Lyklarnir í lífi mínu

Hafiði tekið eftir því að líf ykkar snýst um lykla? Þú þarft lykla að húsinu þínu, bílnum þínum, vinnunni þinni, auðkennislykil í bankanum, lykilorð eru út um allt og það er algjörlega til að æra óstöðugan að muna öll þessi ósköp. Ég aðstoðaði eldri konu um daginn - já ég veit - ég er rosa góð. Hún stóð við benzíndælu með dælulykil - einn lykillin enn - og vissi ekki hvernig hún átti að snúa sér. Þegar hún var búin að dæla benzíni á sinn bíl - dældi ég á mömmu bíl og fór að velta því fyrir mér hvernig heimurinn yrði eftir ca. tuttuguogfimm ár, þegar ég verð komin á aldur eldri kvenna.

Sú hugleiðing endaði með bæn um engar frekari  tækniframfarir fyrr en eftir minn dag. Er þetta ekki líka orðið gott bara? Ég allavega nenni ekki að standa einhversstaðar með ókennilegan hlut í höndunum og bíða þess að góðhjörtuð kona komi sem ég hugsanlega þori að biðja um aðstoð...... Ég meina ég er rosa tæknivædd, á mp3 spilara og allt Tounge Ég veit samt að Dúlludúskurinn er ekki sammála mér varðandi tæknivæðsluna. Hann nefnilega bað um að fá lánaðan minnislykilinn, jú, jú þar kom enn einn lykillinn..... minn um daginn og spurði í leiðinn hvað hann væri stór. Honum var ekki skemmt þegar ég gerði ca. 3ja sentimetra bil á milli vísifingurs og þumals og sagði: "ca. svona...." Sideways


Íslenskt mál

Ég varð alveg sérdeilis forviða þegar ég, eldsnemma í morgun, ætlaði að sækja mér Fréttablað í kassann handan við hornið. Hann var nefnilega tómur. Ég hugsaði svo sem ekki mikið meira um það en einbeitti mér þess í stað að orðinu forviða. Hvaðan kemur þetta orð? Forviða! Nákæmlega hvað er að vera forviða og í hvaða samhengi er þetta orð komið inn í íslenskt mál? Maður spyr sig margra spurninga og klukkan ekki einu sinni orðin átta.

Þegar ég kom síðan niðr´í vinnu hafði einhver tekið saman allan þann bunka af Fréttablöðum sem safnast hafði upp undanfarna daga og vikur. Ég leit á bunkann og það hvarflaði að mér að taka blöðin og stinga þeim í títtnefndan kassa handan við hornið LoL Haldiði að fólk hefði ekki orðið forviða Tounge þegar það uppgötvaði að það væri að lesa blað gærdagsins eða síðustu viku. Mér finnst hugmyndin ennþá mjög góð - en ég nennti ekki að hrinda henni í framkvæmd.

Lífið gengur sinn vanagang - ég vakna, vinn og læri, læri, læri, sofna. Vakna, vinn....... Ég var algjörlega að brillera í dönsku áfanganum enda ekki margir sem hafa lagt það á sig að sofa hjá dana til að ná afturbeygðum fornöfnum lýtalausum Tounge Já... krakkar mínir, fórnirnar sem þarf að færa í þessu námi eru margar en mismiklar.

Þetta blogg er í raun gáta - ef þið takið upphafsstaf hverrar setningar þá fáið þið nafn á frægu fyrirtæki á Íslandi.

Góða skemmtun.

 


ég var að hugsa það um daginn...

...þar sem ég sat í bílnum og beið eftir að komast yfir veginn heim til mín og allir hinir bílarnir voru að þvælast fyrir mér, að mér væri margt betur gefið en bíða. Ég sver það ef ég kæmist yfir forgangsljós - þið vitið þessi bláu..... þá mundi ég tengja þau eins og hvern annan staðalbúnað þannig að það kviknaði á þeim um leið og öðrum ljósum. Svo mundi ég bara bruna alveg víuvíuvíuvíu allra minna ferða og allir hinir yrðu að bíða.

Ég mundi jafnvel taka þau með mér inn í Bónus líka Cool 


Ég held ég hafi sagt ykkur það áður...

...en ég stend mig að því að verða alltaf líkari og likari ömmu minni á Austurveginum. Ekki eingöngu vegna þess að ég bý líka við Austurveginn heldur í talsmáta. Hún talaði alltaf um að fara úteftir og inneftir. Í dag sagði ég Dúlludúsknum að ég gæti skutlað honum úteftir og deplaði ekki auga á meðan - en varð hugsað til ömmu..... 

Mér varð líka hugsað til hennar í sumar þegar ég í eitt skiptið var að skutlast á Grundarfjörð með Dúskinn og við höfðum keyrt fram á árekstur á Kjalarnesinu og síðan mætt líkbíl skömmu síðar og mér varð að orði að þetta væru tákn um að við hefðum átt að halda okkur heima. Dúskurinn svaraði mér að bragði og sagði: "Þú ættir þá kannski að byrja á því að hægja á þér þú ert að keyra fram á hraðamyndavél....." af tillitsemi við mömmu ætla ég ekki að tíunda hvað stóð á hraðamælinum. Ekki það að mamma gæti sagt mikið. Fræg er sagan af henni þegar hún sagði við pabba: "Bíllinn fer alltaf að titra svo mikið þegar ég er komin í 110.... "Cool Amma var nefnilega líka hörkubílstjóri, keyrði eins og herforingi um allar trissur. Fólk var samt ekki endilega æst í að verða samferða henni - í bíl allavega ;) Ég man til dæmis eftir einu skipti þegar við mamma vorum úti í Höfn - sem bæ þe vei er búð sem ekki er til lengur - ég man svo sem ekki lengur hvað við vorum að gera þar nákvæmlega enda kemur það sögunni í sjálfu sér ekkert við. Enívei vorum við þar fyrir utan og vorum á leið út í kirkjugarð. Átti þá ekki amma leið hjá og vildi endilega skutla okkur út í garð. Mamma var ekkert himinlifandi en ég sagði henni að hafa engar áhyggjur. Við gætum haft grafskriftina hennar: "Hún var á leið þangað hvort eð er."

Ó... og svona til öryggis ef löggan les þetta - þá er helmingur sem ég skrifa lygi og hinn helmingurinn uppspuni Sideways 

Lifið heil. 


Hér eru ber um ber frá berjum til brjálæðis

Hvurslags berjabrjálæði hefur gripið þjóðina? Ég bara spyr!

Ég lét freistast - fór að vísu ekki í berjamó en keypti ber í búðinni Cool Jú jú það má hæglega misskilja þetta - þið gerið það þá bara sem eruð þannig þenkjandi - við hin höldum áfram að verzla í fötum Tounge

Talandi um fötur - ég sendi mömmusinnardúlludúsk út að grafa holur í rigningunni á laugardaginn - ég get sagt ykkur að það rigndi eldi og brennisteini....... allavega, ég sagði honum að ég ætlaði að veiða hvítasunnumenn í holurnar en vitaskuld gróðursetti ég þyrnigerði - ég meina, það er nóg til af hvítasunnumönnum - síðan hefur ekki rignt og ég hef þurft að bera vatn í tíu lítra berjafötu til að vökva þyrnigerðið - eins og ég kýs að kalla rósarunnana mína.

Þetta var nú bara svona smá útúrdúr - hvað var ég aftur að tala um? Já ber...... sumsé síðan ég fór þarna í búðina, hef ég sett bláber út á ab mjólkina mína á hverjum morgni og með þessu hef ég drukkið bláberjasaft. Nú er svo komið að ég vakna klukkan fimm á morgnana í stað sex - sem þótti nú yfrið nægilega snemmt - og vaki fram að miðnætti án þess að geyspa, hvað þá meir.

Hér með dreg ég úr neyslu á berjum og sný mér í svefnátt......

.....sem er gagnstæð humátt Sideways 

 

 


Ber allt árið!

Fyrir Halldór - yfirtuðarar Íslands

Ég kom við í vermireitnum mínum í morgun og kippti með mér pattarlegum jarðarberjum út á ab mjólkina. 

