Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Blautt og bjútífúl

Ég eldaði gúllassúpu í kvöldmatinn og bakaði brauð. Allt fyrir mömmusinnardúlludúsk! Uppáhaldsmaturinn hans, enda varð hann glaður þegar hann kom heim - það er svo einfalt að gleðja unga drengi Wink

Það rignir - ég hélt ég mundi kafna úr hita í morgungöngunni. Enda óvön því að hitamælirinn sýni +5 svona snemma dags og klæddi mig bara í fimmtán mínútur áður en ég fór út, eins ég hef gert á hverjum degi síðan í nóvember W00t Það er á svona morgnum sem mér finnst svo stutt til vors....... 

Nennti svo engan veginn að klæða mig í öll þessi föt eftir leikfimina og sagði við stelpurnar, þegar ég sippaði mér í snjóbuxurnar og stakk öllum hinum fötunum niður í tösku, að ég treysti því að þær segðu ekki nokkrum manni frá því hvernig væri til fara. Þær fullvissuðu mig um að þær væru bundnar trúnaði.........Tounge

Það er ekki laust við að að mér læðist værðin. Mér líður vel, ég er þreytt, södd og sæl. Er hægt að hafa það betra svona að kveldi dags?

InLove


Segir fólk það sem það meinar?

Meinar fólk það sem það segir?

Hugsanlega er ég bara að verða gömul og tortryggin........ en þessi spurning læðist að mér æ oftar. Vitaskuld er ég ekki að tala um að vera óheyrilega heiðarleg all the time og ganga um og segja hið eina rétta orð!! Enginn nennir að umgangst svoleiðis fólk - ekki til lengdar. Fólk sem er stútfullt af skoðunum og básúnar þeim út um víðan völl og telur að þeirra skoðun sé alltaf sú rétta!! Ég persónulega verð svo þreytt á þannig fólki.........

Eru það kannski bara þeir sárafáu sem maður kallar vini sína sem hægt er að treysta til að segja skoðun sína umbúðalaust! Allt frá því að segja: "Þú lítur hræðilega út í grænu." Eða: "Þú syngur hræðilega"  -Sem er í rauninni ekki gott dæmi hjá mér því ég er þeirrar skoðunar að allir eigi að fá að syngja. Hvernig svo sem þeir hljóma.....- bezt ég breyti þessu dæmi í: "Þú syngur vel, hefur þér dottið í hug að syngja í kór....." Upp í að hlusta virkilega á það sem maður segir og koma svo með sitt álit á málinu. Álit sem maður getur hlustað á og treyst.

Einhver sem skilur mig? 

Stenst ekki mátið að láta fylgja með annan uppáhaldsmann í mínu lífi. Að þessu sinni svartan í tilefni þess hvað Obama gengur vel þessa dagana Tounge 

Meinar þú það sem þú segir? Segir þú það sem þú meinar?


Ofsablogg?

Fór í klippingu í morgun - sagði manninum sem klippti mig nákvæmleg til verka. Hann mætti ekki gera svona, bara hinsegin, ekki hinsegin, bara svona - klikkti svo út með því að segja honum að ég væri að safna þykku hári......W00t Þá sprakk hann!! Mér fannst hann nú frekar dónalegur GetLost Ég ER að safna þykku hári Tounge

Fór svo yfir í Alvörubúðina, úr því ég var komin alla leið niðr´í bæ, og keypti mér indverskt bómullarsjal/trefil. Blátt, rautt og appelsínugult - ótrúlega flottPicture 317 - og hlýtt.......Joyful Alvörubúðin er soldið spes búð finnst mér. Gaman að koma þar inn og skoða!

Hér er brostið á ofsaveður W00t Ég las á netinu að fólk í höfuðborginni er beðið að draga fyrir glugga. Þeir náttúrulega vita það mennirnir í samhæfingarstöðinni að það þýðir ekkert að segja okkur í sveitinni það. Við vitum alveg að það er vont veður þótt það sé dregið fyrir glugga.....W00t Ég las líka að fólk á sama stað er beðið að sofa ekki áveðurs. Ég er rosa fegin að ég má sofa áveðurs.... Ég veit ekki hvar ég ætti annarsstaðar að sofa!!

