Bloggfærslur mánaðarins, mars 2021
12.3.2021
Kartöflugarðar á Korpúlfsstöðum
Þessi frétt, ef frétt skyldi kalla minnti mig á sumarið sem ég, frekar hróðug, leigði mér kartöflugarð á Korpúlfsstoðum af Reykjavíkurborg.
Þar setti ég niður kartöfluútsæði og mætti síðan samviskusamlega allt sumarið og reitti arfa úr reitnum mínum og horði á kaartöflugrösin stækka og grænka með hverri vikunni sem leið.
Svo kom haustið og ég varð mér úti um gaffal í yfirsstærð til að taka kartöflurnar mínar upp. Fór svo eitt kvöldið á mínum eðalbíl, sem var um þessar mundir Volkswagen bjalla rauð að lit með svörtum sportröndum á hliðunum og skottið þar sem vélin er í öðrum bílum og vice versa en það er nú önnur saga. Ég mætti sumsé eitt ágústkvöld á Korpúlsstaði til að uppskera strit sumarsins og sé þá hvar stendur maður á miðjum aldri í reitnum "mínum" og er að klára að taka upp síðuðstu kartöflurnar. Mér féllust hendur eitt augnablik og ætlaði að storma að gaurnum og hreinlega hjóla í hann enda illa staðinn að verki fannst mér - opnaði samt hanskahólfið á rauðu bjöllunni minni - bara svona til öryggis og kíkti á númerið á kartöflureitnum sem ég hafði til leigu og sá þá að það var reiturinn við hliðina á manninum sem þegar hér var komið sögu var að ganga frá dótinu sínu í skottið á sínum bíl.
Það var ekki mikil gleði að taka upp þær fáu kartöflur sem höfðu lifað arfasumarið mikla af. Því vitaskuld hafði ég reitt arfann í kartöflugarði mannsins sem hróðugur keyrði burt þetta kvöld með sína uppskeru og sagði ekki einu sinni svei attan!
Síðan hef ég ekki haft mikinn áhuga á garðrækt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)