27.1.2009
Bæ bæ gamla Ísland....
......sagði Hallgrímur Helgason á borgarfundinum sem ég fór á í gærkvöldi!
Sem ábyrgur mótmælandi mætti ég snemma til að taka frá sæti fyrir síður ábyrga mótmælendur.....
Þangað mættu þingmenn kjördæmisins. Bæði þeir sem hafa sagt af sér sem og aðrir. Sjálfstæðismenn opinberuðu sína andlegu eyðimörk. Þeir eiga ekki sök á einu né neinu. Hinsvegar átti Samfylkingin alveg sinn þátt og Björgvin einna stærstan og óx hans hlutur töluvert eftir að hann yfirgaf samkvæmið. Ég verð að segja, þó það hafi svo sem ekki komið mér á óvart, að það var sorglegt að fylgjast með málflutningi þingmanna sjálfstæðisflokksins á fundinum. Það jaðraði við að ég opinberaði fyrir aðkomumönnunum hvað ég skammaðist mín fyrir þau, en vitaskuld gerir maður það ekki...... ekki opinberlega.......
Ég upplifði fundinn svolítið eins og framboðsfund - sem mér fannst ekki tímabært - en segir mér meira en annað um að nú sem aldrei fyrr er þörf á fólki á þing sem hugsar heildstætt um almannahag og þau vandamál sem blasa við íslenzkum fjölskyldum og fyrirtækjum og ekkert annað! Ég vil líka fá erlenda rannsóknaraðila á staðinn - þeir eru bara one phonecall away eins og einhver sagði.
Ég "saknaði" sýslumannsins á fundinum. Hann mætti ekki - sjálfsagt verið upptekin í æfingum fyrir spurningkeppni eða eitthvað. Fólk þarf nú að forgangsraða.......
25.1.2009
Sjálfstæður vilji í pottalandi!
Ég teygði mig eftir steikarpönnunni áðan, neðst í pottaskápinn og hinir pottarnir brustu allir í salsa...
....þeir sungu: Vanhæf ríkisstjórn - Jónas BURT!
24.1.2009
Hugleiðingar miðaldra húsmóður....
...utan af landi.
Í ágúst sl. var ég á Spáni í hálfan mánuð. Sleikti sólskinið, drakk cervesa og vino tinto út í eitt og eina markmið dagsins var að gera allt á eins löngum tíma og hægt væri að komast upp með.
Í september var ég komin heim aftur og hversdagsleikinn tók við með öllu sínu amstri. Vinna, borða sofa. Ég fór helst ekki til Reykjavíkur nema erindið væri brýnt. Það var einna helst að ég rölti niður Laugarveginn, tæki út hversu mörg kaffihús væru komin í eyði og kíkti í búðir í góðum félagsskap.
Svo breyttist allt eins og hendi væri veifað.
Mér var sagt upp annarri vinnunni. Hélt þó ró minni sem og 50% starfi og var þess fullviss að ríkisstjórnin kæmi okkur út úr þessu fári, þau myndu leysa þetta farsællega, að ætla annað væri óþarfa upphlaup...... hversu rangt hafði ég fyrir mér þar......?
Í nóvember fór að renna upp fyrir mér ljós! Ég gerði eins og maðurinn í búðinni hér um árið - fór að hugsa.....
Í þessari viku hef ég farið þrisvar til Reykjavíkur. Fjórum sinnum ef ég tel sl. laugardag með. Ég hef staðið fyrir utan alþingi og stjórnarráðið með pottlok og sleif og látið í mér heyra. Ég hef ekki svo mikið sem gjóað auga á útsölur - enda útsölur ábyggilega fundnar upp af þeim svarta sjálfum - les. kapítalismanum..... til að villa um fyrir fólki og halda því frá því sem máli skiptir, þ.e. mótmælum!
Í dag er staðan þannig að báðir formenn stjórnarflokkanna eru veikir. Svo veikir að þau þurfa að fara utan til að leita sér læknishjálpar. Vitskuld óska ég þeim báðum sem og fjölskyldum þeirra alls hins besta í þeirri baráttu sem framundan er í þeirra einkalífi. En það er akkúrat málið. Þetta er þeirra einkalíf og þar sem ég þekki þau ekki persónulega get ég aðeins haft samúð með þeim upp að vissu marki.
Það er enn bjargföst sannfæring mín að breytinga sé þörf á alþingi. Ég er enn þeirrar skoðunar að það þurfi að taka til í seðlabankanum og fme.
Mitt kalda mat er að ríkisstjórnin hafi jafnvel verið enn vanhæfari en mig nokkurn tíma óraði fyrir. Vitaskuld skunda ég á Austurvöll að mótmæla.
23.1.2009
Skiptir það máli?
Afskaplega leiðinlegt að heyra að Geir sé veikur. Ég óska honum alls hins besta á þeim tíma sem framundan er hjá honum.
Mitt mat er að þegar fólk er að berjast fyrir lífi sínu við svo illvígan sjúkdóm þá eigi það að einbeita sér að því að ná heilsu á ný. Það getur ekki verið gott að þurfa að standa í illvígum deilum á vinnustað þar sem heill allrar þjóðarinnar er í húfi.
Það hlýtur að skipta máli að sá sem gegnir þeirri ábyrgðarstöðu sem það er að vera forsætisráðherra, tala nú ekki um á þeim tímum sem nú eru, sé heill heilsu og geti einbeitt sér að fullu að því að bjarga þjóðinni. Það skiptir mig máli. Allt mitt er í húfi.
Ég hef ekki treyst þessari ríkisstjórn í talsverðan tíma til að bjarga einu né neinu. Í ljósi síðustu frétta tel ég ENN brýnna en áður að þessi ríkisstjórn segi af sér strax og rými til fyrir neyðarstjórn.
