Færsluflokkur: Bloggar
28.7.2007
Laugardagur til lukku
Sofnaði í gær um sex leytið, rétt vaknaði seinna um kvöldið til að fara út með stubbaling og setja inn nokkrar stillimyndir á bloggið og fór svo strax aftur að sofa....
Stúfurinn vakti mig svo af værum svefni um sex í morgun og sagði mér að hann vildi fara út. Ég lét það að sjálfsögðu eftir honum - hvað gerir maður ekki fyrir svona dúllu?
Kom svo heim aftur klukkutíma síðar, eftir góðan göngutúr og sofnaði!!!
Hvað haldið þið? Síþreyta? Of mikið að gera í vinnunni? Almenn leti?
Bezt að taka inn járn í nokkra daga og sjá hvort ég jafni mig ekki....
Fór út í bakarí í "morgun" þegar ég loksins komst til meðvitundar! Þar var staddur ferðamaður sem talaði mikið í símann við konu sína sem hann hafði greinilega skilið eftir í útilegu einhversstaðar - vonandi nálægt - Hann var á undan mér í röðinni og keypti ýmislegt. Svo fór hann að tala um hvort ekki væru til stór umslög???!!! Konan sem afgreiddi hann sagði honum að hún væri bara með svona..... og benti á "umslögin" sem hún bakar. Þá brast hann í sögu um að á Akureyri fengjust stór umslög með súkkulaði inní......
Afgreiðslukonan, þolinmæðin uppmáluð hlustaði á söguna hans og brosti á réttum stöðum. Svo spurði hann hvort ekki væru til karamellusnúðar. Konan sagði honum að hún ætti súkkulaðisnúða og snúða með glassúr...... Um það bil sem ferðamaðurinn var að bresta í aðra sögu um karamellusnúðana á Akureyri, sagði maðurinn sem var í röðinni fyrir aftan mig að hann hefði þurft að vera fyrir klukkan níu á ferðinni ef hann ætlaði að fá þannig snúða. Afgreiðslukonan, enn þolinmæðin uppmáluð, hló kurteislega. Þá sagði ég úrill, svöng og yfirsofin: "Svo er líka alltaf hægt að vera bara heima hjá sér ef maður vill engar breytingar........."
Ójá - en það liggur nú betur á mér núna. Er að spá í að taka til sneggvast.
Svona leit Hekla út í morgunsárið. Tignarleg í fjarzka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.7.2007
Hreyfimyndir og svefn
Allir að setja inn hreyfimyndir.
Ég er hinsvegar farin að sofa. Er gjörsamlega búin á því en mun fylgjast með ykkur....
Geriði ekkert sem ég mundi ekki gera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.7.2007
Dagrenning við ána
Gekk upp með á í morgunsárið með Ljónshjartað. Stafalogn og sólin reyndi að brjótast fram úr skýjunum. Engin á ferli - bara ég og hundurinn. Frábærir svona morgnar......
Fór svo í vinnuna og þar var sama geðveikin og venjulega. Lét sem ekkert væri og tók fullan þátt í hasarnum. Aðal vertíðin er núna og við erum tíu í vinnu - átta í sumarfríi. Ég byrja klukkan 08:05 að svara reiðum mönnum og hætti því klukkan fimm......
....segi svona, þeir eru nú ekki allir reiðir. Sumir eru meira að segja skemmtilegir og aðrir eru alveg uppáhalds.........
Þegar svo klukkan slær fimm og ég kemst út aftur, óma símhringingar í eyrunum á mér í ca. klukkutíma eða svo. Þá er gott að fara út að hlaupa með stubbaling sem týnist í grasinum meðfram ánni
Hérna hittum við tík í gær - lyktin af henni er greinilega hér enn.....hún synti út í allsendis óhrædd eftir trjágrein og Ljónshjartað var frekar hneykslaður á að enginn hefði sagt henni að áin væri hættuleg..... stal svo af henni greininni þegar hún kom í land.
Bezt að stilla sér upp úr því hún ætlar ekkert að hætta að taka myndir.........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
..... og einu sinni var ég stödd í Kaupmannahöfn. Við vorum sex saman, ég og vinkonur mínar tvær með samtals börnin okkar þrjú. Árið var 2000. Ég var nýskilin, svona til þess að gera - og þetta var í fyrsta skipti sem ég hélt upp á það.......
Það var nýbúið að opna brúna yfir Eyrarsund. Brúarhlaupið yfir Eyrarsund var haldið, eins og gefur að skilja, í fyrsta sinn. EM í fótbolta var í fullum sving. Við horfðum á nokkra leiki á Ráðhústorginu í gríðarlegri stemmningu. Man eftir að við sáum bl. a. Danmörk - Holland á risaskjá. Torgið var yfirfullt af fólki og veðrið var frábært!
Við vorum búin að fara í Zoologiske haven, skoða Vaxmyndasafnið, Heimsmetabók Guinnes safnið, ferðast með lestum og skoða Hovedbanegården, Strikið og sjá varðmennina hafa vaktaskipti við höllina þegar við ákváðum að fara sightseeing túr með strætó. Þetta var svona týpískur ferðamannaböss með opnu efra rými og heyrnartækjum við hvert sæti þar sem hægt var að hlusta á túrinn á ensku, ítölsku og þýzku ef ég man rétt. Það var hægt að hoppa í og úr á flestum stoppistöðvum. Vagninn var naumlega fullur.
Með í för var ítali og kona hans fremur lúpuleg, við nánari íhugun minnti hún dálítið á Dorit okkar allra en það er nú önnur saga...... en aftur að ítalanum. Heyrnartækin við hans sæti virkuðu ekki og gerðist nú ítalinn fremur ófriðlegur. Það var eins og það væru samantekin ráð annarra farþega að hunsa hann og bílstjórinn lét sem hann heyrði ekki. Svo þegar fólk fór úr vagninum sætti sá ítalski lagi og skipti um sæti. Var hann nú til friðs nokkrar stoppistöðvar.
Þá komum við að Litlu Hafmeyjunni - hápunkti ferðarinnar. Tilkynnt var að þarna yrði stoppað í 15 mínútur og allir fóru úr vagninum. Margar myndir voru teknar m.a. af ítalanum.....
Þegar snúið var aftur til vagns vildi ekki betur til en svo að í sæti þess ítalska var sestur rússi. Eina lausa plássið var sætið sem Ítalía hafði flúið úr fyrr í ferðinni. Ítalinn átti fyrst ekki orð yfir ósvífni rússneska heimsveldisins en lét svo orðaflauminn dynja á veslings rússanum sem var nýr inn í vagninn á Hafmeyjustoppistöðinni.
Upphófust nú miklar milliríkjadeilur. Rússinn skildi greinilega ekki orð af því sem ítalinn sagði og tautaði öðru hverju eitthvað á rússnesku...
Á þessu gekk vel og lengi þegar rússinn sagði allt í einu sagði hátt og snjallt á afar rússneskuskotinni ensku: Votttt is jorr proooobblem?
Enn í dag get ég tuldrað þessi orð í barminn og flissað með sjálfri mér.
Enn í dag vekur þessi minning fögnuð í brjósti mínu
pís
Bloggar | Breytt 24.7.2007 kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
23.7.2007
Árás skordýranna
Í allt sumar hef ég leyft kóngurló að spinna vef sinn í einu horninu í útidyragættinni hjá mér. Ég hef beygt mig framhjá honum, á ferðum mínum út og inn, til að eyðilegga hann ekki. Ég hef dáðst að honum í rigningu þegar hann glitrar allur og tindrar og á móti hefur hún lofað að halda flugunum í skefjum í mínu húsi.....
Í hádeginu kom ég heim til að heilsa upp á litla kút, (les. hleypa honum út að pissa og kjassa hann aðeins í leiðinni) opnaði hurðina og BAMM kóngurlóin gerði árás!!! Hún var þá komin inn, einhverra hluta vegna, og hafði legið í leyni í loftinu og beðið átekta..... Ég sá hana útundan mér þar sem hún sveif á mig og spýtti um leið vef - ætlaði örugglega að binda mig og ná yfirráðum í húsinu.
Ég beygði mig snarlega og öskraði snöfurmannlega um leið og ég greip kústinn og sópaði henni út fyrir. Í hefndarskyni eyðilagði ég vefinn hennar!! Þegar ég var búin að jafna mig fór ég út í garð með labbakút og sá þá hvar flokkur býflugna hvarf í skipulagðri röð undir tröppurnar. Þá var mér nú allri lokið.....
Ákvað svo, á meðan hundurinn valdi sér stað af kostgæfni til að míga, að taka bara Pollýönnu á þetta og vera ánægð með að þetta voru ekki geitungar Hunsaði kóngurlóna algjörlega á leið minni inn aftur þar sem hún lá á tröppunum, þóttist vera dauð og beið færis.
Þegar ég kom svo heim áðan sá ég að hún var búin að færa sig...
...úr gættinni hjá mér yfir á dyrapallinn.....
Ég gaf henni ekki hýrt auga á leið minni inn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.7.2007
Mótorhjól og rósir
Í gærkveldi þegar ég var að læsa fyrir svefninn sá ég að einhver hafði skilið eftir hálft dúsin af rauðum rósum fyrir utan hjá mér.... Ég stökk til og bjargaði þeim í hús þó mér finndist nú hálfnízkulegt af þessum óþekkta aðdáanda mínum að tíma ekki að hafa þær tólf.....
Nú standa þær stoltar á eldhúsborðinu mínu og gefa eldhúsinu lit og líf.
Var að horfa á motor GP í morgun allt í einu datt það í mig hvað þetta hlyti að vera skemmtilegt. Hanga svona í beygjunum á ógnarhraðar með hnéð út í loftið og reyna að láta dekkin duga hring eftir hring. Fannst hann góður þessi sem lenti í öðru sætinu og snýtti sér á gagnrýni um að hann væri orðinn of gamall 36 ára..... Maður er aldrei of gamall til að hafa gaman af því sem maður gerir. Og þá kem ég aftur að því. Ætti ég ekki bara að kaupa mér racer og byrja að keppa? Verða fræg að endemum?
Þá getið þið sagt með andakt á innsoginu.... jáhhhh ég þekki hana.....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.7.2007
Fordómar með öfugum formerkjum?
Undanfarna mánuði hef ég veitt eftirtekt lítilli fjölskyldu sem gengur alltaf á laugardagsmorgnum framhjá eldhúsglugganum mínum á leið sinni í Bónus. Fjölskyldan er af erlendu bergi brotin. Mér dettur í hug........Pólland.
Þessi fjölskylda samanstendur af mömmu, pabba og barni. Drengurinn gengur alltaf á milli þeirra og þau leiða hann bæði. Þau eru alltaf brosmild og ánægð og tala mikið saman á máli sem hefur næstum enga sérhljóða. Mér dettur í hug...... pólska. Ég hef, svona með sjálfri mér, búið til sögu um þessa fjölskyldu......
Þau flúðu hingað úr sárri fátækt og atvinnuleysi. Hann fékk vinnu við byggingar, hún er heima með drenginn, hefur matinn tilbúinn þegar hann kemur þreyttur heim og saman eiga þau kvöldin og helgarnar. Búa hér í sátt og samlyndi, eiga til hnífs og skeiðar og horfa á sjónvarpsútsendingar frá Póllandi og Discovery channel á kvöldin í gegnum gervihnött.
Undanfarna tvo laugardaga hefur mamman gengið ein með drenginn fram hjá eldhúsglugganum mínum á leið sinni í Bónus. Hún leiðir hann ennþá en brosir minna. Talar minna.
Ætli pabbinn sé orðinn of mikill Íslendingur? Farinn að vinna á laugardögum líka?
Er ég haldin fordómum með öfugum formerkjum? Gagnvart Íslendingum? Ef svo er verð ég þá rekin úr landi? Get ég treyst því?
Mér er spurn.......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.7.2007
Draugar, skokk og ungir drengir
Búin að fara út að hlaupa alla vikuna - nema í dag. Í dag kom ég heim eftir vinnu lagðist upp í rúm og sofnaði.......
Hef hlaupið eins og skrattinn sé á hælunum á mér - það skal tekið fram að ég er ekki mjög hrædd við hann..... í gegnum skógræktina upp að helli. Rúma fjóra kílómetra. Ég gæti verið komin á Hellu núna.....allavega að Þjórsárbrú
Alla dagana hefur Magga komið með nema í gær, þegar hún sveikst undan merkjum - les. þurfti að vinna!
Sagan segir að í hellinum sé reimt, þar hafi ungur drengur í ástarsorg hengt sig í bláum trefli og sjáist síðan vafra um skóginn í nágrenni hellisins.
Í gær hitti ég þar fjóra unga drengi á hjólum. Spurði þá hvort þeir hefðu séð strákinn með bláa trefilinn. Þeir veltu því fyrir sér smástund hvort ég væri skrýtin, ákváðu svo að taka enga sénsa og kváðu nei við. Spurðu mig síðan hvort hann hefði virkilega hengt sig í hellinum - eins og þeir héldu bókstaflega að ég myndi eftir því......
Ég sagði: já, já, hann gerði það og að ég hefði líka komið þarna í gær að leita að honum og hann hefði heldur ekki verið þar þá..... Þeir brostu voða sætt til mín og einn spurði: En hvernig gat hann hengt sig inni í hellinum? Í hvað gat hann fest trefilinn?
Efahyggjumenn.............
Hef að sjálfsögðu tekið stubbaling með mér alla dagana. Hann er nú ekki par hrifinn af bílnum hennar Möggu! Þykist ekki sjá hann né heyra í mér þegar ég segi honum að koma. Svolítill Lúkas í honum
Knús
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.7.2007
Ein lauflétt....
....vitiði hvað sá maður er kallaður sem heitir Laugardagur og Sunnudagur?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.7.2007
Góður maður og göngukort
Heyrði í manni í síma í gær sem er skrifstofustjóri í Fjarðarbyggð. Agalega almennilegur maður. Símtalið hófst á faglegum nótum og þróaðist síðan yfir í spjall um gönguleiðir á Austurlandi. Ég trúði honum fyrir því að ég væri alltaf á leiðinni austur í gönguferð. Stefnan væri sett á Loðmundarfjörð. Hann var búinn að fara margar ferðir þangað og vissi allt um svæðið.
Benti mér á við hverja ég ætti að tala ef ég vildi fara í skipulagðar ferðir með leiðsögn - sem er náttúrulega alltaf skemmtilegra. Alltaf gaman að láta segja sér sögur af fyrirbrigðum í náttúrunni. Svo klikkti hann út með því að segja mér að hann ætti í geymslu þarna á bak við sig fullt af kortum yfir gönguleiðir á Austurlandi og hann skyldi senda mér þau með því skilyrði að ég kæmi austur og notaði þau.
Geri það örugglega! hugsið ykkur - enginn sími - engin tölva - ekkert áreiti.............. bara ég, hundurinn, fjöllin og þögnin
Vúnderbar!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)