Hér til hliðar er mynd af þeim fyrir vini mína Halldór Tuðs og Cesil Tounge

Ég er að lesa Brekkukotsannál, svona í tilefni þess að skólinn er að byrja, og þar datt ég aldeilis ofan á gott ræktunarráð. Í sögunni þeirri kemur nefnilega fyrir gamall maður sem staðsetti járnhlemm í kartöflugarðinum hjá sér því hlemmurinn drægi að sér hitann úr sólinni... Snilldarráð og ég er staðráðinn í að næsta vor fylli ég garðinn umhverfis vermireitinn af hlemmum - nota bara hlemmana af holræsunum og fæ helling af jarðarberjum.

Talandi um skólann þá get ég ekki látið hjá líða að nefna að ég tók saman „gömlu“ skólabækurnar frá í fyrra og arkaði í A4 - einu ritfangaverslunina hér austan heiða - og ætlaði að kanna hvað ég fengi af skólabókum sem ég þarf að nota í vetur og komst þá að því að A4 selur ekki eina einustu skólabók! Ekki einu sinni kápulausar kiljur! Þar fór nú auglýsing „allt fyrir skólann“ fyrir lítið.

Hnuss hvað ég varð hneyksluð Sideways Ég varð hreinlega að fá mér fleiri jarðarber til að draga úr hneyklan minni Tounge 

Það lítur allt úr fyrir góða berjasprettu - hvort sem það eru jarðarber eða önnur ber - og ég stefni hraðbyri á berjamó, jafnvel um næstu helgi. Ég skelli þeim svo bara í frystinn og borða ber fram að áramótum. Allavega!

Góðar (berja)stundir. 

 

 


Me and my friend Ben...

.....skaust á Stykkishólm í gær að sækja Dúlludúskinn. Á leiðinni krufði ég samband karla og kvenna og komst að því að hamingja karla er alfarið komin undir konum. Segi ykkur kannski nánar af því síðar Cool 

Þegar ég var við Fáskrúðarbakka hringdi vinnufélagi minn í mig og spurði mig hvar ég eiginlega væri. Ég sagði honum að bóndinn á Rauðkollustöðum hefði beðið mig að koma og slökkva eldana sem loguðu í mónum hjá honum og svo ætti ég stefnumót við Ben Stiller í Hólminum klukkan sautjánhundruð - sharp.... Maður lýgur að fleirum en fimm ára og gerir nú annað en stemma af lánadrottna sjáiði til Sideways

 Ég tók upp tvo puttaferðalanga við Vegamót. Þeir voru á leiðinni á Grundarfjörð að skoða Kirkjufell og ætluðu síðan að kíkja á Snæfellsjökul. Ég sagði þeim að Ben  væri á Stykkishólmi en þeim var undarlega alveg sama. Þeir sögðu mér að þeir væru frá Eistonia og ég flissaði með sjálfri mér alla leið yfir nesið. Sat samt á mér að biðja þá að syngja.....

Stykkishólmur

Rosalega fallegt í Stykkishólmi. Ég skokkaði upp á Stykkið - eða hvað það nú heitir bjargið fyrir ofan höfnina og þvílíkt útsýni - maður minn. Ég stakk því að Dúskinum að hann fyndi sér skipstjóradóttur að búa með í Hólminum. Hann tók fálega í það enda miklu skemmtilegra að búa með Mömmu sinni Tounge 

Hann sagði mér hinsvegar frá „sérvitri“ konu sem býr niðri við sjóinn í stóru, fallegu húsi hvar hundurinn hennar býr í íbúð á neðri hæðinni..... Ég sagði honum að ég hefði nú alltaf ætlað að vera þessi kuldalega kéddling á klöppinni en ef einhver önnur væri búin að byggja húsið gæti ég svosem alveg búið þar líka. Við kíktum aðeins á nunnurnar og Dúskurinn sagði mér að hann hefði í fyrsta skipti á ævinni séð nunnu þarna. Já.... maður lærir margt á sjónum ;)

Á leiðinni heim vorum við að hlusta á fréttir þar sem m.a. kom fram að öryrkjabandalagið ætli að kæra forsetakosningarnar og enginn vissi hvernig ætti að snúa sér í því. Einkasonurinn hlustaði á fréttaflutninginn og sagði: "Ha... heyrði ég rétt....?" "Já, já," sagði ég og útskýrði fyrir honum að fötluðum fyndist á rétti sínum brotið með fyrirkomulagi kosninganna. 

Og þá sagði Dúskurinn þau fleygu orð sem sannfærðu mig um, á einu augabragði, að hann væri svo miklu, miklu skyldari elstu systur minni - sem vildi alls ekki að Bessastaðir yrðu útbíaðir í kúkableyjum -  en mér.

Hann sagði nefnilega af mikilli sannfæringu: "Ég vissi ekki að fatlaðir hefðu kosningarétt  - ég meina ef þú getur ekki exað sjálf/ur þá hefur þú ekkert í kosningaklefann að gera!" 

Ég flissaði alla leið í Borgarnes og þakkaði Guði fyrir að formanni öryrkjabandalagsins hefði ekki verið boðið í þennan bíltúr. 


Ég fékk mér rúsínur...

...í kaffitímanum - sem væri nú kannski ekki í frásögur færandi - nema fyrir það að ein rúsínan stóð í mér. Þar sem ég stóð, blá í framan og hóstaði um leið og ég reyndi að ná andanum, velti ég tvennu fyrir mér; annars vegar því hvort ég ætti að hringja í Sigrúnu, bekkjarsystur mína úr Keili frá því í vetur, en hún er þekkt fyrir að láta það sem vind um eyrun þjóta þegar fólk er að kafna í návist hennar - allavega þegar hún er í prófi Wink Við hlógum ekki lítið að því í vetur þegar ein af okkur, ég nefni engin nöfn en fyrsti stafurinn er Svava Tounge mætti með Bananakúlur í próf og svelgdist svo á einni - sat nálægt Sigrúnu og hún tók ekki eftir því þegar hin blá í framan reyndi að vekja athygli einhvers á því að hún væri nánast að kafna.....

Hitt sem ég var að spá þarna sem ég stóð og velti fyrir mér möguleikunum á að Sigrún áttaði sig ef ég hringdi í hana blá í framan var hvort það hefði kannski verið betra fyrir mig að fá mér klaka. Í alvöru - hvort haldiði að gerist fyrr - maður kafni af klaka eða hann bráðni - og þá er ég að tala um svona venjulega hómmeid ísbakka klaka.

Ætli það hafi verið gerð einhver rannsókn á þessu? 


Ég mátti...

...taka á honum stóra mínum fyrr í kvöld. Ég skrapp nefnilega til Grundarfjarðar og þurfti að bruna í gegnum göngin undir Hvalfjörð tvisvar - spáið í það - tvisvar sama kvöldið... konan sem þolir ekki þessi göng! Og hvað er málið með þessa hlíð með rúllandi steinum þegar maður er rétt sloppinn lifandi úr göngunum? Var ekki bara hægt að hafa þessi göng aðeins lengri? Ég er bara svo aldeilis rasandi....

Ég skrapp sumsé á Grundarfjörð í kvöld - þið getið sett skrapp í gæsalappir ef þið viljið - það veit sá sem allt veit að ég nenni því ekki Tounge Svo er það nú eitt! Hafiði spáð i það þegar gæsalappir eru gefnar út í loftið? Af hverju beygir fólki löngutöng og vísifingur tvisvar? Það er ekki eins og það séu fjórar gæsalappir! Hvaða bull er þetta? En aftur að sögunni.... mikið rosalega er þetta falleg leið! Þrátt fyrir að flest bæjarnöfn séu stolin af Suðurlandinu nema einna helst Fáskrúðsbakki Tounge

Talandi um bull! Hver ákvað að hámarkshraði í Hvalfjarðargöngum yrði 70 km/klst? Ég sló ekki af fyrr en Mömmusinnardúlludúskur bentir mér á að það væru myndavélar við hverja öldu..... Væri ekki frekar málið að standa drusluna eins og hún dregur í gegn? Ég er að segja ykkur þið eruð undir SJÓNUM? Ég meina 70 km. pr. klst? Hvað haldið þið að sjórinn væri lengi að ná ykkur?

Bara svona cirka..... en þó gæsalappalaust?


Af hetjum og hugarvíli

Ég er að lesa bókina Hetjur og hugarvíl eftir Óttar Guðmundsson. Mæli með þessai bók - hún er sjúklega góð LoL

Ég veit ekki hvort þið sáuð þá í sjónvarpinu um daginn, Óttar og Guðna Ágústsson þar sem Guðni horfði hneykslaður á Óttar lýsa skoðun sinni á því að Njáll á Bergþórshvoli hefði verið hommi. Guðni skældi sig ógurlega og spurði Óttar hvort eitthvað væri eðlilegra en vinskapur á milli tveggja manna? Og ég flissaði......

Ég flissaði aftur þegar ég las kaflann um persónurnar í Brennu- Njáls Sögu. Líka þegar ég las lýsinguna á Skarphéðni Njálssyni og hvað hann hefði helst afrekað í lífinu. Honum er lýst sem: „vöskum manni, óráðþægum og þverum í lund, ógæfulegum í útliti, stórskornum, kjaftforum og stóryrtum. Hann hafi alltaf verið í miklum metum og væri opinber fyrirmynd ungmenna á Suðurlandi þar sem Héraðssambandið Skarphéðinn ber nafn hans. Helstu afrek Skarphéðins í sögunni eru víg Þráins Sigfússonar á Markarfljóti og löngu síðar sonar hans, Höskuldar Þráinssonar, sem hafði skelfilegar afleiðingar.“ Já.... það er ekki leiðum að líkjast Tounge

Það hvarf hins vegar úr mér flissið þegar Óttar fór að lýsa mínum uppáhaldskarakter í Íslendingasögunum; Agli, vini mínum, Skallagrímssyni.

Ég hef dáðst í laumi að Agli allt frá því ég kynntist honum veturinn 1978 á Laugarvatni og hef ég leitað að honum logandi ljósi en ekki fundið enda vandfundnar þvílíkar hetjur. Ég endurnýjaði kynni mín við Egil í vetur þegar ég las sömu bók í íslensku á Keili. Flissaði aftur að því sem ég hafði krotað á spássíuna. Ég hef snemma byrjað að vera fyndin Cool Til dæmis hef ég teiknað hjarta og inn í það skrifaði ég Skallagrímur + Bera Elíf ást..... Já.... minnistæknin brást ekki þá frekar en nú - ef hægt er að hlæja að því þá man ég það Sideways Á öðrum stað hef ég krotað „Þetta er ótrúlegt“ en það er á þeim stað í sögunni þegar Egill og Atli hinn skammi eigast við í hólmgöngu á Gula þingi en þar bítur Egill Atla á háls þegar hvort exi né sverðið vinna á honum.  Já... eitthvað hef ég verið vantrúuð á söguna og kannski eins gott að ég fann ekki Egil á sínum tíma. Ég hefði flissað góðlátlega að honum þegar hann hefði komið heim með þessa sögu og líklega verið drepin fyrir vikið. Egill var svosem ekki þekktur fyrir gæzku sína né stöðugleika í skapi - svo ekki sé nú meira sagt. En hann var ansi góður að endurnýta kvenfólk. 

Hluti af því sem heillaði mig í Egilssögu eru þessu endalausu uppnefni; Atli skammi - hann hefur líklega verið aðeins of stuttur.... Göngu Hrólfur..... Kveld Úlfur...... Mér fannst samt bezta nafnið í Egils Sögu vera Bjálfi - en það var bara ekki uppnefni..,,

Ég var enda snögg að finna nýtt nafn á kennarann, ég kallaði hann Þorstein Gæsalöpp - enda var honum mjöööööög annt um að viið kynnum að setja réttar gæsalappir Halo

En sumsé ég týndi flissinu þegar ég las skrif Óttars um Egil: Hann greinir hann siðblindan með mótþróaþrjózkuröskun og alkóhóllista í þokkabót! Ég spyr nú bara og skæli mig í framan; Þarf maður endilega að vera mótþróaþrjózkuraskaður alki þótt maður vilji sigla með víkingum og höggva mann og annan? Ég vil ekki heyra eitt hnjóðsyrði um Egil. Ekki eitt!!

Sjúkkett að mamm´ans kunni að meta hann W00t 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband