Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
12.12.2008
Fallegur, góður, beztur
"Ísland sé frjálst, meðan sól gyllir haf" syngur Pálmi Gunnars svo stoltur og ég fæ gæsahúð yfir fegurð orðanna..............
Svo hlusta ég á fréttir og mér rennur kalt vatn á milli skinns og hörunds yfir því að hugsanlega missi Ísland sjálfstæði sitt - rétt á meðan ég næ mér í mína átta tíma bjútíblund.............
Mér líður svolítið eins og í millilandaflugi þegar það að halda flugvélinni á lofti ríður á því að ég sofni ekki!
Viljiði virkilega að ég hætti að sofa? Bara svo þið vitið það, þá hefur það svipuð áhrif og ef ég hætti að borða. Þið hafið val! Úthvíld kona versus útvakin kona, sem þýðir svona ykkur að segja, fremur hvatskeytileg útgáfa af þessari fremur ljúfu konu sem þið teljið mig vera..............
Annars átti ég þrusugóðan dag! Mikið að gera í vinnu, sem er gott. Eitthvað það leiðinlegasta sem ég geri í vinnu er að hanga og bíða eftir að klukkan verði...........
....fór svo með mömmu upp í Miðdalskirkjugarð. í Laugardal, að kveikja á ljósinu á leiðinu hans afa. Sem svona ykkur að segja var alltaf minn uppáhaldsafi..... Hann var afinn sem alltaf nennti að lesa fyrir mig uppáhaldssöguna mína sem var um geiturnar þrjár - og hann lét aldrei bera á því að hann væri eitthvað þreyttur á sögunnni - hvað þá að hann væri meðvitaður um hvernig hún endaði......... Hann var afinn sem nennti endalaust að halda á mér og knúsa mig.... Hann var afinn sem allar litlar stúlkur verðskulda......
Ég get ennþá, ef ég loka augunum fundið lyktina af píputóbakinu hans afa og heyrt hann lesa fyrir mig Geiturnar þrjár
Hann var og er minn uppáhalds.............
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
11.12.2008
Klikkað veður....
....löggan vælir á horninu og ég ætla að skríða undir rúm með góða bók!
Var að klára Myrká! Fannst hún ekkert spes - dálítið fyrirsjáanleg og söguþráðurinn eins og ég hefði lesið hann áður.......
Gott óveður
9.12.2008
Bókarabrauð!
Það hefur varla farið fram hjá neinum að í þeim *efnahagsþrengingum* sem nú eiga sér stað eru allir á útopnu að fatta uppá einhverjum nýjungum sem gæti komið til með að bjarga efnahag viðkomandi heimilis.....
Eftirfarandi fjölmiðlaviðtal kemur til með að eiga sér stað við afkomanda minn - afspyrnufagra stúlku - hvað annað...... í fjölskyldufyrirtæki mínu í fjarlægri framtíð eftir cirka 150 ár.
Já - hún langalangamma byrjaði nú að baka þessi Bókararbrauð í kreppunni miklu sem reið yfir árið 2008 - eða *efnahagsþrengingunum* eins og hún kaus að kalla ástandið. Ég man að amma talaði alltaf um hæðnisglampann í augunum á langalangömmu þegar hún sagði það orð. Það var nefnilega þannig að henni var sagt upp öðru starfinu sem hún hafði þá dagana og uppúr því ákvað hún að byrja að baka brauð, muffins og snúða og selja sem nestiseiningu á 200 krónur pokann. Langafi, sem einhverra hluta vegna var alltaf kallaður mömmusinnardúlludúskur, hjólaði svo á vinnustaði og seldi brauðið. Hann var alltaf svo mikið fyrir útivist og hreyfingu (hljómar betur en að hann hafi misst prófið - innskot höfundar) hann Langafi. Ég man hann gekk alltaf í og úr vinnu á meðan hann hafði hana.
Á endanum var hún svo komin með nokkra Pólverja í vinnu líka sem gengu á milli þeirra vinnustaða sem voru þó starfandi og seldu fyrir hana "Nestispokann" Þeir grínuðust víst með það sín á milli að í Póllandi hefðu þeir verið hluti af pólsku mafíunni - sem á máli innfæddra kallast labbemann - en nú löbbuðu þeir um og seldu nesti í kulda og kreppu!
Verðið á "Nestispokanum" grundvallaðist á þeirri hugmynd að ekki væru notuð vélknúin ökutæki til að sendast á milli staða því á þeim tíma var benzínverð víst fremur hátt og langalangamma var með þrjózkari konum sem uppi voru á þeim tíma og harðneitaði að eiga sjálfrennireið. Hún sagði alltaf, og hnussaði í barminn, að þeir hefðu ekkert betra við tímann að gera langafi og Pólverjarnir sem fest höfðu rætur í landi ljóss og skugga (eða gátu ekki farið til Póllands vegna þess að þar voru þeir eftirlýstir. Allt fyrir lúkkið muniði - innsk. höfundar) en ganga á milli fyrirtækja og svo hefðu þeir gott af hreyfingunni............ Að launum fengu þeir svo að kvöldmat hjá Langalangömmu!
Í dag bökum við Bókarabrauðið og sendum um allan heim. Frystum það nýbakað - það tók víst við af brauðinu þarna....... hvað hét það aftur......? Hatting??
Í næsta viðtali segi ég ykkur kannski hvers vegna langalangamma gerðist trúuð. Þar koma við sögu Kærleiksbollur og skortur á osti
8.12.2008
Ég er nörd....
Það hefur rignt yfir mig, um helgina, og þá náttúrulega á nóttunni - svokölluðum smáskilaboðum sem send eru síma úr síma.......
Þessi smáskilaboð eru mjög mis....eitthvað. - Alveg frá því að vera aumkunarverð upp í það að vera dónaleg! Ég slökkti vitaskuld á símanum mínum þegar ég sá í hvað helgin stefndi........
Í morgun - þegar ég sá óhroðann sem ég hafði fengið í nótt - fékk ég nóg og ákvað að svara fyrir mig! Það var þá sem ég uppgötvaði nördinn í brjósti mínu. Ég gat ekki ákveðið hvort ég ætti að segja: Ég fæ seint fullþakkað þann dag sem ég ákvað að losa mig við þann aumingja sem þú ert! - Eða: Ég fæ seint fullþakkað þeim degi sem ég ákvað að losa mig við þann aumingja sem þú ert......
....EN það dreifði þó huganum frá óhroðanum sem hann er!
7.12.2008
Ég er soddan blúnda.....
Ég vaknaði frekar snemma, enda fór ég snemma að sofa í gær - eiginlega jafnsnemma og gamla fólkið.....
....gekk með hundana upp með á. Birtan var blá - Úúúú ég er talandi skáld - Ólýsanlega fallegt að horfa á hvít fjöllin í þessum sérkennilega bláma. Öðru hverju sáldraðist yfir okkur él eins og glitrandi töfraduft. Ég gekk stóran hring, alla leið upp á golfvöll.
Tók svo skyndiákvörðun um að mæta í messu. Rétt slapp inn fyrir lokun.... ;) Það voru svo margir bílar fyrir utan kirkjuna að ég þorði ekki annað en spyrja kirkjuvörðinn hvort það væri uppselt Hann vildi meina að það væri alltaf pláss fyrir einn enn ;)
Settist á bekk og hlustaði á sönginn. Presturinn var góður. Hún talaði um aðventuna og sagði okkur frá því að hún og maðurinn hennar notuðu aðventuna til að skrifa jólakort með skrautskrift við kertaljós á meðan börnin þeirra fimm lékju sér svo stillt og prúð í skini ljóssins og reyndu að finna út hvernig þau gætu orðið betri............
.....ég flissaði og presturinn sagði: "sjor...." - og ég flissaði meira... svo skírði hún barn og ég byrjaði að skæla. Ætlaði aldrei að geta hætt, síst af öllu þegar kórinn söng svo á eftir. Næst hef ég sko með mér tissjú!!
Ég hélt ég væri töffari en svo græt ég eins og griðungur yfir skírn og kórsöng í messu
Þetta endar með trúarofstæki
5.12.2008
Fótastrímfetish!
Ég fór á nytjamarkaðinn í dag. Hitti þar Svandísi og fótastrímtækið mitt eins og Brattur kallar það ;) Keypti líka glás af gleri. Á alltaf svo erftt með að standast hluti sem glitra Fékk m.a. tólf staup fyrir skid og ingenting - einhver verður að drekka fyrir ABC börnin - ekki viljum við að þau fari að hella í sig.... Ég fórnaði mér algjörlega og af fúsum og frjálsum......! Mæli með þessum nytjamarkaði í Nóatúni - geysilegt úrval fyrir lítinn pening og ekki spillir fyrir að styrkja gott málefni í leiðinni.
Sat svo og horfði á Útsvar - með heimskulegt glott á andlitinu - og ég skal alveg trúa ykkur fyrir því, svona utan dagskrár, að það er alls ekki sá svipur sem fer mér bezt. Mér leið bara svo vel með tærnar á kafi í fótastríminu Ég get svo svarið það - ég er alveg ný kona. Svona fótastrímkona....
Fór líka í Sjafnarblóm, blómabúðina mína á horninu, og keypti mér rósir sem fylgja mér á milli herbergja, eins og hundur í bandi. Rósir hafa ótrúlega upplífgandi áhrif á mig, þær virka á mig eins og ódýrt geðlyf.......
Lífið er nefnilega, þegar allt kemur til alls, gott! Þrátt fyrir lygar og pretti ráðamanna - ég er mest fegin að ég er ekki innmúruð í þann félagsskap. Ég er ansi smeyk um að ekki einu sinni fallegar rósir gætu þá fært mér hugarró.
4.12.2008
Séð og heyrt
Ég fór á flandur með mömmu í gær! Bauð henni í súpu og brauð - nokkursskonar súpueldhús Suðurlands hjá Guðna bakara í hádeginu. Þar sátum við og kjöftuðum alveg þangað til hún þurfti að mæta í lagfæringu eins og hún kallar það að fara í klippingu og litun Hún hringdi svo í mig aftur eftir vinnu og við fórum í skoðunarferðir vítt og breitt. Fórum á nytjamarkaðinn hjá Svandísi og Hvítasunnukirkjunni þar sá ég fótanuddtæki sem ég er enn að hugsa um að kaupa. Hugsið ykkur lúxusinn að geta setið með fæturnar í bullandi nuddi á meðan ég græja vaskinn ;) Fór líka á geisladiska og dvd markað og keypti mér disk með Pálma Gunnarssyni - mig er búið að langa lengi í disk með honum kallinum vegna þess að alltaf þegar ég er leið eða döpur - nema hvorutveggja sé - þá söngla ég alltaf laglínuna úr jólalaginu með honum um að "víða mætti vera meira um kærleika og ást...:" alveg þangað til hann nær mér uppúr lægðinni. Eða djúpa dalnum, eins og prestur nokkur kallaði þessi skapbrigði hjá ágætum manni sem ég þekki ekki neitt! Mér fannst bara svo fyndið að vera í djúpum dal og fór að velta því fyrir mér í framhaldinu hvort hann ætti þá ekki best heima í Djúpa Dal .....en það er nú önnur saga sem ekki verður sögð hér að svo stöddu........
Sem ég sit núna og hlusta á Pálma syngja um að hann elski mig enn ekki þó með fætur í nuddpotti, fór ég að hugsa um "alla" mína fyrri elskhuga - það er svo sem ekki laust við að ég beri hlýhug til þeirra flestra - en þó ekki allra.....
Mér dettur samt ekki í hug að fara að nafngreina og því síður aldursgreina þá hér og nú. Ég meina það styttist í jólin
2.12.2008
Ferlega góður dagur!
Það er algjörlega klikkað að gera hjá mér...sem er gott að mörgu leyti en ég skil ekki að einu leyti - takið eftir mismuninum á mörgu og einu?! Vaskur - blak og útreikningur launa - þó ekki endilega í þessari röð........... Stúfur Stubbalings er soldið spældur því hann fékk engan göngutúr í dag - en hann bætir sér örugglega upp spælinguna í nótt þegar hann laumast upp í rúm til mín og leggst yfir tærnar ár mér Ég er alveg viss um að hann heldur að lagið "Ég sæi þig - hér eins og mig - ylja á þér tærnar á hundum...." sé ort um okkur - as in mig og hann og þá ekki í þessari niðurlægjandi merkingu.....
Dagurinn hófst á sundleikfimi - þar sem við fengum að fara í blak sem er algjörlega uppáhalds Fór svo í borg óttans eftir vinnu í dag og hjálpaði uppáhaldsfrænkunni minni að flytja í nýju íbúðina sína - sem er vitaskuld á efstu hæð í lyftulausu húsi! Nú er ég að undirbúa harðsperrur morgundagsins. Búin að raða verkjatöflum eftir stærð og í stafrófsröð á skrifborðið og merkja við klukkan hvað ég ætla að taka þær Ég er að segja ykkur það - ordrur dagsins eru skipulagning! Ég spái því að ég verði sofnuð um ellefu leytið.........
Annars veit ég að morgundagurinn verður flottur hjá mér og ég hlakka til að vakna