona samt að mér hafi tekist að sannfæra hann um ég sé eingöngu í ofbeldisfullu sambandi við sjálfa mig Sideways

En ég er ekki frá því að Guð hafi hækkað innistæðu sína hjá mér þennan dag - og ég sem er alltaf að skuldajafna Heart


Hvað geturðu haldið andanum lengi?

Ég hef fundið aðferð til að hægja á klukkunni.

Hún byggist á því að maður hafi góðan tíma - sem er kannski hennar eini galli...... en hafði tekið eftir því að ef maður starir á sekúnduvísirinn þá þokast klukkan áfram eins og snigill? Ég prófaði líka að halda niðri í mér andanum á meðan - það hægði helling á henni í viðbót. Ráðlegg ykkur að prófa óhikað Happy Einkum og sér í lagi ef þið hafið áhyggjur af tímaskorti......

Ég fór í sundlaugina í Hveragerði í gær í tilefni af sumarkomunni. Lá þar í heita pottinum og sleikti sólskinið - takið eftir SÓLSKINIÐ - vegna þess að ef maður sleikir sólina getur maður hæglega brennt sig illilega á tungunni. Þess á milli fór ég í gufuna sem mér er sagt af fróðum konum að sé sú besta á landinu og þótt víðar væri leitað. Skrapp síðan í Blómaborg og keypti mér appelsínugulan ástareld sem stendur nú hróðugur í eldhúsglugganum mínum og gleður mig á meðan ég elda matinn Joyful

Einhversstaðar verður ástin að vera og eldhúsglugginn minn er ekki verri staður en hver annar....

Ég hef komist að því að litli grái vargurinn sem ég tók að mér frá Einholti sver sig í fósturfjölskylduna. Ég var - einhverra hluta vegna - að lesa fundargerð bæjarstjórnar þar sem kom fram að kattarhald væri jafnbannað og hundahald í Árborg og kettir ættu skilyrðislaust að vera bundnir úti í garði - og þá líklega sínum eigin garði.... en sumsé þegar ég kom svo heim og opnaði hurðina smaug litli grái vargurinn út, yfir þjóðveginn og út á sýslumannstúnið þar sem hann reyndi að veiða tjald í erg og gríð. Undir glugga sýslumannsins...

Ég verð að viðurkenna að ég flissaði, svona með sjálfri mér. En vitaskuld viðurkenni ég það ekki opinberlega.

Gleðilegt sumar InLove

 


Ég var svo heppin..

..að vera boðið með upp á Fimmvörðuháls í gær!

Við lögðum af stað á þrjátíuogfimm tommunum um fimmleytið í gær og keyrðum sem leið lá uppá Sólheimajökul eftir að hafa fullvissað lögregluna um að við vissum hvað værum að gera.... eins gott að þeir sáu ekki þegar við festum okkur í fyrstu bekkunni - sem var þó varla annað en halli.... áfram héldum við yfir Mýrdalsjökul í endalausri snjóbreiðunni. Útsýnið var ægifagurt og kuldinn óskaplegur. Ég get sagt ykkur það það, svona í óspurðum fréttum, að það tekur um það bil 30 mínútur að þiðna aftur ef maður tekur af sér vettlingana til að taka myndir. 

Eftir rúmlega tveggja tíma akstur eftir jöklum og úrhleypingar úr dekkjum, ásamt alls kyns öðrum trixum sem ég kann ekki að nefna, var sólin að setjast og ekki minnkaði kuldinn við það......

Það var ógleymanleg sjón þegar eldgosið á Fimmvörðuhálsi blasti við í sólarlaginu. Algjörlega ólýsanlegt!

Eldtungurnar teygðu sig til himins í átt að sólalaginu, hraunið rann glóandi eftir bláleitum snjónum og ekki varð sjónin minna falleg þegar dimmdi. Krafturinn...... drunurnar..........

Á heimleiðinni leiftruðu norðurljósin á himninum í kapp við sindrandi stjörnuskin.

Ógleymanleg ferð InLove

 


Föstudagurinn langi...

...er ekki nógu langur fyrir mig!

Ég fór út að ganga með Ljónshjartað í glampandi sól og blíðu um hádegisbil. Sveiaði smástund á meðan ég sá eftir því að hafa ekki tekið sólgleraugun með mér en ákvað svo að loka augunum og leyfa birtunni að síast inn. 

Kom heim allt önnur kona Tounge

Páskar eru dásamlegt fyrirbæri. Ég fæ tækifæri til að syngja fallega texta í frábærum útsetningum. Kem heim endurbætt eftir hverja stund InLove

Þetta hlýtur að enda með því að ég breytist í saltstólpa W00t

Ég er að velta því fyrir mér hvort ég eigi ekki að nota tækifærið úr því sjoppan er opin og fara og kaupa mér ís................... 

....manstu þegar sjoppur voru lokaðar á föstudaginn langa?


Fyrsti apríl!

Í dag ætla ég að........

1. Standa lengi undir heitri sturtu.

2. Syngja mikið.

3. Brosa.

4. Fara í þyrlu að skoða gos.

5. Vera góð við Ljónshjartað, Ósómann og Dúskinn - í þessari röð Halo

.....því ég er komin í páskafrí!

Þið megið svo bara velja aprílgabbið af ofangreindu Tounge

Njótið ykkar - það ætla ég að gera Joyful


Vefmyndavélar

Var að kíkja á vefmyndavél sem beint er að Kötlu....

http://www.ruv.is/katla/

....bara svona til að athuga hvort ég sæi einhver bjarma.

Allt í einu brá fyrir jarðvísindamanni í myndavélinni! Neeeee bara að hita upp fyrir 1. apríl ;)

En tryllingslega mundi manni bregða ef einhver gretti sig allt í einu í vélinni langt uppi á fjöllum í klikkuðu veðri W00t


Ættaróðalið....

Þannig er að ég á ættir að rekja undir Fjöllin!

Fjöllunum þar sem gýs núna......Frændi minn einn býr þar á ættaróðalinu sem hefur verið rýmt vegna gossins. Ég sá mér náttúrulega leik á borði og hóf að safna liði. Ég hef nefnilega verið að undirbúa fjandsamlega yfirtöku síðan jarðhræringar hófust á svæðinu. Ég vissi að þetta væri bara tímaspursmál. Það setti að vísu smá strik í reikninginn að löggan lokaði veginum austur - nema fólk ætti brýnt erindi.... en ég meina, skilgreindu brýnt erindi!

Ég var hinsvegar búin að undirbúa plan B eins og allir góðir stríðsmenn og ætlaði niður Gaulverjabæ og yfir Þjórsá á ferju! Það gæti þá í leiðinni reynt á ferjulögin sem - mér vitanlega - hafa aldrei verið afnumin!

Dagurinn hefur sumsé farið í að taka myndir niður af veggjum. Myndir, sem ég ætla síðan að hengja upp á óðalinu yfirtökunni til sönnunar!

Já krakkar mínir. Það er löngu kominn tími á réttlætisjöfnun í þessum heimi! Ég meina...... ef amma mín hefði verið afi minn þá væri ég núna ríkur, skeggjaður bóndi undir Fjöllunum.

Stay tuned - hver veit nema næsta færsla komi af órólega svæðinu W00t


Ég um mig frá mér til þín

Ég velti því fyrir mér að segja upp varanlegu sambandi mínu við facebook. Þetta samband er mjög undarlegt og í raun alveg rannsóknarverkefni út af fyrir sig.....

......Þarna gefur að líta yfirlýsingar eftir yfirlýsingar um að Lísa á Lóni moki út úr hesthúsinu í dag og í gær og jafnvel á morgun líka? Eða að Sigga á Síðu er búin að baka og taka til og svo koma "vinirnir" í bunum og segja viðkomandi hvað hann sé yfirmáta duglegur...... Þetta er eins og ein stór sjálfshátíðarfullnæging. Svo er ekki eins og hasarinn leiftri hægri vinstri.... Nema hugsanlega hjá mér.... og þeim sem eru í raðdramaköstum yfir kreppunni og aðgerðum ríkisstjórnarinnar - eða aðgerðarleysi hennar. Hvernig svo sem fólk vill líta það mál. Sem bæ þe vei fer algjörlega eftir því hvar í flokki fólk stendur! Fólk sem jafnvel hrópar hæst um að leggja þurfi fjórflokkana niður - ekki seinna en nú, þegar, strax!

Já ég er á því að bloggið henti mér miklu betur - hér get ég endalaust verið fyndin í löngu máli á kostnað náungans og flissað svo hátt og í hljóði yfir margslungnum og stórkostlegum húmor mínum. Sem er að vísu ekki allra - en það er nú ekki mitt vandamál Tounge

Og þá yfir í allt annað! Það styttist í páska. Voruð þið búin að átta ykkur á því? Margir dagar framundan þar sem ég get hlúð að uppáhalds áhugamáli mínu: Að gera sem minnst - á sem lengstum tíma......

Þakka þeim sem hlýddu Joyful


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband