11.2.2009
Ég held ég hafi sagt það áður....
....kreppan er ekki að öllu leyti alslæm!
Ég get tekið sem dæmi að svæði sem áður var búið að skipuleggja byggð á, standa enn auð og ósnortin... ég get rölt þar með vitleysingana án þess að stórir vörubílar stofni lífi mínu - og þeirra í hættu. Ég get litið í góða bók eftir hádegi, eða bara lagt mig í klukkutíma, eða svo, ef mér finnst ég þurfa þess....
Hlín hrekkjusvín er að lóða og hvílíkar skapgerðarbreytingar. Hún getur engan veginn verið einsömul, stendur með höfuðið á hnjánum á mér allan morguninn á meðan ég vinn, eins og það er nú þægilegt...... og grætur og hrín ef mér svo mikið sem dettur í hug að fara út í búð og skilja hana eftir "eina" Svolítið lýsandi fyrir karaktera hrekkjusvína........ ekki satt? Ég spurði mömmusinnardúlludúsk, sem formlegan eiganda hrekkjusvínsins, í dag hvursu lengi þetta ástand stæði yfir. Hann benti mér á að ég ætti að vita það fremur en hann.... Ég sagði honum þá vitaskuld, blákalt og horfði beint í augun á honum á meðan, að ég væri ekki tík Hann þorði ekki að svara því.... Einhver sem veit hvað tíkur lóða lengi?
Einhversstaðar las ég á bloggi að "þessir mótmælendur" - þið skynjið tóninn - væru fólk sem ekki nennti að vinna og ætti það sameiginlegt að borga enga skatta. Well - það er eitthvað það vitlausasta sem ég hef lesið - lengi...... því, svo fáránlegt sem það er þá þurfa þeir sem ekki "nenna" að vinna að leggja fram skattkortið sitt til vinnumálastofnunar - sem bæþevei - ég hef reynt að ná í frá mánaðarmótum til að fá skýringar á ýmsu. Spurning hvort ég byði ekki fram vinnukrafta mína ef ég næ einhverntíma í gegn og hreinlega mundi "nenna" því
Nú á ég bara eftir að finna út hvernig ég læt þessar fargings bætur duga fyrir mínum skuldbindingum. Sem eru nú svosem ekki rosalegar. En það eru bæturnar ekki heldur......
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Mér fannst þetta við hæfi........
byltingin er á bömmer
og frelsið er bara flipp
hatursfullar raddirnar búa ekki lengur
yfir þeirri hlýju sem yljaði
viskírótum hjartans
byltingin er á bömmer
og frelsið er bara flipp ...
Við erum ekki í lit
heldur svart-hvítir skuggar
hvers annars
það er ekkert töff að vera til
allir sigrarnir sem við töpuðum
í rauðeygu myrkrinu eru fyrir bí
byltingin er á bömmer
og frelsið er bara flipp
og þeir sem fjárfestu
í sál þinni eru löngu farnir á hausinn
eða stungnir af með sjóðina.
Og spurningin sívinsæla er: Hver orti og hvenær?
9.2.2009
090209
Í dag hefði orðið níu ára yndisleg stúlka sem dó fyrir rúmum sjö árum.
Ég heyri enn tæru röddina hennar þegar hún heilsaði með sínu sérstaka "hæjjj" með svolítilli forvitni í málrómnum. Ég sé ennþá fyrir mér fallegu augun sem horfðu stundum svo alvarlega á mann. Eins og þau vissu og skildu svo miklu meira en maður sjálfur.
8.2.2009
Nostalgía
Ég var að lesa gamalt blað með morgunkaffinu..... Matur og Vín heitir það. Þar eru oft góðar uppskriftir og viðtöl við hina og þessa. Ég staldraði við viðtal við (takið eftir öllum viðunum.... mætti halda að ég væri úr iðnaðarmannahéraði ) Tomma í Tommaborgurum og þá fór ég að hugsa.......
Ég renndi mér allt til árs fyrsta alvöruhamborgarans sem ég smakkaði. Hann var vitaskuld keyptur í útlöndum því hér fengust engir almennilega sveittir borgarar í þá gömlu góðu........ á Strikinu nánar tiltekið - ég hef snemma byrjað að njóta lífsins lystisemda í Danmörku en þetta er ekki saga um það..... Mig minnir samt endilega að minn fyrsti borgari hafi heitað Whopper Burger frekar en Burger King. Ég man ég fylltist valkvíða miklum yfir öllu því úrvali af hamborgurum og meðlæti sem þar gat að líta..... Ég man líka að mér fannst hann ekkert spes...
Fyrir nokkrum árum vaknaði ég óvenjuþunn og skundaði um miðjan dag í næstu sjoppu og verslaði einn sveittan borgara alltaf gott að borða bras í því ástandi. Síðan hef ég ekki borðað hamborgara! - Nú hélduð þið að ég ætlaði að segja: Síðan hef ég ekki vaknað þunn
Lifið í lukku
5.2.2009
Sigg á sálina?
Það er viðurstyggilega kalt úti og ég er notalega þreytt eftir daginn sem byrjaði á vatnsfimi hjá Brjáluðu Betu ;)
Ég gekk með hundana upp með á eftir hádegi og tárin sem féllu - vegna kulda - að sjálfsögðu, ég græt ekki, nema af frekju....... þau frusu jafnóðum og þau féllu. Ekki var það nú til að hlýja mér......
Hundarnir voru hinsvegar algjörlega í essinu sínu og létu eins og þau tækju ekki eftir því að það voru -9 gráður á mælinum og rok að auki. Þau hlupu á eftir Krumma fram og til baka.......... ég hefði hugsanlega átt að gera það líka. Kannski mér hefði þá ekki orðið svona kalt........?
Ég var að spá og spekúlera þar sem ég gekk, gólandi á hundana í dag, í eina spurningu sem ég fékk í vísindarannsókninni um daginn - og já, ég var líka spurð um kynferðislega áreitni - aftur :Þ en þessi spurning hljóðaði svona: Ef þú gætir á dularfullan hátt fjarlægt allar sársaukafullar upplifanir í lífi þínu. Mundir þú þá gera það?
Mér finnst þetta svolítið vera spurning um að koma sér upp siggi á sálina...... Hverju hefðir þú svarað?
3.2.2009
Innrætið var útlitinu verra.....
Mér varð litið út um gluggann í dag! Sá hvar renndi stór jeppi upp að olíudælunni á minni hverfisbenzínstöð. Ökumaðurinn opnaði hurðina og hoppaði niður, rann til í hálkunni og steinlá fyrir framan dælurnar......
....Ég skal alveg viðurkenna að ég skellihló! Mér fannst það öllu fyndnara heldur en þegar ég skondraði niður tröppurnar hér í hálkunni um daginn
Það var ekki út af engu að maðurinn sagði við mig hér um árið: Innrætið var útlitinu verra og var hún þó með ófríðari konum......
1.2.2009
Ég sá ljósið...
Í dag er 1. febrúar. Í dag er dagurinn sem ég gifti mig fyrir tuttuguogþremur árum! Spáið í það!! Ég gæti næstum því verið búin að vera gift jafnlengi og ég var gömul þegar ég giftist.
Ég skal segja ykkur - í trúnaði - að þegar sá dagur rennur upp að ég er búin að vera fráskilin í jafnmörg ár og ég var gömul þegar ég gifti mig, þá verður haldin hátíð.
Ég er vön að halda upp á þennan dag með því að fara út að borða. Veit ekki hvað ég geri í dag. Ég er allavega búin að baka Kærleiksbollur og súkkulaðihorn, sé svo til hvort ég nenni út að borða í kvöld.
Það er allavega engin ástæða í mínum huga til að hætta að halda upp á daginn þó ég hafi hætt að halda upp á manninn
30.1.2009
Samsæriskenningar!
Ég var í fríi í dag. Það þýðir að ég hef haft nægan tíma til upphugsa allskyns plott og samsæriskenningarnar dúkkuðu upp í færibandastíl.
Ein af þeim, og persónulega sú sem mér þótti einna bezt, allavega þegar ég klofaði skaflana og lyfti hnjánum svo hátt upp úr snjónum að Beta vatnsfimifrömuður hefði hoppað hæð sína af gleði.... var sú að óvinveittar þjóðir hefðu séð sér leik á borði í hinu svokallaða "efnahagsundri" Íslendinga sem var jú undanfari þess efnahagsundurs sem við upplifum nú, að sölsa undir sig þau auðævi sem, eins og einhver sagði, lágu dauð! Þá er ég vitaskuld að tala um fiskinn í sjónum, drykkjarvatnið og orkuna í formi heita vatnsins.....
Þessar þjóðir - mér detta í hug.... bretland, Holland og Þýzkaland, sameinuðust um að fella gengi krónunnar og fella gengi íslenskra fyrirtækja allt með það fyrir augum að knýja okkur inn í ESB og svo ætla þau að hirða þetta allt saman og hía á okkur um leið.........
Ég sver það - ég var svo paranojuð þarna langt úti á golfvelli að ég heyrði töluð ókennileg mál á bak við hvern hól og oní hverri holu.... mér datt helst í hug Hollenska sem er, eins og alþjóð veit, gjörsamlega óskiljanleg.....
Sjáiði bara plottið með REI hér um árið. Ég er sannfærð um að það var bara fyrsti áfanginn af mörgum......... Ég gæti haldið svona áfram lengi - en.... ég var að fá emeil þar sem ég er beðin að taka þátt í vísindarannsókn á áhrifum jarðskjálftans sl. vor. Og ef það er eitthvað sem mér þykir skemmtilegra en ljúga að börnum og búa til samsæriskenningar þá er það að svara þessari könnun. Síðast var til dæmis spurt hvort ég hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni síðan í jarðskjálftanum. Því miður var ekki boðið upp á svarmöguleikann: Nei - sorrí tú sei.....
Ég held þetta séu perrar sem búa til þessar spurningar - en það breytir ekki því að ég flissa stanslaust á meðan ég svara!
Túdílú
30.1.2009
...og lífið gengur sinn gang?
Ég held það sé alveg efni í mannfræðirannsókn hvernig fólk bregst við kreppu!
Sumir sýna sitt rétta andlit! Það er voða einfalt að vera "góði gæinn" þegar allt gengur í haginn. (takið eftir ríminu ) Erfiðara svo þegar halla fer undan fæti. Aðrir vilja láta vorkenna sér út í eitt. Svo eru einhverjir sem sameina þetta tvennt........ Hugsanlega er kominn tími á endurbirtingu færslu minnar: Æ dónt læk sillí pípól!
Og yfir í allt allt annað. Hótun mín um nafn- og myndbirtingar, í síðustu færslu, svínvirkaði. Ég fékk sendar myndir í löngum bunum.
Anna! Zjékk
Ónefndur æskuvinur! Zjékk
Annars er ég góð bara. Vann allan daginn í gær og á frí í dag. Fór með hundana í laaaaanga göngutúr. Svo langan að við urðum næstum úti. Ég sá fram á að þurfa að grafa okkur í fönn og bræða snjó til drykkjar - þar til okkar yrði saknað, án þess að ég sé á nokkurn hátt að dramatæsa hlutina.
Sjúkkett að það er nóg til af snjó
28.1.2009
Björn Bjarnason
Ég er að verða eins og gamla fólkið! Ekki að það sé neitt slæmt sko - sumt af mínu bezta gamla fólki eru vinir.......
Klukkan er rétt að slá í þrjú og i dag hef ég; unnið, farið út með hundana í laaaaangan göngutúr, hvar ég talaði við allt gamalt fólk sem ég hitti, tekið til, farið í búðina og bakað snúða og muffins!
Ég á bara eftir að baka brauð og elda kvöldmat - þá get ég farið að sofa um sexleytið og byrjað all over á morgun! Nema kannski ívið fyrr. Svo endar þetta með því að ég verð farin að vinna á nóttunni, á náttúrulega næturvinnutaxta og stórgræði
Ég hef líka lesið blogg og þar sem ég hef skilið eftir athugasemdir hef ég vandað mig óskaplega að setja greinarskil og kommur á rétta staði......
Svo datt mér þessi stórgóða hugmynd í hug..... Allir þeir sem í gegnum tíðina hafa lofað að gera eitthvað fyrir mig, hvort sem það er að staga í sokka eða senda mér myndir verða böggaðir þar til þeir hafa skilað sínu
Smátt og smátt færi ég mig svo í aukana og nafngreini þá sem mér verður náttúrulega farið að mislíka alveg hrikalega við. Ég meina, fólki er ekki stætt á því að standa ekki við það sem það segir...
Hugsanlega þjáist ég líka af fráhvarfseinkennum og þyrfti bara að standa fyrir sýsló með pottlokið og sleifina og berja taktinn...... Vanhæfur sýslumaður - óli út!!
Svo kæmi óli út og færi með mér heim og borðaði snúðana mína
Lifið í lukku