10.3.2008
Amen
Ég þurfti að tala við prest í síðustu viku. Ekki út af giftingunni - nei, nei - ekki strax! Það var í raun bara tilviljun að maðurinn er prestur, þannig séð..... Hefði allt eins getað verið smiður........ þess vegna kom svolítið á mig, þegar hann endaði símtalið á því að segja: "Guð blessi þig!!" Það passaði einhvern veginn ekkert inn í dæmið. Stakk mig þá og stingur mig svolítið enn........ Fór að velta fyrir mér hvort svona menn hrópa "Hallelúja" þegar þeir fá það......... Virkar svolítið fóní.....
Hitti pabba hérna úti áðan - sagði honum að "við" ættum að mæta til læknis á fimmtudaginn. Pabbi hélt nú ekki, var bara frekar hortugur þegar hann sagði mér að hann hefði talað við lækninn í síðustu viku og hann hefði sagt að þeir þyrftu ekkert að hittast fyrr en í maí! Svo sá hann hvað ég var vantrúuð á þessa sögu hjá honum og bauð mér með heim að skoða endurkomuskírteinin sín..... Ég þáði það, endaði með því að ég hringdi upp á Lansa og áður en við var litið var ég komin með doktorinn sjálfan í eyrað, mér brá nú hálf þegar HANN var allt í einu kominn í símann. En þetta er indæliskall - þessi læknir - staðfesti sögu föður míns um að allt væri í lagi og að þeir ætluðu ekkert að hittast fyrr en í maí - þegar pabbi kæmi að utan! Ég held enn að þeir séu eitthvað að plotta strákarnir. Ætla örugglega bara að hafa konulausan dag, hittast og fá sér öllara saman
Ég er EKKI frek - ég er ákveðin.....
....svo hefði mamma líka orðið brjáluð ef við hefðum ekki verið með þetta á hreinu
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
8.3.2008
Esta, esta.....
Ég er með hálsbólgu.....og það er ekki gaman! Alltaf þegar ég fæ hálsbólgu, verð ég eins og úlfurinn í ævintýrinu um kiðlingana sjö sem borðaði krít og blekkti kiðlingana til að halda að hann væri Geitamamma......... Ég fæ þessa líka ofurblíðu rödd! Bíð eftir að verða boðin vinna sem "sögustúlka" á 900 línunum!! Gæti leikið góðu konuna...... Svona getur maður nú villt á sér heimildir án þess að borða krít - enda örugglega ferlega vont að kyngja henni
Drekk Sítrónute Indíanahöfðingjans í massavís - sem minnir mig á það ég verð að fara og kaupa meira hunang......
Einu sinni var ég í Spánarferð. Ég fór með krakkana og vinkonu minni. Við vorum ekki búin að vera lengi úti þegar sá fyrsti veiktist - af því sem síðan hefur verið kallað "Spænska veikin" í minni sveit, síðan veiktust ferðafélagarnir koll af kolli með tilheyrandi hósta, hita og slappleika. Ég var á þönum eina nóttina að búa til Sítrónute Indiánahöfðingjans handa dóttur minni og eitthvað hefur vinkonan rumskað. Næsta dag var þungt í henni og hún sagði að hún hefði hrópað og kallað - "Esta, esta......" - á Spáni tölum við spænsku, sjáiði til, sérstaklega þegar við liggjum þungt haldin af veikindum - og viljað fá te líka - en ég hefði bara lokað hurðinni inn til hennar.........
Mórall sögunnar? Farið aldrei með veika vini í sumarfrí. Þeir fá óráð!
Við erum ennþá vinkonur
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
5.3.2008
Vúhú...
Það var skvísuskóveður í dag!
Loksins fékk ég tækifæri til að spígspora í nýju stígvélunum mínum. Sem eru náttúrulega alls ekki ný lengur - en fremur lítið notuð...... Þau hafa allavega fengið nægan tíma til að kynnast hinum skónum í hillunni. Sem er kostur! Ég fór á þeim út á Sýsluskrifstofu og í bankann. Jaðraði við að vera ofuskutla
Ég hef aðeins verið að rannsaka nöfn á bílum. Hér er mikið af einyrkjum og tvíyrkjum sem merkja bílana sína í bak og fyrir! Yfirleitt merkja menn bílana með nafninu sínu og setja svo iðnina aftan við.... Eikasmíði - Nonnapíp..... og fleira í þeim dúr Ég fór að velta þessu fyrir mér vegna þess að um helgina sinnti ég léttu viðhaldi á mínu heimili. Negldi nokkra nagla - skrúfaði nokkrar skrúfur og fór í framhaldinu að velta því fyrir mér hvað ég myndi láta standa á mínum bíl - ef ég fengi mér einn! Ég komst að þeirri niðurstöðu að Dúlla dyttari mundi líklega komast næst því að lýsa því sem ég geri!
