Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Meiri snjó - meiri snjó - meiri snjó!

"Rétt´ann af dúllan mín." Sagði maðurinn, svona líka heimilislegur um leið og hann reif upp dyrnar hjá mér.

....Ég stóðst sumsé ekki mátið og fór út að keyra í gær. Fékk meira að segja sérstaklega lánaðan bíl í verkið og vona bara að mamma lesi ekki bloggið mitt Cool Það hafði nefnilega snjóað einhver lifandis býsn á meðan ég söng jesúslagara. Mér finnst gaman að keyra í snjó og slæda í beygjum en náði að festa bílinn í skafli - stóóóórum skafli -  um það bil hálfum meter frá startlínu.

Ég leit tortryggin á manninn - sem ég þekkti ekki neitt og var að spá í hvort hann væri að rugla mér saman við Dúskinn, sem ég - eins og alþjóð veit, kalla MömmusinnarDÚLLUdúsk. Það var alls ekki að sjá á manninum að hann væri gefinn fyrir unga drengi þannig að ég ákvað í fljótheitum að taka sjensinn og "leyfa" honum að aðstoða mig..... Tounge

"Ekki gefa honum inn dúllan mín", hélt maðurinn áfram, hann losnar ekkert fyrr þótt þú gefir í Tounge Þegar hann benti mér á það í annað sinn spurði ég hann, afar sakleysislega, hvort hann væri alveg viss um það...... mætti halda að maðurinn hefði aldrei heyrt talað um að "taka þetta á ferðinni" Joyful Hann gafst ekkert upp á því að hjálpa mér - hvernig sem ég lét - og á endanum náði ég bílnum lausum og þessi miskunnsami samverji hvarf í kófið áður en ég náði að þakka honum fyrir.

Ég er hins vegar jafn sannfærð um það og allir aðrir sem blogga að ALLIR lesi  mitt blogg - til dæmis er ég alveg viss um að Davíð Oddsson er hér daglega - að hér með þakka ég honum kærlega fyrir, og Davíð líka - fyrir að lesa Sideways


Frostrósir

Ég er veik fyrir rósum. Þess vegna fer ég reglulega og kaupi mér rósir hjá stelpunum í Sjafnarblómum. Set þær svo í vasa þegar ég kem heim, rósirnar alltsvo.... ekki stelpurnar í Sjafnarblómum. Þegar rósirnar fara að falla og glata ljómanum tek ég þær og legg út á pall hjá mér.

frostrósirÞar verða þær að frostrósum og gleðja mig áfram. Einkum og sér í lagi þegar snjóar svona fallega yfir þær......

Hér er allt að verða á kafi í snjó. Það stendur kona úti á bónusplani og mokar með skóflu single handed - en þó ekki einhent. Það er líklega eitthvað að harðna í ári hjá þeim bónusfeðgum......

Mömmusinnardúlludúskur setti jólaljósin upp í gær og þau taka sig verulega vel út í snjókomunni. Allavega miklu betur en ef hann væri að setja þau upp núna.....Tounge

Fyrsti sunnudagur í aðventu heilsar með stæl og ég ætla að fara að baka brauð og elda gúllassúpu.....

Þakka þeim er hlýddu InLove

frostr�sir


Ég hef alltaf verið veik fyrir tenórum.....

Ég hef verið að dást að því - mest svona með sjálfri mér, sem betur fer - hvað Kisuskottið mitt er gáfað kvekendi.....

Ég hef líka fundið ýmsar skýringar á því en sú sem hefur vegið hvað þyngst er vitaskuld sú að gæludýr líkjast eigendum sínum Tounge 

Kattarskömmin reynir að opna dyr og beitir ýmsum brögðum, hann opnar skáphurðir, skrúfar frá ofnum ef honum finnst ekki nógu hlýtt og síðast en ekki síst elskar hann mig og það, gott fólk, er ekki öllum gefið Halo Hann kemur með okkur Ljónshjartanu í göngutúra á morgnana og felur sig þegar annað fólk nálgast sem mér hefur fundist agalega krúttlegt og talið það honum til tekna að vera svona tortrygginn. 

Mér var svo bent á það um daginn að ástæðan fyrir því að hann felur sig væri sú að hann væri svona vandur að virðingu sinni. Hann skammast sín fyrir að láta sjá sig úti með hundi og kjéddlingu. Ætli það sé ekki tóm lýgi líka þetta með gáfurnar.....? Tounge

Og þá að allt öðru...... Ég fór á jólahlaðborð í gærkvöldi með uppáhaldsiðnaðarmönnunum mínum. Ég veitti verðlaun fyrir bestu mynd úr hraðamyndavélum og ávítti þá sem eiga eftir að láta taka af sér mynd..... Ríkissjóði veitir ekkert af peningum þessa dagana....

Ég laumaði því að vinningshafanum að vélin væri stillt á myndatöku á 99 km. og bað hann endilega ef hann mögulega gæti að brosa um leið og hann brunar hjá þeim. Það léttir mína vinnu umtalsvert og gerir það um leið svo miklu meira spennandi að opna póstinn frá lögreglunni í Stykkishólmi Tounge Hann tók nokkuð vel í það.....

Annars er ég að hugsa um að kaupa mér svona myndavél. Þetta er örugg fjárfesting sem borgar sig hratt upp!


Mér var boðið í bíltúr í dag....

er hann kannski að hringja í 112?...og þáði það vitaskuld. Það er ekki á hverjum degi sem mér er boðið í bíltúr, þótt þeim fari að vísu fjölgandi.

Við ókum sem leið lá í austurátt. Ég skoðaði gamla bæinn að Keldum sem var búið í frá því um aldamótin 1200 til ársins 1946. Þar voru mér sýnd göng sem voru útbúin sem flóttaleið á sínum tíma... Já... fólk hefur ekki alltaf sofið rótt..... Ég fékk líka að kíkja inn í kirkjuna að Keldum og fékk sem áhugamanneskja um altaristöflur fyrirlestur um altaristöfluna þar. Virkilega fróðlegt og falleg tafla. Altaristaflan að Keldum

Stefnan var síðan sett á Hamragarðaheiði og var ætlunin að skoða námuna sem grjótið í Landeyjahöfn er tekið úr. Á miðri leið blossaði upp svartur reykur í fararskjótanum, eðalskoda..... þannig að við snérum við. En eins og ég sagði ferðafélaganum; Þegar ég segi þessa sögu á elliheimilinu þá skíðlogaði bílfjandinn og þú rétt ræður hvort þín saga verður ekki samhljóða. Ég meina það er assgoti hart ef maður þarf að vera að samræma sögur á elliheimili þar sem enginn man nokkurn skapaðan hlut hvort eð er.....Tounge

Við fórum síðan í Landeyjarfjöru - ég eeeeelska þennan svarta sand..... þennan úfna sjó... en ég veit ekki hvort ég þori nokkurn tíma þarna yfir.... Af hverju er ekki bara byggð brú? Só vott þótt skip þurfi að taka á sig "smá"krók? ToungeLandeyjahöfn

Til vara legg ég til að Landgræðslan verð lögð niður Cool


Keypt fyrir koss.

Sumir sauma í kyrrþey aðrir laumast á fundi.....

Ég lét Bjarna Harðar plata mig á fund hjá Heimssýn á Sunnudaginn. Hugsaði með mér að þetta yrði allt í lagi. Þarna yrði ekki nokkur maður og ég þyrfti engum að segja frá því að ég hefði farið..... Bjarni er bara svo mikið krútt að það er ekki á nokkurs manns færi að segja nei við hann. Svo fæ ég líka alltaf koss hjá honum og kossar liggja nú ekki á lausu hér á Árborgarsvæðinu á þessum síðustu og verstu skal ég segja ykkur - þegar biskupinn skiptir sér af öllu Tounge

Okkur seinkaði aðeins - því ég var að syngja og söng aðeins of lengi.... eða þannig ;) Ég var varla búin að fá mér sæti á fundarstað og draga upp prjónana þegar ljósmyndari mbl mætti á svæðið og skömmu síðar maður frá RÚV. Ég setti upp minn þaulæfða fjölmiðlasvip og virka afar gáfuleg á myndunum sem birtust - þótt ég segi sjálf frá.... Það sem ég var hins vegar að hugsa var: "Kræst hvað ég er svöng!" Og: "Úbbs! Nú verður Magga reið....." en það sést alls ekki Sideways

Ég er eiginlega alveg að komast á þá skoðun að Íslendingar eigi ekki að sækja um aðild að esb, við getum hvort eð er aldrei fullnægt öllum þeim skilyrðum sem þeir setja fyrir inngöngu. Við eigum líka að gefa ags langan putta - eins og við segjum svo fáguð hér í sveitinni Joyful

....en ég hlakka svo til þegar ég verð gömul og ljót og ljósmyndarar hætta að elta mig á röndum Tounge 


Flokkum og skilum.

Ég vaknaði hrikalega snemma.

Ákvað að nú væri góður tími fyrir göngutúr með dýragarðinn. Allar fyllibyttur örugglega farnar heim og hinir ekki komnir á stjá. Heyra í mér - það eru fyllibytturnar og hinir....... Lífið er svo einfalt þegar maður er búin að skipa fólki í flokka Sideways

Ég sumsé klæddi mig í kuldagallann, nánast yfir náttkjólinn og henti kettinum út fyrir á meðan ég reimdi skóna mína því það er sko ekkert grín að reima skó með kátan kettling á svæðinu..... Lagði svo af stað, hvorki þó með nesti né nýja skó. Þegar ég hafði gengið smáspöl áttaði ég mig á því að það var eitthvað aukahljóð í umhverfinu. Það var þá kattarósóminn sem hafði ákveðið að skella sér með okkur.... Hrekkjusvínið reyndi nokkrum sinnum að snúa honum til baka með akkúrat engum árangri þannig að hann skokkaði sæll og glaður með okkur hringinn.

