1.9.2010
Kona fer til læknis!
Ég náði í lækni í dag og fékk tíma hjá honum líka!!
Ég mætti - móð og rjóð enda alls ekki vön því að fá tíma strax þegar læknir hringir og komst inn strax. Læknirinn söng fyrir mig jólalög á leiðinni inn á stofuna til hans þar sem hann sagði mér að fara úr að ofan
Ég fylltist strax grunsemdum - allir eins þessir strákar, sjáðu til - en hlýddi samt. Því næst sagði hann mér að leggjast á magann á bekkinn, ég hlýddi aftur enda læknirinn ekkert ómyndarlegur og haltur í þokkabót, dulítið eins og dr. House og ég þar á ofan orðin svolítið spennt
Næsta sem ég vissi var að hann ýtti af öllum mætti með báðum höndum á rifbeinin á mér svo brakaði og brast í. Ég gargaði á hann hreint ekkert dömulega en hann kippti sér ekkert upp við það og sagði mér, um leið og hann hnykkti aftur á mér, að þetta væri innifalið í verðinu
Hann spurði mig hvað ég ætti gömul börn og ég var viss um, á meðan ég reyndi að muna eftir börnunum mínum og hvort ég ætti einhver yfirhöfuð, að undirkjóllinn hefði gert útslagið og hann væri farinn að spá í hjónaband og kvöldskóla
Skrambi góður læknir þótt ástæðan fyrir barnaspurningunni hafi verið allt önnur en ég taldi
Já og bæ þe vei - hafiði lesið bókina Kona fer til læknis? Ef ekki þá legg ég til að þið gerið það. Þrusugóð bók!
23.8.2010
Við Ljónshjartað fundum stúlku..
.. á förnum vegi í dag. Eða kannski fann hún okkur.
Hún kom hlaupandi á eftir okkur með allar skólabækurnar sínar og vissi ekki hvert í veröldinni hún átti að fara. Ég stoppaði - náttúrulega - og spurði hana og notaði rólegu röddina...... hvort hún vissi hvað gatan héti sem hún væri að leita að. Hún vissi það en þá þekkti ég ekki þá götu
Ég hringdi í fröken 118 og bað um upplýsingar en hún vissi ekkert frekar en ég hvar þessi gata gæti verið! Málið fór nú að verða snúið.....
Ég hringdi á skrifstofu skólans og ætlaði að vita hvort góðu konurnar þar gætu flett upp á stúlkunni - sem heitir Nora og er fimmtán ára skiptinemi á Íslandi frá Basel í Sviss. Hún á engin systkini úti í Sviss en þrjá bræður hér hjá fósturfjölskyldunni. Einn tveggja ára, einn sjö ára og einn átta ára.... Hún kom til Íslands á föstudaginn og á Selfoss í gær..... Hún er gjörn á að að týna hlutum...... Skrifstofa skólans var lokuð og ég náði litlu sambandi við símsvarann Enn flæktist málið.....
Mér datt í hug að spyrja hana hvort hún vissi hver umsjónarkennarinn hennar væri og hún dró upp stundartöfluna sína og sýndi mér það. Ég hringdi aftur í fröken 118 og ætlaði að fá símanúmerið hjá kennaranum þegar stúlkubarnið mundi - enda farin að róast aðeins - að hún var með símanúmer fjölskyldunnar í veskinu sínu.
Ég hringdi í það númer og talaði við fósturmóðurina sem var rétt ófarin út úr dyrunum að leita að stúlkubarninu. Það kom upp úr kafinu að týnda gatan var ekki svo mjög langt í burtu frá okkur þannig að ég rölti með henni þangað ásamt Ljónshjartanu sem var yfir sig ánægður með stúlkubarnið sem hann hafði fundið. Ég held hann hafi helst ætlað með hana heim
Það var afskaplega þakklát stúlka sem faðmaði mig þegar ég kvaddi hana, óskaði henni ánægjulegrar dvalar á Íslandi og sagði henni að við mundum ábyggilega hittast aftur
Það væri kannski ekki arfavitlaus hugmynd að taka skiptinema? Allavega ekki ef þeir eru allir svona krútt
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.8.2010
Við mamma skelltum okkur....
...í Munaðarnes í gær. Keyrðum sem leið lá og lög gera ráð fyrir í gegnum göngin og þessa dáfögru leið í gegnum Borgarfjörðinn.
Ég hef alltaf verið dulítið svag fyrir Borgarnesi þannig að þegar við vorum beðnar að stöðvar sjálfrennireiðina og verzla smotterý - gripum við tækifærið og renndum léttilega í gegn um staðinn. Verst að allar búðir eru þar á sama fimmeyringnum.
Við fórum að sjálfsögðu í þe Moll of Borgarnes og ég fann þar dáfagra blómabúð. Margt flott þar og ég mæli eindregið með að þið lítið þar við ef þið eigið leið um Borgarnes - tala nú ekki um ef þið búið þar.....
Enívei.... við fundum síðan Munaðarnes og dvöldum þar í góðu yfirlæti í bústað, borðum mat og drukkum vín - eða mamma allavega - ég, hins vegar, get bara gert eitt í einu - og ég var að keyra....
Ákváðum síðan, í einhverju stundabrjálæði á heimleiðinni, að fara Hvalfjörðinn og sleppa göngunum. Falleg leið og allt of sjaldan keyrð. Ég gæti náttúrulega, á þessum tímapunkti í sögunni, ef ég ætlaði að láta alla njóta sannmælis, sagt að mér er illa við að keyra göngin og mamma hefur gaman af bíltúrum - en af því að mér dettur ekki í hug að viðurkenna ótta minn við göngin ætla ég að halda mig við söguna um að mömmu finnist gaman í bíltúrum
Mamma sýndi mér bæinn þar sem langamma mín ólst upp - Stóra Lambhaga - og við skutluðumst áfram veginn. Það fór að hvessa og dimma. Við ókum fram hjá skiltum sem vöruðu við grjóthruni og allir bændur voru farnir að sofa. Hvergi vottaði fyrir lífsmarki..... Vindurinn hvein og söng og reif í bílinn, vildi helst feykja honum út í sjó - eins og einhverri fáránlegri refsingu fyrir að ákveða að keyra þessa leið....
Ég sagði í hálfum hljóðum við mömmu: "það er nú svolítið draugalegt hérna....." Í því sá ég ref á miðjum veginum, ég snarhægði á mér og rebbi skokkaði yfir. Á hinum vegakantinum stóð rolla og ég var rétt að byrja að segja mömmu hrikalega sögu um litla lambið sem lægi sært til ólífiis í vegakantinum við hlið rollunnar, þegar minkur skaust út á veginn og beint undir bílinn.
Mamma vildi stoppa og hirða skottið af honum en ég hef áhyggjur af þessari rollu. Hún var í slæmum félagsskap að ekki sé meira sagt.....
Ég get hins vegar sagt ykkur að sagan sem ég ætlaði að segja mömmu endaði ekki vel
Hver þarf Húsdýragarðinn þegar hann getur keyrt Hvalfjörðinn?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.8.2010
Það er sumar í sveitinni okkar.....
....eða allavega í minni sveit. Ég sýndi þessum hátíðarhöldum fremur takmarkaðan áhuga allt þar til mér var bent á að ég byggi í rauða hverfinu...... Þá náttúrulega stóðst ég ekki mátið, fór og keypti helling af rauðum hjartalaga inniseríum og setti í nánast alla glugga nema svefnherbergisgluggann - ég meina, kona þarf nú sína átta tíma til að halda lúkkinu í lagi..........
Ég setti líka jólaljósaseríuna, sem ég nennti ekki að taka niður eftir jólín í fyrra, í samband og splæsti á mig rauðri rós til að hafa úti á palli ;)
Nú bíð ég spennt eftir hversu margir útlendingar banka uppá... ég ætti kannski að setja miða á útidyrnar hvar ég bendi þeim á að kona þurfi jú sína átta tíma og það sé ástæða fyrir því að ekki séu rauð ljós í svefnherbergisglugganum.....
Stefni á Gay Pride á morgun í höfuðstaðnum og sléttusöng annað kvöld hér í minni sveit - hver veit nema ég versli mér bjór og hitti fallega manninn, sem syngur svo fallega og ég ætla að giftast
Tækifærin bíða við hvert horn
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.7.2010
Muniði...
....eftir gulrótarsalatinu sem mamma og amma bjuggu til í gamla daga? Þegar lífið var leikur og bestu vinir þínir hétu Óskar og Kristín? Þið vitið.... þetta með rifnu gulrótunum og rúsínunum?
Allt í einu langaði mig svo í þetta salat í dag. Mér var slétt sama þó lífið væri hreint enginn leikur og ég ætti enga vini. Bara ef ég fengi svona gulrótarsalat!
Ég glotti með sjálfri mér þegar ég sótti matvinnsluvélina sem ég fékk í brúðkaupsgjöf á sínum tíma og hef eiginlega ekki notað síðan ég guðsblessunarlega losnaði við manninn sem fylgdi með matvinnsluvélinni Ástæðan fyrir Sólheimaglottinu var að ég ætlaði að vera svo sniðug og snögg að rífa gulræturnar í vélinni. Ég safnaði öllum hlutum vélinnar saman og hugsaði á meðan til þess þegar mamma og amma bjuggu til þetta salat í gamla daga í græju með rifjárni í botninum. Sú var knúin áfram af handafli og verulega leim.....
Ég fann rétta grófleikann á rifjárni fyrir gulræturnar og sippaði öllu saman upp í eldhús.
Var svo í ríflega tvo tíma að reyna að rifja upp hvernig í ósköpunum átti að setja þessa matvinnsluvél saman þannig að hún virkaði og endaði að lokum á því að rífa gulræturnar á rifjárni yfir skál í vaskinum.
Allt í einu varð handknúna græjan mjög eftirsóknarverð og ég er staðráðin í að rupla henni frá mömmu við fyrsta tækifæri.
En... ég kreisti ég safann úr sítrónunni með rafmagnknúinni þar til gerðri pressu sem ég fékk að gjöf fyrir nokkrum árum frá góðri konu eftir nett dramakast á alþjóðavefnum og hef notað óspart síðan - nánast daglega. Pressuna alltsvo ekki konuna og því síður dramakastið
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
10.7.2010
Ég er í smá vandræðum...
....með karlmenn í lífi mínu.
Þannig er að við stóðum hér úti um daginn Ljónshjartað og ég og reyndum að finna rétta stráið til að míga utan í þegar að garði bar tvo mormóna sem spurðu hvort þeir mættu spjalla aðeins við mig. Ég hafði svo sem ekkert annað að gera þá stundina og jánkaði því.
Þeir töluðu við mig um Jesú og gleðina og gáfu mér bækling um gleðina yfir að finna Jesú. Þeir þóttust ekki skilja þegar ég sagði þeim að ég væri lööööngu búin að finna Jesú og geymdi gleðina yfir því í barmafullu hjarta mínu..........
Síðan þetta var hafa þeir bankað uppá öðru hvoru og spurt hvort ég sé búin að lesa bæklinginn og hvort þeir megi koma inn. Ég hef hrist höfuðið mjög þrjózkulega og sagt þeim kurteislega - en ákveðið að þeir megi ekki koma inn og ég sé búin að týna bæklingnum.
Ég tek það fram að það er mjög erfitt að vera ókurteis við þá því þeir eru afar indælir, prúðbúnir í jakkafötum, með bindi og hjálm
En ég veit hvað vakir fyrir þeim. Þeir vilja fá mig í söfnuðinn og kvænast mér báðir.
Ég hlakka svo til þegar ég verð gömul og ljót og strákarnir hætta að elta mig
17.6.2010
Árans beinið.
Eins og ykkur flest rekur minni til stytti ég mér leið niður í kjallara um daginn og uppskar brotið rifbein og nokkra afar fallega marbletti. Sem í sjálfu sér var ekki slæmt þó það hafi á engan hátt verið gott og ég ráðlegg engum að leika þetta eftir. Alveg svona..... "don´t try this at home"
Ég hef að sjálfsögðu gert eins og læknirinn sagði mér og haft mig hæga....... Í gærkvöldi fór ég til dæmis út og sló heimatúnið - mjög hægt. Ég kom svo inn hölt og skökk og vaknaði í morgun eins og gömul kona. Sem ég alls ekki er!
Það sem mér finnst eiginlega skrýtnast við að rifbeinsbrotna er hvað það hefur afgerandi áhrif á lærið aftanvert.
Ég er samt öll að koma til aftur, enda skellti ég á mig bleikum varalit í morgun og skundaði út að syngja fjórraddað . Tókst bara nokkuð vel upp, þó ég segi sjálf frá enda gerir bleikur varalitur ýmis afrek sönglega séð. Ég er að spá í að endurnýja birgðirnar og fara út aftur þó ekki endilega til að syngja nema kannski með sjálfri mér og Ljónshjartanu.
Góðar stundir og gleðilega þjóðhátíð
4.6.2010
Eltihrellir
Ég var inni á síðunni hennar Garúnar einn daginn fyrir eurovision. Þar var m.a. verið að tala um danska lagið og ég sletti því fram sisvona eins og mér einni er lagið að það lag minnti mig svo á lagið með Police - Every breath you take.......
Mér fannst ekkert að því enda sagði Ingimar Eydal hér um árið að í öllum lögum væri að finna Gamla Nóa.
Það var athugasemdin sem kom á eftir minni sem hefði getað komið mér í uppnám - ef ég væri þannig týpa sem ég alls ekki er og hélt því ró minni.... en athugasemdin hljóðaði eitthvað á þá leið að: Oj Þetta lag væri lag stalkersins og ef það yrði gert vídeó, eða tónlistarmyndband - eins og við kjósum að kalla það hér í sveitinni (innskot höfundar), þá yrði það um mann á glugga Ég sá fyrir mér jólasveininn........
Enívei - þetta vakti mig til umhugsunar verandi textaspákona - sem er kona sem finnst gaman að rýna í texta Ég leitaði lagið uppi á youtube og viti menn. Þetta er alveg ekta eltihrellir.
Ég vona að ég hafi á engan hátt eyðilagt fyrir ykkur þetta lag - sem var mikið spilað hér í den þegar maður var að vanga við sætu strákana - né hugmyndina um jólasveininn.
Og talandi um sætu strákana. Hvað varð eiginlega um þá?
Njótið helgarinnar
24.5.2010
Feng shui
Ég hef pínu verið að stúdera Feng shui og komist að ýmsu. Margt í þessum fræðum er tiltölulega einfalt - eins og til dæmis að binda fjólubláan klút í vinstra fjarhorn stofunnar til að auka peningastreymi. Öðru hef ég glott hæðnislega að og talið eingöngu til þess fundið að fá konur - því það eru jú oftast konur sem skoða svona fræði - til að þrífa betur í kringum sig......
Tvö meginöfl Feng shui fræðanna er eins og nafnið gefur til kynna vatn og vindur og ég hef lengi verið svolítið veik fyrir gosbrunnunum sem tengjast fræðunum, enda hafmeyja innst í hjarta mínu. Hef samt aldrei tímt að kaupa mér slíkan gosbrunn enda kosta þeir marga, marga peninga.
Ég fór á námskeið í bænum í vikunni sem leið og á leiðinni heim kom ég við í Glæsibæ og keypti mér krókódílatár - en þar fást þau á tilboðsverði. Nokkuð sem mætti lauma að þeim sem væla mest yfir handtökum útrásarvíkinga þessa dagana........... en það er nú önnur saga. Á leiðinni út aftur gekk ég hjá búð sem heitir Perlukafarinn eða eitthvað slíkt og kíkti inní hana. Stóðst ekki mátið og keypti mér grjóthnullung sem glitraði þar og skein. Ég er sannfærð um að þetta er óskasteinn
Í morgun stóð ég svo úti á tröppum í sólinni og vökvaði blómin mín og kryddjurtirnar þegar maðurinn sem vinnur á nytjamarkaðnum handan þjóðvegarins kom til mín og bað mig um vatn í könnu. Það var svo sem auðsótt mál enda nóg til af vatninu í mínum krana. Á meðan ég lét vatnið renna smástund til kælingar sagði hann mér að hann hefði fengið inn á markaðinn lítinn gosbrunn með vatnsdælu sem hann langaði að setja af stað. Hann sagðist hafa hugsað til mín þegar hann sá gosbrunninn - hvers vegna veit ég samt ekki - því ég hef aldrei sagt neinum frá því að mig langi í svona græju. Ég skottaðist síðan yfir götuna nokkru síðar og keypti vitaskuld gosbrunninn fyrir ekki svo marga peninga.
Nú er ég stoltur eigandi gosbrunns þar sem óskasteinninn lætur eins og hann sé kominn heim í sína einka steinaskál..... og ekki spillir fyrir að gosbrunnurinn er skreyttur englum
Dægurmál | Breytt 25.5.2010 kl. 07:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
21.5.2010
Upp er runninn...
...tími skemmtilega fólksins. Ég var að hugsa um að segja fallega fólksins, því vitaskuld eru tvíburar bæði skemmtilegir og fallegir, ég vildi bara ekki móðga ykkur
Alveg glettilegt hvað ég þekki marga í tvíburamerkinu! Hver ykkar er tvíburi?
Hvítasunnuhelgin að bresta á og fólk er að missa sig í Bónus. Það er eins og það opni aldrei aftur búð! Jón Ásgeir ætti að eiga fyrir nokkrum afborgunum af húsnæðisláninu sínu eftir þessa helgi
Ég ætla að gera það sem ég geri bezt alla helgina- sem minnst á sem lengstum tíma.....
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)