Ég hef ekki tíma til að bíða. Þetta skiptir máli!
22.1.2009
Staðalbúnaður mótmælandans!
Eyrnatappar, skíðagleraugu, pottlok og sleif.......
....ásamt appelsínugulum trefli!
21.1.2009
Einlæg aðdáun!
Ég hreinlega dáist takmarkalaust að öllu því fólki sem stóð með mér í dag fyrir framan stjórnarráðið og trommaði á pottlok, pönnur og annað!
Ég dáist að fólkinu sem þrammaði með mér niður á Austurvöll í dag og gekk þögult í hringi í kringum alþingishúsið á meðan jarðarför stóð yfir í Dómkirkjunni - spáið í samstöðuna! Spáið í það!!
Ég er stolt af að vera hluti af þessum hóp! Algjörlega að rifna úr stolti yfir að vera Íslendingur og taka þátt í þessum mótmælum! Ég verð jafnstolt eftir tvo daga, eftir fimm ár, eftir þrjátíu ár þegar ég segi frá því hvar ég var á þessum tíma!
Það er enn engin tilviljun að ég skrifa með litlum staf þessi hús sem einhverjum þykir að eigi að skrifast með stórum staf. Það er liður í mótmælum!
20.1.2009
Dagurinn í dag....
....verður dagurinn sem ég kem til með að muna eftir þegar ég verð orðin arfarugluð á hjúkrunarheimili fyrir aldraða! Þetta var ótrúlegur dagur. Einstök upplifun!
Hávaðinn, samstaðan, samkenndin! Ólýsanlegt!! Mótmælendur með grímur, mótmælendur án gríma. Mótmælendur í rauðum úlpum, mótmælendur í appelsínugulum bolum....... Ef þetta kemur ríkisstjórninni ekki í skilning um að þaum séu persona non grata í þessu húsi - þá skilja þau líklega ekki neitt!
Nú er klukkan langt gengin í ellefu og enn eru læti þarna fyrir utan. Það kæmi mér ekki á óvart að ég þyrfti að fara aftur í bæinn á morgun og klára sleifina mína - en það er hvort eð er ekki svo mikið eftir af henni..........
Ég ákvað að verða á undan og tók myndir af löggunni - sko áður en þeir tækju myndir af mér!
Lifi byltingin
20.1.2009
Skilaboðin eru skýr!
Ferlega góður tími í vatnsfimi í morgun! Það er svo undarlegt með leikfimina að eftir því sem tíminn er erfiðari þeim mun betri......... Svolítið undarlegt samband sem maður byggir upp við líkamann Hinsvegar þegar ég er í útlöndum þá geri ég sem minnst á sem lengstum tíma..... Enda þá er ég oftast í fríi
Þær voru að hafa smá áhyggjur sundsystur mínar að löggan hirti mig í mótmælunum í dag - en ég fullvissaði þær um að mér yrði örugglega sleppt aftur mjöööög fljótlega, ef svo færi. Ég er sumsé að undirbúa ferð á mótmæli! Búin að finna til lopapeysuna, nesti, heitt kakó, mála mig og allt. Mér er nefnilega sagt að löggan taki myndir af mótmælendum og þá er nú um að gera að lúkka vel - þekkist líka síður þegar þeir fara að leita að mér
Mundu mig - Ég man þig!
17.1.2009
Úlpa!
Ég gleymdi að fá afnot af vatnssalerni hjá "Litla" bró áður en ég tók strætó heim aftur eftir mótmælin á Austurvelli þar sem ég hitti hann og fleiri ;)
Við Rauðavatn var ég í spreng og í Hveragerði íhugaði ég að kannski væri ekki svo slæmt að búa þar..... en náði áttum aftur
Fundurinn á Austurvelli var góður. Það gefur manni eitthvað að mæta þangað og bara standa með öðrum sem eru í sömu eða svipuðum sporum og maður sjálfur. Ekki spillti heldur fyrir að fá knús frá Einari ;)
Mikið lifandi skelfingar ósköp er mér nákvæmlega sama hvort mótmælendur eru með grímu, trefla eða bert feisið. Ég vil bara að fólk taki þátt! Það skiptir máli að koma þessu liði frá völdum. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli og sem betur fer eru fleiri og fleiri að átta sig á því.
Það var mótmælt á Selfossi líka í dag en mér leið bara svo vel eftir fundinn á Austurvelli á laugardaginn var að ég ákvað að skunda þangað í dag líka.
Enda er ég engin úlpa - ég er yfirhöfn
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
15.1.2009
Snúðagræja
Ég var að baka snúða.
Fór nefnilega í ódýru hverfisverslunina - nei, ekki kennda við bleikan grís.... heldur europrís - ég er talandi skáld ég ætla að gefa út ljóðabók fyrir páska... en það er nú önnur saga. Þar sem ég vafraði á milli hillna í europris rakst ég á mottu gerða úr siliconi, sem ég breitt úr á eldhúsborðinu, flatt út snúðana og skorið og græjað. Algjör snilldargræja! Svo þurrka ég bara af henni og eldhúsborðið er hreint.
Silicon er töfraefni sem kemur víða við. Nú skil ég af hverju iðnaðarmenn eru svona hugfangnir af siliconi og ég skal segja þér, ef þú lætur það ekki fara lengra, að þeim er slétt sama hvort það er í vörum, brjóstum eða annarsstaðar!
Ég vil að lokum taka fram að á engan hátt tengist ég hvorki þessari vöru, né eigendum verslunarinnar
Lifðu í Lukku