Lokharður Ljónshjarta harðneitar að fara út að míga. Ég hnýt um hann í hverju spori og það þarf ekkert að segja honum neitt um að liggja ekki áveðurs og sofa. Hann gætir þess að  vera í öruggu skjóli InLove Picture 320

 Ég er búin að strjúka "andarunganum" úr blómaríkinu í hvert sinn sem ég hef átt leið fram hjá. Ég sé það sperrist upp í hvert sinn sem ég nálgast. Hugsanlega er þetta ást Tounge

 

 

 

 Í lokin ætla ég að leyfa ykkur að heyra eitt af mínum uppáhalds"lögum" InLove



Blómstrandi blómaþörf

Ég fann hjá mér þörf fyrir að fara í blómabúð í gær! Yfirleitt leggst ég nú fyrir þar til svona langanir líða hjá - en í gær ákvað ég að gefa eftir.

Picture 311 Afgreiðslukonan setti upp pókerfeis þegar ég spurði um lauka!! Þær eru sjálfsagt ýmsu vanar...... hún sagði mér að á þessum árstíma væri enga lauka að fá en ég gæti keypt fræ. Sem ég og gerði. Bíð nú helspennt yfir pottinum eftir að fyrsti græni sprotinn líti dagsins ljós Tounge Þegar ég var á leið út úr blómunum sá ég ótrúlega skorpnað og hrukkótt plastblóm, gott ef það var ekki meira að segja rykugt. Ég hristi hausinn yfir vitleysunni - hver framleiðir plastblóm sem líta út fyrir að vera við dauðans dyr og um leið og ég sleppti hugsuninni hvarflaði að mér að það gerði náttúrulega ekki nokkur maður! Ég þuklaði á blóminu og komst að því að þetta var lifandi blóm! Ótrúlega ljótt!! Verandi áhugamanneskja um það sem er ljótt, ákvað ég að spyrja konuna hvað þetta blóm kostaði og hvort það héti eitthvað! Hún sagði, orðrétt: "Guðminngóður.....!!" lét mig hafa það á niðursettu verði en vissi ekki hvaða tegund þetta er. Nú stendur það fyrir ofan ofninn hjá mér, nývökvað og er smátt og smátt að rétta úr kútnum.

Verður spennandi að sjá hvernig það lítur út þegar það er orðið frískt! Joyful Einhver sem getur sagt mér hvað svona planta heitir?

Picture 312 Ofan gefur snjó á snjó! Tók þessa mynd í morgun á milli élja. Arkaði fram hjá einum á afskaplega vanbúnum fólksbíl í morgunsárið. Hann spólaði magnvana og komst hvorki afturábak né áfram. Mér fannst nú svo heimskulegt að láta sér detta í hug að hreyfa svona bíl í þessari færð að ég snéri upp á mig og datt ekki í hug að bjóðast til að ýta honum! Enda búin að gefa út yfirlýsingu um að "Æ dónt læk sillí pípól................"

Það hefur ekkert breyst Halo

Hér fáið þið ljóðabrot um vorið. Sem kemur..........

Ljóselfur rauðar hægt um hvolfið flæða,
hamrana strjúka mjóir geislafingur.
Vaknaðu blómþjóð! Bylgjótt dalalæða
brennur og logar! fugl í kjarri syngur!

Eftir hvern er ljóðið?

pís InLove

 


Hver hitti á óskastund....

.....þegar hann óskaði eftir snjó? InLove

Öskudagur og lífið gengur sinn gang

En komirðu, karl minn! nærri, 

kynleg er menjagná. 

Hún lyktar af ljótum svita

og lús skríður aftaná. 
 

Ég sofnaði óguðlega snemma í gær. Enda með eindæmum þreytt!

Vaknaði svo klukkan fjögur við að Stúfur Stubbalings, hélt það væri kominn dagur og vildi komast út að míga - enda ekki að furða - fyrir utan voru snjóruðningstæki að moka snjó og skafa í erg og gríð og birtan inn um gluggann var eins og um sumarbjartan dag......... Við skutumst út í skafl og fórum svo beint upp í rúm aftur.

Fórum svo í morgungönguna í rólegheitum. Í gegnum snjómugguna sá ég glitta í Fanney og Bóndann þegar þau renndu í gegn á sinni leið. Yndislegt að ganga úti í snjókomunni og stafalogni svona snemma dags og búa sig undir daginn. Birtan einhvernveginn svo undarlega rauðleit. InLove

Sit svo núna í þessum orðum töluðum og úða í mig AB mjólk með musli og ferskum ávöxtum. Keypti blöndu, frá Ferskt held ég, af fimm ávöxtum í pakka úti í búð - bara svona til að prófa og namm hvað þetta er gott! Melónur, vínber, bláber, ananas og klementínur. Spurning hvort ég fer og fæ mér meira?

Ég sé að fyrir utan gluggann fjölgar óðum litlum furðuverum með poka. Ég get leyft mér að hafa gaman af þeim úr svona öruggri fjarlægð en mikið svakalega er ég fegin að þurfa ekki að hlusta með stirðnað bros á vör á attikattinóa sungið 300 sinnum í dag og þykjast hafa gaman af því Tounge Ójá lífið er yndislegt InLove

Einhver sem getur sagt mér úr hvaða ljóði þetta er, hver samdi og hvað höfundur er að segja?


Aldur er afstæður

Ég vaknaði 157 ára í morgun og 2.564,5 kíló! Ef ekki hefði verið fyrir Stubbaling þá hefði ég dregið augað í pung og haldið áfram að sofa - allavega þar ég væri orðin 120 ára....... Pinch

Fór svo í leikfimi úr því að ég var hvort sem komin á fætur - ég yngist líka alltaf svo í leikfimi hjá Betu. Frábærir tímar í sundfimi og ég var ekki svikin af þessum! Að vísu var útiklefinn lokaður vegna vatnsskorts W00t Þannig að ég þurfti að dröslast inni með hinum kjéddlingunum. Það tók nú aðeins á konu komna á þennan aldur sjáðu til........ en slapp fyrir horn.

Ætla núna að fá mér staðgóðan morgunmat og byrja að vinna enda orðin næstum kornabarn.

Veriði stillt á meðan InLove


Klukkur með fjölskyldutíma..... ;)

Vaskdagur á morgun og ég er búin að keppast við í allan dag að gera allt klárt. Svei mér ef það er ekki að hafast..........

Keypti mér sixpack af svona "óútfylltum" bollum, eins og einhver kallaði þær Tounge Búin að borða þrjár af þeim og markmiðinu náð. Ég lýsi því hér með yfir að ég hef fengið ógeð á bollum. Ætla ekki að snerta þær fyrr en árið 2009 Whistling

Eldaði hrikalega góðan mat í gærkvöldi á meðan ég skáldaði hvað var í sjónvarpinu vegna þess að ég gleymi alltaf að fara og kaupa nýtt loftnet. Man það svo þegar ég kveiki á sjónvarpinu og sé skilyrðin en þá er búið að loka búðinni!! Pinch 

Hvað er með allar þessar nafngiftir á dögum núna. Vaskdagur, bolludagur, sprengidagur, öskudagur..... vantar bara fjölskyldutíma á klukkuna Halo

Annars bara rólegt InLove


Nú er hann enn á norðan, næðir kuldaél....

Ég sá í morgun þegar ég klæddi mig í skóna að það var komið gat á lopasokkinn minn. Mér leið eins og Krístján Fjallaskáld hefði ort Þorraþræl fyrir mig. Þrátt fyrir að ég, svona með sjálfri mér, hafi verið að snúa þunglyndislegum textanum yfir í erótíska klámvísu Wink Jafnvel gekk svo langt að ég sagði einhversstaðar að karlinn hefði alls ekki verið þunglyndur, hann hefði verið að gera gys að fólki og falið sína klámvísu í menningarlegum verðmætum. Held svei mér þá að hann hafi verið í fyrstu þorrablótsnefndinni..........Tounge

Úti næddi norðanvindurinn yfir móa og mel og í sálu minni var myrkt sem hel. Þessir sokkar hafa haft hlutverki að gegna í lífi mínu. Þeir hafa staðið með mér í gegnum þykkt og þunnt, súrt og sætt. Ég hef alltaf getað stólað á þá! Þeir þæfast ekki þó ég þvoi þá. Þeir þorna hratt og örugglega, ég sef í þeim, í erfiðustu sköflunum W00t Já, já ég upplýsi það hér og nú að á Þorranum sef ég í lopasokkum, djúpum og ermasíðum bol. Ekkert sexý á ferðinni þar!! En ég er þó í samstæðum nærfötum - klikka ekki á því, búandi á jarðskjálftasvæði......

Nú veit ég ekki mitt rjúkandi ráð. Man alls ekki hvar ég keypti sokkana. Sit hér og sveia sjálfri mér fyrir að hafa ekki keypt fleiri á sínum tíma. Nú þarf ég að henda þessum. Ekki get ég látið sjá mig í götóttum sokkum á almannafæri. Kona hefur nú orðspors að gæta!

Málið er að ég hef alltaf verið svona. Ég man þegar ég var lítil þá prjónaði mamma á mig peysu sem ég fór aldrei úr. Hún þurfti að þvo hana á nóttunni. Einu sinni gekk það meira að segja svo langt að ég harðneitaði að klæða mig fyrr en ég gæti farið í peysuna. Þá kom sér vel að hún átti þeytivindu, þannig að eftir það var peysan orðin þurr á morgnana þegar mér þóknaðist að klæða mig.  Þegar ég svo óx upp úr henni, þannig að ermarnar náðu mér aðeins í olnboga þá varð hún að prjóna aðra! Alveg eins - bara stærri! Ætli maður geti einhversstaðar fengið aðstoð? Svona ástfóstrafataaðstoð? Nú hef ég gaman af að kaupa mér ný föt, það er ekki málið - þótt ég, þegar grannt er skoðað, eigi þau kannski í mánuð eða tvo áður en mér finnst þau alveg vera "mín" og byrja að sjálfsögðu ekki að nota þau strax. Ekki fyrr en þau hafa kynnst hinum fötunum í skápnum.

Nú er þrennt í stöðunni; ég get tekið sjálfa mig taki, farið í aðra sokka og látið sem ekkert hafi í skorist - freeeemur ólíklegt! Ég get hætt að fara út - hugsanlegt í stöðunni, en ég nota þá jafnhliða inni, þannig að þetta ráð dugar skammt! Ég get notað sokkana áfram - með gatinu og reynt að þreyja þorrann - sem mér finnst aaaaafar ólíklegt!!

Ég er EKKI dramadrottning Tounge


Blíðan hefur margan manninn blekkt......

Lokharður Ljónshjarta hljóp á bíl í morgun!!

Hann á það til að elta bíla - ekki alla bíla samt, þannig að það er svolítið erfitt að bregðast við þessu. Í morgun varð ég of seint vör við bílinn og sá um leið á Stubbaling að hann hugsaði sér gott til glóðarinnar. Beið glaðvær á bak við skafl, stakk banana í eyrun og dillaði skottinu þegar ég hóaði í hann og stökk síðan af stað. Bílstjóranum náttúrulega brá og hægði á sér sem varð svo til þess að Ljónshjartað misreiknaði fjarlægðina og small á bílnum svo undir tók í fjöllunum. Hrikalega brá mér og bílstjóranum ekki minna!! Mér fannst ég vera stödd í mynd sem væri sýnd hægt. Bílstjórinn snarhemlaði og kom út en horfði þá á eftir Stúf sem hristi sig um leið og hann skokkaði til mín. Ég veifaði bílstjóranum að allt væri í lagi og vissi ekki hvort ég átti að skamma eða knúsa Ljónshjartað sem stakk trýninu undir handarkrikann á mér og vældi. Ég valdi síðarnefnda kostinn um leið og ég ákvað að ég færi ALDREI út með hann aftur.....

Nú liggur krúttið inni í stofu með bólgið trýni en það er það eina sem amar að honum. Merkilegt nokk. Ég hélt hann yrði að minnsta kosti haltur líka.

Samskipti mín við erlenda ríkisborgara verða meiri með hverjum deginum í nýju vinnunni. Síðan þeir uppgötvuðu tilvist mína hafa þeir í meira og meira mæli snúið sér til mín. Sumir vegna þess að ég get betur leyst úr þeirra vandamálum heldur en minn nýji yfirmaður (sagði hún hæverzk Joyful) en aðrir vegna þess að þeir halda að það sé svo þægilegt að eiga við konu......W00t Ég er nú snögg að spotta þá út og síðast í morgun talaði ég við einn sem taldi að hann gæti farið í kringum minn nýja yfirmann með því að tala við mig. Hann áttaði sig þegar ég, kurteis EN ákveðin sagði nei í þriðja sinn og það glitti í stál!! Enda í þeim branzal! Tounge

Eða eins og ein vinkona mín sagði við mig, fyrir mörgum árum, þegar við vorum að kynnast: "Fyrst þegar ég kynntist þér, hélt ég að þú værir svo blíð....... Ég held það ekki lengur!" Wink 

Nú ætla ég að fara og fá mér gott kaffi og rjómabollur. Hver veit nema ég gefi Stúfi Stubbalings hunang í leiðinni InLove

Vona að þið eigið góða helgi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband