Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
14.11.2007
Málvísindi
Fór í bíltúr í sveitina í gær. Ætlaði að ganga þar upp á smáhól, sem stendur þar sem kartöflugarðarnir voru eitt sinn og gefur útsýni vítt og breytt um Flóann. Kom allsstaðar að lokuðum hliðum og ef þau voru ekki læst með keðjum og hengilásum þá stóð á þeim EINKAVEGUR. Mér fannst þetta frekar hrannarlegt (nýyrði - ekki stafsetningarvilla). Vita bændur ekki að orðið bóndi er dregið af bondi-ng sem þýðir aftur tenging? Þeir misstu illilega af mér í þetta sinn einhleypu strákarnir niðri í Pörtum og eru líklega í bútum síðan.........
Skil ekki af hverju ég er ekki í málvísindum!!
Við Stúfur ákváðum þá að fara í staðinn og kíkja á vitann sem stendur þar skammt frá. Ég skakklappaðist upp að vitanum á meðan Ljónshjartað hljóp þrisvar fram og til baka. Kom mér á óvart hvað sjórinn var nálægt!! Já - ég veit - oft eru vitar nærri sjó....................
Tók nokkrar myndir af vitanum og fjörunni. Stóð svo og andaði að mér ferskum sjávarilminum og flissaði að krumma sem reyndi að lokka Ljónshjartað með sér út í óvissuna. Einhvern tíma hefði honum tekist það en í dag er Lokharður Ljónhjarta lífsreyndur hundur og stökk bara nokkur skref á eftir krumma Hinsvegar elti hann gamla manninn, sem birtist allt í einu, át off nóver, næstum á Stokkseyri og steingleymdi með hvaða hóp hann fór í ferðina. Það var ekki fyrr en ég snéri upp á mig og gaf gamla manninum hundinn að hann snéri tilbaka.
Uppgötvaði svo í morgun að ég hafði einhversstaðar í ferðinni týnt vettlingunum mínum. Þetta eru forláta rauðir fingravettlingar með rúbinsteinum í bryddingunni sem ég keypti dýrum dómi á Kastrup. Nú er tvennt í stöðunni: Ég get farið aftur niðr´eftir og kíkt eftir þeim og vonað að strákarnir séu búnir að opna svo ég geti notað ferðina....... eða notað þetta sem ástæðu til að hringja í sæta bílstjórann minn og beðið hann að svipast um eftir glampanum af eðalsteinunum þegar hann rennir um sveitina. Gefið honum svo kaffi, pönnukökur og heimabakað brauð þegar hann kemur færandi hendi með þá rauðu
Háisþatforaplan?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
13.11.2007
Debet og Kredit
Sat þrjózkuleg á heilsugæslustöðinni í tvo tíma í morgun. Heimtaði að hitta lækni, sagðist ekki fara heim fyrr en ég væri búin að því og mér væri alveg sama þótt það væri enginn læknir á vakt!!!
Endaði náttúrulega með því að ég fékk að hitta lækni, sem þuklaði á mér fótinn alveg þar til ég sparkaði í hann og sagði að þetta væri vont, hann sendi mig þá í myndatöku og sagði mér svo að fara heim og hætta þessu snökkti, það væri ekkert að mér Er stórfé fátækari á eftir.
Hinsvegar græddi ég tvennt - eða þrennt ef ég tel allt með.
a) Karlmaður þuklaði á mér só vott þó ég hafi þurft að borga honum fyrir það, ég hef heyrt af ríkum kjéddlingum í útlöndum sem borga líka fyrir það!!
b) Hitti hjúkku frammi á gangi sem sagðist lesa síðuna mína og bað um leyfi til að nota myndir frá mér. Sem ég náttúrulega, af minni alkunnu gæzku, leyfði Væri gaman, Fanney, að fá að sjá þegar þú ert búin að varpa þeim út og suður!
c) Þegar ég kom heim, beið mín póstur frá "gamalli" skólasystur þar sem hún sagði mér textann að laginu í síðustu færslu og hverjir fluttu. Takk fyrir það Gunnhildur
Ekki slæmt miðað við að klukkan er rétt orðin hádegi!
pís
11.11.2007
Dægurflugur
Stundum missi ég mig algjörlega í að stúdera dægurlagatexta. Ég leggst í meininguna, flæðið, hvort að textinn segi mér eitthvað eða hvort hann algjörlega missi marks. Velti því stundum fyrir mér hvort ég sé ein um þetta eða hvort aðrir eigi við þetta "vandamál" að stríða.
Stebbi Hilmars, t.d. hefur margan textann átt sem segir ekki mikið við fyrstu kynni en er svo hyldjúpur þegar kona leggst í þessar pælingar....... eða ekki!! Þessi hérna: ".....fyrst um sinn stólar og borð, seinna meir tvö atviksorð....." eða þegar hann hnýtir málsháttum inn í textagerðina í ergi og gríð: ".....enginn verður óbarinn biskup....." og fleiri og fleiri. Ég er algjörlega að meina að ég missi mig í þessari pælingu!!! Svo eru textarnir sem eru svo uppfullir af ádeilum eins og þegar Ríó Tríó söng: "....mikið er mjúkur, malbikaði spottinn...." Svo vottar fyrir ööööörlítilli biturð í þessum texta: ".....Gunni hann er frægur, hann söng sólóplötu. Þeir segja að konur þekki Helga Pé á götu. Kornabörn í vöggu, þau kunni á Gústa skil en kannist ekki við að ég sé til....."
Hins vegar datt í mig texti á fimmtudaginn var, nánar tiltekið þegar við Stubbalingur stóðum úti og migum upp við tré, um níuleytið um kvöldið...... sem ég næ engum botni í og er helst á því að ég hljóti að muna textann svona kolvitlaust, veit ekki einu sinni hverjir sungu, en textinn hljóðar svona - allavega í mínum huga og ég losna ekki við hann: ".....aha, ójá, eins var líka settur hæll undir tá....." HÆLL UNDIR TÁ? Til hvers? Hverjum dettur þetta í hug? Var það Barði - Bang Gang þeirra tíma? Pabbi hans kannski, eða Afi? Eða man ég textann svona hrikalega rangt?
Getur einhver leyst úr þessu máli fyrir mig svo ég nái að sofa í nótt? Ég er orðin baugótt og illa sofin!!! Það gengur náttúrulega bara alls ekki á þessum tímum æskudýrkunar þegar allt snýst um útlit og ekkert um innri mann
PS. Ég sé að í könnuninni minni - vó mikið af ennum - hafa 52 tekið þátt og sá fimmtugasti og annar gaf McCormick sitt atkvæði. Nú langar mig til að sá hinn sami gefi sig fram. Það gætu verið verðlaun í boði
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
7.11.2007
Launráð og ljósaflóð
Ég ákvað að fara að dæmi Gulla "gamals" skólabróður sem ég fann fyrir tilviljun á moggabloggi, mér til mikillar ánægju, og kveikja fyrstu jólaljósin. Gulli vill að ég fari út og taki mynd af mér og ljósunum en það verður að bíða betri tíma. Hér er hávaðarok og ég hef aðeins eina reglu í lífinu, ég læt ekki mynda mig í roki!! onei, onei líf mitt er ekki flókið...........
Er örlítið að lagast í snúna fætinum. Hef ákveðna hugmynd um að ónefnd persóna, sem hleypur stundum með mér, en þó mest á UNDAN mér, hafi haft ómældar áhyggjur af að ég væri búin að ná ómótmælanlegum góðum millitíma og búið til þessa holu til að hægja á mér, ég sver það, hún var ekki þarna síðast. Flókið? Varla, ég skrifaði þetta hægt.....
Ætla núna að lufsast í mína uppáhaldsstöðu, undir rúm með hitapoka við fót og halda áfram að lesa hrikalega góða bók sem títtnefnd ónefnd persóna lánaði mér - og fer þá hringurinn um hana heldur að þrengjast..... ha?
Dægurmál | Breytt 8.11.2007 kl. 06:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
5.11.2007
Undir austurlenzkum mána!
Það tók sig upp gamalt tár þegar ég missti stjórn á fótunum í morgunskokkinu, lenti ofan í holu og fleytti kerlingar eftir malbikinu. Það var ansi vont....... Á meðan ég lá á miðri götunni og íhugaði að æla í anda Megasar - afsakið mig á meðan ég æli - fór ég varlega yfir alla útlimi og athugaði hvort þeir væru enn áhangandi. Ljónshjartað reyndi að sleikja mig í framan og settist á annan fótinn á mér og fullvissaði mig um að hann væri á staðnum! Þar sem ég sat og strauk hundinum, horfði ég á tunglið sem þóttist vera tyrknezkt og það rifjaðist upp fyrir mér hvar ég hafði verið stödd fyrir fallið.
Ég var að keppa á Ólympíuleikunum sem voru haldnir í Mið-Austurlöndum, ég hafði verið valin til að keppa fyrir Selfoss í langhlaupi!! Ég var að fara framúr þeim eina sem stóð á milli mín og fyrsta sætisins og þar með gullsins............
Ég ákvað nefnilega um daginn að gera eins og konan sem ég las um í blaðinu. Hún ákvað að hætta að þrauka og byrja að hlaupa. Ég hef verið að hlaupa að næsta staur og svo næsta staur osfrv. Nú ákvað ég að hætta því og gekk bara svona ljómandi vel. Allt fram að falli. Næst hef ég með mér ljós!
Þeim ættingjum og vinum sem lesa bloggið mitt skal bent á að það er ekki fallegt að skamma þá sem meiða sig. Það er fallegra að koma færandi hendi með heitt súkkulaði og vöfflur.
pís
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Upp á síðkastið hefur mér fundist vanta allan metnað í alla fjölmiðla. Það er sama hvort opnað er blað, netið eða hlustað á útvarp!! Er fólk almennt hætt að kunna að tala íslenzku eða er hraðinn að sliga alla?? Hvar er metnaðurinn fyrir starfinu?
Maðurinn var búinn að LOFA að vera til FRIÐAR - kannski átti hann erindi við Eril sem alltaf er til ófriðar........???!!!
Æ vonder!
Vildi fá far með lögreglunni til Reykjavíkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.11.2007
Fjármálastjóri og Finnur Ingólfs.......
Vaknaði rúmlega fjögur í nótt við að Labbakútur gjammaði eins og galinn væri út í stofuglugga. Reyndi fyrst að lokka hann í rúmið til mín með því að hóa blíðlega - eða eins blíðlega og mér er unnt á þessum tíma sólahringsins. Mundi svo skyndilega eftir öllum innbrotunum í nærliggjandi hús og þrammaði fram, horfði grimmdarlega út um alla glugga með símanúmer hjá þvagleggnum skrifað á ennið, en sá ekkert markvert. Snautaði aftur í rúmið aftur og svaf í klukkutíma í viðbót áður en dagurinn byrjaði hjá mér.
Skaust í bæinn eftir leikfimi, þar sem bæ þe vei, við spiluðum blak. Ég verð alltaf jafnánægð með hvað ég er snemma valin í lið, þrátt fyrir grimmdarfrenjugang og yfirgengilegt keppnisskap, líklega eru þær bara svona snöggar að þerra tárin og gleyma, enda allar orðnar frekar gleymnar, kellingarnar sem ég spila með blak, nema þær séu ekki svo miklar kjéddlingar
Enívei, ég skaust í bæinn í dag, formleg yfirtaka átti sér stað, ekki samt neitt hostile Nú er ég formlega tekin við bókhaldinu í mínu nýja djobbi. Enda fyrsti dagur nóvembermánaðar og tími til kominn að fara að gera eitthvað gagn!
Ég náttúrulega forgangsraðaði og fór og keypti mér síma og reiknivél. Þegar kona er orðinn fjármálastjóri verður hún að standa undir nafni!
Yfir í allt annað, ég hitti Finn Ingólfs í bakaríinu um helgina. Ég þekki Finn frá fornu fari úr gömlu vinnunni, Finnur er sjarmatröll og náði algjörlega að snúa mér, ég hafði ekki mikið álit á honum - svo birtist hann einn daginn við skrifborðið mitt og síðan er ég forfallin aðdáandi. Hann er fyndinn, sætur, með krullur, gefur aðlaðandi gullhamra og er hinn bezti maður. Ég vil ekki heyra eitt hnjóðsyrði um Finn. Svo stoppaði ég á rauðu ljósi í dag, leit til hliðar - alltaf að gá að sætum strákum, sjáðu til, og þar var Finnur í næsta bíl við hliðina á mér. Þarf að senda honum meil, fattaði ekki að fá hjá honum meilinn úti í bakaríi um daginn. Einhver sem veit mailinn hjá honum?
Úhú.... svo er dr. House á leiðinni til mín. Ég er búin að blása hárið, varalita mig og er komin í stutta pilsið og nýju stígvélin.
Frábær dagur