Færsluflokkur: Bloggar
6.4.2007
Cecil og fleiri góðir
Eruði góð(ar) að ráða drauma?
Mig dreymdi svo undarlegan draum......
..... mig dreymdi að ég væri í vinnunni að laga tölvuna mína hún var í allt annarsstaðar í húsinu en vanalega. Þurfti að fara eitthvað á bakvið og finna kubb til að setja í tölvuna og fann þá gluggalaust hvítt aukaherbergi í húsinu, lítið og þröngt, kallaði á vinnufélaga minn einn og spurði hana hvort hún hefði vitað af þessu herbergi. Hún sagðist aldrei hafa séð það áður. Allavega fannst mér þetta herbergi allt of lítið og lokað fyrir mig þannig að ég tróð mér aftur út - já tróð mér.... hurðin var svo þröng að ég komst varla..... Svo rambaði ég á herbergið þar sem tölvan mín var og þá stóð fugl á lyklaborðinu. Ég var nú frekar hissa!!! hélt að þetta væri einhverskonar gúmmifígúra því hann var svo litfagur. Fagurblár allur með eldrauðan kamb. Samt var þetta ekki hani. Ég vildi ekki hafa þennan fugl inni og fór að reyna að fanga hann til að koma honum út og kallaði á aðra til að hjálpa mér. Náði honum svo loksins en þá fannst mér ekkert atriði að hleypa honum út lengur.
Var svolítið hissa þegar ég vaknaði því ég er ekki vön að muna draumana mína og fannst þessi eitthvað svo litríkur. Er ég kannski bara furðufugl?
Datt svona í hug að setja þetta hér inn. Ef þið eruð slyng að ráða drauma megið þið alveg láta mig vita
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.3.2007
Óvænt vandamál ættleiddra
Hún kom um daginn, konan sem ég bað um að ættleiða mig!
Hún sagðist vera komin að sækja mig, mér leið eitt augnablik eins og um árið þegar ég var fimm ára og í pössun hjá frænku minni sem fór með mig á kaffihús og fulli kallinn spurði mig hvort hann mætti eiga mig..... Flissaði svo heimskulega og fór undan í flæmingi sagðist ekki vera búin að pakka.....
Hvað segi ég foreldrum mínum, sem vita ekki betur en að ég sé bara happí með þau, þrátt fyrir að þau hafi aldrei tekið mig með til Nýja Sjálands eða Ástralíu?
Hvernig kynni ég nýju foreldrana fyrir börnunum sem vita ekki betur en að þau geti verið þokkalega ánægð með ömmu sina og afa?
Get ég sloppið fyrir horn með að eiga tvö pör af foreldrum?
Spennan magnast!!! Fylgist með næsta þætti!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.3.2007
Mána(ðar)mót
Haldiði ekki að kryddjurtirnar séu farnar að gægjast upp? Tómatarnir tóku sprett og rifu af sér plastið, oreganoinu fannst það þá ekki geta verið minna og kíkti líka upp en myntan er enn feimin og lætur ekki á sér bæra. Bezt ég syngi fyrir hana - eða ekki........
Þarf að vinna í dag - það eru víst mánaðarmót og þá er gott að eiga laugardag upp á að hlaupa.
Fer svo í fermingarveislu á morgun, trúi því varla enn að litla barnið sé að fermast. Getur þetta verið? Skrýtið hvað allir aðrir en ég eldast...............
Er að kafna úr kvefi, heilinn úti á túni - hugsa ekki heila hugsun, en ég er alveg viss um að ég ætlaði að segja eitthvað rosalega menningarlegt fyrir ykkur að velta vöngum yfir um helgina, svona svo þið væruð nú ekki verkefnalaus.
Vona að þið eigið góða helgi og að Hafnfirðingar kjósi nú ekki yfir sig stækkun álvers
PS verð að muna eftir að kaupa vikuna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.3.2007
Úlfaldar og nálaraugu
Af því að ég er alltaf að heyra og lesa að fólk er að bjástra við að koma úlfalda í gegnum nálaraugu - og af því að ég er svo góð kona læt ég fljóta hér ráðið til að koma honum í gegn.
a. Berið nálaraugað upp að öðru auganu og dragið hitt augað í pung.
b. Bakkið spölkorn frá úlfaldanum.
c. Bingó - hann er kominn í gegn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.3.2007
Hví?
Las á netinu að Cliff Richards (hér ætlaði ég að setja inn mynd af Cliff) og vinir hans hefðu fengið sér að borða á Fjöruborðinu á Stokkseyri í gær allt í lagi með það sossum en það sem stakk mig var að veitingamaðurinn sá ástæðu til að fjölyrða um það hversu yndislegir og yfirvegaðir þeir hefðu verið á meðan á heimsókn þeirra stóð. Nú hef ég nokkrum sinnum lagt leið mína á Fjöruborðið og aldrei hefur þessi maður haft ástæðu til að kvarta yfir einu né neinu í mínu fari, hef ég jafnan greitt reikninginn áður en ég hef yfirgefið svæðið! Samt hef ég aldrei lesið neitt um mínar heimsóknir þangað á netinu. Aldrei hef ég lesið neitt um um að t.d. Hrönn hafi verið óvenju yndisleg á meðan á heimsókn hennar stóð..... hef kannski drukkið fullmarga bjóra til þess?
Ekki hef ég heldur lesið neitt um það að Hrönn hafi verið í fullkomnu jafnvægi þegar hún hjólaði heim, þrátt fyrir rauðvínsdrykkju.........
(hér átti að koma mynd af brennivínsdraugnum)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.3.2007
Helgar.....
...eru yndislegar. Þá get ég gert það sem ég vil þegar ég vil. Sofið út, lesið lengur átt tíma með þeim sem mig langar til að umgangast - án þess að ég sé að segja að mér leiðist í vinnunni - en þetta segi ég náttúrulega bara ef einhver vinnufélagi skyldi rekast hingað inn.
Eldaði svakalega góðan mat í gær, kjúklingabringur með lauk, sveppum og gulrótum í mango chutney rjómasósu sem ég bætti döðlum útí. Bakaði svo nan brauð - svona næstum því samkvæmt uppskrift sem ég fann á blogginu hans Ragnars - sem er læknir í frístundum Hvað ætli þetta sé með mig og lækna - eitthvað svona menn í hvítum sloppum sindróm?
Nú skil ég af hverju mér gengur svona illa að verða há og grönn - þetta hefur allt með hæfileika mína í eldhúsinu að gera
Reyndi að beita hugarorkunni til að fá kryddplöntunar mínar til að vaxa betur og hraðar. Horfði og horfði en hef líklega bara gert fræin feimin. Allavega vottar ekki fyrir neinu grænu í þeim pottum enn - hef samt fulla trú á því að það komi.
Gleymdi mér alveg við að hlusta á útvarpsleikritið á rás eitt, var mætt í bílnum hjá aðalpersónunni. Af hverju eru ekki oftar leikrit í útvarpinu? Muniði hvað það var gaman á fimmtudagskvöldum í denn, þegar maður slökkti ljósin í stofunni, hafði bara kveikt á einum lampa í horninu og datt inn í útvarpsleikritið.
Fór svo út í langa göngu, í rigningunni, með litla kút, sem lítur hvorki á sig sem lítinn né kút. Finnst hann bara vera frekar svalur hundur. Leit samt svolítið undirfurðulega á mig áður en hann stakk bananatrénu í eyrun á sér og stökk af stað á eftir gæsunum og náði að bremsa sig af áður en hann bleytti utanáliggjandi kúlurnar tvær, sem hafa hingað til verið viðmiðið - svona þegjandi samkomulag - um hversu djúpt má vaða í ánni.
Ég væri alveg til í að hafa tvo sunnudaga í hverri viku.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.3.2007
Laugardagsblogg
Var að renna yfir bloggin hjá bloggvinum mínum. Þau eru öll svo gáfuleg - gera mig svo miklu betri einstakling Það lúkkar jú svo vel að eiga gáfulega vini.
Sumt af því sem ég las hitti beint í mark og endurspeglaði einhvern veginn það sem ég var að hugsa í dag. Tilviljun? Veit ekki........ hugsanlega ekki!
Well - bezt að fara út með hundinn, hann kaupir það ekki hjá mér að það sé ekki hundi út sigandi Skil það ekki eins og hann getur nú verið viturlegur á svipinn....... Fór með hann út á golfvöll í gær og hann gerði sér lítið fyrir og stökk út í á!
Ég hélt að ég yrði ekki eldri - hann sá nefnilega gæsir og gleymdi sér aldeilis við að elta þær, þar til bæði eistun voru ríflega horfin á kaf og hann var farinn að taka sundtökin. Jamm þær eru víða hættulegar þessar gæsir........
Eigiði góðan dag
Bloggar | Breytt 30.12.2007 kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.3.2007
Allt þetta - og himininn líka
Eldaði ótrúlega góða súpu í gærkveldi. Svokallaða gúllassúpu með nautakjöti, lauk, gulrótum, kartöflum, púrru, hvítlauk og einhverju fleiru. Bakaði svo slembilukkubrauð með.
Keypti mér fræ í gær, ætla að rækta kryddjurtir í glugganum, leitaði út um allt að körfu til að láta þau hanga í, fann hvergi..... Vitiði hvar ég fæ körfur, helst þrjár samhangandi? Svo tómatarnir mínir verði ekki í kremju.... og ég endi ekki með tómatsósu í glugganum
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
21.3.2007
Systkyni....
...eru dásamlegt fyrirbæri. Ég man eitt sinn þegar ég var á að giska lítil að ég opnaði kleinuskápinn í eldhúsi æsku minnar, settist á gólfið og söng úr bókinni segðu það börnum..... ef einhver man eftir henni, þá gekk elsta systir mín hjá, á leið sinni út að skvísast, enda þónokkuð eldri en ég og hreytti út úr sér: ef þú ætlar að þykjast að kunna lesa reyndu þá að snúa bókinni rétt!! Ég borgaði hins vegar fyrir mig nokkrum árum seinna og henti litla bróður mínum út á guð og gaddinn, helst á sokkaleistunum, í hvert sinn sem hann fór í taugarnar á mér.
Einn daginn gerði eldri bróðir minn mig svo reiða að ég náði mér í beittasta hnífinn sem ég fann og elti hann, hann náði, sem betur fer, að læsa sig inni í herbergi annars er ekki gott að vita hvernig hefði farið. Eftir þetta atvik voru allir beittir hnífar settir á efstu hilluna í eldhússkápnum þannig að mjög einbeittan brotavilja þurfti ef ætlunin var að nota þá til annars en eldhússtarfa
Deildi herbergi, sem og flestu öðru, með hinni systur minni, man ekki eftir að skugga hafi borið á það fyrirkomulag. Við lágum flest kvöld og lásum bækur, settum ryksuguna í gang þegar mömmu fannst vera orðið of rykugt inni hjá okkur og héldum svo áfram að lesa.......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.3.2007
Bara fínt
Þegar lífið sparkar í mann, hvað gerir maður þá? Sparkar á móti? Lætur sem ekkert sé, bítur á jaxlinn og ber harm sinn í hljóði? Svarar svo að allt sé í lukkunnar velstandi þegar maður er spurður hinnar sígildu spurningar: Hvernig hefurðu það? eða: Hvað segirðu? Bara fínt, svarar maður áður en maður veit af. Enda yrði kannski upplit á fólki ef það fengi allan pakkan sem svar við kurteisisspurningu.
Frontar eru margir og misjafnir. Stundum þarf að brosa og láta sem allt sé í lagi þótt innra sé svöðusár og grátur.
Hvernig hefur þú það?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)