Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
28.11.2008
Snædrottningin!
Ég held að stundum sé ég beintengd við útvarpið! Hefur þetta komið fyrir ykkur eða finnst ykkur að ég ætti að leita mér aðstoðar?
Ég gekk með hundana í myrkrinu með rokið í fangið út að ferju áðan og kuldinn - maður lifandi!! hann var rétt búinn að frysta í mér hjartað....... Það er sko það sem heitir að ganga um með kalið hjarta Þegar ég svo snéri við á ferjupunktinum leit allt svo miklu betur út! Ég sá ljósastaurana hinum megin við ána speglast í ánni....... ég leit upp í himininn og sá stjörnurnar tindra svo glaðlega - ég horfði á fjósakonurnar og mér varð hugsað til mömmu Ekki af því að hún sé fjósakona, heldur vegna þess að hún kenndi mér að þekkja þær! OG ég sá stjörnuhrap! Ég hef aldrei áður séð stjörnuhrap - ég tókst nætum á loft af fögnuði og vitaskuld óskaði ég mér Ég fékk það sterklega á tilfinninguna þarna í myrkrinu og kuldanum að þessi dagur verði góður!
Þegar ég svo kom inn og kveikti á útvarpinu - söng Bubbi fyrir mig lagið sitt: Þessi fallegi dagur.... og aftur leið mér svo vel......
Það er nefnilega þannig að þegar ég beintengist við útvarpið þá rætist dagurinn! Alveg satt! Er það ekki þannig hjá ykkur?
Nú á ég bara eftir að sjá uglu og kannski reyna að ná einhverjum yl í hjartað..........
27.11.2008
Always walk on the sunny side of life!
Hvar er sú hlið eiginlega þessa dagana? Hvað varð um hana?
Einu fréttirnar eru stórhörmungar - þetta er nýyrði ;) - 100 manns sagt upp hér - 30 þar - árás á hótel í Mumbai - feður nauðga dætrum sínum....... Ég er eiginlega alveg búin að fá nóg!!! Hver tók stopptakkann?
Öll gildi eru fallin um sjálf sig! Hvað sagði Nostradamus um þetta tímabil?
Ég er bara svo aldeilis krossbit - sem er við hæfi á þessum tímum krosstengsla!
25.11.2008
Ég er..
..eins og hvert annað lík í Seyðisfjarðarhöfn, másaði ég um leið og ég reyndi að koma mér aftur í réttar stellingar - Ég flýt alltaf upp
Það var svo þegar við fundum eyra í djúpu lauginni að við áttuðum okkur á því að við erum líklega búnar að lesa aðeins of mikið af jólabókunum í ár.........
Frábær tími hjá Betu - eins og venjulega! Ég mundi vilja fá ykkur öll í sundleikfimi ef ég bara tímdi að deila henni með ykkur. Það verður nefnilega allt of lítið speis fyrir mig ef allir fara að troðast.
Fílgúd
23.11.2008
Myrkraröfl!
Ég vaknaði snemma! Hlustaði á myrkrið og þögnina og ákvað að drífa mig út! Snjórinn lá yfir öllu eins og hvítt teppi ofið úr stjörnum. Ég fór uppáhaldsleiðina mína - í gegnum skóginn, upp með á, út að ferju - hundarnir kunnu sér ekki læti að fá að hlaupa í skóginum, krummi krúnkaði í fjarzka og álftahjón kvökuðu á ánni. Hlín hrekkjusvín ;) gerði sitt bezta til að virka ógnandi á bakkanum en gafst upp og hélt áfram að leika snjóplóg í hálkunni. Þetta er með hamingjusamari hvolpum sem ég hef hitt..... hún elskar mig, snjó og mömmusinnardúlludúsk - ekki endilega í þessari röð. Stúfur Stubbalings er öllu ráðsettari þó hann leiki úlf á milli trjánna með henni öðru hvoru!
Það rann upp fyrir mér á meðan ég tiplaði í hálkunni og tók óvænt twistspor á milli hvað ég hafði saknað þess að ganga í myrkrinu og þögninni. Hlusta á ána og ekki neitt.
Bakaði kleinur með mömmu í gær og borðaði þær næstum allar líka. Beztu kleinur í heimi kleinurnar hennar mömmu.
Skjár einn segir að það bezta í lífinu sé ókeypis - ég er ekki frá því að það sé rétt. Allavega er ég uppfull af orku - alveg upp á nýtt
Nú ætla ég að hella mér uppá gott kaffi, fá mér rúnstykki og kleinur hvað annað og halda áfram.
Bígúd
21.11.2008
Lausnamiðað mengi
Við Stúfur Stubbalings röltum okkur í byggingavöruverslun og keyptum jólaljós á tréð fyrir utan eldhúsgluggann á "betra verði".....
...komum svo heim aftur - já, ég veit, það endar alltaf þannig - frekar fyrirsjáanlegir okkar göngutúrara.... - og ég kíkti á jólaljósapakkann og sá að utan á honum stóð: Úti- og innisería!
Ég íhugaði vandann á meðan ég hitaði upp matinn frá í gær - kreppa, manstu? Eða heitir það ennþá efnahagsþrengingar? Vott ever.... þar sem ég stóð yfir pottinum, nýtin fram í fingurgóma, datt ég niður á lausnina!
Ég fór með ljósin niður í kjallara, opnaði gluggann, lagði þau í gluggafalsið og stakk þeim í samband!
Et voila! Úti- OG inniljósasería
20.11.2008
Sindrandi.......
Í kvöld var kveikt á jólaljósunum í sveitinni!
Ég rauk út - ætlaði að vera mætt á bókasafnið klukkan átta - að staðartíma - menningarvitinn sem ég er - að hlusta á og hitta kæra bloggvinkonu Unni Sólrúnu, sem hefur ótrúlegt lag á að raða saman orðum þannig að það gleðji gesti og gangandi, hitti fólk á leiðinni og tafðist náttúrulega - gaman að sjá þig Stína mín og farðu nú að kíkja í kaffi! Náði samt að hlusta á síðustu ljóðin sem Sólrún las og leist svo vel á þau - og hana - að ég ákvað að elta hana hana yfir í Bókakaffi til Bjarna Harðar.... sem er hrikalega skemmtilegur staður. Bjarni sjálfur er náttúrulega perla - sem ég sníki koss af í hvert sinn er ég sé hann - undir því yfirskini að hann verði líka að kyssa mig þótt Magga systir sé ekki með mér.... Hann kyssir mig nefnilega alltaf þegar hún er með í för og þá hef ég hann grunaðan um að vera bara að nappa kossi af sætri stelpu .....henni altsvo!
Ákvað svo að stofna fanclub Sólrúnar - stofnfundur félagsins verður auglýstur síðar Ég verð að sjálfsögðu stýrimaður og stjóri þar sem ég fer ekki ofan af því að ljóðin hennar bæta mann og kæta. Svo fer það mér líka svo vel að stjórna.......... ég reyni að lesa eitt ljóð á hverjum morgni, áður en ég steypi mér í hyldýpið sem heitir fréttalestur þessa dagana. Þau gera mig svo glaða innan í mér að ég er tilbúnari að takast daginn
Þetta var sumsé hápunktur dagsins - Annað, sem bar til um þessar mundir var að flaug ég á hausinn, afar virðulega náttúrulega, hvað annað á leiðinni út á pósthús. Þá varð mér hugsað til þess þegar ég sat í heita pottinum í morgun ásamt hinum stelpunum úr sundleikfiminni og við vorum að ræða sálarrannsóknarfélagið og stálþráðinn þeirra - þær höfðu náttúrulega, eins og gengur og gerist, ýmsar skoðanir á yfirnáttúrulegum hlutum og ég ákvað - svona með sjálfri mér að ef ég dytti á hausinn í dag þá væri einhver að gera at í mér að handan - og þóttist nokkuð góð þar sem ég sat í rigningunni
Gott fólk - það er sumsé hér með vísindalega sannað að framliðnir hafa húmor, hnéð á mér er til vitnis um það
Þakka þeim sem hlýddu
18.11.2008
Hebreskir hestar!
Ég var að horfa á dr. Dramawood!
....en það er nú ekki það sem ég ætla að tala um í kvöld! Ég ætla að segja ykkur frá minningu sem poppaði upp við að horfa á dr. Drama.
Þannig var að þegar ég var krakki var mín heitasta ósk að eignast hest! Ég suðaði og suðaði og suðaði í pabba - að sjálfsögðu - ég taldi það vænlegast til árangurs að bera mig upp við hann...... að gefa mér hest í jólagjöf, afmælisgjöf, sumargjöf eða hvaða viðburður það nú var sem næst poppaði upp..........
....og ekkert gekk! Pabbi notaði endalausar röksemdarfærslur á mig án þess að nokkurn tíma segja nei! Mætti halda að hann hafi verið Skaftfellingur Það þurfti að moka undan hestum, það þurfti að gefa þeim - tvisvar á dag...... það var ekki nóg að eiga bara hest, það þurfti líka að eiga hnakk og beisli, það þurfti þetta og það þurfti hitt..............
Aldrei gafst ég samt upp og hélt áfram að suða...... Þetta endaði með þvi að ég fékk reiðnámskeið í afmælisgjöf eitt sumarið! Ég réði mér ekki fyrir fögnuði - heill mánuður á hestbaki klukkustund á dag! Mér fannst eins og ég hefði eignast himininn - sólina og tunglið með
Það er skemmst frá því að segja að ég var allan tíman - heilan mánuð - skíthrædd um að detta af baki og þegar hinir hestarnir stoppuðu til að drekka - fékk minn ekki neitt!! Glætan að ég ætlaði eitthvað að fara að gefa honum lausan tauminn.....
Mig langar enn í hest.... mamma? Spurning um að halda svona bar mitshwa eða hvað það nú heitir þegar gyðingar ganga í fullorðinna manna tölu - eins og dóttir dr. Drama gerði í kvöld og hlaut að launum eitt stykki hest.......?
17.11.2008
Óskipulagðar ferðir
Ég ætlaði út á pósthús í dag!
Endað þess í stað í blómabúðinni og keypti mér fimm rauðar rósir Ég sagði við konuna í blómabúðinni að það jaðraði við að ég væri orðin þunglynd og hefði þess vegna ákveðið að kaupa mér blóm! Hún gaf mér kerti í kaupbæti.
Ekki amaleg afgreiðsla það
17.11.2008
Sagan - að hætti hússins
Ég hef fundið út hvers vegna bretum er illa við mig! Án þess að ég ætli að fara að persónugera vandann neitt sérstaklega...........
Eiríkur Rauði - flúði frá Noregi við nokkra menn. Þeir komu við á bretlandseyjum á leið sinni til Íslands og rændu þar og rupluðu eins og hverjir aðrir Tyrkir, þar á meðal nokkrum kjeddlingum - þó ég skilji nú ekki alveg af hverju, jafn foráttuljótar og þær eru "over there....." Kannski voru þeir búnir að vera lengi á siglingu - kannski gleymdu þeir að taka með sér kjéddlingar frá Noregi - hvað veit ég? Allavega - svo ég reyni að halda þræði - þá hef ég grun um að einhverjar af þessum kjéddlingum hafi heitað Brown og/eða Darling að eftirnöfnum!
Ég veit meira að segja um mann - sem býr ekki langt héðan - sem heitir Darling að eftirnafni.... níd æ sei mor?
Getur ekki einhver tekið að sér að benda þeim félögum í landi breta í hvaða átt Noregur er?
16.11.2008
Kraftaverk og hryðjuverk!
Ég hrökk í kút í gærkvöldi þegar flugeldur sprakk fyrir utan gluggann hjá mér! Ég er hinsvegar ekkert að hlaupa með það í fjölmiðla........
Margir hafa komið að máli við mig og beðið um mynd af kraftaverkapeysunni. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu og birti hana hér með Ég hefði tekið mynd af flugeldinum en hafði engan kubb.........
Mér var bent á það af einum, sem ég kallaði einu sinni vin minn, að gera ekki prjónaskap að ævistarfi mínu þar sem það kæmi ekki til með að gefa mikið í aðra hönd.... verandi rúmt ár að prjóna eina peysu! Ég sagði honum að það mætti lengi teygja lopann og benti honum á, máli mínu til stuðnings ISG og ekki meir Geir...............
Ég var að horfa á Eivör í sjónvarpinu í gærkvöldi - skömmu fyrir flugeld - og ákvað í framhaldinu að kaupa one way ticket með næstu ferð Akraborgarinnar til Færeyja
Ég veit þó ekki hvort ég kæmi til með að funkera vel í hringdansinum - verandi svona hægri/vinstri fötluð - þar sem allt virðist byggjast upp á því að vera meðvitaður um þær áttir í Færeyjum......... En þeir reka mig þá bara - ég er vön
Sýnist ykkur ekki þessi peysa gæti verið að gera sig í Færeyjum?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)