14.1.2009
Bananana
Ég fór í sundleikfimi í gær í fyrsta sinn síðan í byrjun desember. Ekki þó vegna þess að ég hafi ekki nennt og heldur ekki vegna þess að ég eigi við einhverja tilfinngakreppu að stríða í sambandi við vatn heldur einfaldlega vegna þess að innilaugin var lokuð.
Tíminn var strembinn - en góður. Ég held að Beta hafi verið að vinna upp glataðan tíma. Systur mínar í þjáningunni voru að minnsta kosti vissar um það.
Nú get ég mig varla hreyft vegna harðsperra sem ég get náttúrulega eingöngu sjálfri mér kennt um. Ég gleymdi nefnilega að fá mér banana eftir tímann í gær.
Banani er algjör forsenda þess að ég geti hreyft mig daginn eftir leikfimi. Jafnvel þótt einn, sem ég kalla vin minn, segi að þetta sé platleikfimi
Ég auglýsi hér með eftir gerviharðsperrum. Mér finnst það lágmark ef þetta er platleikfimi
Lifðu í lukku
13.1.2009
Björn Bjarnason
Ég hef áttað mig á því í hvaða leik ríkisstjórnin er! Muniði eftir leiknum þar sem einn hvíslar einhverju orði að næsta manni og sá lætur síðan orðið ganga í eyrað á næsta manni og síðan koll af kolli þar til síðasta manneskjan í hringnum segir orðið upphátt og það er afskaplega sjaldan sama orðið og lagt var upp með......
Þau eru í þeim leik. Þau átta sig bara ekki á því að það vill enginn leika við þau lengur. Ég, fyrir mína parta, ætla sko ekki að leika við þau fyrr en árið 3050 og meira að segja ætla ég að hugsa mig vel um þá..........
Svo er ég ferlega þreytt á fólki sem þarf alltaf að skipa mótmælendum í flokka, svona pólistískt séð. Ef ég mótmæli þá er ég vinstri græn. Það getur alls ekki verið að ég sé bara orðin langþreytt á ástandi sem hefur varað óbreytt frá því í byrjun október og engin breyting í sjónmáli - nema mótmælendur komi þeim breytingum í gegn. Ekki áttar þessi ríkisstjórn sig á því sjálf að enginn vill vera með þeim lengur. Getur hugsast að mótmælendur séu í öllum flokkum? Að þeir komi úr öllum röðum þjóðfélagsins? Að þeir séu orðnir þreyttir á að enginn axli ábyrgð? Að ekki megi persónugera vandann? Að þeir vilji skipta ríkisstjórninni út, ásamt pabbadrengjum í fme að maður tali nú ekki um sorann í seðlabankanum?
Það er engin tilviljun að ég skrifa þessar stofnanir með litlum stöfum - mér líður betur með því að skrifa litlar stofnanir með litlum köllum með litlum stöfum. Alveg eins og ég skrifa bretland með litlum staf þá skrifa ég davíð með litlum staf. Það er mín aðferð við að móðga þetta lið - þennan skríl!
Ég er nefnilega handhafi rauða pennans og á afskaplega erfitt með að þola stafsetningarvillur og einna verst á ég með að þola þær hjá sjálfri mér. Ég á það til að hætta að lesa bók ef ég rekst á magnaðar stafsetningarvillur. Bara svo þið vitið hvað þetta hefur mikla þýðningu fyrir mig!!
Þá að öðru..... ef hundar leggja aðra hunda í einelti - heitir það þá að hundelta?
Lifið ekki í krukku.
11.1.2009
Sunnudagur!
Svakalega er ég búin að vera löt í dag! Svaf fram eftir - enda fór ég allt of seint að sofa ;) Af hverju sefur maður fram eftir? Héðan í frá ætla ég að sofa út eftir
Þrátt fyrir leti, eða kannski vegna hennar, arkaði ég út með Ljónshjartað og Hrekkjusvínið. Við hittum gamlan mann með hundinn sinn og þau sameinuðust í því að hrekkja hundinn hans, litlu dúllurnar á meðan ég hrekkti gamla manninn......
Ég er enn að vinna úr mótmælaferðinni - svakalega gott að sjá og finna allan þennan samhug í fólki. Finna að maður er ekki einn í þessum sporum. Þetta jafnaðist í raun á við áfallahjálp - man að vísu ekki eftir að hafa fengið neina áfallahjálp..... jú, jú - ég lýg því, ég fór eftir jarðskjálftann í vor og talaði við RKÍ konuna, sem sagði mér að það væri allt í lagi að flissa sig út úr vanda - það endaði að vísu með því að ég gaf henni númerið mitt, ef ske kynni að jarðskjálfti riði yfir Reykjavík og hún þyrfti á aðstoð að halda! Kona með reynslu, sjáðu til. Ég finn að vísu til afskaplegrar lítillar samkenndar með fólki þegar það vill vera að væla eitthvað upp í andlitið á mér. Ég held það vanti í mig einhverja úð...... þó ekki úlfúð Þeir yrðu líklega fljótir að reka mig hjá RKÍ.
Þá kemur sér vel að vera með reynslu í rekstri
10.1.2009
Bændur úlpast!!
Ég ákvað að vera vargur í dag og skellti mér á mótmælin í dag á Austurvelli ásamt öööörfáum öðrum!
Að Þorvaldi og Lilju ólöstuðum, fannst mér Lárus Páll bera af í ræðuhöldum en Þorvaldur sló náttúrulega í gegn með söng sínum. Ég get sagt þér það Þorvaldur að ef þú missir vinnuna sem smiður þá áttu vísan frama í söng!
Þarna voru margur og múgmenni.... Ég hitti Skessu og Katrínu Snæhólm ég hitti líka Ibbu Sig. ;) sem veit ekki einu sinni að ég þekki hana.......... hitti Söru dóttur Jennýar Önnu, þekkti hana af myndum af Jenný Unu sem að sjálfsögðu var líka mætt - enda með skoðanir á mörgu!!
Hitti líka fullt af fólki sem ég þekki úr kjötheimum - Frábær dagur og ég er ánægð með að hafa loksins drifið mig á Austurvöll.
Takk Ellen fyrir að útvega mér far.
Lifið í Lukku
10.1.2009
Úlpa!
Lára Hanna - yfirmótmælandi Íslands er með frábæran pistil á sinni síðu!
Þessi pistill varð til þess að ég fór á stúfana. Útvegaði mér far til Reykjavíkur og ætla að mæta í fyrsta skipti á Austurvöll í laugardagsmótmæli. Verst að ég hef ekki tíma til að útbúa mótmælaspjald. Á því mundi standa: MUNDU MIG - ÉG MAN ÞIG!!
Nú gengur þetta ekki lengur! Fram þjáðir Íslendingar.
Mætum öll!
8.1.2009
Björn Bjarnason
Ég baka svo gott brauð að ég íhuga að opna skyndibitastað í samkeppni við Sub-way! Minn staður kemur til með að heita No-way ;)
Sjálfstæðisflokkurinn á Selfossi eða Suðurlandi eða Guðmávitahvað - eins og mér sé ekki sama - á fundasal í húsinu við hliðina á mér! Ég bý við ca. 50 bíla bílastæði en alltaf skal einhver þeirra nappa mínu bílastæði! Ég hef margfarið þarna upp í þennan sal þeirra og rekið viðkomandi út með harðri hendi að færa bílinn sinn - en sjálfstæðismenn á Suðurlandi eru líklega annað af tvennu, latir eða heimskir - nema hvorutveggja sé - því þeir halda alltaf áfram að stela stæðinu mínu.
Þeir eru búnir að kafsigla þjóðarskútunni, svo ég persónugeri vandann sneggvast, en geta ekki látið þar við sitja og stela bílastæðinu mínu líka!! Réttast væri að ég færi út og skrapaði "EINKABÍLASTÆÐI" í lakkið á bílnum sem er í stæðinu mínu. Það ætti að kenna þeim.........
Og í þessu samhengi þá finnst mér akkúrat engu máli skipta að ég eigi engan bíl
6.1.2009
Allra meina bót!
Ég var svo miður mín eftir gærdaginn að ég fór og keypti mér bæði skartgrip og rósir Leið strax miklu betur! Só vott ef ég á ekki pening fyrir mat! Ég fer þá bara í mat til Lólóar frænku - þeirrar síflissandi kjéddlingar
Hún býr hvort eð er stutt frá.........
Þetta endar með því að ég kaupi mér þurrkara - svei mér þá.
Við stuttbuxnadrengina sem komu mér í þessar vitleysu hef ég bara eitt að segja; Mundu mig - Ég man þig.
5.1.2009
Helvítis fokking fokk!!
Já - ekkert helvítis halelúja kjaftæði hér!
Það fer ógeðslega í taugarnar á mér þegar fólk heldur að það sé að hugga mig með því að segja mér að ég taki nú ekki þennan sextíuþúsund kall, eða hvað þær nú eru þessar atvinnuleysisbætur, upp úr götunni! Mér er fokkings sama þótt ég taki hann ekki upp úr götunni - Ég vil hann hvort eð er ekkert þaðan! Ég vil fá vinnuna mína aftur!!
Vinnuna sem ég lagði marga mánuði í að koma í lag! Vinnuna sem ég lá yfir til að fá reikninga til að stemma og fann ánægjuna hrislast um mig þegar það svo tókst. Vinnuna sem mér leið vel í og allt gekk eins og blómstrið eina....
Það ætti að hnakkaskjóta þessa útrásarvíkinga! Svo ganga bræðurnir Klemenzsynir um í bænum og ógna fólki sem er að mótmæla í mínu nafni. Báðir eru þeir á launum hjá ríkinu þ.e.a.s. MÉR!! Hér með eru þeir báðir reknir! Þeir geta þá staulast á vinnumálaskrifstofur og sótt um atvinnuleysisbætur eins og hinir. Ég meina þeir taka nú ekki þær bæturnar upp úr götunni!
Djöfull sem ég er sár, svekkt og leið.
3.1.2009
Ég vaknaði seint.
Held að veðrið hafi þessi áhrif! Þoka, logn og súld. Sjólítið - gráð - hiti sjö stig
Hrærði í kærleiksbollur sem standa nú og hefast. Er á leiðinni út að skokka með Stúf Stubbalings. Búin að finna assgoti flotta leið fyrir okkur í gegnum draugabyggð sem "efnahagsástandið" gaf af sér..... Ekki bara slæmar afleiðingar af því, sjáðu til - þarna er vegur úti í buskanum engin umferð, nema einn og einn hundaeigandi eða skokkari sem er líka búin að uppgötva möguleikana í efnahagsástandinu
Fór í gær og ætlaði að láta skrá mig á atvinnuleysisbætur en fékk fremur undarleg svör. Þarf að kanna þetta nánar eftir helgi. Hér brast nefnilega á með 100% uppsagnarbréfum fyrir áramót, þ.e. allir íbúar með lögheimili hér skv. þjóðskrá en þó reiknast mér til að atvinnuleysið sé ekki nema 75%
Flókið? Þetta er gáta - reikniði bara........
Farin út að skokka - og láta mig hlakka til að fá heitar morgunbollur þegar ég kem til baka.
Lifið í krukku
1.1.2009
Operation bros
Það bar til um þessar mundir...... vitlaust ævintýri? Ókey byrja þá bara upp á nýtt!
Þegar við Stúfur Stubbalings förum út í býtið - og ég er að tala um ess enn emm emm a þá gengur oft afskaplega myndarlegur maður hjá. Ég reikna með því að hann sé á leið í vinnu án þess að ég hafi íhugað það neitt sérstaklega né fylgst með því eitthvað nánar...... je ræt - rétt upp hönd sem trúði þessu!!
....Allavega þá er þetta afskaplega myndarlegur maður - var ég búin að taka það fram? Eins og gengur þá er ég nú misfalleg á morgnana, alveg frá því að vera bjútíkvín sem elskar ferðalög og börn, niður í að þora ekki að líta í spegil áður en ég fer út og þykja þar af leiðandi minna vænt um börn! Vitaskuld eru það helst þeir morgnar sem við mætum fallega manninum á mígildisferðum okkar!
Fyrstu skiptin missti ég alltaf hjartað í buxurnar og hugsaði "díjjj hvað hann er sætur.... " ákvað svo að herða upp hugann og bjóða honum góðan daginn og frá því í október... -já, já, ég er með nánari dagsetningu ef þið hafið áhuga hef ég brosað líka til hans og passað upp á að Stúfur Stubbalings hagi sér skikkanlega.
Haldiði að ég hafi svo ekki mætt honum, daginn fyrir Gamlárs í Kuffjelaginu, félagsmiðstöð miðaldra húsmæðra.....? Hann brosti til mín og ég sver það - ég var óvenju hýr á brá með heimskulegt fótastrím glott það sem eftir lifði verzlunarferðar - og ekki er það nú minn stíll að lúkka stjúpid í Kuffjelaginu
Ég skal segja ykkur að ég er illa svikin ef það er ekki brúðkaup á dagskrá 090909
Lifið í lukku