24.6.2008
Smá leikur
Anna skoraði á mig að koma með gátu! Ég er náttúrulega eins og hin börnin og læt aldrei góða ögrun fram hér mér fara.........
Þannig að hér kemur gáta: Hvað er það sem blikkar og er gult, grænt, blátt, brúnt eða svart?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.6.2008
Snúrublogg!
Enn ein dásamleg helgin að líða! Ég er búin að afreka ýmislegt. Sló heimatúnið og drekkti ormum á Suðurtúninu - drakk bjór og dottaði yfir sjónvarpinu.
Ég sat úti í garði áðan með prjónana mína og íhugaði hvort ég ætti að nenna að skokka einn hring þegar skyndilega dimmdi yfir! Það fyrsta sem ég hugsaði var: ENGISPRETTUFARALDUR!! Jamm alfarið það fyrsta sem mér datt í hug, sitjandi á hjara veraldar......... Vitaskuld var þetta hins vegar þrumuskúr! Svo svakalegur að mér datt ekki einu sinni í hug að reyna að bjarga þvottinum inn af snúrunum. Muniði eftir laginu "....og það kom steypiregn og vatnið óx og óx...."? Mér leið eins og aðalpersónunni þar! Eina sem ég hugsaði um að forða voru konur og börn - í þessu tilviki hundur
Ég sumsé haskaði mér inn og bakaði brauð og rabbarbarapæ. Á meðan ég skar rabbarbarann íhugaði ég hvort það væri nokkuð mikið mál að útbúa rabbarbaravín........ Það getur varla verið... Rabbarbari, sykur og ger, ásamt dassi af þolinmæði. Hver veit nema ég einhendi mér í það? Hugsið ykkur allan fjölbreytileikann sem rabbarbari býður uppá...... Pæ, grautur og vín að ég tali nú ekki um að borða hann bara eins og hann kemur af kúnni. Vorkenni svolítið fólki sem heldur að það sé bara hægt að búa til sultu úr honum! Það er svona svipað og að gera það alltaf í sömu stellingunni, með ljósin slökkt......
Ég náði að síkríta þvottavélina úr garðinum! Var meira að segja svo öflug að á tíu mínútum buðust tveir til að losa mig við hana.... Verð nú að segja að ég sé svolítið eftir henni.... ég kíkti líka á hana þegar ég fór upp á hauga í gær. Við erum nú búnar að ganga í gegnum ýmislegt saman ég og Zanussi
Mér dettur hins vegar ekki í hug að segja ykkur hvað ég ætla að síkríta næst! Þá væri þetta orðin tveggja handa færsla Þið getið bara gizkað.........
Eitt er á hreinu! Ég skokka ekki í svona veðri - ég meina ég gæti hlaupið....
19.6.2008
Ögrandi samsæriskenning!
Það er verið að grípa miðaldra einstaklinga, bæði fyrir austan og í Keflavík, fyrir innflutning á eiturlyfjum! Þessir einstaklingar eiga það sameiginlegt fyrir utan innflutning á óþverra að koma frá útlöndum og vera kallaðir burðardýr.
Í framhaldinu hef ég smíðað afar ögrandi samsæriskenningu. Kenninguna hef ég kosið að kalla: Bjarndýr í burðarliðnum!
Þau synda á land, Guðeinnveit hvaðan, geðstirð og full af óþverra, móttökusveitin er löggæslan og á hliðarlínunni bíða helspenntir, fjársterkir einstaklingar tilbúnir til björgunar! Já...... - ég sé það í hendi mér að ef ég held áfram á þessari braut, mun ég eiga yfir höfði mér ákæru vegna meiðyrða!! Þ.e. ef einhver les bloggið mitt ;)
Ég geri þess vegna bara eins og Ragnar Reykás og vend kvæði mínu í kross, nú þegar strax og spyr: Hvers vegna eru hin burðardýrin ekki bara hnakkaskotin líka? Ég er alveg viss um að þau eru afar geðstirð sitjandi niðri á strönd...........
Finnst ykkur að ég ætti að skokka aðeins minna? Minnka súrefnisinntökuna.......
17.6.2008
Með fætur eins og veðhlaupahryssa.....
.....sagði amma mín eitt sinn þegar ég bauðst til að skondrast upp á háaloft fyrir hana að sækja eitthvað.
Ég stend mig að því að líkjast ömmu æ meir með árunum! Ég er farin að hljóma ískyggilega mikið eins og hún - tala um að fara inneftir og úteftir...... Veðrið er alltaf betra í mínu hverfi...... -og svo þessi óendanlega þrjózka sem ágerist fremur en hitt, ef eitthvað er, nema í minni sveit heitir þetta ekki þrjózka heldur stolt......
Amma fór aldrei út úr húsi nema vel tilhöfð - henni hefði aldrei dottið í hug að fara í Höfn með hárið út í allar áttir eins og Gilitrutt! Amma verzlaði aldrei í Kaupfélaginu - það var framsóknarbúðin, sjáðu til, og hún var sko sjálfstæðiskona fram í fingurgóma! Þar kannski skilur á milli, ég hef aldrei kosið sjálfstæðisflokkinn - held að það sé eini flokkurinn sem ég aldrei hef kosið!
Ég sé hana líka birtast í systrum mínum. Man þegar við Eygló vorum eitt sinn staddar í Hafnarfirði á sautjánda júní að horfa á einhver skemmtiatriði og skiptum um stellingu á nákvæmlega sömu sekúndunni og stóðum þá báðar eins og amma...... og flissuðum svo að því eins og hálfvitar
Á eftir ætlum við Ljónshjartað út að skokka í góða veðrinu. Ég þarf ekkert að passa á mér hnén - ég hef nefnilega fætur eins og veðhlaupahryssa
15.6.2008
Hamingjan.......
Ég endaði daginn á Gospel tónleikum hjá Hvítasunnunni! Gospel er tónlist sem fær mig til að líða vel inni í mér....... get ekki lýst því neitt öðruvísi!
Aldeilis frábærir tónleikar. Ég var með Ljónshjartað úti í garði og leyfði honum að taka allan þann tíma sem hann getur tekið sér til að hnusa af hverju strái og míga nokkrum dropum hér og fáeinum dropum þar....... á meðan hlustaði ég á hinn himneska söng sem barst mér úr - þarna var ég næstum búin að segja neðra...... en vitaskuld meina ég næsta húsi.......
Það eina sem mig vantaði var hvatningin að koma inn og hlusta og hún kom í formi konu sem er alltaf svo brosandi og blíð - það er hreinlega eins og að líta í spegil að horfa á hana Þarna var ég vitaskuld að djóka!! Allavega kom hún og bað mig endilega að koma inn og hlusta - það væru nokkur sæti laus! Eins og áður sagði - frábær tónlist og ég skal ekki leyna því að ég var stolt af frænda mínum sem kom upp og sagði nokkur orð! Langði mest að fara og knúsa hann svo montin var ég af honum
Nú sit ég og söngla - svona inni í mér - lagið sem greip mig í garðinum........ Veit ekki hvaða lag þetta er og kann ekki textann almennilega en er yfirmáta sátt við þvottavélina úti, sem og annað. Svona þarf nú lítið til að gleðja mig
14.6.2008
Ekki er loku fyrir skotið....
Ég náði næstum því að láta skrúfu eyðileggja fyrir mér daginn!! Það munaði, svei mér þá, ekkert rosalega miklu..........
Sagan hefst á því að í jarðskjálftanum hér um daginn, þeyttist millihurðin í kjallaranum upp hjá mér og ég þarf að skipta um loku. Fór í gær, eins og heiðvirðri húsmóður sæmir, og keypti nýja loku sem samkvæmt vísindalegum útreikningum passaði á hurðina Fór svo niður í dag eins og hver annar iðnaðarmaður og ætlaði að græja nýju lokuna á hurðina. Það reyndist öööörlítið flóknara en ég reiknaði með þannig að ég sendi mömmusinnardúlludúsk í verkið! Þegar hann hafði skilað af sér því sem hann taldi vel unnu verki kom í ljós að ég gat ekki opnað hurðina og því síður lokað henni
og gerðust þá konur fremur fúllyndar - að ekki sé nú meira sagt - þrátt fyrir að dúlludúskurinn teldi að ég kæmi til með að ráða ágætlega við þetta eftir ca. tuttuguogfimm ár eða svo.........
Til að gera langa sögu stutta þá endaði ég á því að fara út að skokka í klukkutíma. Kom til baka fallega fjólublá í framan og öllu minna geðstirð.
Mæli með skokki í stað geðshræringar - það er ólíkt betra fyrir þrýstinginn, fjölskyldulifið og útlitið! Þ.e. ef ykkur finnst fjólublátt fallegt........
Staðan er samt enn sú að það vantar fargins lokuna!
Þvottavélin er líka enn í úti í garði og leikur skrautmun - sem hún náttúrulega ekki er. Ég er búin að síkríta og síkríta einhvern til að flytja hana fyrir mig en ekkert gengur! Þetta endar með því að ég tek upp tólið og hringi eitt símtal.......
Hitti Krúsa krútt úti í búð í dag. Hann þekkti mig á töskunni......... Spáið í það - fólk tekur eftir töskunni en ekki mér Hvað segir það ykkur um töskuna mína?
Afrakstur dagsins! Ég á fallega rauða tösku og er lélegur iðnaðarmaður Eins gott að ég vinn ekki fyrir mér sem slík
11.6.2008
Ég get sagt ykkur það....
.... að ef ég væri persóna í bók eftir Snjólaugu Braga þá væri hávaxinn, herðabreiður, dökkhærður, myndarlegur maður búinn að banka uppá hjá mér og bjóðast til að fara með þvottavélina fyrir mig í járnagáminn!! Og fyrr en varði værum við farin að jagast um síðasta kexið í pakkanum og fjarstýringuna að sjónvarpinu um leið og ég ergði mig yfir því að hvítvínið væri alltaf búið. Ég væri búin að baka í frystinn og sulta og hann væri að tuða um pylsur og pakkajukk ..........