Hlín hrekkjusvín snéri sér þá hikstalaust að því að hræða gamlar konur - sem greinilega höfðu ákveðið að taka daginn snemma.... nema þær séu fyllibyttur og ekki komnar lengra.....? - og blaðburðarfólk. Ég náttúrulega var búin að steingleyma því að fólk kaupir ennþá moggann. Allavega sumt fólk Tounge Nú get ég flokkað fólk í fyllibyttur, moggakaupendur og hina.....

Ljónshjartað og Hrekkjusvínið liggja nú og sofa en litli Ósóminn er enn úti í garði að veiða laufblöð. Svona líka himinglaður að hafa loksins fengið að koma með okkur.

Helgin og einskær hamingja framundan.


Jesú er besti vinur barnanna.....

Ég þurfti að fara til Hafnarfjarðar í gær sem einkabílstjóri. Á meðan ég beið ákaflega þolinmóð eftir farþeganum mínum - eins og hver annar góður bílstjóri - dró ég upp prjónana mína og prjónaði nokkrar umferðir.

Það er svo skondið að um leið og ég dreg upp prjóna telur fólk í umhverfinu að ég sé meinleysisgrey og byrjar að tala við mig........Tounge Sem er ekki slæmt - betra að tala við konuna sem deilir setustofunni með þér heldur en horfa á hana dotta. Þetta er ákveðið mannfræðiverkefni. Ég man þegar ég beið eftir pabba á sínum tíma í Kringlunni á Landsanum. Sjö borð í afgreiðslunni hjá rauðakrosskonunum í sjoppunni og þeir tveir sem komu og settust niður settust báðir við borðið hjá mér! Mömmur þeirra eru ábyggilega prjónakonur og þeir hafa fyllst jafnmiklu öryggi við að sjá mig og konur sem nota vespre....

Næst ætla ég með prjónana á barinn W00t

Ég skrapp svo í klaustrið að skoða nunnur - ætlaði að athuga hvort þær væru með skalla og ef svo hvort hann væri þá bónaður - ég þekkti nefnilega einu sinni mann sem sagði mér að nunnurnar í Hafnarfirði væru ekki með neitt sjónvarp og bónuðu á sér skallann á kvöldin..... en þær voru búnar að setja upp höfuðbúnaðinn og brostu svo kurteisar og blíðlegar til mín um leið og þær buðu mér að gjöra svo vel - að ég kunni ekki við að vera dóni. 

Ég sagði hins vegar Mömmusinnardúlludúski, sem liggur viti sínu fjær af sjúkdómi sem við viljum ekki kalla svínaflensu, þegar ég kom heim að ég hefði ákveðið að ganga í klaustur og hefði heimsótt nunnurnar fyrr um daginn til að undirbúa mig....

... hann lét sér fátt um finnast og sagði mér að hann kæmi ekki til með að kalla Jesú pabba. Þrjózkan í þessum dreng. Það er alveg sama hvaða karlmann ég kem með heim.......

Það er verst að ég veit alveg hvaðan hann hefur þessi þrjózkugen. Þau eru runninn beint í æð af Austurveginum - sorrítúsei! Sideways


Safnahelgi á Suðurlandi.

Nú stendur yfir safnahelgi í blíðunni og blankalogninu á Suðurlandi.

Margt að ske og mikið að gerast..... Ég hefði verið til í að fara í Vasaljósaheimsókn í Húsið á Eyrabakka - þar sem hugsanlega mætti rekast á forna íbúa. Ég hefði líka verið til í að kíkja á nakta norska konu á Laugarvatni sem ætlaði að kenna Íslendingum að þurrka sér. 

Þess í stað fór ég á myndakvöld hjá kórnum, drakk bjór og koníak til skiptis fram eftir nóttu og söng af hjartans lyst öll lög sem ég kann. Ég veit.... hljómar hrikalega lame en var aftur á móti ferlega skemmtilegt. Við Fröken Fíólín fórum á kostum - að eigin mati allavega. Vorum með allskyns brandara á kostnað annarra kórfélaga, gerðum okkar besta til að stofna til illinda á milli sóprans og alts og enduðum á að færa okkur yfir í tenórinn Tounge Því betri eru tenórar en kynórar...... nema saman fari eins og perralegar konur sem ég þekki bentu á.

Ég fór hinsvegar á markað á Eyrarbakka í dag. Fékk mér kaffi og vöfflu hjá Önnu á Gónhól - ég var búin að útskýra það nafn fyrir ykkur, réttupphendi sem man....?

Eyrarbakkafjara

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband