Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
30.10.2008
Sólkerfi minninganna
Endur fyrir löngu var ég í sveit í Vopnafirði.......
Þetta sumar var ég voða skotin í strák sem átti heima inni á "Tanga". Ég var fimmtán, hann var eitthvað eldri, enda alltaf verið veik fyrir eldri mönnum Af minni alþekktu tillitssemi ætla ég ekki að segja hvað hann heitir en nafnið var ættað utan úr geimnum
Sautjánda júní dönsuðum við saman allt kvöldið - seinna bauð hann mér í partý heim til sín. Við vorum í góðu glensi í stofunni að hlusta á tónlist þegar hurðin opnaðist og inn stormaði mamma hans - í Hagkaupsslopp með rúllur í hárinu - hún lækkaði tónlistina, án þess að segja orð og strunsaði síðan út úr stofunni aftur og lokaði hurðinni á eftir sér....... Mér fannst það vandræðalegt þá en hrikalega fyndið núna
Ég sé hana enn fyrir mér, en man engan veginn hvernig strákurinn leit út
Þetta rifjaðist upp fyrir mér rétt í þessu þegar Mömmusinnardúlludúskur spurði mig, þegar ég var á leið undir rúm, hvort ég ætlaði ekki að horfa á Prison Brake með sér!
Ég sagði honum að ef hann héldi fyrir mér vöku þá mundi ég ekki hika við að storma inn í stofu í Hagkaupsslopp með rúllur í hárinu
Hann þagði stundarkorn en benti mér síðan á að ég ætti ekki Hagkaupsslopp og þaðan af síður rúllur.......
Nú situr hann og horfir á Prison Brake - í stofunni. Ég er hins vegar undir rúmi að rifja upp gömul skot... sár
Pís & lov
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
28.10.2008
Viltu koma með...
mér í flensusprautu? Spurði mamma - og tókst ótrúlega vel að láta það hljóma freistandi... en þar sem ég er nú frekar mikið fyrir að láta ganga á eftir mér.... sagði ég henni að mér þætti nú alltaf svolítið skemmtilegt að vera veik Hún tilkynnti mér þá að sér þætti ekkert gaman þegar ég fæ lungnabólgu - en þá á ég - eins og ég sagði henni, oft mín beztu móment! Undir þeim kringumstæðum hef ég samið sögur og þýtt þær yfir í ensku og dönsku. Þetta er ég ekki fær um að gera þegar heilsan er í lagi
Ég hef barist í dag við að koma almennilegum hita á ofnana heima hjá mér. Uppgötvaði allt í einu að húsið var orðið gegnkalt og þá tekur svo langan tíma að ná upp dampi! Ég er með kol í kjallaranum sem ég moka í eldinn.... eins og í lestunum í gamla daga! Muniði eftir þeim? Þegar maður þurfti að moka kolum frá Kolviðarhól að Draugabrekku?
Ég er með hugmynd að flutningi á vatni fyrir Jón Ólafs vatnagúru frá vatnsverksmiðju að höfninni í Þorlákshöfn. Ég ætla að gera honum tilboð í lestarteina í nokkuð beinni línu niður að sjó! Brill? Ég veit.... og það verður sko engin kolalest spúandi reyk út í umhverfið - nei nei þetta verður vetnislest - kemur til með að ganga fyrir vatni.... Vitiði númerið hjá Jóni? Þetta er eiginlega hugmynd sem hann getur ekki misst af!!
Ég heyrði í útvarpinu í gær að eftirspurn eftir lífvörðum og öryggisgæslu hefur aldrei verið meiri! Allt frá því að fólk fær sér öryggiskerfi með neyðarhnappi og upp í að vera með lífvörð allan sólarhringinn!
Ég sá Geir H og Davíð alveg fyrir mér með lífverði 24/7 og fór að velta því fyrir mér hvar þeir létu þá sofa Sem varð til þess að ég fékk aðra hrikalega góða hugmynd! Ég ætla sko að fá mér svona lífvörð! Þeir eru líka alltaf í svo góðu formi.....
Fór í vatnsfimi í morgun og er alveg hrikalega þreytt í fótunum eftir tímann - sem þýðir bara eitt! Beta er frábær kennari ;) Ég veit hinsvegar að Heiðdís er þreytt í höndunum en það er bara vegna þess að hún var með bláa núðlu og þær eru, samkvæmt því sem hún segir, miklu þyngri en hinar núðlurnar.....
Eftir tímann fengum við slökun - en þá látum við okkur fljóta um laugina við undirleik róandi tónlistar og látum hugann reika - eða ekki....... Ég er alltaf komin eitthvað allt annað enda alltaf verið á undan.....
26.10.2008
Fyrsti vetrardagur liðinn....
.....og nístandi kuldinn sem fylgdi honum kom á óvart
Helgin hefur þó verið góð enda bý ég svo vel að eiga kuldagalla frá 66 gráðum norður - sem ég hika ekki við að nota þegar aðstæður sem þessar myndast Ég meina bjútí is pain - en ekki svona mikið........ Það verður bara að hafa það þó ég virki minna þokkafull úti að ganga með Ljónshjartað - enda má ég alveg við því að missa nokkrar gráður á þokkaskalanum svona yfir háskaðræðistímann.....
Kíkti í heimahús í gærkvöldi og sötraði þar rauðvín í góðum en þó vafasömum félagsskap við heimspekilegar umræður. Í nótt gnauðaði vindurinn á glugga en ég svaf svefni hinna réttlátu fyrir innan, í hlýjunni......
Ég las heila bók á einni aðfaranótt laugardagsins! Ég hreinlega man ekki eftir því að ég hafi afrekað það áður. Fanney! Ég er ready í bókmennta umræður. Svakalega góð bók - ég sveiflaðist allan tilfinningaskalan, varð reið, hló og grét allt á einni nóttu takið eftir því - ég held að það hafi ekki skeð síðan......... tjah bara aldrei! Löggunni fannst ég enda fremur grunsamleg klukkan hálffimm um morguninn þar sem ég stóð í algjöru uppnámi og starði inn um mína eigin glugga, þegar við Ljónshjartað brugðum okkur út að míga við þjóðveginn og enn tortryggnari urðu þeir þegar ég mætti skömmu síðar með Hlín Hrekkjusvín út við sama staur Það skal þó fúslega viðurkennt að útlitið var ekki upp á marga fiska þegar Tína mína fína mætti í "morgunkaffi" eins og ég kaus að kalla það - hún vildi hinsvegar meina að það væri miður dagur
Nú mallar kjúklingurinn í Indíánapottinum mínum við hægan hita í ofninum, þar sem við Mömmusinnardúlludúskur komumst að samkomulagi um það að hafa matinn seint að hætti þeirra Evrópubúa sem búa þó þetta sunnar í álfunni - eða eftir Dagvaktina, því ég neita staðfastlega að borga áskrift að stöð2 og held því fram að það sé ekkert áhugavert efni þar að finna og því þarf hann að leita út fyrir öryggi heimilisins til að horfa á þá þætti. Ég verð bara að vona að þetta hafi ekki langvarandi djúpstæð áhrif á hann.......
Þakkið fyrir að ykkur sé hlýtt
23.10.2008
Götóttir lopasokkar
Veðrið hér var svo leiðinlegt í morgun að meira að segja hundarnir nenntu ekki út! Þau stóðu í hurðinni og horfðu á mig um leið og þau spurðu mig hvort ég hefði aldrei heyrt um veður sem væri ekki hundum út sigandi í? Meira að segja Hlín - hrekkjusvín - vildi ekki fara út, þó er það skemmtilegasta sem hún gerir þessa dagana að éta snjó. Hún er meira að segja farin að taka upp á því að segja mér að hún vilji fara út að míga og er svo bara að plata mig og borðar snjó í massavís. Ég þarf að segja henni söguna um drenginn sem kallaði alltaf "úlfur úlfur"
Ég heyrði aðeins í vinkonu minni í Bretlandi í morgun.
Hún sagði mér að þar í landi væri fólk að vakna upp við að þetta þarna.... þið vitið..... sem má ekki tala um á Íslandi...... væri að skella á af fullum þunga..... ég spurði hana hvort stjórnvöld þar í landi hvettu fólk til að verða góð við börn og gamalmenni - eins og þau gera hér af gæzku sinni
Hún sagði mér að börn og unglingar í Bretlandi væru löt, leiðinleg og hyskin sér, þannig að við komumst að þeirri niðurstöðu að það skipti engu máli þótt það væri kreppa í Englandi
Úpps þar sagði ég það.....
Þakka þeim sem hlýddu
22.10.2008
Snjórinn
...kom eins og himnasending!
Ég auglýsti nefnilega vetrardekk til sölu á kassi.is og það var eins og við manninn mælt - það byrjaði að snjóa!
Það hefur heldur ekki stoppað hjá mér síminn! Ef ykkur vantar dekk þá er mömmusinnardúlludúskur dekkjasafnari af guðs náð og kjallarinn hjá mér er kjaftfullur af dekkjum. Ég veit ekki hvursu tengdur hann er þessum gúmmítuðrum þarna niðri. Það kemur líklega í ljós þegar á að fara að slíta þau af honum!
Þetta minnir mig einna helst á það, þegar ég var að reyna að venja hann af snuði! Það tók nú sinn tíma - enda var hann soddan krútt með snuð!
Nú er hann krútt með snúð
19.10.2008
Fjölnota..........
Það er svolítið skondið að velta fólki fyrir sér! "Hunda"fólk heilsast alltaf, skokkarar heilsast, göngufólk heilsast og ég reikna með því að hestamenn heilsist.... Í morgun klæddi ég mig þannig að mér var heilsað af öllum þessum hópum. Ég var í hlaupaskónum og hlaupajakkanum, í hestabuxum með hund............ Enda hafði ég ekki undan að heilsa fólki og spjalla.
Við Ljónshjartað fórum tókum stóran hring í morgun. Við stóðumst öll tímaplön varðandi hringinn - það veitti mér ákveðna fullnægju Ég er nefnilega fædd í merki tvíburans og það að láta ekki bíða eftir mér og standast tímaplön krefst mikillar skipulagninar af minni hálfu. Svo mikillar að það væri efni í aðra bloggsíðu..... Dagurinn í dag er þaulskipulagður og til að komast yfir allt það sem ég ætla mér að gera í dag þarf ég að vera hrikalega skipulögð. Só far hafa öll plön verið í lagi enda er ég algjörlega í fjöldafullnægingu eða eins og við segjum á frummálinu - multiple orgasma....
Fór í bæinn í gær með Möggu og mömmu - mætti ekki niður á Austurvöll - ég var of önnum kafin að bjarga hagvextinum! Mér fannst ég algjörlega leggja mitt af mörkum til þess. Við röltum Laugaveginn og ég keypti mér húfu og handaskjól úr íslenzkri þæfðri ull, unninni og smíðaðri á Íslandi! Keypti að vísu líka smá útlenzkt en það var aaaaalveg í minnihluta Enda er agalega ljótt að gera upp á milli. Þá garga allir: einelti - einelti eða: meðvirkni - meðvirkni! Man ekki alveg hvort.........
Við fórum og fengum okkur að borða á næstu grösum. Maturinn þar klikkar aldrei! Hann er alltaf jafngóður!! Undarlegt að karlmenn eru algjörlega í minnihluta þeirra sem þarna borða - eða kannski er það bara lýsandi fyrir ástandið í heild! Konur vita hvar er bezt að borða! Máltíðin þarna endist fram á næsta dag - maður verður svo saddur! Og brauðið - maður lifandi - það er svo gott!!
Ég er búin að senda þeim póst og dásama brauðið hjá þeim og biðja um uppskriftina! Ég sagði þeim vitaskuld ekki að við Magga ætlum að opna svona stað þegar við verðum stórar - Magga ætlar að elda og ég sé um bókhaldið Kannski fæ ég að hjálpa henni í eldhúsinu ef ársreikningurinn kemur vel út! Magga stakk nú upp á því að okkar staður yrði takeaway..... soyaborgari í speltbrauði
Konur eru ráðnar sem bankastjórar núna í hverjum bankanum á fætur öðrum! Ég hef heyrt því fleygt að það sé vegna þess að bankastjórastörf séu að verða láglaunastörf
Í bænum úði og grúði af fólki! Ég hitti Hugarflugu, ólétta og yndislega sællega - eða kannski væri réttara að segja að hún hitti mig...... Ég hitti líka eitt stykki Schiöth-ara. Ferlega langt síðan ég hef hitt einn slíkan. Það var virkilega gaman. Annars var svo mikið af útlendingum á Laugaveginum að mér leið eins og ég væri í erlendri stórborg - enda Icelandic Airwaves í fullum sving! Við kíktum inn í nokkrar Icelandic design búðir og þar var verðið á vörunum svo himinhátt að það læddist að mér grunur um að nú ætti aldeilis að græða á útlendingunum sem komu vegna þess að þeim var sagt að nú væri íslenzka krónan svo hagstæð......
"We are having a crime week" - sagði afgreiðslukonan í Eymundson og Bretarnir flissuðu og báru af sér allar sakir! Gott að þeir hafa ekki alveg misst allan húmor.....
Æm off tú beik a skeikenkorners
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
14.10.2008
Daginn í dag.... læknablogg!
Ég var að rembast við að reyna að finna eitthvað til að gleðjast yfir! Hringir þá ekki í mig maður og býður mér kynningaráskrift að mogganum! Einn mánuður frír - þið kunnið svo rest....
Ég sagði honum bara hreint út að fréttirnar væru svo leiðinlega að ég nennti ekki að lesa neitt um þær. Jafnvel þótt þær væru ókeypis! - Og ég flissaði ekki einu sinni til að milda það. Mér til málsbóta má geta þess að ég var þreytt - mér var illt í bakinu og gott ef mér var ekki líka illt í fótunum...... Moggakallinn bjargaði alveg kvöldinu! Það er fátt, ef nokkuð, sem jafnast á við að hreyta einhverju út úr sér svona hryssingslega, í algjörlega óundirbúið fólk....... Já, já ég veit - ég átti að finna eitthvað til að gleðjast yfir. Allir eiga að vera svo jákvæðir og standa saman! Þetta gladdi nú samt mitt illa innrætta hjarta
Settist síðan niður og fór að horfa á sjónvarpið. Þar var staddur læknirinn minn frá Everwood - með allt sitt drama! Sannkallaður dramadoktor Ég var helst farin að hallast að því að ég væri eitthvað illa stödd í tíðahringnum, mér gekk svo illa að finna eitthvað til að jákvæðast yfir..... Þá ég mundi allt í einu eftir því að einhver læknir sagði í vikunni að kynlíf hressti, bætti og kætti! Og ég sem hélt að það væri Opal....... og þá dettur mér - bara sisvona - í hug ný pikkupplína. Já, ég veit þetta hljómar eins og ársfundur vísnavina: "Læknar mæla með kynlífi einu sinni í viku - ef við leggjum þitt skipti saman við mitt, náum við ágætis tölfræði"
Of beinskeytt? Ég gæti líka reynt að setja þetta í smá blúndur - þarf að hugsa það þá aðeins betur..... Blúndur eru nú ekki mín sterka hlið - nema þegar kemur að því að klæðast þeim! Þá er ég alveg á heimavelli
Já og bæ þe vei - ég fann, ekki bara eitt - heldur tvennt til að gleðjast yfir - annað en að græta moggakallinn
9.10.2008
Nú er þetta búið...
....sagði mömmusinnardúlludúskur og var þungt í honum þegar hann settist við borðið!
Nú? Sagði ég og rétti honum nýbakað muffins!
Já - sagði hann. Þeir voru að tala um það í útvarpinu að það væri þó huggun harmi gegn að fólk væri ekki farið að baka....
Í dag bakaði ég muffins, að hluta til vegna þess að Fanney klárarði allt bláberjapæið mitt í gær að hluta til vegna þess að ég heyrði í mömmusinnardúlludúski í hádeginu - ferskum undan fréttunum - og allt var svo ómögulegt! Hingað til hefur nefnilega fátt kætt unga drengi meira en nýbakaðar kökur..... Ég þarf að finna þessa menn sem voru í útvarpinu í dag og eiga við þá nokkur orð og að hluta til vegna þess að ég rak augun í hvað þessar muffinskökur kosta í Bónus í gær og ákvað að ég gæti keypt hráefnið í þær fyrir andvirði einnar.....
Ég eldaði líka Paellu og bakaði brauð með í kvöldmatinn! Hrikalega góður matur paella.... Að öðru leyti hef ég verið hrikalega löt í dag....
Og þá yfir í allt annað! Ég er að lesa bók sem heitir Þrettánda sagan. Þessi bók er ein af þeim sem maður getur ekki lagt frá sér.... ég er með hana á röltinu á milli herbergja, hræri m.a.s. í pottum með bókina í einari Ég get varla beðið þess að geta fleygt mér undir rúm með bókina í farteskinu á kvöldin.
Heiðdís - makkerinn minn í sundleikfimi benti mér á þessa bók um daginn. Ég sagði henni í morgun, þegar við hittumst við sundlaugarbakkann, að hefði hún ekki látið mig vita af þessari bók hefði ég líklega þurft að sekta hana....
Það hvarflaði að mér um leið og ég lét það út úr mér að líklega byggi ég of nálægt lögreglustöðinni.
Góðar stundir
8.10.2008
Persónur og leikendur....
Eftirfarandi "samtal" átti sér stað einn myrkan morgun við árbakka á ótilgreindum stað....
Persónur og leikendur: Maður á hjóli - óþekkt kona með óstýriláta hunda - tveir óstýrilátir hundar!
Forsaga: Óþekkt kona með óstýriláta hunda gengur í þungum þönkum eftir árbakka - hefur þó, að eigin sögn, vakandi auga með áðurnefndum óstýrilátum hundum! Maður á hjóli kemur aðvífandi. Maður á hjóli snarbremsar þegar hann kemur auga á óþekkta konu með óstýriláta hunda og rennur við það til í hálku sem skyndilega hefur myndast.
Maður hjóli: Freeeekar þungmæltur - enda brugðið eftir að hafa runnið til á hjóli sínu. "Þú átt að hafa hunda í bandi"
Óþekkt kona með óstýriláta hunda: "Þeir eru í bandi - passaðu þig að flækjast ekki í því....."
Maður á hjóli: Þegar hann áttar sig á því að Óþekkt kona með óstýriláta hunda er að gabba hann....: "Hvurslags er þetta? Þeir eru ekkert í bandi"
Maður á hjóli lætur óprenthæft orðbragð rigna yfir Óþekkta konu með óstýriláta hunda......
Maður á hjóli lýkur máli sínu með því að arga ergilega: "Ég hringi á lögguna..."
Óþekkt kona með óstýriláta hunda: "Já - ertu með síma eða á ég að lána þér minn....?"
Óþekkt kona með óstýriláta hunda kom hrikalega vel út úr blóðþrýstingsmælingum seinna sama morgun - hef ég heyrt............
Í þeirri sömu blóðþrýstingsmælingu var haft á orði að nú sæist ekki lengur "hverjir drekka Egils kristal" Nú sæist bara hverjir ættu ekki hlutabréf
Góðar stundir
PS - Ef ekkert heyrist frá mér næstu daga eruð þið beðin að athuga hjá hundafangara Suðurlands hvort Óstýrilát kona hafi verið fönguð. Framlögum vegna söfnunar lausnargjalds er vel tekið
8.10.2008
Illmennið innra með mér ;)
Við mamma erum svona í sameiningu að dunda okkur við að terrorisera gamlan öryrkja í Kópavogi.......
Hann gefur sig út fyrir það að gera við brotnar styttur, búa til skilti og laga dúkkur..... og er svo með gallerý í þvottahúsinu Í jarðskjálftanum í vor sem leið brotnuðu nokkrar styttur hjá mömmu! Við fórum með stytturnar til kallsins snemmsumars og hann sagði okkur að þetta tæki enga stund. Hann mundi hringja innan tíðar!
Síðan hefur ekkert til hans spurst........
Við fórum svo í IKEA eftir að við höfðum fengið útrás fyrir mannvonzkuna innra með okkur og gerðum þar ljómandi góð kaup. Ég keypti mér rauðvínsglös - því samkvæmt Feng Shui fræðum er slæmt að eiga staka hluti. Þar af leiðir að það hlýtur skv. sömu fræðum að vera slæmt að drekka einn! Ég get heldur ekki verið þekkt fyrir það að eiga bara eitt rauðvínsglas! Það gengur ekki til langframa að gestir láti glasið ganga................
Þegar við komum út úr Sænsku kjötbolluverksmiðjunni keyrði ég fram á tvö skilti. Á öðru stóð TIMBUR og það meikaði alveg sens því BYKO var þarna handan við nokkrar nibbur.... á hinu stóð FAGMENN og vísaði það út í hraunið..... Ég stakk upp á við færum og fengjum okkur eitt stykki. Alltaf handhægt að eiga fagmann
Ég fékk þennan sendan frá UK í gær....
Auditor's one line report on Lehman Brothers Balance sheet:
'There are two sides of a Balance Sheet, Left & Right (Assets and Liabilities respectively)
On the Right side there is nothing right and on the Left side there is nothing left'.
Til að fyrirbyggja að allt sé í lagi þá skal tekið fram að helmingur þessa pistils er uppspuni og hinn helmingurinn lygi. Afgangurinn er allt satt og rétt