Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010
23.8.2010
Við Ljónshjartað fundum stúlku..
.. á förnum vegi í dag. Eða kannski fann hún okkur.
Hún kom hlaupandi á eftir okkur með allar skólabækurnar sínar og vissi ekki hvert í veröldinni hún átti að fara. Ég stoppaði - náttúrulega - og spurði hana og notaði rólegu röddina...... hvort hún vissi hvað gatan héti sem hún væri að leita að. Hún vissi það en þá þekkti ég ekki þá götu
Ég hringdi í fröken 118 og bað um upplýsingar en hún vissi ekkert frekar en ég hvar þessi gata gæti verið! Málið fór nú að verða snúið.....
Ég hringdi á skrifstofu skólans og ætlaði að vita hvort góðu konurnar þar gætu flett upp á stúlkunni - sem heitir Nora og er fimmtán ára skiptinemi á Íslandi frá Basel í Sviss. Hún á engin systkini úti í Sviss en þrjá bræður hér hjá fósturfjölskyldunni. Einn tveggja ára, einn sjö ára og einn átta ára.... Hún kom til Íslands á föstudaginn og á Selfoss í gær..... Hún er gjörn á að að týna hlutum...... Skrifstofa skólans var lokuð og ég náði litlu sambandi við símsvarann Enn flæktist málið.....
Mér datt í hug að spyrja hana hvort hún vissi hver umsjónarkennarinn hennar væri og hún dró upp stundartöfluna sína og sýndi mér það. Ég hringdi aftur í fröken 118 og ætlaði að fá símanúmerið hjá kennaranum þegar stúlkubarnið mundi - enda farin að róast aðeins - að hún var með símanúmer fjölskyldunnar í veskinu sínu.
Ég hringdi í það númer og talaði við fósturmóðurina sem var rétt ófarin út úr dyrunum að leita að stúlkubarninu. Það kom upp úr kafinu að týnda gatan var ekki svo mjög langt í burtu frá okkur þannig að ég rölti með henni þangað ásamt Ljónshjartanu sem var yfir sig ánægður með stúlkubarnið sem hann hafði fundið. Ég held hann hafi helst ætlað með hana heim
Það var afskaplega þakklát stúlka sem faðmaði mig þegar ég kvaddi hana, óskaði henni ánægjulegrar dvalar á Íslandi og sagði henni að við mundum ábyggilega hittast aftur
Það væri kannski ekki arfavitlaus hugmynd að taka skiptinema? Allavega ekki ef þeir eru allir svona krútt
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.8.2010
Við mamma skelltum okkur....
...í Munaðarnes í gær. Keyrðum sem leið lá og lög gera ráð fyrir í gegnum göngin og þessa dáfögru leið í gegnum Borgarfjörðinn.
Ég hef alltaf verið dulítið svag fyrir Borgarnesi þannig að þegar við vorum beðnar að stöðvar sjálfrennireiðina og verzla smotterý - gripum við tækifærið og renndum léttilega í gegn um staðinn. Verst að allar búðir eru þar á sama fimmeyringnum.
Við fórum að sjálfsögðu í þe Moll of Borgarnes og ég fann þar dáfagra blómabúð. Margt flott þar og ég mæli eindregið með að þið lítið þar við ef þið eigið leið um Borgarnes - tala nú ekki um ef þið búið þar.....
Enívei.... við fundum síðan Munaðarnes og dvöldum þar í góðu yfirlæti í bústað, borðum mat og drukkum vín - eða mamma allavega - ég, hins vegar, get bara gert eitt í einu - og ég var að keyra....
Ákváðum síðan, í einhverju stundabrjálæði á heimleiðinni, að fara Hvalfjörðinn og sleppa göngunum. Falleg leið og allt of sjaldan keyrð. Ég gæti náttúrulega, á þessum tímapunkti í sögunni, ef ég ætlaði að láta alla njóta sannmælis, sagt að mér er illa við að keyra göngin og mamma hefur gaman af bíltúrum - en af því að mér dettur ekki í hug að viðurkenna ótta minn við göngin ætla ég að halda mig við söguna um að mömmu finnist gaman í bíltúrum
Mamma sýndi mér bæinn þar sem langamma mín ólst upp - Stóra Lambhaga - og við skutluðumst áfram veginn. Það fór að hvessa og dimma. Við ókum fram hjá skiltum sem vöruðu við grjóthruni og allir bændur voru farnir að sofa. Hvergi vottaði fyrir lífsmarki..... Vindurinn hvein og söng og reif í bílinn, vildi helst feykja honum út í sjó - eins og einhverri fáránlegri refsingu fyrir að ákveða að keyra þessa leið....
Ég sagði í hálfum hljóðum við mömmu: "það er nú svolítið draugalegt hérna....." Í því sá ég ref á miðjum veginum, ég snarhægði á mér og rebbi skokkaði yfir. Á hinum vegakantinum stóð rolla og ég var rétt að byrja að segja mömmu hrikalega sögu um litla lambið sem lægi sært til ólífiis í vegakantinum við hlið rollunnar, þegar minkur skaust út á veginn og beint undir bílinn.
Mamma vildi stoppa og hirða skottið af honum en ég hef áhyggjur af þessari rollu. Hún var í slæmum félagsskap að ekki sé meira sagt.....
Ég get hins vegar sagt ykkur að sagan sem ég ætlaði að segja mömmu endaði ekki vel
Hver þarf Húsdýragarðinn þegar hann getur keyrt Hvalfjörðinn?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.8.2010
Það er sumar í sveitinni okkar.....
....eða allavega í minni sveit. Ég sýndi þessum hátíðarhöldum fremur takmarkaðan áhuga allt þar til mér var bent á að ég byggi í rauða hverfinu...... Þá náttúrulega stóðst ég ekki mátið, fór og keypti helling af rauðum hjartalaga inniseríum og setti í nánast alla glugga nema svefnherbergisgluggann - ég meina, kona þarf nú sína átta tíma til að halda lúkkinu í lagi..........
Ég setti líka jólaljósaseríuna, sem ég nennti ekki að taka niður eftir jólín í fyrra, í samband og splæsti á mig rauðri rós til að hafa úti á palli ;)
Nú bíð ég spennt eftir hversu margir útlendingar banka uppá... ég ætti kannski að setja miða á útidyrnar hvar ég bendi þeim á að kona þurfi jú sína átta tíma og það sé ástæða fyrir því að ekki séu rauð ljós í svefnherbergisglugganum.....
Stefni á Gay Pride á morgun í höfuðstaðnum og sléttusöng annað kvöld hér í minni sveit - hver veit nema ég versli mér bjór og hitti fallega manninn, sem syngur svo fallega og ég ætla að giftast
Tækifærin bíða við hvert horn
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)