Færsluflokkur: Gæludýr
29.8.2007
af pæjum og prökkurum
Hætti snemma í vinnunni í dag. Stubbalingur varð voða glaður þegar ég kom heim - en það er nú svosem ekkert nýtt. Hann er alltaf glaður þegar ég kem heim, sem verður til þess að ég verð alltaf glöð þegar ég kem heim...........
Bakaði rabbarbarapæ í eftirrétt í kvöld. Það vakti gríðarlega lukku og það er nóg til frammi ef einhver er svangur.....
Kötturinn í kjallaranum var með smá show um daginn og ég náði að festa það á filmu
Það er enn fremur þungt í mér... náðuð þið þessu? Er að spá í að fara að halla mér og kíkja í hina æsispennandi bók Blóðberg, eftir Ævar Örn Jósepsson.
Var að horfa á Kastljósið áðan. Það voru Helga Möller og hann þarna maður - man aldrei nöfn á fólki - að syngja um að ég væri sætasta stelpan á ballinu...........
....fallegt af þeim að syngja lag um það
Gæludýr | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.8.2007
Morgunþoka
Fór í langan göngtúr upp með á í svartaþoku í morgunsárið. Stubbalingur skondraðist um í rennblautu grasinu sem náði vel upp fyrir hann á stundum.
Var alveg sannfærð um að ég væri með lungnabólgu þegar ég vaknaði en það rjátlaðist af mér í þokunni Ætla samt að sjá til um hádegi hvort ég þrauka allan daginn í vinnu.........
Vitiði um einhvern góðan lækni?
Gæludýr | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
16.8.2007
Áflog og áheit.....
........af hverju er blóð á bróður mínum? Spurði einkasonurinn þegar ég sótti hann í vinnuna......
Ég leyfði litla kút að liggja á pallinum og virða fyrir sér umferðina eins og hann gerir svo oft á meðan ég undirbý matinn. Allt í einu heyrði ég gjamm og urr, stökk út, og sá að litli drengurinn minn var kominn í hávaðaáflog við tvo bolabíta. Ég sveif niður tröppurnar - ég meina það ræðst enginn á litla saklausa stúfinn minn og kemst upp með það - og gaf öðrum bolanum drag í afturendann, algjörlega hamslaus.....
"Ekki sparka í þá" sagði konan sem var að reyna að ná þeim í burtu frá litla stubbaling. "Reyndu þá að hirða þessa varga þína" sagði ég, ekki svo blíðlega enda lá stúfurinn undir þeim báðum og grét á meðan annar reyndi að rífa af honum eyrað og hinn beit hann í makkann, ég sparkaði aftur....
"Hann kom bara allt í einu" sagði konan eymdarlega um leið og hún togaði í rófuna á öðrum skelfinum..... "Hann á heima hérna" sagði ég og var allt í einu orðin jafn grimm og hundarnir hennar......
Stúfurinn kom svo nötrandi af skelfingu með mér inn þegar konan var loks búin að ná vörgunum sínum.
En hann er svo sem búinn að jafna sig. En rosalega varð ég snöggreið, enda hefur saklausi engillinn minn ábyggilega ekki gert neitt til að ögra þeim...... eða þannig sko! Við erum nú ekki þekkt fyrir það í þessari fjölskyldu að ögra.......
Fékk atvinnurekandann til að heita á mig fyrir hlaupið á laugardaginn. Þeir voru aðeins að tuða um að 10 km. væru nú ekki nóg......Þar til ég bauð þeim að hlaupa með mér. Þá væri hægt að styrkja okkur öll......
Þeir voru ekki aaaaalveg tilbúnir í það, strákarnir!
Sé núna að þeir eru búnir að ganga frá sínu áheiti.
Á morgun fer ég í langþráða klippingu og litun. Ég er orðin eins og hver annar hippi. Með hárið út um allt. Ætla sko að lúkka vel í hlaupinu. Eða eins og maðurinn sagði: "Ég verð kannski ekki fljótur að hlaupa en ég kem til með að hlaupa fallega"
Ég ætla að gera þessi orð að mínum með smá breytingum..... ég kem nefnilega til með að hlaupa falleg
Gæludýr | Breytt 17.8.2007 kl. 07:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
27.7.2007
Dagrenning við ána
Gekk upp með á í morgunsárið með Ljónshjartað. Stafalogn og sólin reyndi að brjótast fram úr skýjunum. Engin á ferli - bara ég og hundurinn. Frábærir svona morgnar......
Fór svo í vinnuna og þar var sama geðveikin og venjulega. Lét sem ekkert væri og tók fullan þátt í hasarnum. Aðal vertíðin er núna og við erum tíu í vinnu - átta í sumarfríi. Ég byrja klukkan 08:05 að svara reiðum mönnum og hætti því klukkan fimm......
....segi svona, þeir eru nú ekki allir reiðir. Sumir eru meira að segja skemmtilegir og aðrir eru alveg uppáhalds.........
Þegar svo klukkan slær fimm og ég kemst út aftur, óma símhringingar í eyrunum á mér í ca. klukkutíma eða svo. Þá er gott að fara út að hlaupa með stubbaling sem týnist í grasinum meðfram ánni
Hérna hittum við tík í gær - lyktin af henni er greinilega hér enn.....hún synti út í allsendis óhrædd eftir trjágrein og Ljónshjartað var frekar hneykslaður á að enginn hefði sagt henni að áin væri hættuleg..... stal svo af henni greininni þegar hún kom í land.
Bezt að stilla sér upp úr því hún ætlar ekkert að hætta að taka myndir.........
Gæludýr | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.7.2007
Draugar, skokk og ungir drengir
Búin að fara út að hlaupa alla vikuna - nema í dag. Í dag kom ég heim eftir vinnu lagðist upp í rúm og sofnaði.......
Hef hlaupið eins og skrattinn sé á hælunum á mér - það skal tekið fram að ég er ekki mjög hrædd við hann..... í gegnum skógræktina upp að helli. Rúma fjóra kílómetra. Ég gæti verið komin á Hellu núna.....allavega að Þjórsárbrú
Alla dagana hefur Magga komið með nema í gær, þegar hún sveikst undan merkjum - les. þurfti að vinna!
Sagan segir að í hellinum sé reimt, þar hafi ungur drengur í ástarsorg hengt sig í bláum trefli og sjáist síðan vafra um skóginn í nágrenni hellisins.
Í gær hitti ég þar fjóra unga drengi á hjólum. Spurði þá hvort þeir hefðu séð strákinn með bláa trefilinn. Þeir veltu því fyrir sér smástund hvort ég væri skrýtin, ákváðu svo að taka enga sénsa og kváðu nei við. Spurðu mig síðan hvort hann hefði virkilega hengt sig í hellinum - eins og þeir héldu bókstaflega að ég myndi eftir því......
Ég sagði: já, já, hann gerði það og að ég hefði líka komið þarna í gær að leita að honum og hann hefði heldur ekki verið þar þá..... Þeir brostu voða sætt til mín og einn spurði: En hvernig gat hann hengt sig inni í hellinum? Í hvað gat hann fest trefilinn?
Efahyggjumenn.............
Hef að sjálfsögðu tekið stubbaling með mér alla dagana. Hann er nú ekki par hrifinn af bílnum hennar Möggu! Þykist ekki sjá hann né heyra í mér þegar ég segi honum að koma. Svolítill Lúkas í honum
Knús
Gæludýr | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)