Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
20.1.2009
Skilaboðin eru skýr!
Ferlega góður tími í vatnsfimi í morgun! Það er svo undarlegt með leikfimina að eftir því sem tíminn er erfiðari þeim mun betri......... Svolítið undarlegt samband sem maður byggir upp við líkamann Hinsvegar þegar ég er í útlöndum þá geri ég sem minnst á sem lengstum tíma..... Enda þá er ég oftast í fríi
Þær voru að hafa smá áhyggjur sundsystur mínar að löggan hirti mig í mótmælunum í dag - en ég fullvissaði þær um að mér yrði örugglega sleppt aftur mjöööög fljótlega, ef svo færi. Ég er sumsé að undirbúa ferð á mótmæli! Búin að finna til lopapeysuna, nesti, heitt kakó, mála mig og allt. Mér er nefnilega sagt að löggan taki myndir af mótmælendum og þá er nú um að gera að lúkka vel - þekkist líka síður þegar þeir fara að leita að mér
Mundu mig - Ég man þig!
17.1.2009
Úlpa!
Ég gleymdi að fá afnot af vatnssalerni hjá "Litla" bró áður en ég tók strætó heim aftur eftir mótmælin á Austurvelli þar sem ég hitti hann og fleiri ;)
Við Rauðavatn var ég í spreng og í Hveragerði íhugaði ég að kannski væri ekki svo slæmt að búa þar..... en náði áttum aftur
Fundurinn á Austurvelli var góður. Það gefur manni eitthvað að mæta þangað og bara standa með öðrum sem eru í sömu eða svipuðum sporum og maður sjálfur. Ekki spillti heldur fyrir að fá knús frá Einari ;)
Mikið lifandi skelfingar ósköp er mér nákvæmlega sama hvort mótmælendur eru með grímu, trefla eða bert feisið. Ég vil bara að fólk taki þátt! Það skiptir máli að koma þessu liði frá völdum. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli og sem betur fer eru fleiri og fleiri að átta sig á því.
Það var mótmælt á Selfossi líka í dag en mér leið bara svo vel eftir fundinn á Austurvelli á laugardaginn var að ég ákvað að skunda þangað í dag líka.
Enda er ég engin úlpa - ég er yfirhöfn
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
15.1.2009
Snúðagræja
Ég var að baka snúða.
Fór nefnilega í ódýru hverfisverslunina - nei, ekki kennda við bleikan grís.... heldur europrís - ég er talandi skáld ég ætla að gefa út ljóðabók fyrir páska... en það er nú önnur saga. Þar sem ég vafraði á milli hillna í europris rakst ég á mottu gerða úr siliconi, sem ég breitt úr á eldhúsborðinu, flatt út snúðana og skorið og græjað. Algjör snilldargræja! Svo þurrka ég bara af henni og eldhúsborðið er hreint.
Silicon er töfraefni sem kemur víða við. Nú skil ég af hverju iðnaðarmenn eru svona hugfangnir af siliconi og ég skal segja þér, ef þú lætur það ekki fara lengra, að þeim er slétt sama hvort það er í vörum, brjóstum eða annarsstaðar!
Ég vil að lokum taka fram að á engan hátt tengist ég hvorki þessari vöru, né eigendum verslunarinnar
Lifðu í Lukku
14.1.2009
Bananana
Ég fór í sundleikfimi í gær í fyrsta sinn síðan í byrjun desember. Ekki þó vegna þess að ég hafi ekki nennt og heldur ekki vegna þess að ég eigi við einhverja tilfinngakreppu að stríða í sambandi við vatn heldur einfaldlega vegna þess að innilaugin var lokuð.
Tíminn var strembinn - en góður. Ég held að Beta hafi verið að vinna upp glataðan tíma. Systur mínar í þjáningunni voru að minnsta kosti vissar um það.
Nú get ég mig varla hreyft vegna harðsperra sem ég get náttúrulega eingöngu sjálfri mér kennt um. Ég gleymdi nefnilega að fá mér banana eftir tímann í gær.
Banani er algjör forsenda þess að ég geti hreyft mig daginn eftir leikfimi. Jafnvel þótt einn, sem ég kalla vin minn, segi að þetta sé platleikfimi
Ég auglýsi hér með eftir gerviharðsperrum. Mér finnst það lágmark ef þetta er platleikfimi
Lifðu í lukku
13.1.2009
Björn Bjarnason
Ég hef áttað mig á því í hvaða leik ríkisstjórnin er! Muniði eftir leiknum þar sem einn hvíslar einhverju orði að næsta manni og sá lætur síðan orðið ganga í eyrað á næsta manni og síðan koll af kolli þar til síðasta manneskjan í hringnum segir orðið upphátt og það er afskaplega sjaldan sama orðið og lagt var upp með......
Þau eru í þeim leik. Þau átta sig bara ekki á því að það vill enginn leika við þau lengur. Ég, fyrir mína parta, ætla sko ekki að leika við þau fyrr en árið 3050 og meira að segja ætla ég að hugsa mig vel um þá..........
Svo er ég ferlega þreytt á fólki sem þarf alltaf að skipa mótmælendum í flokka, svona pólistískt séð. Ef ég mótmæli þá er ég vinstri græn. Það getur alls ekki verið að ég sé bara orðin langþreytt á ástandi sem hefur varað óbreytt frá því í byrjun október og engin breyting í sjónmáli - nema mótmælendur komi þeim breytingum í gegn. Ekki áttar þessi ríkisstjórn sig á því sjálf að enginn vill vera með þeim lengur. Getur hugsast að mótmælendur séu í öllum flokkum? Að þeir komi úr öllum röðum þjóðfélagsins? Að þeir séu orðnir þreyttir á að enginn axli ábyrgð? Að ekki megi persónugera vandann? Að þeir vilji skipta ríkisstjórninni út, ásamt pabbadrengjum í fme að maður tali nú ekki um sorann í seðlabankanum?
Það er engin tilviljun að ég skrifa þessar stofnanir með litlum stöfum - mér líður betur með því að skrifa litlar stofnanir með litlum köllum með litlum stöfum. Alveg eins og ég skrifa bretland með litlum staf þá skrifa ég davíð með litlum staf. Það er mín aðferð við að móðga þetta lið - þennan skríl!
Ég er nefnilega handhafi rauða pennans og á afskaplega erfitt með að þola stafsetningarvillur og einna verst á ég með að þola þær hjá sjálfri mér. Ég á það til að hætta að lesa bók ef ég rekst á magnaðar stafsetningarvillur. Bara svo þið vitið hvað þetta hefur mikla þýðningu fyrir mig!!
Þá að öðru..... ef hundar leggja aðra hunda í einelti - heitir það þá að hundelta?
Lifið ekki í krukku.
11.1.2009
Sunnudagur!
Svakalega er ég búin að vera löt í dag! Svaf fram eftir - enda fór ég allt of seint að sofa ;) Af hverju sefur maður fram eftir? Héðan í frá ætla ég að sofa út eftir
Þrátt fyrir leti, eða kannski vegna hennar, arkaði ég út með Ljónshjartað og Hrekkjusvínið. Við hittum gamlan mann með hundinn sinn og þau sameinuðust í því að hrekkja hundinn hans, litlu dúllurnar á meðan ég hrekkti gamla manninn......
Ég er enn að vinna úr mótmælaferðinni - svakalega gott að sjá og finna allan þennan samhug í fólki. Finna að maður er ekki einn í þessum sporum. Þetta jafnaðist í raun á við áfallahjálp - man að vísu ekki eftir að hafa fengið neina áfallahjálp..... jú, jú - ég lýg því, ég fór eftir jarðskjálftann í vor og talaði við RKÍ konuna, sem sagði mér að það væri allt í lagi að flissa sig út úr vanda - það endaði að vísu með því að ég gaf henni númerið mitt, ef ske kynni að jarðskjálfti riði yfir Reykjavík og hún þyrfti á aðstoð að halda! Kona með reynslu, sjáðu til. Ég finn að vísu til afskaplegrar lítillar samkenndar með fólki þegar það vill vera að væla eitthvað upp í andlitið á mér. Ég held það vanti í mig einhverja úð...... þó ekki úlfúð Þeir yrðu líklega fljótir að reka mig hjá RKÍ.
Þá kemur sér vel að vera með reynslu í rekstri
10.1.2009
Bændur úlpast!!
Ég ákvað að vera vargur í dag og skellti mér á mótmælin í dag á Austurvelli ásamt öööörfáum öðrum!
Að Þorvaldi og Lilju ólöstuðum, fannst mér Lárus Páll bera af í ræðuhöldum en Þorvaldur sló náttúrulega í gegn með söng sínum. Ég get sagt þér það Þorvaldur að ef þú missir vinnuna sem smiður þá áttu vísan frama í söng!
Þarna voru margur og múgmenni.... Ég hitti Skessu og Katrínu Snæhólm ég hitti líka Ibbu Sig. ;) sem veit ekki einu sinni að ég þekki hana.......... hitti Söru dóttur Jennýar Önnu, þekkti hana af myndum af Jenný Unu sem að sjálfsögðu var líka mætt - enda með skoðanir á mörgu!!
Hitti líka fullt af fólki sem ég þekki úr kjötheimum - Frábær dagur og ég er ánægð með að hafa loksins drifið mig á Austurvöll.
Takk Ellen fyrir að útvega mér far.
Lifið í Lukku
10.1.2009
Úlpa!
Lára Hanna - yfirmótmælandi Íslands er með frábæran pistil á sinni síðu!
Þessi pistill varð til þess að ég fór á stúfana. Útvegaði mér far til Reykjavíkur og ætla að mæta í fyrsta skipti á Austurvöll í laugardagsmótmæli. Verst að ég hef ekki tíma til að útbúa mótmælaspjald. Á því mundi standa: MUNDU MIG - ÉG MAN ÞIG!!
Nú gengur þetta ekki lengur! Fram þjáðir Íslendingar.
Mætum öll!
8.1.2009
Björn Bjarnason
Ég baka svo gott brauð að ég íhuga að opna skyndibitastað í samkeppni við Sub-way! Minn staður kemur til með að heita No-way ;)
Sjálfstæðisflokkurinn á Selfossi eða Suðurlandi eða Guðmávitahvað - eins og mér sé ekki sama - á fundasal í húsinu við hliðina á mér! Ég bý við ca. 50 bíla bílastæði en alltaf skal einhver þeirra nappa mínu bílastæði! Ég hef margfarið þarna upp í þennan sal þeirra og rekið viðkomandi út með harðri hendi að færa bílinn sinn - en sjálfstæðismenn á Suðurlandi eru líklega annað af tvennu, latir eða heimskir - nema hvorutveggja sé - því þeir halda alltaf áfram að stela stæðinu mínu.
Þeir eru búnir að kafsigla þjóðarskútunni, svo ég persónugeri vandann sneggvast, en geta ekki látið þar við sitja og stela bílastæðinu mínu líka!! Réttast væri að ég færi út og skrapaði "EINKABÍLASTÆÐI" í lakkið á bílnum sem er í stæðinu mínu. Það ætti að kenna þeim.........
Og í þessu samhengi þá finnst mér akkúrat engu máli skipta að ég eigi engan bíl
6.1.2009
Allra meina bót!
Ég var svo miður mín eftir gærdaginn að ég fór og keypti mér bæði skartgrip og rósir Leið strax miklu betur! Só vott ef ég á ekki pening fyrir mat! Ég fer þá bara í mat til Lólóar frænku - þeirrar síflissandi kjéddlingar Hún býr hvort eð er stutt frá.........
Þetta endar með því að ég kaupi mér þurrkara - svei mér þá.
Við stuttbuxnadrengina sem komu mér í þessar vitleysu hef ég bara eitt að segja; Mundu mig - Ég man þig.