Var að kíkja á Jónasarvefinn og fann þetta:
Og vofan við stýrið segir
við hina við hlið sér Veistu
mér finnst við alls ekki einar
síðan við fórum hjá Stapa!
4.3.2008
Allt önnur jöfnun!
Stúfur Stubbalings datt í lukkupottinn um daginn - og hefur ekkert komið upp úr honum síðan. Það byrjaði með því að kona, sem vinnur í næsta húsi, kom færandi gjafir, bein, bolta og kaðal - sem í hans huga jafnast á við gull, reykelsi og mirru
Í morgun var hann svo stálheppinn að finna kjötbita sem einhver hefur ætlað Krumma....... Hann lagði mikið á sig að grafa bitann upp úr djúpum skafli og bar hann svo alla leið heim, frekar hróðugur og passaði að ég næði ekki bitanum af honum! Ég hafði ekki brjóst í mér til þess eftir alla þessa fyrirhöfn. Hann faldi hann svo þegar við komum heim og á meðan ég fór í leikfimi, hámaði hann í sig kjötbitann og hló allan tímann. Ég er alveg viss um að á morgun reynir hann að stela öðrum bita............
Ég tók þess vegna virkan þátt í leiknum og þóttist ekkert vita hvar hann hefði sett kjötbitann - og arkaði síðan í leikfimi. Beta er í fantaformi þessa dagana og lætur okkur heldur betur taka á. Hrikalega góð leikfimi hjá henni - og þeim stelpunum. Enginn tími eins og allir góðir!! Í dag var áherzlan á rass, læri og maga. Sem er gott með tilliti til þess að páskarnir nálgast óðfluga og þá get ég borðað páskaegg með góðri samvizku. Ég verð nefnilega búin að kaloríujafna og kem til með að eiga inni nokkrar kaloríur um páskana.......
Ég stræka á alla árans ekkisen kolefnisjöfnun - ég kaloríujafna!!
Toppiði það
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
2.3.2008
Krummi svaf í klettagjá
Ég gaf Krumma brauð í morgun! Bananabrauð sem ég bakaði um daginn og engum fannst gott........ Mér finnst nefnilega bananar hrikalega vondir sem bragðefni í kökum og greinilega brauði líka...... Mömmusinnardúlludúskur, sem annars borðar allt - nema plokkfisk og bjúgu - deilir þessu greinilega með mér - því hann sagði ósköp pent "það er eitthvað bragð að brauðinu sem passar ekki......." Allavega þá fór ég út með brauðið í morgun og gaf Krumma. Ég sleit það niður í stóra búta og fleygði því í skaflinn sem búið er að moka upp við girðinguna hjá mér. Krummi var hvergi sjáanlegur á meðan að á þessu stóð en Lokharði Ljónshjarta þótti óþarfi að vera að gefa svona eitthvað frá okkur og vildi ólmur sækja brauðið aftur.........
Enda nískur með eindæmum.
Ég fór svo inn aftur eftir gjafaferðina og var varla sest niður þegar ég sá að Krummi spígsporaði um skaflinn, lagði heimspekilega undir flatt og tíndi bitana, sem ég hafði hent í snjóinn, vísindalega upp á þak á Bónus. Svo sat hann þar og krunkaði smástund á milli þess sem hann kroppaði í brauðið. Kannski var hann að segja mér að það væri eitthvað bragð að brauðinu sem passaði ekki..........!
Í kvöld er síðasti þátturinn af Forbrydelsen - nú verður loksins ljóstrað upp hver framdi morðið! Ég hef nú mínar grunsemdir um það hver morðinginn er og ég get sagt ykkur það að ég hef enga trú á því að það sé Vagn. Hann er gerður alltof grunsamlegur til þess....... og þó veit maður aldrei. Danir eru snillingar og þá er ég ekki bara að tala um sjónvarpsþáttagerð. Ég er á því að Íslendingar hefðu aldrei átt að brjótast undan stjórn dana. Hvað með það þó þeir hafi gefið okkur maðkað mjöl? Það hefur ábyggilega bara verið okkur sjálfum að kenna. Við höfum ekki tímt að kaupa mjölið nógu hratt......
Hvað ég svo geri næstu sunnudaga veit ég hinsvegar ekki. Sarah Lund er orðin eins og góð frænka sem kemur í heimsókn einu sinni í viku svo augnhrein og hjartahlý og ég hlakka alltaf jafn mikið til.........
Blíðar heilsanir
1.3.2008
Fröken fíólín
á afmæli í dag Í um það bil þessum orðum fyrir nítján árum fæddist hún. 18 merkur og 53 sentimetrar! Næstum eins og bolti.
Hún var nú ekkert sérstaklega ginkeypt fyrir því að koma í heiminn og lét hafa aðeins fyrir sér. Hún vildi heldur ekki vera skilin eftir hjá hinum börnunum, því konurnar "frammi" komu aftur og aftur með hana inn til mín, sögðu að hún gréti stanslaust. Þá vildi hún vitaskuld bara komast í mömmusinnarhlýjaból. Hún hefur löngum vitað hvað hún vill!
Hún á sama afmælisdag og amma mín. Sem sagði við eitthvaert tækifæri að hún hefði verið fallegasta afmælisgjöfin sem hún hefði nokkurn tíma fengið.
Til hamingju með daginn ástin mín.
29.2.2008
Hlaupársdagur!
29. febrúar! Þetta er spes dagur. Kemur bara á fjögurra ára fresti en rýkur jafnhratt í burtu og allir hinir dagarnir. Börnin mín eiga afmæli sitthvorum megin við þennan dag og sitthvorum megin við hlaupár.......... Þá vitið þið hvenær fengitími er hjá mér...... Ekki það að þið komið til með að hafa eitthvað uppúr krafsinu þó þið reiknið út hvenær ég er tilkippileg
Annars var ég að lesa á blogginu hennar Ásdísar að það dugar konum eins og mér, sem panta sér léttvín hjá barþjóninum, að segja að þú eeeelskir ferðalög - þá er ég fallin Ég sem var farin að halda að ástæðan fyrir einbúsetunni lægi hjá mér. Auðvitað var það ekki svo
Ég hef bara ekki hitt hann - þann sem eeeelskar ferðalög.
Við Stúfur Stubbalings fórum út árla morguns. Gengum upp að afleggjaranum að golfvellinum í hríðarbyl og skafrenningi. Þegar ég svo snéri við þá örlaði hvergi á því að ég hefði verið þarna. Það hafði fennt í sporin mín jafnóðum. Ég brast í svolítið þunglyndi við að sjá það - mér fannst þetta allt í einu líkjast svo lífinu - að brjótast svona í gegnum kófið, vita ekkert hvað er framundan og svo sjást engin spor eftir þig......
Ég hugleiddi að stoppa við næstu stiku og snökkta svolitla stund en svo var bara of kalt til að vorkenna sér lengi og skilar í þokkabót engu! Svolítið eins og í lífinu.....
Kannski hefur Steini Steinarr verið svipað innanbrjósts þegar hann orti þetta:
Tíminn er eins og vatnið,
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund mín sjálfs.
Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af vatninu
og mér til hálfs.
Og tíminn og vatnið
renna veglaust til þurrðar
inn í vitund mín sjálfs.
Blíðar heilsanir og farðu vel með þennan dag því hann kemur ekki aftur
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
28.2.2008
Mömmusinnardúlludúskur
á afmæli í dag
Tuttuguogeinsárs! Hugsið ykkur tuttuguogeitt ár síðan ég hélt á honum nýfæddum. Ég er hrædd um að ég haldi ekki á honum í dag - frekar að það væri öfugt.......
Ég bakaði skúffuköku í gær. Í tíukaffinu kom hann svo heim og sótti hana og bauð mér í afmæliskaffi með hinum strákunum
Hann er krútt
27.2.2008
Að vera eða vera ekki.....
Ég leit sem snöggvast út um gluggann. Úti hamast snjókornin að villa mér sýn. Það er á svona stundum sem ég, rétt sem sneggvast, efast um að vorið komi..........
Ég las á blogginu hjá Víði að palestínskum börnum er innrætt hatur í gegnum barnaefni! Sorglegt - að í stað þess að reyna að kenna þeim samkennd, tillitssemi og að bera virðingu fyrir skoðunum annarra - skuli vera alið á hatri og tortryggni í garð þeirra sem annað hvort líta öðruvísi út eða hafa ekki sömu skoðanir og fjöldinn. Það er á þannig stundum sem ég efast um mannkynið....... Ég hef löngum haldið því fram að fólk sé fíbbl, aðallega til að ögra því til að afsanna þá skoðun mína en líka út af því að það hefur svosem margsannað sig að fólk er akkúrat það! Fékk síðast sönnur fyrir því núna alveg nýlega og alveg innanlands.....!
Ég var að ræða við minn nýja yfirmann í dag og kom með lausn á smá máli í framhaldinu. Ég sagði við hann að ég vildi, í staðinn, fá að heyra þau orð sem allar konur þrá að heyra.....
Hann sagði: "Rosalega er ég heppinn að hafa þig í vinnu" Ég þurfti að vísu aðeins að teyma hann af stað en svo mundi hann þetta...... Það er á þannig stundum sem ég efast ekki um að ég var heppin........
Hvað? Það ER þetta sem allar konur þrá að heyra!
Ég hlustaði á litla bróður í útvarpinu í morgun. Það kom mér virkilega á óvart hvað hann kom vel út. Hann var ekki svona gáfulegur þegar hann hljóp um, berrassaður með koppinn á hausnum..... Svakalega sem ég var stolt af honum, í morgun alltsvo - ekki þá.......
Bakaði skúffuköku í dag. Fanney! Þú getur þá rekið inn nefið og við plottað næstu golfkylfumál...... En nú er ég að spá í að fara að fleygja mér eins og Færeyingar segja við svo mörg tækifæri. Meira hvað þeir þurfa alltaf að dúra sér. Á morgun kemur nýr dagur og þá ætla ég að tala við Rússa og leysa fleiri mál. Hver veit nema ég leysi vatnsskortinn í Súdan bráðlega og finni lækningu við Ebólu og Hermannaveiki
Blíðar heilsanir
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
25.2.2008
Brrrrrr.....
....hvað mér er kalt
Ég fleygði mér nú bara hreinlega undir rúm í smástund eftir vinnu til að ná yl í kroppinn.
Ég grenjaði blómavönd út úr pabba í gær Sagði honum, með grátstafinn í kverkunum, að engum þætti vænt um mig....... Held hann hafi nú ekki alveg keypt það en vöndinn fékk ég. Afskaplega fallegan
Ljónshjartað var latur í morgun, hann hafði nefnilega fengið aukahring með mömmusinnardúlludúsk í gærkvöldi á meðan ég skaust í bæinn með pabba. Ótrúlegt veður á Heiðinni í gær. Ég keyrði heim í ellefu stiga frosti og svarta þoku!! Mjög ruglingslegt veður.
Nú bíð ég eftir að uppáhaldsþátturinn byrji í sjónvarpinu. Criminal Minds - ég held ég sé afar efnilegur viður í glæpamann sbr. prófið á síðunni hjá Dísu Dóru um konuna í jarðarförinni. Ég veit allavega að ég kem til með að átta mig á því hver Dísa Dóra er ef ég mæti henni á götu - hún verður konan sem drífur sig yfir á hina gangstéttina Eina svarið sem mér datt í hug sem lausn við gátunni var það sem hverjum öðrum serialkiller hefði dottið í hug...... Það gekk meira að segja svo langt um daginn að ég stakk upp á því við son minn að öll okkar samskipti færu fram á hotmail skilaboðum sem aldrei yrðu send - aðeins lesin..........
Gvöð ég held ég verði bilaðri með hverjum deginum sem líður..... Hvernig verð ég um sextugt?
Vindurinn hvín og blæs - ég var að horfa á Dýrin í Hálsaskógi í gær, með "hinum börnunum...." Þau kepptust við að útskýra fyrir mér á meðan ég prjónaði og hlustaði með öðru eyranu á sjónvarpið að Mikki refur kæmist ekkert út úr sjónvarpinu, því ég sagði, í hvert sinn sem hann birtist á skjánum: "ÓNEI - þarna ER hann....." Meira þurfti ekki
Var ég búin að segja ykkur að það mest skemmtilegasta sem ég geri er að hræða börn og það næst skemmtilegasta er að ljúga þau full? Dúa hvenær ætlarðu að koma með Völu?