Skrats......
Mundi ég vilja vera þessi persóna? Hvað heldur þú? Fylgist með hinni æsispennandi framhaldssögu: Hvernig losnar Hrönn við ónýtu þvottavélina........?
Coming soon í alla betri bíósali
Já - ég gleymdi! Ég náði sambandi við Pólland í dag - ef þið höfðuð miklar áhyggur af því....
....Aldrei, hvorki fyrr né síðar hefur nokkur manneskja í Póllandi verið svona glöð að heyra í mér - enda hef ég aldrei hringt til Póllands fyrr Spurning um að hringja alltaf þangað ef ég er niðurdregin?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
11.6.2008
Skellitöflur úr ljóði dagsins
Ég skellti niður kartöflum í gær! Ég ÆTLA sko að bjarga hagvextinum - var ekkert að grínast með það. Er að vísu u.þ.b. tveimur vikum á eftir áætlun og kannski má rekja nýjustu hækkanir á benzínverði beint til þess?
Næst liggur fyrir að versla kál hjá Ingibjörgu í Hveragerði - sem er eini Hvergerðingurinn sem ég verzla við og stinga niður við hliðina á kartöflunum. Kálinu sko - ekki Hvergerðingum! Ekki viljum við nú að þeir fari að fjölga sér........
Fordómar! Skordómar.......
Sáði líka kryddjurtum í potta - aftur..... Var nefnilega svo til nýbúin að því hér um daginn og ákvað svo að láta pottana út á pall í góða veðrið þannig að moldin gæti hitnað í sólinni og vöxtur hafist og allt það þegar jörð hóf að hristast og skjálfa og pottarnir hentust eitthvað út í garð og tæmdust Ef ég er heppin þá næ ég að slá steinselju og myntu í haust!
Er að reyna að ná sambandi við Pólland en það svarar mér ekki nokkur maður! Vitiði hvað klukkan er í Póllandi? Er matur hjá þeim líka? Eru þeir kannski eins og Seyðfirðingar og breyta klukkunni bara ef þeir eru svangir eða langar í sól?
Birti hér eitt vísukorn enn úr ljóðinu sem enginn hver orti! Nema ég Þetta er úr kvæðinu Jörð eftir Einar Ben.
Þín sanna dýrð, hún skín í hilling hæst,
þar hvelfast skýjaborgir. Og þær standa.
Á meðan grjót og múrar hrynja í sanda,
rís munans höll þeim trausta grunni næst.
þann skáldagrunn, sem lýsir loftin fjærst,
er lengst að má úr heimsins dánarsögum.
Því verður list vors lífs hið fagra að dreyma
í lit, í máli, í hljóms og sjónar brögum.
Þín fegurð öll er undir djúpum lögum,
sem andinn veit, en hjartað þarf að gleyma.
Njótiði dagsins - hann er ekki sem verstur
7.6.2008
Björn Bjarnason ;)
Kvennahlaupið gekk stórvel. Við systurnar ingúdsheip hlupum náttúrulega lengstu vegalengdina, þrátt fyrir hrikalega liti á bolum - og komum EKKI síðastar í mark.........
Síminn hennar Möggu hringdi þegar við vorum svo til nýkomnar á leiðarenda og mér varð að orði: Sjúkket að þú varst komin í mark maður! Er enn að flissa að því hvað ég var fyndin, alls óforvandis
Er búin að redda mér kerru fyrir morgundaginn. Nú skal mokað út úr kjallaranum svo þvottavélin komist inn. Gengur heldur ekki að hafa kjallarann í skralli nú þegar ég er búin að koma hæðinni í skikkanlegt horf!
Ég sé að fólk er farið að leggja í langferðir á stóru jeppunum sínum með ennstærri fellihýsin sín í eftirdragi eða á húsbílunum sínum sem sóta svo svakalega að það þyrfti að sækja um undanþágu frá Kyoto samþykktinni fyrir þá....
.....var einmitt að hugsa það í dag að ef ég færi í útilegu með mitt tjald - já, ég sagði tjald Þá yrði ég líklega tekin í misgripum fyrir útlending! Það væri þá líkt og þegar við fórum til Danmerkur árið 2000 og eitt kvöldið þurftum við í þvottahúsið í sumarhúsabyggðinni sem við gistum þá vikuna og ég lagði blátt bann við því að eitt einasta íslenzkt orð kæmi út fyrir varir samferðamanna minna þegar ég heyrði að allir Íslendingarnir sátu á barnum! Ekki það að mér leiðist neitt drukknir samlandar erlendis....... alls ekki
Áttaði mig ekki á því fyrr en seinna að ég var í bol sem á stóð: BRÚARHLAUP SELFOSS 1999
En við töluðum dönsku.............
Las það í blaði í dag að einhver fræg leikkona í útlöndum segir að hún geti ekki eldað mat vegna þess að hún sé svo góð í rúminu! Það sé ekki hægt að vera bæði góður í rúminu OG eldhúsinu.....
.....ég segi nú bara HAH!! Með vænu dassi af hæðni. Ég veit nefnilega betur