Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Haustið nálgast.....

... með allri sinni litadýrð. Ég fór út með á með Ljónshjartað og litirnir úti í eyju lofa góðu fyrir komandi morgna.

Vatnsfimin hefst eftir nokkra daga og rútínan tekur við. Það er alltaf gott - jafn gott og á vorin þegar henni sleppir og maður getur varla beðið með að sukka með tímann þessa sumarmánuði sem í boði eru.

Ég fór um daginn með Einari í fossaferð upp í Þjórsárdal. Það var skemmtilegt ferð. Við fundum Grennd - sem var mikill kostur fyrir Einar. Skoðuðum Hjálparfoss - virkjanir.... hvað voru þær margar Einar? Einar þrjár? - Tókuð þið eftir því hvað ég gat laumað Einari oft inn þarna? Tounge

Háifoss

Fundum líka Háafoss og Granna - Granniþangað hef ég ekki komið áður - allavega ekki svo ég muni.... 

Komumst síðan, talsvert síðar en við ætluðum okkur, upp að Sigöldufossi. Hann var flottur og það var Einar líka Happy

Jafnvel þótt ég hafi áttað mig á því komin langleiðina að Sigöldu að ég væri á ferð langt uppi á fjöllum með manni sem ég þekki aðeins í gegnum netið W00t Er ekki alltaf verið að vara konur við þannig mönnum? Hann hefði getað varpað mér í lónið og hvenær hefðuð þið farið að hafa áhyggjur? Hvað hefðu liðið margar vikur? Kannski hefði ég ekki fundist fyrr en ég stíflaði rafmagnið!!

Einar fær samt mín meðmæli sem fossafélagi - nokkuð þægilegur, fremur skemmtilegur, hreinlegur og auðveldur í umgengni Tounge


Spennan er gífurleg!

Ég er að horfa á rán í beinni! Löggan. blá ljós, sírenur ...

...ég sé að þeir hafa staðsett sig fyrir framan Lóló frænku! Já - hún leynir á sér sú síflissandi kjéddling......  En mér þykir ekkert minna vænt um hana fyrir vikið ;)

Annað hrikalega spennandi gerðist líka í dag - eiginlega meira spennandi!! Ég fékk vinnu á móti vinnunni fyrir ljúfustu iðnaðarmenn hérna megin Alpafjalla Heart

Og enn annað ferlega spennandi gerðist í lífi mínu um daginn - það er með herkjum að maður höndli alla þessa spennu, ég sver það ég er algjörlega á innsoginu hér..... - ég fékk inngöngu í kór! Ég stefni á að verða betri en Eva Cassidy með tímanum!

Segiði svo að hlutirnir séu ekki að gerast á Selfossi í dag! Ódýrasta benzínið og allt....... Sideways


Ekkert 2007

Ég man þegar ég hljóp mína fyrstu 10 km. í Reykjavíkurmaraþoni. Það var árið 2007 og þegar ég kom heim um kvöldið átti ég í vandræðum með að komast upp tröppurnar hér heima vegna þess hve stirð og þreytt ég var.......

Í gær hljóp ég í 3ja sinn 10 km í Reykjavíkurmaraþoni og fór svo í brúðkaup seinni partinn. Athöfnin fór fram í Laugarneskirkju hjá þeim stórkostlega presti Bjarna Karlsyni. Pálmi Gunnarsson söng við undirleik bróður og vinkonu brúðarinnar. Athöfnin var svo falleg að formaður félags kaldlyndra kvenna - þ.e. ég - missti tár af stað niður aðra kinnina.

Veislan sem í hönd fór var einhver sú skemmtilegasta sem ég hef farið í lengi. Enda slógum við systur í gegn með þaulæfðu skemmtiatriði. Gott ef við verðum ekki beðnar að skemmta í brúðkaupum framtíðarinnar......

Ég fyllist hamingju innra með mér þegar ég hugsa til þess hve ánægð og hamingjusöm brúðhjónin voru með daginn Heart 

...en það sem ég ætlaði að koma á framfæri var að í nótt þegar ég staulaðist upp tröppurnar heima hjá mér, 20 tímum eftir að ég fór að heiman, var ég miklu minna stirð heldur en árið sem ég hljóp fyrst.

Mæli með því að þið takið þátt í Reykjavíkurmaraþoni. Það er eins og blár Opal. Bætir - hressir - kætir! Sideways


Reykjavíkurmaraþonsbrúðkaupsbrauðbakstur.....

Á morgun ætla ég að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í þriðja skipti. Þið megið alveg óska mér góðs gengis!

Menningarnóttin kemur til með að fara að mestu leyti fram hjá mér fyrir utan hlaupið. Ég veit að Birna Dís ætlar að gefa vöfflur hjá "hernum" og hvet alla til að mæta til hennar og knúsa hana smá.

Ég hugsa einna helst að ég dotti ofan í súpuna hjá brúðhjónskrúttunum Heart en það sem ég hef mestar áhyggjur af er að skemmtiatriðin fari eitthvað forgörðum..... 

En... eins og áður þá þætti mér vænt um ef þið hétuð á mig í hlaupinu https://www.marathon.is/pages/aheiteinstaklinga?prm_participant_id=41759&prm_action=2&iw_language=is_IS

Í ár ætla ég að hlaupa fyrir SOS barnaþorp. Ég er ekki viðskiptavinur Íslandsbanka og því styrkir hann mig ekki í hlaupinu en þið getið lagt ykkar af mörkum með því að heita á mig......

Engin skylda en mér þætti vænt um það! Vitaskuld kemur mér til að þykja vænt um ykkur áfram þó þið heitið engu á mig - bara aðeins minna....... 

Mig langar líka til að vekja athygli á því að Eydís vinkona mín ætlar að hlaupa 21 km og hún hefur kosið að safna áheitum fyrir fimm börn sem misstu föður sinn í síðasta mánuði. Yngsta barnið er aðeins fimm mánaða gamalt. Eydís segir á facebooksíðunni sinni:

"Á laugardaginn ætla ég að hlaupa 21 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Eins og áður gefst hlaupurum kost á að safna áheitum fyrir góðgerðarfélög. Mig langar að gera slíkt hið sama en hef kosið að safna áheitum fyrir Kjartan, Skarphéðinn, Illuga, Hrafntinnu... og Hallgerði Njálsbörn sem misstu föður sinn þann 24. júli sl. Þeir sem vilja leggja þessu málefni lið geta lagt inn á þennan reikning: 0152 26 3199 kt. 2111627249"

Þar gekk góður maður langt fyrir aldur fram og mig langar að hvetja alla til að leggja inn á reikninginn þeirra og aðstoða Eydísi við að styrkja gott málefni.

 

Having fun - in the run

InLove

 


Loforð....

Jenný Anna er nokkuð viss um að hún sé með svínaflensu og komi ekki til með að lifa hana af.... Ég var að vorkenna henni og fékk frekar kaldranalegt svar til baka um að hún mundi minnast mín í erfðaskránni! Sem ég er vitaskuld hæstánægð með - ég er alveg viss um að hún á rósótta súkkulaðikönnu sem hún ánafnar mér....

...það hins vegar minnti mig á, þegar ég var lítil, endur fyrir löngu, og var einu sinni sem oftar í heimsókn hjá frænku minni sem bjó í Reykjavík. Hún átti forláta útvarpstæki - þið vitið... svona eldgamalt, stórt með risavöxnum tökkum sem maður snéri fram og til baka til að skipta um stöð. Ég sat í stofunni og dáðist að útvarpstækinu þegar þessi frænka mín kom inn og ég gerði mér lítið fyrir og spurði: "Má ég eiga þetta útvarp þegar þú deyrð?"

Hún kippti sér ekkert upp við þetta - enda eðalfrænka, hló og sagði mér að vitaskuld gæti ég fengið að eiga tækið.

Mér til varnar get ég upplýst það að ég skammast mín ööörlítið núna um leið og ég velti fyrir mér hvar útvarpið sé nú Sideways


Verzlunarmannahelgin...

Ég hef haft það gott um helgina! Farið út að labba með hundana... glott að uppátækjum kattarins,  sem heitir því frumlega nafni Grámann Kaktus - kallaður Mjási... Já, já... það var annaðhvort það eða Kisi...... farið út að skokka með Ljónshjartað og borðað og drukkið þess á milli Tounge

Mömmusinnardúlludúskur lagði upp á Akureyri á fimmtudagskvöld en var ekki alveg nógu hress með ABBA fílinginn þar og fór til Eyja ásamt fleirum. Hann hefur dvalið þar í góðu yfirlæti og ég vænti þess að spariskyrtan sé vandlega pökkuð, samanbrotin og straujuð ofan í tösku ásamt öllu hinu dótinu sem maður fer ekki með á útihátíðir - því eins og hann sagði: Ég er að fara á Akureyri downtown.... W00t Þau voru svo stálheppin að fá flug til Reykjavíkur í kvöld - en ég veit ekki aaaalveg hvort þau verða í standi til að mæta í vinnu í fyrramálið... hin sko! Vitaskuld verður Dúskurinn mættur á slaginu... eða ég á ekki von á öðru Halo

Það er samt alltaf gott, finnst mér, þegar þessi helgi er liðin stórtíðindalaust.

Næst er það brúðkaup! Sama dag og Reykjavíkurmarþon og Menningarnótt. Ég hef verið vakin og sofin að pússla saman þessum degi, því vitaskuld er ég ekki tilbúin að sleppa neinu. Kona hefur nú komið sér upp hefð á þessum degi sjáðu til....

Þetta er allt að smella hjá mér - ég á bara eftir að útvega mér skræpóttan glyðrulegan kjól og húsnæði til að baka brúpkaupsbrauð eftir maraþon! Kjólinn þarf ég vitaskuld í brúðkaupið því ég get bakað brauð í hvaða sveitta galla sem er.... Svörtu skóna á ég Tounge

Spurning hvort ég þarf að skippa sýningunni í Ráðhúsinu þar sem sem jarðskjálftasagan mín verður birt.....? En ég treysti því að þið farið þá þangað og lesið hana fyrir mig Sideways


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband