Færsluflokkur: Bloggar

Annáll 2007

Á miðnætti hefst nýtt ár. Þá er við hæfi að líta um öxl og gera upp liðna daga.

Árið sem er að líða hefur verið mér erfitt fyrir margra hluta sakir en það er með erfiðleikana eins og svo margt annað í lífinu að ef tekið er rétt á málum þá má alltaf læra og þroskast af reynslunni. Ég hef líka sannreynt ýmislegt á árinu því eins og oft vill verða á ögurstundum finnur maður hverjir eru vinir í raun, hverjum má treysta og hverjir eru ekki þess virði að eyða tíma sínum á.

Mér finnst ég vera rík. Ég á systkini sem standa með mér í gegnum þykkt og þunnt. Ég á vini sem ég get, hvenær sem er, beðið að bera mínar byrðar með mér og það er ekki lítils virði. Mínir vinir og ættingjar eru þyngdar sinnar virði í gulli. Það er þeim að þakka að ég komst ósködduð í gegnum minn hildarleik á árinu InLove

Ég byrjaði að blogga á árinu. Mest fyrir tilstilli Jennýjar Önnu – sem var minn fyrsti bloggvinur og heimtaði að ég skrifaði eitthvað sem hún gæti lesið, sagði að til þess væru bloggvinir ;)

Ég missti vinnuna fyrir m.a. bloggið, sem mér finnst enn dálítið fyndið en þó meira hallærislegt. Hver nennir að liggja yfir bloggi miðaldra húsmóður og reyna að lesa eitthvað út úr því sem hugsanlega gæti staðið þar um einhvern sem þú þekkir kannski? Ég fékk aðra vinnu – þó ekki fyrir bloggið – heldur út á sjálfa mig! Í þeirri vinnu er ný áskorun á hverjum degi þannig að þegar allt kemur til alls þá græddi ég á því!

Ég kynntist líka mörgu góðu fólki í bloggheimum, sem hefur ekki reynst síðra í mannheimum. Rakst á Gulla, "gamlan" skólafélaga úr ML. Alltaf gaman að finna gamla félaga aftur og fá að fylgjast með hvað á daga þeirra drífur Smile og síðast en ekki síst fann ég Fanney aftur. Dýrmæta vinkonu frá því í gamla daga InLove 

Ég tók þátt í stofnun hlaupahóps með Möggu. Hópurinn samanstóð af Möggu, mér og Lokharði Ljónshjarta, sem ennþá er sá sprettharðasti í hópnum. Hópurinn þ.e. ég og Magga tókum þátt í Reykjavíkurmaraþoni og var ég að taka þátt í fyrsta sinn. Við hlupum 10 km. og ég fyllist enn stolti við tilhugsunina að hafa komið hlaupandi í mark þrátt fyrir snúna fætur sem hver antikstóll hefði verið stoltur af LoL og þó hvatningarhrópin við endalínuna hafi kannski flest verið ætluð fyrsta maraþonhlauparanum veit ég í hjarta mínu, að sumir stóðu þarna og görguðu á mig Wink

Eins og sannur Íslendingur get ég ekki látið hjá líða að minnast á veðrið á árinu....... Tounge Vorið var blautt. Sumarið var sumar hinna góðu veðra á meðan haustið, og það sem af er vetri, verður í framtíðinni kallað haust og vetur hinna miklu lægða.

Ég hef ákveðið að árið 2008 verði mér gott. Héðan stefna allar leiðir upp á við og við hvert horn bíða mín ný ævintýri. Vona að nýja árið færi ykkur einnig frið og kærleik InLove


Möguleikar á færibandi!

Hrikalega sem það rigndi í morgun þegar við Ljónshjartað gengum í gegnum myrkrið í átt að ljósinu.......

Náði ég ykkur? Tounge

Fór og heimsótti vinkonu mína, sem ég hef ekki hitt alltof lengi,  ákvað að úr því ég væri hvort sem er orðin blaut þá skipti ekki máli á hvaða ofni fötin mín þornuðu. Við áttum gott spjall, hef gert alltof lítið af því að heimsækja hana, en sem betur fer er það þannig með góða vini að þeir eru alltaf til staðar þó ekki sé verið í daglegu sambandi......... InLove

Hún tók mig í afar áhugavert áhugsviðspróf. Enda námsráðgjafi!! Út úr því kom að ég ætla að verða arkitekt þegar ég er orðin stór!

Síminn hringdi svo hjá mér, þegar ég var búin að vera atvinnulaus í fimm og hálfan tíma - ef ég tel matartímann með - á hinum endanum var maður sem vildi fá mig í vinnu! Mörg spennandi verkefni framundan hjá honum sem gefa mér í leiðinni möguleika á ýmsu öðru. Við ákváðum að hittast í vikunni og taka stöðuna.

Spennandi...............

 


Mannaskipti og úrhelli.

Sagði opinberlega skilið við Kundera um helgina. Ég fann að hann var ekkert að gera fyrir mig, er líklega aðeins of firrtur fyrir minn smekk - bara örlítið....... Við náðum engan veginn saman og ég gat ekki hugsað mér að lesa meira af bókinni "Lífið er annars staðar" þar sem hver persónan á fætur annarri er dregin fram full vanmetakenndar og vanlíðunar. Ekki minn smekkur á bókmenntum.

Fór á bókasafnið í dag og sótti mér Þorvald "sæta" Þorsteinsson.

Ætla núna að skríða uppí með honum...... hlusta á rigninguna með öðru eyranu og kíkja á Þorvald með hinu auganu Tounge

úje svít læf off þe singúls


Fallegur og kaldur sunnudagur

Picture 309 Það var kalt á okkur stubbaling í morgungöngunni en við létum okkur hafa það.....

Lá mestmegnis í leti í gær, nennti ekki út í vetrarveðrið. Annars hefði ég farið og skoðað glerlistmunina hjá Jónu Kristínu, vinkonu Ásdísar. Nennti ekki heldur á flugeldasýninguna enda hefði stúfurinn ekki viljað koma með mér. Sýningin sást líka ágætlega úr glugganum mínum. Hvar ég horfði á meðan stubburinn leitaði skjóls...... Mér finnst þessar flugeldasýningar snúast mestmegnis um hávaða nú til dags - sagði gamla konan Tounge - en ekki ljósasjóv. Það drynur í fjallinu á hverri sýningu en minna fer fyrir fallegum ljósum.

Í síðustu viku hringdi í mig maður að westan vegna viðskipta sem hann átti við fyrirtækið. Hann datt svo í spjallgír. Sagði mér að hann væri á leiðinni á fjall, í göngur og spurði hvort ég mundi kæra mig um að koma með. Ég sagði honum að ég væri lofthrædd og fjöllin fyrir vestan væru há..... ég reyndi að láta mér nægja fjöllin mín hér fyrir sunnan.....

Hann kvaddi mig svo, eftir gott spjall, með þeim orðum að hann ætti hér afa og frænda og næst þegar hann kæmi að heimsækja þá mundi hann kíkja á mig og jafnvel skoða líka vélarnar okkar. Hver veit nema ég verði ráðsett bóndakona fyrir westan næsta haust LoL

Jaaaaa það sem manni dettur í hug á sunnudögum. Eins gott að það er bara einn sunnudagur í hverri viku InLove

 


Réttir!!

Picture 295  Fór í réttir í morgun. Magga hringdi í mig í gærkvöldi og spurði hvort við ættum ekki að skella okkur og þar sem ég læt ekkert tækifæri ónotað til að kíkja á sæta stráka var ég að sjálfsögðu meira en tilbúin..... Tounge Við fórum að sjálfsögðu í Reykjaréttir á Skeiðum, þar sem Skeiða- og Flóamenn eiga sitt fé, paufuðumst upp á réttarvegginn, sem maður flaug uppá í gamla daga, og fikruðum okkur yfir í almenninginn. Stukkum svo þar niður eins og hver annar meðalbóndi LoL 

Hrikalega mikil rigning sem á tímabili breyttist í slyddu með tilheyrandi kólnun og nóg var nú kalt fyrir - trúðu mér! Einn sem ég hitti var voða feginn að það var hætt að rigna......... Hann sagði líka að hann ætti bara neikvætt eigið fé.......

Picture 300 Picture 301 Picture 299

Við Magga skunduðum inn í bíl þegar við nálguðumst alkul, sælar og hamingjusamar að þurfa ekki að reka safnið heim. Ég er ekki frá því að við höfuð sloppið naumlega við kalbletti...........

Takk Magga fyrir góðan dag.

 


Sögur úr sveitinni.....

Fór til læknis í gær að fá niðurstöður úr blóðprufu og láta mæla blóðþrýsting. Allt svona glimrandi gott úr blóðprufunni - einna helst að hann vildi fá mig til að minnka gleðipilluskammtinn. Auðvitað lét ég það eftir honum, hann er læknirinn og myndarlegur líka.......

Það þýðir að á morgun tek ég bara eina töflu í stað tveggja sem ég tek daglega! Kvíði svolítið fyrir. Þetta eru töflur fyrir skjaldkirtil en hann var tekinn úr mér árið sem ég skildi...... Tounge Ekki amalegur missir það. Á einu bretti missti ég mann og skjaldkirtil og sakna hvorugs! Eníveis, allar breytingar á töflumagni þýða það að ég verð eins og spýtukerling - gæti verið systir Gosa.

Á meðan læknirinn var að mæla blóðþrýstinginn sagði ég honum sögur. Hann hummaði og jammaði og þóttist alveg hafa áhuga á því sem ég var að segja en endaði svo á því að segja mér að þegja W00t ég hefði svo truflandi áhrif á blóðþrýstinginn - og hann var að tala um minn þrýsting, ekki sinn. Það var nú ekki laust við að mér sárnaði.

Er búin að mála herbergið - drengurinn ljúfi - málaði loftið fyrir mömmu sína. Þrisvar!! Nú þarf ég bara að spreða sílíkoni í rifur sem ég kom auga á hjá listum í lofti á meðan ég málaði veggina. Allt annað að sjá herbergið sem héðan í frá verður kallað Austursalur.

Sótti mömmu út á flugvöll í gær. Hún var að koma frá Spáni. Búin að vera þar í þrjár vikur. Uppgötvaði um leið og ég sá hana, hvað ég hafði saknað hennnar. Knúsaði hana og sagði henni frá því. Er ekki frá því að pabbi gamli hafi saknað hennar jafnmikið - allavega brosti hann eins og sól í heiði allan tímann á meðan við biðum í flugstöðinni. Komst svo heim rétt á undan sendibílnum sem fauk undir fjallinu í gær. Hrikalegt rok. Ætlaði að taka myndavélina mína með og taka myndir af briminu við Vatnsleysuströnd, senda íbúum þar og spyrja þá af hverju þeir kalla þessa strönd Vatnsleysuströnd en steingleymdi myndavélinni. Þannig að þetta djók verður að bíða betri tíma.

Ég veit hinsvegar af hverju þessi strönd heitir Vatnsleysuströnd! Það er vegna þess að í gamla daga var vatnsból í Kúagerði og síðan ekkert vatn þar til í Grindavík. Þá vitið þið það líka......

60 ára afmæli Selfosshrepps verður haldið hátíðlegt um helgina. Heilmikið um að vera og skrúðganga á eftir. Íbúar eru hvattir til að skreyta eins og vera ber í afmæli. Öll hverfi fengu úthlutað einum lit til að skreyta með og ég var svo stálheppin að mínu hverfi var úthlutað appelsínugulum lit, sem er uppáhaldsliturinn minn, þannig að nú fer ég og hengi út öll appelsínugulu fötin mín. Viðra appelsínugula rúmteppið mitt og hef að sjálfsögðu kveikt á appelsínugula lampanum í eldhúsglugganum.

Fer svo síðar og hirði verðlaunin fyrir bezt skreytta húsið LoL

 


Göngutúr í myrkri og dularfulla ljósið sem hvarf!!

Fórum út að ganga í myrkrinu í morgun.

Gengum upp með á eins og venjulega. Allt gekk eins og í sögu til að byrja með en þegar við vorum stödd fyrir aftan nýbyggingu sjúkrahússins stökk stúfurinn allt í einu fram fyrir mig, sperrti sig allan og ýfði og urraði í áttina að byggingunni. Ég beygði mig niður að honum og sagði honum að láta ekki svona, það væri enginn vaknaður nema við.......

Hann lét sér ekki segjast og hélt áfram að urra yfir óræktina. Allt í einu gekk hann tvö skref áfram og gjammaði illyrmislega! Um leið slökknaði á ljósi sem var þarna á bak við!!

Þá var mér nú nóg boðið. Setti hann í tauminn og teymdi hann burt. Hugrekkið náði nú ekki lengra hjá mér. Ég hugsaði sem svo að ef einhverjir væru þarna að stela verkfærum þá skyldu þeir allavega ekki ná að berja mig með hamri.......

Var svo að segja einkasyninum hamfarasöguna áðan þegar hann kom heim. Hann horfði á mig smástund alveg gáttaður og sagði svo: "Ég vissi ekki einu sinni að klukkan YRÐI hálfsex á morgnana........"

Ég flissaði og gleymdi hvað ég hafði verið í mikilli hættu í myrkrinu.

Pís plís InLove


úfff.....

....hvað ég er þreytt.

Þá er ágætis ráð að fara að sofa Cool Aldrei deyr maður ráðalaus......... Spáið í þessari speki!

Góða nótt InLove


Þá er komið að því....

....búin að teipa, skera, skáa og hvað þetta nú allt saman heitir. Nú get ég farið að rúlla. Mér finnst ekkert leiðinlegt að mála, ef einhver gæti bara séð um undirbúninginn og tekið svo saman á eftir. Ég ætti kannski að gerast iðnaðarmaður?

Ég var meira að segja svo fagleg að ég skrúfaði allar festingar úr gluggum og veggjum, til dæmis festingar fyrir rimlagardínur sem ég hef hingað til bara málað í kringum. Fékk lánaða litla borvél og hvílíkt tækniundur. Elska svona græjur sem ganga fyrir batteríum.............

Nú heyri ég að himneskir tónar Hvítasunnukórsins berast inn um gluggana hjá mér. Bezt ég nýti þá á meðan ég mála!

 

 


Málningarvinna

Ég er að mála!! Nú skal bláu breytt í hvítt, það tekur sjálfsagt tíma en kræst hvað þetta er dimmt eins og það er.

Ég er búin að sparsla og pússa, hreinsa veggina og kaupa málningu. Fattaði svo að mig vantar teip. Ætla núna að byrja á að skáa og sjá svo til hvað birtan endist mér.

Settir Erikur út í morgun. Mér finnst þær alltaf svo fallegar á litinn. Þær flútta líka svo vel við þakið og gluggana hjá mér og þar sem ég er extra stílhrein kona keypti ég mér fjórar Tounge Nú standa þær úti á tröppum, ásamt eininum, og vagga sér í takt við goluna.

Fór í extra langan göngutúr í morgun, bætti einum golfhring við okkar venjulega hring. Sáum hest úti í mýri og á hans baki sátu þrír spörfuglar. Minnti mig svolítið á Fuglastríðið í Lumbruskógi. Stubbaling fannst þetta afar spennandi. Þarna höfðu sameinast bæði hans uppáhaldsdýr. Ef hann mætti velja sér gæludýr yrðu það hestur, fugl og svo vonandi ég LoL Ég ætlaði aldrei að geta slitið hann í burtu þar sem hann stóð hugfanginn og starði......... Krúttið!!

Heart


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.