Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Low profile ;)

Það var búið að lofa boot camp tíma í leikfimi í dag en svo mætti enginn kennari. Þær voru hinsvegar svo stálheppnar, stelpurnar, að ég skellti mér í tíma í gærkvöldi og vissi þess vegna hvernig tíminn átti að vera. Enda tók ég stjórnina í mínar hendur um leið og ég kom inn og sá hvað þær voru ráðalausar Wink Sótti áhöldin og stillti þeim upp á bakkanum um leið og ég sagði þeim hvað ætti að gera á hverri stöð. Þær létu afskaplega vel að stjórn, gerðu allt sem þeim var sagt að gera Tounge

Ein konan kom svo til mín eftir tímann og sagði mér að hún hefði ekki haft hugmynd um að ég væri Selfyssingur....W00t Hún sagði að hún hefði verið í bekk með elstu systur minni. Þar kom náttúrulega skýringin á því að hún þekkti mig ekki - hún er þetta eldri.......................................Whistling 

Sit núna nötrandi á endorfintrippi eftir tímann, drekk sítrónute og er að búa mig undir að byrja að vinna. Vona að hinar stelpurnar hafi líka tekið vel á því! 

Þetta er yndislegt líf InLove


Miðvikudagur og lífið gengur sinn gang.....

Var komin út um hálfsexleytið í morgun. Stór snjókorn svifu mjúklega til jarðar og vöktu upp í mér jólabarnið. Mest langaði mig að fleygja mér í snjóinn og búa til engil, eins og maður gerði í gamla daga muniði? Þegar maður lét sig bara detta afturábak, ég átti að vísu alltaf í basli með að standa upp án þess að eyðileggja engilinn.......

Var að lesa bloggið hennar Heiðu Bergþóru http://heidathord.blog.is/ þar kommentar einhver um að tvennt það bezta í heimi sé húmor og amor. Fór að velta því fyrir mér hvort það væri tilviljun að bæði enda á mor! Kannski var Morrinn í Múmíndal ekkert svo slæmur. Kannski var hann bara misskilinn kynlífssérfræðingur, nokkursskonar kynlífsráðgjafi  Múmínlands, sem enginn vissi hvað átti að gera við, því auðvitað vita Múminsnáði og Múmínstelpa ekkert um unaðassemdir ástarlífsins Whistling Þetta er nú einu sinni barnaefni for kræing át lád!!!!

Hugsanlega var Morrinn að doka eftir því að þau yrðu fullorðin? Hugsanlega eru þeir þættir í framleiðslu í Finnlandi W00t 

Kannski var höfundur þáttanna húmoristi? Þarf að stúdera þetta betur.


Sein að fatta....

Þurfti að fara snemma á fætur í morgun og fór þess vegna snemma að sofa í gærkvöldi. Eins og hverjum hundi sæmir fylgdi Stubbalingur góðu fordæmi húsmóður sinna og steinsvaf á gólfinu fyrir framan rúmið mitt þegar ég hrökk upp um ellefu leytið við það að það var barið á dyr hjá mér! Var andartak að átta mig á því hvaða hljóð þetta voru en skundaði svo fram þegar bankað var aftur og hálfu ákveðnar í þetta sinn. Ég hélt að jólasveinarnir hefðu kannski vaknað snemma í ár en úti stóð þá fjallmyndarlegur maður, ekkert líkur jólasveini, sem sagði, þegar hann sá Stúf á eftir mér: "Æ fyrirgefðu, ég hélt þú hefðir týnt hundinum þínum." Hann sagði mér að hann væri með einn mjög svipaðan úti í bíl, sem hefði villst heim til hans og hann hefði haldið að ég væri búin að týna Ljónshjartanu. Ég þakkaði manninum fyrir og tölti aftur upp í rúm og við sofnuðum sætt.

Áttaði mig svo á því í morgun að ég átti náttúrulega að segja manninum að hundurinn væri á vísum stað en ég væri búin að týna manninum mínum......... W00t Þarna fór gullið tækifæri forgörðum!!

Svona er að vera syfjuð og sein að fatta.

Segiði svo að við tökum okkur ekki vel út á götum bæjarins, Lokharður Ljónshjarta og ég! Eftir okkur tekið hvar sem við förum, og ekki segja mér að hann hafi bara séð hundinn eins og maðurinn sem við mættum um daginn og brosti svo sætt til okkar um leið hann sagði: "Fallegur hundur". Hinsvegar þótti honum ekki taka því að tala um hvað ég væri fögur. Þrátt fyrir að ég væri með nýja varalitinn.

Talandi um hann - varalitinn alltsvo - bezt ég skelli honum á mig og rölti út á pósthús í hálkunni! 

læf is gúd InLove


Var næstum...

...búin að telja sjálfri mér trú um það í morgun að ég væri veik. Ég fann fyrir verkjum í öllum mínum beinum og vorkenndi mér gríðarlega. Stubbalingur þvertók hinsvegar fyrir alla meðvirkni og vildi fá sinn morgunspássitúr, hvað sem tautaði og raulaði. Komst svo að því þegar ég skrölti á eftir honum niður með á, í syndaflóðinu, sem enn og aftur dundi yfir, að ég væri með harðsperrur. Allavega er ég nokkuð viss um að það eru engin bein í maganum á mér. Hinsvegar hef ég bein í nefinu og þið skuluð sko ekki reyna að taka það úr mér.... Tounge

Lofaði sjálfri mér því að skríða rakleiðis upp í rúm þegar, og ef, ég kæmist heim aftur! Þegar svo kom að þeim tímapunkti var ég svo vel vöknuð og hress að ég skellti mér í sturtu og fór að vinna.

Núna eru harðsperrurnar heldur að ágerast, ég gleymdi að kaupa banana og er búin að strengja þess heit að verzla ekkert á morgun! Ojæja ég hlýt að lifa þetta af. Annars fer ég bara til Halldórs og borða bananana hans W00t

Vona að helgin verði ykkur ljúf InLove


Þú ert vel steikt dramadrottning

Ákvað að taka svona sjálfspróf af því að það er föstudagur Tounge Það munar svo miklu að fara vel undirbúin inn í helgina. Ótrúleg sannindi sem þarna eru falin!! Hvet alla til að fylgja óhrædd í mín fótspor og taka prófið. 

Svona kom ég út...........

Ef dramadrottningar væru hamborgarar sem fengjust rare, medium eða well done værir þú well done. Jafnvel svo vel steikt að erfitt væri að sjá muninn á þér og skósóla. En velsteikta dramadrottningin kærir sig ekki um óvæntar uppákomur eins og matareitrun. Hún vill að hlutirnir séu fyrirsjáanlegir og skipulagðir. Hún bleytir því einfaldlega upp í þurrum borgaranum með fullt af kokteilsósu.

Miklir leiðtogahæfileikar búa í vel steiktu dramadrottningunni. Hún er mjög yfirveguð og rökföst en einnig þrjósk.  (ÞRJÓZK!!?? ÉG!!?? Þekki ekki hugtakið .....LoL Hinsvegar er allt hitt satt. Mér finnst samt aðeins gleymast að minnast á hina óumdeildu fegurð sem í mér býr!!!) Halo

Í raun verður nánast aldrei dramatískra eiginleika vart í fari vel steiktu dramadrottningarinnar. Ætli þeir hafi ekki drepist við steikingu. Það er þó tvennt sem getur komið hinni vel steiktu úr jafnvægi. Annars vegar hrár fiskur. Hins vegar þátturinn Frægir í form. Hún er enn að leita að fræga fólkinu í þættinum.

Hversu mikil dramadrottning ert þú?

Nú er ég farin út í búð, því eins og Halldór minnir á er frídagur neytenda á morgun. Skömm að því að á meðan við veltum okkur upp úr allsnægtum, deyja 274 börn á hverju andartaki einhversstaðar í heiminum úr HUNGRI!!

Hvet alla til að vera með InLove


Nærföt og neyðarskýli

"Varaðu þig á hálkunni í sturtunni", sagði ég við konuna sem þrjózkast með með mér í útiklefanum!! Þær súpa hveljur stelpurnar þegar ég kem að utan. Þær eru líka svoddan blóm. Ég segi þeim að þetta haldi manni í þjálfun við að klæða sig hratt - sem svo kemur sér vel þegar kona býr á jarðskjálftasvæði. Á örstuttum tíma gusast ég fullklædd út - en þó í samstæðum nærfötum sem er, eins og allir vita, frumskilyrði ef kona þarf að dvelja í neyðarskýli Tounge Ímyndið ykkur hvað annars yrði um mig sagt.......

Fórum svo í pottinn, nokkrar, eftir leikfimina. Ræddum þar viðtalsþætti í sjónvarpi og jólabókaflóðið. Töluðum m.a. um bókina um Bíbí. Ein sunddrottningin sagði frá því að þær hefðu verið vinkonur í æsku, hún og Bíbí, væru fæddar sama ár. Ég sagðist hafa haldið að þessi bók væri um gamla konu og opinberaði þar með fáfræði mína - enn einu sinni W00t Spurði svo hvaða ár hún væri fædd. "52" svaraði hún og ég sagði um leið og ég flýtti mér upp úr "núúúú hún ER um gamla konu"

Farin að vinna InLove


Hamfarir og hafmeyjur!

Hér hefur jörð skolfið í allan dag. Mismikið þó og mest nú undir kvöld! Við lúskrumst hér um, ég og Ljónshjartað, og má ekki á milli sjá hvort okkar er hugumstærra. Mér sýnist það dagljóst að við sofum BÆÐI undir rúmi í nótt!! W00t Nema einhver sjái aumur á okkur og bjóði okkur í sína sæng!!

Fyrsta boðorðið í bókinni: Hvernig veiða skal mann! sem kemur út fyrir jólin og mun veita Þorgrími og Bubba mikla keppni, hljóðar svo: Nota skal hvert tækifæri sem gefst, jafnvel þótt hörmungar og hamfarir, ss jarðskjálftar, dynji yfir. Höfundurinn - moi - verður í Kastljósinu á Þorláksmessu, í Silfrinu á Jóladag og Kiljunni á Gamlársdag!! Tounge

Sá í einhverju blaði auglýsingu um nýju bókina hans Jóns Kalmans sem, bæ þe vei, ég hlakka mikið til að lesa. Þar segir einhver spekingur: "......Það eru kaflar í þessari bók sem eru með magnaðri prósa sem skrifaður hefur verið á íslensku" Vott þe fokk?! segi ég nú bara. Ég skil ekki þessa setningu!! Þarf kona að hafa lokaáfanga í bókmenntum ásamt því að hafa setið einn vetur í erlendum listaháskóla til að skilja gagnrýnendur? Telst það kostur að vera með magnaðan prósa? Því ef svo er þá verða sko ábyggilega kaflar í minni bók með mögnuðustu prósum sem sést hafa -Globalt! Annars ekki............

Ég var í sundleikfimi í morgun. Þar var hamagangurinn svo gríðarlegur að laugin hitnaði um fimm gráður, segi og skrifa 5° Einhverjar hafmeyjur höfðu á orði að þær yrðu orðnar háar og grannar um hádegi með áframhaldandi brennslu.

Að því sögðu, er ég farin að borða. Þið byrjið að leita að mér austan megin......

lov InLove


Sunnudagur

Hrikalega kalt á okkur Stubbaling þegar við skröltum morgungönguna. Ég var í ÖLLUM útifötunum mínum og hefði samt þurft fleiri. Himininn er aftur á móti ólýsanlega flottur núna. Sólin að skríða upp fyrir sjóndeildarhring og gefur himninum dimmbláan blæ með gylltu ívafi! Ábyggilega spari vega þess að það er uppáhaldsdagurinn minn!!

Nú er ég hins vegar komin aftur inn í hlýjuna, er að hita vatn í hitapoka sem ég ætla svo að kúra með uppi í rúmi - úr því að enginn er karlmaðurinn til að halda hita á mér, allavega ekki enn, en koma tímar, koma ráð..... Tounge

Er að lesa alveg hrikalega dimma bók. Hún heitir Launhelgi lyganna og er eftir konu sem kallar sig Baugalín. Hvet alla til að lesa hana. Þetta er verulega döpur bók sem fær mann til að velta fyrir sér því hvort mannskepnan sé í eðli sínu vond! Við vorum að velta þessu fyrir okkur á kaffihúsi í gær, afar heimspekilegar, við systurnar.

Það virðist sem við vissar kringumstæður þá hleypi fólk villidýrinu út - gefi bara allt frjálst, hagi sér eins og því sýnist og í stað þess að aðrir grípi í taumana þá fleygir fólk sér út í villimennskuna og tekur fullan þátt. Hvað verður um siðferðið? Fær mann til að velta fyrir sér hvort maður eigi alltaf að gera ráð fyrir því versta í fólki! Það er undarlega mikið til af slæmu fólki. Hvað er það sem gerir fólk svona? Er það umhverfið, uppeldið eða einfaldlega eðlið? Getur verið að við séum alla ævi að þykjast vera góð en villimennskan blundi grunnt í eðlinu? Erum við bara misgóðir leikarar á leiksviði lífsins þegar allt kemur til alls?

Nú heyri ég hins vegar að vatnið bullar - ætla að leggja mig Joyful Vona að dagurinn færi ykkur frið og fögnuð.


Kann einhver....

....að setja inn tengla á uppskriftir? Eldaði gúllassúpu í dag, er að bögglast við að koma uppskriftinni inn á síðuna en einhverra hluta vegna gengur það ekki upp!! Skil ekki af hverju eins og ég er nú mikill tölvunörd! Ef einhver getur leiðbeint mér þá væri það vel þegið. Bakaði líka brauð með súpunni. Hver veit nema ég hendi uppskriftinni af því líka inn ef ég læri þetta einhverntíma Wink

Er búin að vera frekar niðurdregin. Fékk fréttir sem ég hefði fyrir circa mánuði hlakkað yfir, í dag gerðu þær mig bara sorgmædda.......

.....en þá, eins og svo oft áður, hringdi Magga. Spurði hvort við ættum ekki að fara á kaffihús! Ég held svei mér þá að hún finni á sér ef ég er eitthvað mædd!!! Það var eins og við manninn mælt um leið og ég var búin að mása og blása öllu frá mér leið tók ég gleði mína á ný. Segi það enn og aftur, góðar systur eru aldrei nógsamlega dásamaðar InLove Þær eru á við góðan sálfræðing!

Það léttist líka brúnin á einkasyninum þegar hann kom heim og sá hvað ég var að elda. Hann trúði mér fyrir því að uppi á 21. hæð hefði verið fremur hvasst og kalt í dag. Enda fór honum ekki að hlýna fyrr en hann var búinn að borða einn disk af súpunni.

 

 

 

 


Rigning og rauður varalitur!

Það rigndi eins og hellt væri úr fötu, þegar ég renndi í bæinn í gær. Sem var svosem allt í lagi mín vegna. Ég var með nýjan rauðan varalit!!! Tounge 

Ég var með smá fiðring í maganum þegar ég gekk í salinn þar sem ég hitti nokkrar konur úr bloggheimum. Þetta var svona svolítið eins og blind date!! Það er skemmst frá því að segja að kvöldið lukkaðist rosalega vel. Miklu betur en ég átti von á..... Má segja svona?? Jú jú maður á alltaf að segja eins og manni finnst!! Stórkostlegar konur allar hreint. Það var talað út í eitt og hlegið út í annað. Við erum náttúrulega svo vanar að blogga og eiga alltaf orðið.... Wink

Það rigndi svo eins og hellt væri úr fötUM þegar ég renndi heim í nóttinni. Ég reif upp símann og hringdi í Austfirðinginn minn til að minna hann á að hann ætlaði að kaupa handa mér stígvél. Áttaði mig svo á því að allt venjulegt fólk er sofnað á þessum tíma sólarhrings og skellti á, sjálfsagt um það leyti sem hann hefur verið að ná símanum. Er það ekki alltaf þannig?? Hann hefur líklega staðið á hinum enda landsins og klórað sér í höfðinu..... eða ekki!!

Nú ætla ég hins vegar að setja á mig nýja rauða varalitinn,  bara smá - maður veit jú aldrei hvar sætu strákarnir eru fyrr en allt í einu, og arka út í búð. Það rignir eins og hellt sé úr fötu en það er allt í lagi.

Takk endnu og igen fyrir gott kvöld stelpur, hlakka til að hitta ykkur aftur.

óver and át InLove

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.